laugardagur, desember 31, 2005
föstudagur, desember 30, 2005
Íslenzk(t) vögguljóð á Hörpu
Ég skal vaka og vera góð
vininum mínum smáa
á meðan óttan rennur rjóð,
roðar kambinn bláa
og Harpa sýngur hörpuljóð
á Hörpulaufið gráa.
Stundum var í vetur leið
veðrasamt á glugga; -
var ekki eins og væri um skeið
vofa í hverjum skugga?
Fáir vissu, að vorið beið
og vorið kemur að hugga.
Sumir fóru fyrir jól,
- fluttu burt úr landi;
heilum snauðir heims um ból
hús þeir byggja á sandi.
í útlöndum er ekkert skjól
- eilífur stormbeljandi.
Þar er auðsýnt þurradramb
þeim, sem út er borinn
engin sól rís yfir kamb,
- yfir döggvuð sporin.
þar sést hvorki lítið lamb
né lambagras á vorin.
Þá er börnum betra hér
við bæjarlækinn smáa
í túninu, þar sem tryppið er.
Tvævetluna gráa
skal ég, góði, gefa þér
og gimbilinn hennar fráa.
Og ef þig dreymir, ástin mín,
Oslóborg og Róma,
vængjaðan hest, sem hleypur og skín,
hleypur og skín með sóma,
eg skal gefa þér upp á grín
allt í sykri og rjóma.
Eins og hún gaf þér íslenzkt blóð,
úngi draumsnillingur,
- megi loks hin litla þjóð
leggja á hvarm þinn fingur
- á meðan Harpa hörpuljóð
á Hörpuljóðið sýngur.
Halldór Kiljan Laxness
San Fransisco 21. Mars 1928.
fimmtudagur, desember 29, 2005
miðvikudagur, desember 28, 2005
Jólahreingerning og aðrar jólastiklur
Gamla góða jólahreingerningin er kominn á fullt skrið hjá undirrituðum. Það leiðinlegasta við hreingerningu finnst mér alltaf að flokka pappíra, blöð greinar etc. Maður tímir ekki að henda því, ýmislegt sem maður vill halda til haga, en hvar í andskotanum á maður að geyma það, svo það flækist ekki fyrir, en sé samt aðgengilegt? Ólíkt bróður mínum hef ég aðeins eitt herbergi fyrir hafurtaskið, fyrir utan háloftið, sem er einnig þekkt sem Ginnungagapið eða Glatkistan, því það sem lendir í þeim haug af drasli mun fyrst finnast á efsta degi.
Á Þorláksmessu fór ég í friðagöngu og söng svo með kórnum. Ég hef alltaf minnst jafn gaman af að vera á Laugarveginum á Þorláksmessu og á aðfangadeginum sjálfum. Elska stemmninguna. Við kíktum svo nokkur á Hverfisbarinn og hlýddum á tvo ágæta trúbadúra. Sungum með “So this Is Christmas” í röddum.
Ég átti afar góð jól í Lækjartúni með familíunni. :)
Jórunn og Arnar eru kominn með 6 mánaða kettling sem heitir Símon. Hann er mjög sætur og vinalegur bengal-kettlingur, ekki ósvipaður smávöxnu tígrisdýri.
Þessar jólagjafir fékk ég og kann öllum bestu þakkir fyrir:
- Argóarflísina eftir Sjón frá ömmu
- The Beatles. The Biography eftir Bob Spitz frá Jórunni og Arnari.
- Svarta loðhúfu frá mömmu og pabba, sem ég fékk að velja sjálfur. Vantar helst að ég setji e-ð merki í hana, eins og rauða stjörnu. ;)
- The Fantastic Four-Volume II frá Dodda. Dr. Doom er og verður flottasti ofur-skúrkur allra tíma.
- Lítinn tuskubangsa frá Mossa og Írisi. Mússímúss.
- Og síðast en ekki síst: Elvis Presley, The King of Rock ‘N’ Roll. Complete fifties recordings frá Vésteini bróður. Hef verið að hlusta á kónginn nánast linnulaust síðustu daga. Ég held að sé óhætt að fullyrða að Elvis Presley hafi verið einhver mesta rokkstjarna nokkurn tíma. Þessi rödd, lögin, sem hentuðu honum fullkomnlega, sviðsframkoman, sjarminn, auk þess sem hann var fjallmyndarlegur maður. Iðinn var hann einnig, tilbúinn að taka hundrað tökur ef þess þurfti, til að fá lagið eins og það ætti að hljóma.
- Loks keypti ég geisladiskinn Geislavirkir með með Untagarðsmönnum í jólagjöf handa sjálfum mér.
Þegar kemur að því að kaupa jólagjafir, er gott að kíkja í fornbókabúðir. Í fornbókabúðinni hjá honum Braga má margt skemmtilegt finna á góðu verði. Bragi er líka sjálfur mesti heiðursmaður. Gerði ég þar kjarakaup, þar sem ég fann fjórar bækur sem ég greiddi alls um 3000 krónur fyrir. Voru það Frelsið eða dauðinn eftir Nikos Kasantzakis, sem ég gaf mömmu, Dodda gaf ég Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson, ömmu gaf ég Platero og ég eftir Juan Ramón Jiménez og pabba gaf ég Á sjó og landi. Æfisögu Reinalds Kristjánssonar pósts milli Ísafjarðar og Bíldudals. Í búðinni heyrði ég einhvern Bandaríkjamann vera að úthúða gyðingum og spurði sjálfan mig hvort enn væri svo sterkt gyðingahatur þar vestra. Svo sé ég að Bobby Fischer er í búðinni og var þá ekki erfitt að leggja saman tvo og tvo...
Auk þess gaf ég Dodda Sin City (kvikmyndina) í jóla/afmælisgjöf.
Mossa gaf ég Bjargið okkur eftir Hugleik Dagsson.
Vésteini gaf ég Clerks.
Ég gaf Valla stóran Bionicle-kall sem var ansi flókið að setja saman.
Við Vésteinn gáfum Katrínu bílastæði fyrir matchbox-bíla. Það er annars naumast hvað leikföng eru orðin dýr í dag. Bækur reyndar líka, þ.e. í almennum bókabúðum. En börnin voru alsæl, og er það vel.
þriðjudagur, desember 27, 2005
föstudagur, desember 23, 2005
Afmæli, partý og jólajólajóla...
Þetta er helst að frétta:
Besti vinur minn varð tvítugur í fyrradag. Til hamingju, Doddi minn!!! :)
Þórunn hélt afbragðs kórpartý í fyrradag. Gaman að því. Þakkir þeim sem þakkir ber. :)
Kórinn hittist í gær niðri í bæ og söng með nokkrum öðrum, áður kórarnir skiptu liði. Við sungum fyrir utan Eymundsson, héldum upp Laugarveginn, sungum hjá Kebabhúsinu, 66°N, Á horninu á Skólavörðustíg, og rétt hjá Te og Kaffi. Þegar tók að kólna leituðum við skjóls í Dressman. Við sungum “Skreytum hús”, „Kom þú, kom, vor Immanúel“, „Hátíð fer að höndum ein“, „Englakór frá himnahöll“, og „Bjart er yfir Betlehem“. Það var gaman, og við fengum góðar móttökur. Að söngnum loknum tylltum við okkur á Te og Kaffi.
Nú á ég aðeins eftir að finna eina jólagjöf, en ég ætla líka að senda jólakort. Svo er að pakka inn, og blablabla.
Mér þykir leiðinlegt af því að vita, ef fólk er að stressa sig fyrir jólin. Theoretískt á þetta að heita tíminn sem maður ætti minnst að vera að stressa sig. Ganga í það sem maður þarf og vill gera, ef maður getur, annars sleppa því. Taka lífinu með stóískri ró, en krydda það vel með epíkúrisma. Jólin eru það sem maður vill að þau séu. Hér eru nokkrir hlutir sem ég mæli með og koma mér í jólaskap:
Fyrst og fremst er það auðvitað samveran með fjölskyldunni og með vinum. Kaffihúsaferðir verða þá tíðar. :)
Margir tónleikar í boði núna. Góður kórsöngur hrífur mig alltaf. Háskólakórinn hittist kl. 20:00 í kvöld á horni Lækjargötu og Austurstrætis og mun svo líklegast halda upp Laugarveginn.
Matur: Hangiket, mandarínur, rjúpur (ef þær fást), kalkúnn, svartfugl, hamborgarhryggur, ís à la mamma, ris à la mande (e-r besti eftirréttur sem um getur), smákökur (ekki síst piparkökur) og laufabrauð.(Ég fæ vatn í munninn bara af því að skrifa þetta)
Tónlist: „Jól“ eftir Jórunni Viðar. „Hærra, minn guð, til þín“. Það aldin út er sprungið“. „Abendglocken“. Platan Frank’s Wild Years með Tom Waits. Í fyrra hlustaði ég líka heilmikið á The Cure og Edith Piaf á þessu tímabili, og er það vel.
Kvikmyndir: The Nightmare Before Christmas, It’s A Wonderful Life, Ben-Hur, Life Of Brian, Edward Scissorhands.
Lesefni:
A Christmas Carol eftir Charles Dickens.
Tvær klassíksar Andrésar Andar-sögur eftir Carl Barks: Christmas On Bear Mountain (fyrsta sagan með Jóakim) og Jul in Pengeløse.
Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson. Ég lauk við hana í gær og var afar hrifinn af henni. Einstaklega vel skrifuð bók, eins og við var að búast af Gunnari. Þessi saga var og er söluhæsta bók hans. Sagan byggir á frásögn Fjalla-Bensa af ferðum hans á Mýrdalsöræfum. Þegar hátíð fer í hönd heldur Bendikt í sína árlegu göngu upp á öræfin, ásamst sauði sínum, Eitli og hundinum Leó, til að leita eftirlegukinda, sem mönnum hafði sést yfir í öllum þremur göngum, finna þær og koma þeim heilum og höldnum til byggða. Hann tekur þessa þjónustu á hendur óumbeðinn, hann vill ekki að kindurnar verði úti, þær eru verur með lífi, blóði og sál og honum fannst eins og hann bæri einhvers konar ábyrgð á þeim. En allar líkur eru á að óveður sé í aðsigi.
Ég segi ekki meira að sinni. Vill ekki spilla fyrir ánægjunni af lestrinum. Ég læt að lokum fylgja tilvitnun úr henni:
„Hérna var han nú á gangi í snjó; hvítt í allar áttir, svo langt sem augað eygði, gráhvítur vetrarhimininn, jafnvel ísinn á vatninu í miðri sveitinni var hélaður eða þakinn þunnu snjólagi, það voru aðeins lágu eldgígarnir sem hér og þar gægðust upp ú því, sem ristu með börmunum svarta hringi, stóra og smáa eins og táknmyndir í snjóauðnina. En tákn um hvað? Var hægt að koast til botns í því? Ef til vill sögðu þessir gígmunnar: látum allt frjósa, grjót og vatn storkna, látum loftið frjósa og sáldrast niður í hvítum hnoðrum og breiðast eins og brúðarlín, eins og náblæju yfir jörðina, látum andardráttinn frjósa í munni þínum og vonina í hjarta þínu og blóðið í dauðanum í aæðum þín – undir niðri lifir eldurinn. Ef til vill sögðu þeir eitthvað því líkt. Og hver var svo ráðningin á því? Ef til vill sögðu þeir líka eitthvað annað. En að þessum svörtu hringum undanteknum, var allt hvítt, sérstaklega byggðavatnið, - glithvítur flötur og slétt, eins og stofugólf. Hver var þar fyrir og bauð í dans?
Og eins og hún væri fædd af allri þessari hvítu reginauðn með hinum svörtu hringum gíganna og einstöku hraundröngum, sem gnæfðu eins og tröllkarlar upp úr hér og þar, var hátíð þennan sunnudag yfir fjallasveitinni, ómælanleg, óflekkuð hvít helgi umhverfis hvíldardagsreykina upp af hinum dreifðu, lágreistu bæjum, sem varla náðu upp úr snjónum, óskiljanleg og óskiljanlega fyrirheitafull kyrrð – aðventa. Aðventa, já. Benedikt tók orðið sér í munn með varfærni, þetta stóra, hljóðláta orð, svo furðulega annarlegt og inngróið í senn, ef til vill inngrónast Benedikt allra orða. Að vísu var honum ekki fyllilega ljóst, hvað það þýddi, en þó var fólgið í því að vænta einhvers, eftirvænting, undirbúningur – svo langt náði skilningur hans. Með árunum var svo komið, að þetta eina orð fól í sér næstum allt hans líf. Því hvað var líf hans, hvað var líf mannsins á jörðinni annað en ófullnægjandi þjónusta, sem þó varð manni kær með því að vænta einhvers, með eftirvæntingu, undirbúningi?“
miðvikudagur, desember 21, 2005
þriðjudagur, desember 20, 2005
Af Gunnari Gunnarssyni og Nóbelsverðlaununum, viðtali við Gunnar yngri og yfirlýsingu fjölskyldu Gunnars
Mikið hefur verið rætt um gögn sem fram hafa komið um tildrög Nóbelsverðlaunanna 1955. Skeytið sem Ragnar í Smára, Peter Hallberg, Sigurður Nordal og Jón Helgason sendu sænsku akademíunni, þess efnis að það væri íslendingum “til vansa” að Gunnar Gunnarsson fengi Nóbelsverðlaunin. Nefndu þeir tengsl hans við Þýskaland og að hann skrifaði á dönsku.
Sænska akademían hafði verið var búin var að tilkynna Gunnari að hann fengi Nóbelsverðlaunin og hafði hann að vonum glaðst ákaft. Hann hafði tvisvar áður verið tilnefndur. Því má rétt ímynda sér það reiðarslag sem það var fyrir hann er honum var sagt frá skeytinu. Ekki einungis það að hann fengi ekki Nóbelinn, æðstu viðurkenningu sem rithöfundi getur hlotnast, á sjötugsaldri, ekki einu sinni skeytið sjálft, heldur að sendendurnir áttu að heita vinir hans, auk þess sem Ragnar í Smára var útgefandi hans. Gunnar náði sé aldrei fyllilega af þessu áfalli.
Þetta og fleira kemur fram í viðtali við Gunnar Björn Gunnarsson, barnabarnabarn skáldsins í Morgunblaðinu, síðastliðinn laugardag, þann sautjánda. Ég mæli með því að fólk lesi hana. Fjölskylda Gunnars tók skýrt fram að hún teldi Laxness stórskáld og að hann hefði átt verðlaunin skilið, en fyrst umræðan var komin í gang, yrði hún að skýra frá sinni hlið málsins. Ég tek undir þetta, og ég fagna þessari góðu grein sem varpar bæði ljósi á þetta mál og einnig á það hvernig maður Gunnar Gunnarsson var. Spurður út í meintan nasisma langafa síns þverneitaði að Gunnar hafi verið nasisti, hann hafi þvert á móti verið húmanisti. Hann var hins vegar Þýskalandsvinur. Þar átti hann mestum vinsældum að fagna og þar seldust bækur hans líka mest.
Áður en þetta fékkst staðfest hafði ég aldrei getað ímyndað mér að neitt hæft gæti verið í sögum um nasisma Gunnars. Til þess var húmanisminn í bókum hans of sterkur. Sá djúpi mannkærleikur sem skín í gegn í verkum Gunnars, er meðal þess sem hefur heillað mig mest við þær.
Þegar blaðamaður staðhæfir að Gunnar Gunnarsson hafi skrifað á dönsku, svarar Gunnar yngri: „Ég veit engan mann meiri Íslending en langafa minn. Hann elskaði Ísland og barðist fyrir málstað þess hvar og hvenær sem var.“
Þetta má sjá af hinum fallegu, mikilfenglegu og heillandi lýsingum af Íslandi, náttúrunni og íslenskri alþýðu í bókum Gunnars, einkum þó Fjallkirkjunni. Ég efast líka um að nokkur íslenskur höfundur hafi lýst jafn vel lífi íslenskrar alþýðu við lok 19. aldar en Gunnar Gunnarsson í þeirri bók, sem lætur þó ekki staðar numið þar.
“Langafi var húmanisti fyrst og fremst” segir Gunnar. „Hann stóð einn úti á sínum berangri og bar sig vel, þótt hann gæti ekki unnið úr sínu reiðarslagi. Hann var stórmenni, ekki vegna ríkidæmis og frægðar, heldur fyrir það með hvaða hætti hann brauzt áfram frá fátækt, hversu gott hjártalag hans var og hvernig hann beitti sjálfan sig ótrúlegum aga. Langafi var maður gjafmildur. Í áratugi hélt hann uppi heilu fjölskyldunum í Danmörku og hérna heima. Hann styrkti listamenn og borgaði meðal annars Jóhannesi Kjarval föst mánaðarlaun. Hann og langamma gáfu íslenszu þjóðinni Skriðuklaustur í Fljótsdal, sem er stærsta gjöf sem nokkur Íslendingur hefur í lifanda lífi gefið íslenzka ríkinu.“
Þetta kemur enn fremur fram í orðum hans annars staðar í viðtalinu:
„Langafi var af gamla skólanum. Ég held að hann hafi trúað því, að þeir sem eru hugdjarfir og góðir menn og bera sannleikann fyrir brjósti, að þeir myndu uppskera.“
Þessi hugsjón er eins falleg og göfug og hugsast getur. Sum fyrri verka Gunnars gátu verið bölsýn, en jafnvel í þeim lýsti þessi von í gegn. Þetta er viðhorf sem ég hef sjálfur reynt að temja mér, alltént að halda í vonina.
Það er ánægjulegt að vita að Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson, þessir tveir af mestu höfundum Íslands, voru ávallt góðir vinir og báru djúpa virðingu hvor fyrir öðrum. Báðir töldu hinn vera besta (eða þá allav. næst-besta) höfund Íslands. Þeir þýddu einnig hvor annan. Gunnari fannst alltaf að Halldór hefði átt Nóbelsverðlaunin skilið.
Ég tek einnig undir með orðum fjölskyldu Gunnars sem koma fram í yfirlýsingu þeiira á Skriðuklaustursvefnum. Við Íslendingar megum gleðjast yfir því að við áttum tvo framúrskarandi höfunda sem báðir þóttu verðugir kandídatar til Nóbelsverðlauna. Ekki amalegt á eyju þar sem búa innan við 300.000 manns, og færri þá en nú. Þeir eiga skilið málefnalega umföllun og að verk þeirra fái að lifa.
mánudagur, desember 19, 2005
fimmtudagur, desember 15, 2005
Í gær héldum við fjölskyldan upp á afmæli ömmu minnar á veitingahúsinu Rauða húsinu (sem af einhverjum ástæðum var þó hvítt) á Eyrarbakka. Maturinn þar var hreinasta hnossgæti. Ef þið eigið einhvern tíma leið þar um og viljið fá ykkur góða máltíð þá fær staðurinn topp einkunn hjá mér. Þarna snæddi ég sjávarréttasalat með rækjum og meðlæti og humar og skáluðum við fyrir afmælisbarninu í rauðvíni. Ég rak einnig nefið í ljósmyndabók með gömlum ljósmyndum af svæðinu, einhvers staðar frá bilinu 1914 til tuttugu og eitthvað. Afar gaman að skoða þessar gömlu þjóðlífsmyndir.
Fór með Dodda á King Kong í gær. Hún er tvímælalaust ein af bestu myndum sem ég hef séð á árinu.
Áðan skrapp ég á bókasafnið að ná í safndisk með The Cure sem ég hafði pantað nokkrum dögum áður. Ég hlustaði einnig mikið á þennan disk um jólaleitið í fyrra. Háftíma áður var ég í Skífunni og ætlaði þaðan á bókasafnið í áðurnefndum erindagjörðum og þá heyri ég einmitt spilað "Boys Don't Cry" með The Cure. Heimurinn er lítill.
Ég hef alltaf haft gaman að uplestri góðra bóka og fann á bókasafninu Aðventu Gunnars Gunnarssonar á hljóðsnældu, lesna af Róberti Arnfinnssyni leikara. Ég er að lesa hana núna. Síðast en ekki síst fékk lítinn dýrgrip, kassettu þar sem átta þjóðskáld lesa úr verkum sínum; Tómas Guðmundsson, Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson, Jón Helgason, Sigurður Nordal, Steinn Steinar, Þórbergur Þórðarson og Davíð Stefánsson. Ekki amalegt það. :)
Búinn í tveimur prófum og á tvö eftir. Bókmenntirnar gengu nokkuð vel og menningarsagan alltént þokkalega. Að prófum loknum get ég endanlega skriðið úr grábjarnarhamnum og orðið jólabarn.
Á morgun fer ég í próf í almennum málvísindum. Það fag hef ég vanrækt í vetur .þannig að jacta est alea. Ég verð bara að læra vel núna og gera mitt besta. Kann eitthvað hrafl í hljóðfræðinni, það próf verður á mánudag. Alors, qui sera sera.
Mig langar í jólaglögg. Ég smakkaði jólaglögg í fyrsta sinn í kórpartýi hjá Gísla um daginn. Hef einsett mér að kenna sjálfum mér að malla hana núna um jólatímann.
þriðjudagur, desember 13, 2005
Jólasveinar
Barnagælur og-fælur
Nú fer að líða að jólum og kólasveinarnir fara að halda til byggða. Ýmist 9 eða 13, samkvæmt opinberum tölum. Rauð- og hvítklæddir og sérvitrir (ok, MJÖG sérvitrir) barnavinir. 9 eða 13 klónasveinar, óskilgetin afkvæmi Nikurlásar og Coca Cola, með dreitil af af tröllablóði í æðum. Svo sem gott og blessað, að hafa góðar vættir sem gleðja börnin, en fyndið að hugsa til þess að ekki er of langt síðan að jólasveinarnir voru hafðir sem barnafælur. Ég held að það myndi hljóma nokkuð undarlega í dag að segja við barn: „Ef þú verður ekki þæg/ur, þá fær jólasveinninn þig!“. „Jibbí !“ hrópar þá barnið, skiljanlega, og hyggur sér gott til glóðarinnar.
Það er áhugavert og skemmtilegt að skoða hvernig jólasveinarnir voru í þjóðtrúnni. Ein ágætis heimild um það er bókin Íslenskir þjóðhættir, rituð af séra Jónasi Jóssyni á Hrafnagili. Afar fróðleg bók í alla staði. Mismunandi hugmyndir gátu verið uppi um jólasveinana, eftir því hvar maður grípur miður á landinu. Almennt sagt að þeir séu 9 eða 13 og synir Grýlu og Leppalúða, en sumir segja þá syni hennar og annars eiginmanns hennar, Bola. Þó hefur fundist gífurlegur fjöldi annara jólasveinanafna, sumir jólasveinar báru líka mörg nöfn. Úr Mývatnssveit eru Moðbingur, Móamangi og Hlöðustrangi, Þvengjaleysir og síðast en ekki síst Flórsleikir. Einnig er Faldafeykir nefndur meðal hinna níu. Einnig hef ég heyrt talað um Bandaleysi, en hann og Þvengjaleysir eru líklegast sá sami. Sagt að þeir komi af fjöllum til þess að stela „“keipóttum börnum eða skælóttum“ og til þess að ná sér í eitthvað af jólagæðunum. Eru það ýmist þeir eða Grýla sem ræna börnunum og eru þau höfð til átu þar á bæ. Af nöfnum þeirra má sjá að þeir gerðu fólkinu ýmsa grikki og skráveifur að auki.
Ég tek hér beina tilvitnun úr Íslenskum þjóðháttum:
„Á Austurlandi var önnur sögn um jólasveinana; er þeim var svo lýst að þeir séu að vísu í mannsmynd, nema að þeir séu klofnir upp í háls, en því miður man ég ekki uppruna þeirra og ekki heldur hvað þeir eiga að gera. En allar líkur eru til, að það séu eldri sagnir en hinar.“
Einhverjar sagnir eru um það að klofnu jólasveinarnir komi af sjó.
Í bókinni er líka skemmtilegur fróðleikur um Grýlu. Börn voru hrædd með henni ef þau þóttu óþæg eða þóttu ekki vinna verk sín nógu vel. Þá áttu ýmist Grýla eða jólasveinarnir að hirða þau í pokana sína. Hún tekur þau börn sem
„æpa og hrína; hirðir hún þau og hefir til bíslags á jólunum handa sér og karli sínum. Henni kippti þar í kynið við önnur tröll að þykja mikið til koma að hafa nýtt mannaket á jólunum. Eru margar sagnir um það og sumar framan úr forneskju.“
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er áfram fjallað um Grýlu, maka hennar og börn. Sagt að Grýla sé meira að segja nefnd með öðrum tröllum í Snorra-Eddu. Hún og Leppalúði voru bæði mannætur. Var hún all ófrýnileg úlits þó mismunandi lýsingar séu til, hún er þá sögð hafa „hala fimmtán en á hverjum hala hundrað belgi en í hverjum belgi börn tuttugu“, sumsé e-ð um 30.000 börn í eftirdragi. Einnig sagt að hún sé með hófa og horn. Svo er annars staðar getið þess að hún sé sögð hafa „ótal hausa og þrenn augu í hverju höfði“ og enn segir að hún hafi
„kartnögl á hverjum fingri, helblá augu í hnakkanum og horn sem geit, eyrun lafi ofan á axlir og áföst við nefið framan. Hún var og skeggjuð um hökuna og fór bskeggið ekki betur en hnýtt garn á vef og hékk þar við bót eða flóki, en tennurnar voru sem grjót ofnbrunnið.“
Grýlu er eignaður sægur af börnum sem ekki tjóir að telja upp öll hér, vegna fjölda, auk jólasveinanna. Alla vega 31. „Ef þið þekkið vísuna Grýla kallar á börnin sín“ eru þar nokkur nefnd. Minna segir af Leppalúða, hann hafi verið „að öllu samboðinn henni í háttum sínum en ekki fullt eins skrímslislegur ef til vill“. Sjálfur hef ég einnig heyrt talð um alla vega einn mann Grýlu í viðbót, Bola, en veit ekkert meira um hann. Leppalúði átti líka „holukrakka einn; það var Skröggur karl sem í fáu var föðurbetrungur“ með stúlkunni Lúpu og er saga hans og frekari upplýsingar í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, en verður ekki endursögð hér.
laugardagur, desember 10, 2005
Í dag eru 50 ár frá því að Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaun. Það var leiðinlegt að komast ekki á hátíðardagskrá í Þjóðmenningarhúsinu. Á löngum lista mínum yfir hluti að gera, ætla ég meðal annars að lesa meira eftir Laxness. Hef sem stendur lesið Íslandsklukkuna, Silfurtúnglið, Napóleon Bónaparti og byrjað á Sjálfstæðu fólki. Hrifnastur var ég af Íslandsklukkunni. Kynni næst að velja Heimsljós.
Líkt og þrír menn á undan mér, mæli ég eindregið með Nóbelsræðu Harold Pinter; Art, Truth And Politics. Hún er eilítið löng en svo sannarlega þess virði að lesa.
föstudagur, desember 09, 2005
Grábjörninn rumskar í bæli sínu við skarkala og urrar önuglega. Hann skreiðist loks úr híðinu, það hryglir í honum og hann klórar sér luralega í úfnum herðakambinum. Atferli grábjarnarins gæti fengið mann til að ætla að kominn væri marsmánuður. Grábjörninn vill leggja áherslu á að honum finnst KissFM einhver sú allra ömurlegasta útvarpsstöð sem eyru hans hafa þurft að þola og að hann ber ástríðufullt hatur til lagsins „Hung Up“ með Madonnu sem glymur þar á ekki meira en tíu mínútna fresti.
Grábjörninn sárvantar kaffi.
fimmtudagur, desember 08, 2005
Próflesturinn er skollinn á hjá yðar einlægum. Eftir að hafa truntað mér í gegn um menntunarkaflann í menningarsögunni, leið mér eilítið eins og heilinn minn hefði sagt "Far vel, Frón" og haldið í jólafrí til Tipperary.
Ástkær amma mín á afmæli í dag og átti ég indæla kvöldstund í kaffi með henni, Vésteini, Lossí og Jónínu.
Amma deilir svo afmælisdegi með öðru mikilsmetnu tónskáldi, því Tom Waits á einnig afmæli í dag.
Lengra verður þetta blogg ekki, því nú ætla ég mér að skríða í fletið.
Lag dagsins: "You Can't Always Get What You Want" með The Rolling Stones.
mánudagur, desember 05, 2005
Brá mér á skemmtilega tónleika með Dodda í gær. Þar voru Rass og Bob Log III að spila. Rass finnst mér virkilega skemmtileg hljómsveit, hún er einhvern vegin svo hallærisleg að hún verður kúl. Hrátt og grípandi pönkrokk, eins mínímalískt og það gerist, sama má segja um textana, yndislegar línur eins og “óréttlæti er óréttlátt/aldrei það verður tekið í sátt. Uppáhalds lagið mitt með þeim er “Burt með kvótann”.
Það má einnig segja um Bob, að hann var svo hallærislegur að hann var kúl. Hann steig á svið í samfestingi og með stærðar hjálm á höfðinu. Gegn um hann rétt glitti í andlitið og maður sá allav. að hann var með hormottu. Bob Log III er bráðskemmtilegur furðufugl, húmoristi og hafði mikinn hillbillí-redneck-sjarma. Hann spilaði einhvers konar hrátt og suddalegt redneck-hillbillí hráttblús-pönk-fönk-rokk. Hann er líka klikkaður gítarleikari. Hann kneifaði stíft ölið og spjallaði við áhorfendur á milli laga.
Bob átti mörg skemmtileg ummæli þetta kvöld. Dæmi: “Skál is ‘bowl’ in English. It’’s like: ‘I’ve got a beer... - and I want a bigger one!”. Eða kynningar hans á lögum: “This is a song about boobs”.
Þá kynnti okkur fyrir “Boob scotch”, og sýndi það á eigin brjósti. Vantaði hann svo sjálfboðaliða til að halda áfram. Tveir karlar koma upp á svið.
Bob: “Common, Iceland! I came all the way from Arizona and is this all you have to offer? I mean, guys... I appreciate the thought...”
Hugrökk stúlka gaf sig loks fram og uppskar mikinn fögnuð. Sagði Bob “boob-scotchið” fyrirtaks leið til að eignast vini. Ég tel að þetta sé hefð sem verði að breiða út á Íslandi. Annað lag var um að klappa brjóstum, og hvatti Bob alla til að taka þátt, karla sem konur. Í seinasta laginu fékk hann tvær stúlkur til að tylla sér á sitt hvort kné honum á meðan hann spilaði lag sem hann sagði vera “The fastest goddamn song in the world!” Svo var eitt um gítarinn hans o.s.frv. Þetta voru þrælskemmtilegir tónleikar.
Lauk kvöldinu á að við Doddi fórum til mín hvar við sötruðum rauðvín, gæddum okkur á ostum og horfðum á 24 Hour Party People.
föstudagur, desember 02, 2005
fimmtudagur, desember 01, 2005
Gleðilegan fullveldisdag!
Í dag hefur ANSWER boðað til alsherjarverkfalls í Bandaríkjunum til að mótmæla stríðinu í Írak. Er tilefnið einnig að 50 ár eru liðin frá því að Roasa Parks neitaði að gefa eftir sæti sitt í strætisvagni og láta hvítann mann fá það í staðinn. ANSWER hefur byggt upp mikið fylgi og unnið stóra sigra undanfarið og nú tefla þeir djarft, annað hvort munu þeir græða mikið eða tapa mikið, eftir því hvernig fer. Ég þori því miður ekki að búast við of miklu, en óska þeim alls hins besta. Nú er einungis að bíða og sjá.
Einnig vil ég benda áhugasömum á að Háskólakórinn syngur tvö lög í hátíðarsal í aðalbyggingu Háskólans á morgun á hátíðardagskrá rektors.
Í gær var alþjóðlegur samstöðudagur með Palestínu. Um kvöldið voru styrktartónleikar, til styrktat Öryrkjabandalagi Palestínu. Á tónleikunum spiluðu Jakobínarína, Þórir AKA My Summer As A Salvation Army Soldier, Siggi úr Hjálmum, Reykjavik! og Mr. Silla. Allir tónlistarmennirnir gáfu tónlist sína til stuðnings framtakinu.
Þessir tónleikar voru einstaklega vel heppnaðir. Efri hæðin, þar sem tónleikarnir fóru fram, var troðfull, að giska 250-300 manns voru þar saman komin. Og það á þriðjudegi! Rétt í þessu var ég að lesa á heimasíðu félagsins að alls hefðum við safnað 197.400 krónum. Var það einnig gegn um sölu á sérhönnuðum bolum og peysum, sem Sara og Tolli hjá Nakta apanum og Jón Sæmundur hjá Dead hönnuðu, merkjum og kafíum. Ég tók þátt í Ég vil vekja athygli á að enn er eitthvað af bolum eftir til sölu Sveinn Rúnar er nýkominn frá Palestínu og hélt öflugt erindi um ástandið þar. Það var frábær stemmning og manni þótti vænt um þá gífurlegu samstöðu sem maður skynjaði á þessum tónleikum. Við vorum að vonum alsæl með hvernig til tókst. Söfnunin til styrktar öryrkjum í Palestínu heldur áfram, og ef þið viljið leggja henni lið getið þið lagt fé inn á bankareikning 542-26-6990 (kt 520188-1349) - merkt "Öryrkjar í Palestínu".
sunnudagur, nóvember 27, 2005
laugardagur, nóvember 26, 2005
Kötturinn minn mjálmar sáran fyrir utan. Það er víst kominn tími á að hleypa henni inn.
Um daginn hleypti ég henni út þegar hún mjálmaði hástöfum á mig og mændi á mig bænaraugum. Ég settist við tölvuna og varla voru liðnar fimm mínútur þegar ég heyri MJAAAAAÁÁÁÁ á glugganum. Hleypti ég henni þá inn. Nokkru síðar hlýtur pabbi að hafa hleypt henni inn því enn einu sinni rekur hún upp skerandi mjálm og hleypi ég henni þá inn í annað sinn. Pamína hefur vanist á það að fara inn-út inn-út hvenær sem henni hentar. Atburðir eins og þessir eru daglegt brauð. Pamína mín er gáfaður köttur. Hún veit að erum hér til þess eins að þjóna henni. :)
miðvikudagur, nóvember 23, 2005
Ariel Sharon hefur stofnað nýjan flokk og klýfur sig frá Likud-bandalaginu. Að þetta sé „friðarflokkur“ finnst mér ámóta líklegt og að CIA stundi ekki pyntingar, og það á sama tíma og að Cheney vill að slakað verði á banni við pyntingum, eða að apar fljúgi út um afturendann á mér, því er nú verr og miður. Fyrrum hershöfðinginn og stríðsglæpamaðurinn Sharon hefur hingað til ekki beinlínis sýnt mikinn vilja í verki í friðarefnum. Reynslan hefur fremur kennt manni að taka öllum orðum Sharons um "frið" með fyrirvara, svo ekki sé meira sagt. Fremur en að hlusta á hvað hann SEGIR ætti maður að horfa á hvað hann GERIR. Meistari Uri Avnery hefur skrifað um kosningarnar í verkamannaflokknum, friðarhorfur og hvaða áhrif það myndi hafa ef Sharon stofnaði nýjan flokk, eins og hann hefur nú gert. Nýjasta greinin um þetta nefnist Plucking the Daisy og mæli ég með því að þið lesið hana. Þá mæli ég einnig með eldri greinum hans, þar sem hann fjallar um Peretz og framboð hans: Peretz is not Peres og A Great Miracle
Loks mæli ég mjög með afburða fyrirlestri sem Avnery hélt í Berlín, á ráðstefnu um mikilvægi þess að ala upp börn fjarri ofbeldi. Nefist hann War is a State of Mind.
mánudagur, nóvember 21, 2005
30 ár frá andláti Gunnars Gunnarssonar skálds
Í dag eru liðin 30 ár frá því að stórskáldið Gunnar Gunnarsson lést, 86 ára að aldri. Ég tel að Gunnar sé einhver sá allra besti rithöfundur sem Ísland hefur alið. Hann skrifaði um 20 skáldsögur á æviferli sínum, tugi smásagna, nokkur leikrit, ljóð, greinar og fyrrlestra.
Af verkum hans hef ég núna lesið hinar 5 bækur Fjallkirkjunnar, Svartfugl, Sælir eru einfaldir og Vikivaka. Auk þess nokkrar smásögur. Fjallkirkjan og Svartfugl eru helstu meistaraverk hans að mínu mati. Gunnar er jarðsettur í Viðey ásamt konu sinni, Franziscu. Ég rifja upp fyrri færslur mínar sem ég skrifaði um þær bækur sem ég hef lesið eftir Gunnar;Sælir eru einfaldir, Fjallkirkjan, og Svartfugl og Fjallkirkjan. Aðra Fjallkirkjufærsluna skrifaði ég á meðan ég var að lesa bókina, hina eftir að ég lauk við hana. Ég var víst aldrei búinn að skrifa færslu um Vikivaka. Það er góð bók sem ég skrifa um einhvern tíman við tækifæri.
Þeim sem vilja fræðast meira um Gunnar bendi ég á vef Skriðuklausturs, sem ég hef hlekkjaðan hægra megin á síðunni og Skólavefinn.
Ég læt hér fylgja tilvitnun úr þriðju bók Fjallkirkjunnar, Nótt og draumi, þar sem Uggi Greipsson hugsar heim á siglingu til Danmerkur:
Enn lýsir af minningu djúpt í myrkrinu, hún brennir sig í mig:
Við erum saman komnir margir menn á einum hinna grjótorpnu bæja í heiðinni. Faðir minn er meðal þeirra. Ég hef farið með hestana út á tún að hefta þá. Dagurinn hefur verið mér erfiður, ég sest niður á sendna þúfu, þreyttur og dapur. Ég lít heim að bænum þaðan sem ég sit. Kring um túnskækilinn hringar sig skörðóttur grjótgarður. Æ, hér er allt tómt endalaust grágrýti! Það gægist upp úr túninu, starir út lágum veggjunum. Áfallið verður að gera sér það að góðu, það er ekki rúm fyrir ýkja marga dropa á strjálum stráunum. Bændurnir sem standa í hnapp umhverfis óupplitsdjarfa kofana eru einnig gráir, gráir eins og grjótið. Og þeir eru gráir í meira en einum skilningi því þeir eru bognir af erfiði, upplitaðir og veðurbitnir, grópaðir og sviðnir eftir misjafna daga. Síðan á landnámsöld hafa líklega búið álíka margir menn á þessum einmana bæ og nú eru hér saman komnir – það skakkar aldrei miklu. ég virði þessa grámenn fyrir mér, kemst að raun um að ég þekki þá ekki, hef adrei séð þá áður. Mér finnst sem ókunn örlög hafi steypt mynd þeirra í móti sínu, knífar fjarlægra sársauka hafi skorið þessi andlit út. Þeir hafa búið hér ár fram af ári, mann fram af manni síðan landið fannst og lifað á grjóti. Andi þeirra, trú og tryggð hefur gætt grjótið lífi. Og ekki hafa slíkir menn, orðvarir og dáðadýrir jarðarsynir setið þessa jörð eina, heldur allar aðrar gráar og grjótorpnar jarðir landsins. Eins og haugaeldur brennur á næturþeli yfir fólgnu gulli, tekur allt í einu eldur að brena yfir þessum forna, vallgróna bústað. Upp af grágrýtinu og mönnum þess leggur bjartan, kyrran loga sem ber við himinn, logann frá hinum síbrennandi þyrnirunni lífsins. Rödd Guðs hefur talað.
White Stripes
Fór með Dodda á tónleika White Stripes í Laugardagshöll í gær. Þeir tónleikar voru æðislegir.
Jakobínarína hituðu upp og voru fínir. Maður fékk svona síð-sjöunda áratugar fíling, minnti mig um margt á pönkrokkbönd sem voru að spila í Englandi á þeim tíma, ekki síst Clash, snemma á ferlinum, sviðsframkoma söngvarans var einnig í stíl við það. Á meðan við svo biðum eftir bandinu hljómuðu fín lög í græjunum, afar ánægður að heyra “Summertime Blues” með Blue Cheer.
Ég er nýgræðingur í aðdáun á sveitinni, var nýbúinn að eignast Get Behind Me Satan og hafði heyrt stök lög að auki. Hafði fílað allt það sem ég hafði heyrt. Eftir þessa tónleika er ég endanlega frelsaður. Maður furðar sig enn fremur á að önnur eins tónlist geti komið frá tveimur manneskjum. Þetta líka fallega, kröftuga og fjöruga rokk. Engin smávegis orka í bandinu! Innlifunin, gleðin, hressleikinn, fjörið! Jack White fór hamförum á gítarinn. Það er kannski klisja, en þessir tónleikar rokkuðu feitt. Bandið greinlega að fíla sig í botn og áhorfendur sömuleiðis. Jack er einnig góður píanóleikari. Og góður lagasmiður er hann. Vægast sagt hæfileikaríkur drengur, það ætti ekki að dyljast neinum. Erfitt að nefna einn hápunkt en ég var kannski hrifnastur af því þegar þau tóku „Jolene“ eftir Dolly Parton. Jack hefur líka mikinn sjarma og þau bæði. Meg er flottur og dýnamískur trommari og býr yfir alveg sérstökum þokka, hún er tignarleg. Skemmtilegt hvernig maður greinir áhrif héðan og þaðan í tónlistinni, en samt hafa þau alveg eiginn hljóm. Stemmningin var öflug enda tónlistin mjög grípandi. Meg og Jack voru klöppuð upp í aukalög með gífurlegu klappi, hrópum og stappi. Eftir að tónleikunum lauk hljómaði „Loving Cup“ með Rolling Stones í hátölurunum. Punkturinn yfir i-ið á frábæru kvöldi. Ef eitthvað var saknaði ég eilítið að heyra ekki „Take,take,take“ sem er eitt uppáhaldslagið mitt með White Stripes, en það er nú sparðatíningur. Nú mun ég leggjast í massíf diskakaup.
föstudagur, nóvember 18, 2005
fimmtudagur, nóvember 17, 2005
Hugleiðingar um stöðu samkynhneigðra og kirkjuna
Það er gleðiefni ef stefnir loks í að samkynhneigðir fái að njóta sömu mannréttinda og aðrir í þjóðfélaginu. En enn lítur út fyrir að þeir fái ekki að njóta sjálfsagðra mannréttinda á við aðra íbúa landsins og er það hryggilegt. Nú virðist mér, af ummælum forsætisráðherra, að helst sé spurning um kirkjuna, hvort eigi að leifa samkynhneigðum hjónavígslu. Segir Halldór það málefni kirkjunnar, hún sé sjálfstæð stofnun og ríkið geti ekki skipst sér að því.
Nú er þjóðkirkja á Íslandi. Ríkið dælir í hana fé. Skattgreiðendur einnig, nema þeir sem borga í staðinn í guðfræði deild. Fer dágóður þorri nema síðan til prestastarfa. Mér þykir ríkið því bara hafa fullan rétt til að hafa eitthvað um það að segja ef þessi stofnun mismunar fólki á grundvelli kynheigðar. Eins þó hún væri aðskilin ríknu, þætti mér hún ekki eiga að komast upp með að mismuna fólki. Ímyndum okkur að ég stofnaði klúbb sem héti “Aríaklúbburinn”, þar sem einungis hvítir menn mættu vera. Ég held að flestir geti tekið undir með því að það yrði ekki sérlega vinsælt. Því tæki ég upp á því einn daginn, af náð minni og visku, að leyfa blökkumönnum að ganga í klúbbinn, en hafa það ákvæði skýrt að þeir mættu ekki njóta sömu réttinda og hvítir í klúbbnum, því það “stríddi gegn reglum klúbbsins”. Loks ávæði ég að vera virkilega líbó og hleypa einnig inn konum, gyðingum, albínóum, samkynhneigðum, kommúnistum o.s.rv, nema að þessi sömu lögmál giltu um þau öll. Þau fengu ekki að njóta sömu réttinda í klúbbnum og vér arísku ofurmennin.
Haldið þið ekki að kæmi aðeins annað hljóð í strokkinn?
miðvikudagur, nóvember 16, 2005
Alltaf magnast óhugnaðurinn;BANDARÍKJAHER BEITTI FOSFÓRI Á ÍBÚA FALLUJAH. Þetta hefur verið staðfest af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjamanna. Segir talsmaður að fyrri yfirlýsingar, þar sem þessu var staðfastlega neitað, hafi byggst á ófullnægjandi og misvísandi upplýsingum etc. Skemmtilelgt orðalag yfir helberar úrþvættis lygar. Einnig segir hann að fosfór „flokkist ekki undir efnavopn“. Sérfræðingar hafa ráfað í villu. Sama má segja um vitnisburð fyrrum bandarískra hermanna sem leggja þunga áherslu á að þetta sé efnavopn. Þeir sögðu líka að vopnin hefðu beinst gegn óbreyttum borgurum. Gott að varnarmálaráðuneitið leiðrétti villu þeirra, sérlega í ljósi þess hvað við getum treyst þeim í ljósi fyrri yfirlýsinga. *hóst* Hentugt fyrir Bandaríkin að hafa ekki skrifað undir sáttmála um bann við notkun fosfórs. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds á meðan ég hlýddi á lýsingar fyrrum hermannanna á aðgerðunum í fréttunum áðan, og brotin sem maður sá úr heimildamyndinni "Fallujah, The Hidden Massacre". Það var annað sem hermennirnir minntust á, hvernig reynt var að breiða yfir þetta.
Fréttamenn nmega einnig sannarlega vita upp á sig sökina, það litla sem maður fékk að heyra af þessu einkenndist af óljósum fréttum um baráttu "landvarnaliðsins" við "uppreisnarseggi". Eins þykist ég muna að hafa heyrt orð á borð við "ofstopamenn", "ofbeldismenn", "uppreisnarseggi" og þess háttar og virtist ekki mikil skil gerð milli þeirra og óbreyttra borgara. Við höfum heldur aldrei fengið að heyra hversu margir féllu þar fyrir hendi innrásarliðsins eða voru örkumlaðir, né fjölda þeirra sem voru handteknir án dóms og laga og pyntaðir. Fólkið sem fékk að snúa aftur", hvað hafði það að snúa aftur til þegar var búið að jafna heimili þeirra við jörðu?
sunnudagur, nóvember 13, 2005
Áðan horfði ég á bráðskemmtilega og áhugaverða heimildamynd um blúsarann Honeyboy Edwards. Rakin var saga hans og delta-blússins og mannlífið á þeim árum sem hann var að þróast. Hann umgekkst menn eins og Charlie Patton, Robert Johnson og Muddy Waters og spilaði, veit ég, með þeim tveimur síðarnefndu. Hann er orðinn níræður og er enn að spila. Þegar ég hlustaði á hann fannst mér orðið “snillingur” ekki nóg til að lýsa færni og tilfinningu hans í tónlist. Ég fékk gæsahúð, eða réttara sagt hrifningarhroll við að hlusta á hann. Kannski vegna þess að orðið “snillingur” hefur verið ofnotað, en ef einhver er hreinn og tær snillingur í dýpstu merkingu orðsins, þá er það hann. Ég minnist vart að hafa heyrt aðra eins spilamennsku og hann syngur með sálinni. Helst gæti ég nefnt vin hans, Robert Johnson.
Ég bölva því hins vegar í sót og ösku að uppgötva að ég hef misst af tónleikunum með honum. Ég vissi ekki einu sinni að hann væri á landinu. Þegar ég fór í gegn um blöðin fann ég einungis eina litla frétt úr mogganum í fyrradag, þegar önnur eins goðsögn og snillingur sem er auk þess einn af fáum frumkvöðlum sem er eftir lifandi, finnst manni vægast sagt að hefði átt að auglýsa þetta betur. Andskotinn hafi það, ég hefði vel gefið vinstri fótinn fyrir að geta farið á þessa tónleika. Allavegana stóru tána. Ég strengi þess hér með heit að ég skal sjá hann spila, ef ég á séns á að sjá hann meðan hann er enn á lífi. Ég væri þess vegna til í að fara pílagrímsför til Bandaríkjanna í þeim einum tilgangi að sjá hann spila. Ef Múhameð kemur ekki til fjallsins (eða ef fjallið missir af honum), þá verður fjallið að koma til Múhameðs. Ég ætla líka að panta mér diska með honum á netinu.
fimmtudagur, nóvember 10, 2005
Jesús, Pétur, Kiljan og heilaga jómfrú!
Þessi orð, úr samnefndu lagi Bubba Morthens, eiga ágætlega við hvað viðvíkur að manni að nafni Jack Chick. Ég þakka nafna mínum Jóhannessyni fyrir að hafa bent mér á þetta. Jack Chick skrifar fanatískar trúarnöttaramyndasögur. Þar ræðst hann gegn demónískum áhrifum Harry Potter, Dungeons And Dragons, Hrekkjarvöku, gegn samkynhneigðum og þróunnarkenningunni, svo eitthvað sé nefnt. Einnig er skemmtilegt hvernig trúleysingjar eru ávallt hatursfullar og viðskotaillar sálir í sögum hans, nánast eldspúandi og ósjaldan að dansa lambada við Lúsifer. Þegar maður les þetta myndi maður ætla, eða fremur vona að maðurinn væri að grínast, en onei, börnin góð. Honum er fúlasta alvara. Ég á varla til orð yfir þetta, get einunungis gapað yfir flónsku mannsins. Maður veit, svei mér þá, varla hvort maður á að hlæja eða gráta. Þetta er grátbroslegt, eins og þegar trúður deyr. Ég skelli hlekkjum á nokkrar sögurnar.
Og munið það, lömbin mín; að ef þið trúið þróunarkenningunni munið þið brenna í helvíti. Líka ef þið snúið ekki frá kynvillu, Harry Potter, Dungeons and Dragons, Islam, gagnrýni á Ísraelsríki eða biblíu James I, sem vill svo til að er eina biblían sem hefur ekki verið saurguð af Satani etc. etc. Góða skemmtun:
The Nervous Witch (Harry Potter-sagan)
Dark Dungeons og síðast en ekki síst: Big Daddy, þar sem tekist er á við þróunarkenninguna.
Loks má svo geta þess, að félag bókmenntafræðinema stendur fyrir ljóðadagskrá á föstudag. Dagskrána má finna hér.
Um kvöldið kl. 9 verður ljóðaupplestur á 22 á Laugarvegi og stendur fram eftir kvöldi. Þar mun fjöldi skálda lesa úr verkum sínum. Verður undirritaður á meðal þeirra.
þriðjudagur, nóvember 08, 2005
sunnudagur, nóvember 06, 2005
Rumsfeld meinar sérfræðingum á vegum Sameinuðu þjóðanna aðgang að föngum á Guantanamo
Bandaríkjastjórn vill undanþágu frá pyntingabanni
Bandaríkjamenn réttlæta stefnu sína í skýrslu til Sameinuðu þjóðanna
...Formælandi utanríkisráðuneytisins bendir á að málefni fanganna séu flókin. Engar reglur séu um hvernig fara eigi með fólk, sem hlýðir ekki lögum, tekur ekki mark á reglum, virðir enga samninga. Þetta sé fólk sem eingöngu ætli sér að drepa saklausa borgara...
“Engar reglur séu til?” Hmm, hvað með Genfarsáttmálann og Mannréttindaúrskurð Sameinuðu þjóðanna? "...sem hlýðir ekki lögum lögum, tekur ekki mark á reglum, virðir enga samninga".
Bandaríkjastjórn skeinir sér alþjóðalögum og samningum ef þeir henta ekki stefnu þeirra.
Hversu mörg líf saklausra borgara skyldi Bandaríkjaher hafa á samviskunni? Þeir virðast ekki líta á fangana sem menn, í ljósi þess halda þeir því fram að fangarnir eigi ekki rétt á lágmarks mannréttindum heldur skuli gera líf þeirra að sem mestu helvíti sem mögulegt er. Orð þeirra og ummæli vekja upp í hugann þessi ummæli sem Adolf Hitler lét eitt sinn falla um gyðinga: “The Jews are undoubtedly a race but they are not human.”
Að lokum er hér myndasaga frá This Modern World sem setur hlutina í ágætt samhengi: Occam's Razor? Never heard of it
föstudagur, nóvember 04, 2005
fimmtudagur, nóvember 03, 2005
Hér eru nokkar stiklur um það helsta sem er að frétta af mér og mínum högum undanfarna daga:
BOG, félag enskunema, heldur uppi afar góðu starfi. Ég skemmti mér hið besta á Halloween síðastliðinn föstudag.
Ég er símalaus sem stendur. Ef þið viljið ná í mig, er það því annaðhvort kommentakerfið, heimasími eða tölvupóstur.
Ég er byrjaður í Háskólakórnum, fór á mína aðra æfingu á mánudag. Líst mjög vel á mig þar. Alls þekki ég fjögur fyrir, sem voru með mér í MR. Laugardaginn hélt ég í teiti hjá Mæju fyrir gamla kórfélaga, og var í raun heppni að ég rakst á hana á æfingunni svo ég vissi af því. Gaman að þeim endurfundum, ekki síst vegna þess hve langt var orðið síaðn maður hafði séð flesta. Verður vonandi meira af slíku.
Á laugardaginn er svo grímuball hjá kórnum og verður það þá í þriðja sinn sem ég get notast við minn ágæta sjóræningjabúning.
Þið gætuð séð mig um eittleitið í Odda á morgun seljandi kökur (gullfiskinn mig minnir alla vegana að það sé á morgun). Kórinn er í fjáröflun. Kórmeðlimir beðnir að baka og selja. Ég mun þá leita á náðir minnar gömlu vinkonu; júngfrú Betty Crocker.
Yðar einlægur brá sér á Corpse Bride með Dodda og skemmti mér konunglega. Meistari Tim Burton að gera það sem hann gerir best. Vönduð hreyfimyndagerð, rómantík, húmor, Viktoríu-England, og hið yndislega gotnesk-dramatíska/gotnesk-húmoríska andrúmsloft sem Burton skapar. Mér varð bæði hugsað til lThe Nightmare Before Christmans og þess ágæta tölvuleiks Grim Fandango. Tónlistin hjá Danny Elfman frábær.
Sá líka Kiss Kiss Bang Bang. Góð mynd, skemmtileg og fyndin. Gaman að sjá Robert Downey Jr. á hvíta tjaldinu aftur.
Robert Downey Jr. finnst mér mjög góður leikari og hann var brillíant í þessari mynd, hann átti hana algerlega. Það er vonandi að hann geti haldið sig frá óhollu líferni svo maður fái að sjá hann oftar í kvikmyndum.
Ég skráði mig á námskeiðið Gunnar og Þórbergur –líf tveggja skálda og fór í fyrsta tímann núna í kvöld. Sá tími var mjög áhugaverður. Umræður voru líflegar og fjörugar og fóru um víðan völl. Mest var fjallað um Gunnar í þessum tíma, æviatriði, og þá aðallega mótunarár í Danmörku, Sögu Borgarættarinnar og Fjallkirkjuna, frægðina, stríðið og heimkomuna. Fimm tímar framundan.
Loks er frá því að segja að líf mitt hefur öðlast nýja merkingu, ég hef orðið fyrir uppljómun; dýrðarröðull Þórðar hefur skinið á mig!!! Ég er orðinn félagi í aðdáendaklúbbi Þórðar!!! Lótusblóm gróa hvar náðugur Þórður leggur höfuð sitt til hvílu.
miðvikudagur, nóvember 02, 2005
Þessar fréttir þykja mér óhugnarlegar:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1166565
http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=116047&e342DataStoreID=2213589
http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=116139&e342DataStoreID=2213589
Amnesty tjáir sig um málið:
http://amnesty.is/frettir/nr/251
Sjá einnig fleiri fréttir um þetta á Morgunblaðsvefnum.
Bandarískri flugvél sem geymir fanga sem færa á til pyntinga er leyft að fara um Keflavíkurvöll. Að sjálfsögðu vilja stjórnvöld ekkert kannast við að hafa vitað um þetta. Í stað þess að fordæma mannréttindabrot er verið að leggja blessun sína yfir þau og greiða þeim veginn.
þriðjudagur, nóvember 01, 2005
Ég skellti hlekk á Gljúfrastein.is, hægra megin á síðunni. Á þeim vef má finna flest milli himins og jarðar sem lýtur að Halldóri Laxness og kennir sannarlega margra skemmtilegra grasa. Meðal þess sem mér þótti gaman að sjá var brot af umfjöllun hans um Kirkjuna á fjallinu, sem er nú fremur þekkt undir heitinu Fjallkirkjan, eftir Gunnar Gunnarsson, en Halldór þýddi hana á íslensku. Fer hann fögrum orðum um þá bók og er ljóst að hér var risið meistaraverk í íslenskum bókmenntum og höfuðrit skáldsins.
Einnig var sérlega ánægjulegt að hlusta á upplestur Halldórs á eigin verkum, enda var hann afar góður og skemmtilegur upplesari. Þar hafði ég mest gaman af kaflanum "Konferensráðið" úr Brekkukotsannál, sem má finna hér.
...Á prestaskólatröppunum skáhalt á móti Gúðmúnsensbúð stóð maður og var að halda sólarupprisuræðu á meðan heimurinn svaf. Hefði eftir eðli hlutarins mátt halda að þar væri kominn heilagur Frans af Assissí ellegar einhvers sá annara frægra dýrlinga sem af mestri snilli hafa predikað fyrir skynlausri skepnu:
Kæru bræður ha
hestar og fransmenn
hjólreiðamenn og lóðahundar
lestarmenn og kettir!
Þegar konferensráðið kemur-
það er nefnilega það!
þrjátíu vertíðir á sjó
Sá sem rær hjá Gúðmúnsen þarf herskip ...
laugardagur, október 29, 2005
Þetta þykir mér áhugavert: Gunnar og Þórbergur - Líf tveggja skálda, námskeið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Ég er alvarlega að spá að skrá mig á það.
föstudagur, október 28, 2005
Í gær horfði ég á Motorcycle Diaries. Mér fannst hún afbragð. Hún segir frá frá ferðalagi sem Ernesto Guevara og vinur hans, Alberto Granada héldu í á mótorhjóli, í ætluninni að ferðast um alla rómönsku Ameríku. Þá var Guevara 23gjja ára og Granada 29 ára. Þeir leggja upp ungir og saklausir, fullir eldmóðs, ævintýraþrár og sýnir þessi mynd bæði styrk vináttu þeirra og breytingarnar sem verða á þeim við fátæktina, eymdina og óréttlætið sem þeir verða vitni að. Þetta er því um leið þroskasaga og veitir manni innsýn í hvernig hugsjónir Guevara þróuðust. Ég mæli eindregið með þessari mynd. Landslagið er líka með ólíkindum og tónlistin góð. Ég verð að lesa dagbækurnar sem myndin er byggð á við tækifæri og kynna mér ævi Guevara almennilega. Margir hafa sínar skoðanir um Guevara, ég tel mig ekki tilbúinn að fella neinn dóm um hann, sökum vanþekkingar. Ef maður ætlar að geta myndað sér skoðun um einhvern verður maður líka að vita hvað mótar hann, og hvað viðkomandi gengur til.
Þetta er ekki saga um hetjudáðir. Þetta er saga um tvo menn sem lifðu samhliða um hríð. Þeir höfðu sömu þrá og svipaða drauma. Vorum við þröngsýnir, hlutdrægir eða fljótfærir? Voru ákvarðanir okkar of harðskeyttar? Kannski. Á ferðalagi okkar um rómönsku Ameríku breyttist ég meira en mig grunaði. Ég er ekki sami maðurinn. Ég er ekki sá maður sem ég var áður.
--Ernesto „Che“ Guevara
miðvikudagur, október 26, 2005
30 ár eru liðin frá því að konur lögðu fyrst niður störf á Íslandi til að mótmæla launamisrétti kynjanna. Ég vil óska öllum landsmönnum til hamingju með nýliðinn kvennafrídag. Ég brá mér í gönguna og voru þar milli 45.000 og 50.000 konur og menn einnig saman komin til að krefjast jafnréttis. Það er sorglegt að árið 2005 þurfi að berjast fyrir jafnrétti, að enn sé kynbundinn launamunur og að kynin njóti ekki jafnra réttinda og virðingar í samfélaginu. Það blés manni hins vega kapp í brjóst að standa í göngunni, líta mannhafið hvert sem augað eygði og finna andann í hópnum. Gleðina, baráttu-og frelsisandann. Maður fann fyrir afli fjöldans. Vona ég að kné verði látið fylgja kviði. Ég vil sjá meira af þessu. Að fólk standi upp og krefjist réttar síns og krefjist mannréttinda fyrir sig og alla. Það hlýtur að vera grundvallar krafa alls fólks.
sunnudagur, október 23, 2005
Í dag fagnaði við fjölskyldan útskrift míns kæra bróður, en hann útskrifaðist með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. :)
Það var glatt á hjalla og skálaglamm í vísindaferð enskudeildarinnar í Skjal í gærkvöldi. Ég þakka höfðinglegar móttökur. Frá Skjali var svo haldið á Celtic Cross og gleðskapnum haldið áfram. Einn mesti hápunktur kvöldsins hlýtur að vera The Drunk Scottish Song í flutningi Sam.
Loksins er ég búinn með hljóðfræðiverkefnið og er það léttir. Það hefur valdið nokkrum heilabrotum síðustu daga. En nú er mál að linni í bili, klukkan orðin margt og ég ætla að taka á mig náðir. Góða nótt.
föstudagur, október 21, 2005
Réttarhöld yfir Saddam Hussein standa yfir sem og kosningar um stjórnarskrá Íraks. En það er ekki bjart um að lítast í Írak.
Ég bendi á ágæt skrif bróður míns og Þórðar um þetta mál. Uri Avnery hefur einnig skrifað góða grein, What Awaits Samira? um horfur í Írak. Hvað sjálfan mig varðar, þá hef ég að mestu viðrað skoðanir mínar á réttarhöldunum yfir Saddam Hussein áður og má nálgast þær hér
miðvikudagur, október 19, 2005
Fyrst ég minntist á The Grapes of Wrath í færslunni á undan held ég að sé tilvalið að láta hér fylgja þetta magnaða kaflabrot:
The western land, nervous under the beginning change. The Western States, nervous as horses before a thunder storm. The great owners, nervous, sensing a change, knowing nothing of the nature of the change. The great owners, striking at the immiediate thing, the windening government, the growing labor unity; striking at new taxes, at plans; not knowing that these are results, not causes. Results, not causes; results, not causes. The causes lie deep and simply – the causes are a hunger in the stomach, multipied a million times, a single soul, huger for joy and some security, multiplied a million times; muscles and mind aching to grow, to work, to create, multiplied a million times. The last clear definite function of man – muscles aching to work, minds achying to create beyond the single need – this is man. To build a wall, to build a house, a dam, and in the wall and house and dam to put something of Manself, and to Manself take back something of the wall, the house, ther dam; to take hard muscles from the lifting, to take the clear lines and form from concieving. For man, unlike any other thing organic or inorganic in the universe, grows beyond his work, walks up the stairs of his concepts, emerges ahead of his accomplishments. This you may say of man – when theories change and crash, when schools, philosophies, when narrow dark alleys of thought, national, religious, economic, grow and disintegrate, man reaches, stumbles forward, painfully, mistakenly sometimes. Having steped forward, he may slip back, but only half a step, never the full step back. This you may say and know it and know it. This you may know when the bombs plummet out of the dark planes on the marketplace, when prisoners are stuck lige pigs, when the crushed bodies drain filthily in the dust. You may say it and know it in this way. If the step were not being taken, if the stumbling-forward ache were not alive, the bombs would not fall, the throats would not be cut. Fear the time when the bombs stop falling while the bombers live – for every bomb is proof that the spirit has not died. And fear the time when the strikes stop while the great owners live - for every little beaten strike is proof that the step is being taken. And this you can know - fear the time when Manself will not suffer and die for a concept, for this one quality is the foundation of Manself, and this one quality is man, distinctive in the universe.
Ég er búinn að þjást pest síðustu daga, en virðist á batavegi. Enn eimir þó af höfuðverk og mig verkjar í skrokknum. Hef því tekið því rólega heima. Einar færði mér þau gleðitíðindi að hljóðfræðiverkefninu á ekki að skila fyrr en 24. í stað 21. eins og upphaflega var. Þar sem ég þarf að skila þessu verkefni til að ná kúrsinum og ég þarf talsvert að vinna mig upp gefur þetta mér kærkomið svigrúm.
Ég er ánægður með einkunnina mína í Breskum bókmenntum; 9,5.
Þá er líka fyrr áfanganum lokið, efnið sem var til þessa prófs verður ekki til lokaprófsins, heldur verður einungis prófað í því sem á eftir fylgdi. Gilda prófin 50% hvort á móti öðru.
Þar til ég geng til náða hyggst ég lesa áfram í The Grapes of Wrath.
Jenný hefur klukkað mig. Er mér sýnt og skylt að bregðast við því og mun skella 5 staðreyndum í viðbót einhvern tíman þegar ég nenni.
mánudagur, október 17, 2005
sunnudagur, október 16, 2005
Þennan dag árið 1854 fæddist Oscar Wilde.
I like hearing myself talk. It's one of my greatest pleasures. I often have long conversations all by myself, and I'm so clever that sometimes I don't understand a single word of what I'm saying.
Varð mér þá einnig hugsað til eftirminnlegs samtals úr Blackadder. Edmund Blacadder getur átt yfir höfði sér dauðadóm og ætlar sér að fá Mattingbird, færasta lögmann Englands sem verjanda sinn. Minnist hann einnig færni Mattingbird sem saksóknara. Hér fylgir samtal Blackadder við fangavörð sinn:
Edmund: Yes, well, look at Oscar Wilde.
Perkins: Oh, butch, Oscar.
Edmund: A big, bearded, bonking, butch Oscar. The terror of the ladies. 114 illegitamate children, world heavyweight boxing champion, and author of the best-selling phamplet, "Why I Like To Do It With Girls". Mattingburg had him sent down for being a whoopsie.
laugardagur, október 15, 2005
fimmtudagur, október 13, 2005
miðvikudagur, október 12, 2005
The Lodger
Ég var að koma af afbragðs kvikmyndatónleikum í Háskólabíó. Sýnd var kvikmyndin Ther Lodger eftir meistara Alfred Hitchkock. Þetta er ein af fyrstu myndunum hans þögul kvikmynd og undir sýnilegum áhrifum frá þýska expressionismanum. Góð mynd, maður sér líka í henni mikið af því sem koma skal í seinni myndum Hitchcocks. Myndin gerist í London, hún er skuggaleg og myrk, þokukennt yfirbragð yfir borginni, gotnesk morðgáta. Thames brúin, Big Ben, allt hefur sín áhrif við að skapa stemmningu. Raðmorðingi gengur laus sem kallar sig The Avenger, og myrðir ljóshærðar stúlkur á hverju þriðjudagskvöldi. Honum er lýst sem hávöxnum manni sem skýlir neðri hluta andlitsins. Eitt kvöldið kemur hávaxinn maður á gistiheimili foreldra ungrar stúlku sem er ein aðalpersónan, hann var með neðri hluta andlitsins hulinn þegar hann stóð í dyrunum. Hann leigir herbergi og þykir ýmislegt grunsamlegt í fari hans. Áhorfandanum virðist hann einmana, einrænn, dularfullur, sérvitur, kvalinn og ástríðufullur, einn af þessum klassísku “trufluðu ensku herramönnum” og undarleg, jafnvel dularfull hegðun hans fer að vekja ótta og grunsemdir. Morðunum fjölgar. Gæti það verið hann?
Ég óttast að spilla myndinni fyrir þeim sem ekki hafa séð hana, ef ég segi meira frá söguþræðinum, enda eru hlutirnir ekki eins einfaldir og þeir virðast á yfirborðinu. Ég get þó sagt að þetta er áhrifamikil mynd. Persónusköpunin virkaði líka dýpra á mig þegar leið á myndina. Sjónarhornin eru oft afar flott og hugmyndarík, svo sem þokumökkurinn þegar leigjandinn stígur út úr myrkrinu fyrir utan í fyrsta sinn, ljós og skuggi, t.d. hvernig birtan af glugganum fellur skáhallt á vegginn eða atriðið þar sem leigjandinn læðist niður stigann um nóttina, og myndavélin myndar ofanfrá, og horfir niður stigann. Hátindurinn undir lokinn er líka ógleymanlegur.
Ég er kominn heill á húfi úr prófinu og tel nokkuð óhætt að segja að mér hafi gengið vel. Furða ég mig óneitanlega á því miðað við að ég hef ekki sofið meira en 5 tíma og er auk þess að jafnaði mesti purkur á morgnana. Er heim var komið lagði ég mig og náði að hvílast í nærri tvo tíma. Ég er byrjaður í ræktinni og skrapp þangað með föður mínum. Sá mér til ánægju Frank og Nönnu. Long time no see. Hef tekið deginum nokkuð rólega eftir það og hitti Mossa, Írisi og Dodda á kaffihúsi um kvöldið. Nú eru mín háleitu markmið að hreiðra um mig í sófa með tebolla og horfa annað hvort á heimildamyndina Don't Look Back um Bob Dylan eða aðra seríu af Blackadder.
Í gær, þegar ég sat við lestur barst til mín yndisleg tónlist úr útvarpinu sem yljaði mér um hjartarætur. Þetta var tónlist eftir Jórunni Viðar, ömmu mína, frá tónleikum í Skálholti í sumar, en þar hafði ég verið viðstaddur. Flutt voru tónverkin "Stóð ég við Öxará" við Ljóð Halldórs Laxness, "Hvítur hestur í tunglskini" við ljóð Steins Steinarrr, "Mamma ætlar að sofna" við ljóð Davíð Stefánsson, "Séð frá tungli" við ljóð Sjóns og "Mansöngur við Ólafsrímu Grænlendings. Af þessum verkum eiga "Stóð ég við Öxará" og "Séð frá tungli" enn eftir að koma út á geisladisk, auk þess sem "Ólafsríman" var flutt í upprunalegri útsetningu fyrir strengjasveit, en var útsett fyrir píanó á geisladisknum.
Séð frá tungli er tvímælalaust ein allra besta tónsmíð ömmu og ég er mjög hrifinn af ljóði Sjóns. Ég birti það við tækifæri, hef ekki aðgang að því eins og er.
mánudagur, október 10, 2005
Svo er gaman að segja frá því þegar ég sat heima og las "So We'll go no more a' roving" eftir Byron. Það er fallegt og rómantískt rökkurljóð og varð mér sterklega hugsað til manna eins og Nick Cave, Tom Waits og Leonard Cohen.
Í tímanum daginn eftir segir kennarinn minn, Anna Heiða, sem reynist mikill Cohen-aðdándi, okkur frá því að Cohen hafi einmitt samið lag við þetta ljóð. Er ég skyggn eða hvað?
Hún leyfir okkur að hlýða á lagið og þða er mjög fallegt, smellpassar við ljóðið, fangar sömu stemmningu og blæ og mögnuð bassarödd Cohens. Ég læt ljóðið fylgja hér:
So, we'll go no more a' roving
So late into the night,
Though the heart be still as loving,
And the moon be still as bright.
For the sword outwears its sheath,
And the soul wears out the breast,
And the heart must pause to breathe,
And love itself have rest.
Though the night was made for loving,
And the day returns too soon,
Yet we'll go no more a-roving
By the light of the moon
Próf á morgun í breskum bókmenntum. Ég er þokkalega lesinn, hef frumlesið öll skáldin, og glærur og er í annari yfirferð núna. Mðaur er eilítið smeykur við að muna nöfnin á öllum ljóðunum (spurningar verða að bera kennsl á ljóð og höfund og svo krossaspurningar) og óttast pínulítið að maður muni rugla einhverjum skáldum saman. Þó er maður fremur í rónni að prófið ku verða sanngjarnt, kennarinn mun ekkert reyna að húkka okkur og höfum við lesið ljóðin og glærur ættum við að vera vel stödd. Gott er að ekki verður kafað náið í þyngri verkin; Defence of Perty, Biographia Literaria og preface to Lyrical Ballads. Né heldur guðspeki Blakes. Þau verk geta verið nokkuð tyrfin og flókin, þó áhugaverð geti oft verið og brillíant.
Lesturinn er þó afar áhugaverður og skemmtilegur, flest ljóðin eru hrífandi, enda erum við að lesa fremstu rómantísku skáldin, og hefur verið vandað vel valið á efni. Við lesum William Blake, Robert Burns, William Wordsworth, Samuel Taylor Coleridge, Byron lávarð, Bercy Bysshe Shelley og John Keats.
föstudagur, október 07, 2005
NOTA BENE
Það er aukasýning í dag,föstudaginn 7. október á kvikmyndinni "What Remains of Us?" sem sýnd er á kvikmyndahátíðinni. Sjálfur sá ég hana um daginn. Þetta verður eflaust síðasta tækifærið til að sjá hana. Aðeins eru til þrjú eintök af myndinni, hún var bannfærð af kínverskum stjórnvöldum og öryggisverðir tryggja að enginn fari með mynd-eða hljóðupptökutæki í salinn, til að verja þá sem koma fram í henni.
Kvikmyndakonan Kelsung Dorma komst í samband við Dalai Lama, og tókst að smygla skilaboðum á myndbandi frá honum til þjóðar sinnar. Þessi mynd lýsir því ferðalagi, viðbrögðum fólksins og ástandinu í Tíbet undir blóðugu hernámi sem hefur staðið í 50 ár. Þetta er mögnuð mynd sem þið megið ekki missa af.
þriðjudagur, október 04, 2005
Málþing um mannréttindi í dag, þriðjudaginn 4. oktÍ tengslum við sýningu kvikmyndarinnar Zero Degrees of Separation á Kvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldið málþing um mannréttindi Þriðjudaginn 4. október með leikstjóra myndarinnar Ellen Flanders. Þar verður m.a. fjallað um friðarhreyfingar í Ísrael og Palestínu. Fundurinn verður haldinn í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna, Skaftahlíð 24 kl. 17:15-18:15.
Meira um kvikmyndina og aðrar myndir hátíðarinnar á http://www.filmfest.is/
Gengið framhjá kirkjugarði
Á kyrrlátu haustkvöldi
varð mér gengið framhjá gamla kirkjugarðinum
umkringdum steinvegg
dauft ljós frá luktunum
lýsti upp klappir og krossa
sem teygðu sig upp úr jörðinni
í náttmyrkrinu
grafir hinna framliðnu
undarlegt, hve myrkrið var meira þar en á himninum
utan birtuna sem á þá féll
sálnahliðið stendur upplýst í garðinum
klukkan er hljóð
ef til vill voru það trén og runnarnir
í myrkrinu glóði á roðið og gullið laufskrúðið
sem baðaði trén, kræklóttar greinarnar
í gegn um trjámyrkrið lýsti af ljósastaur
eins og stjörnu, þó grámóska væri á himni
og enn voru græn blöð vorsins
á tjám og runnum
í garði hinna framliðnu
þau munu glóa eða roðna
á farvegi lífsins
falla frá
og fæðast að vori.
laugardagur, október 01, 2005
Af umhverfisvernd og Jóakimum
Nú um daginn lauk ráðstefnu stóriðjufyrirtækja um rafskautaiðnað sem haldin var á Hótel Nordica. Fyrirhuguð verksmiðja í Hvalfirði á að álverksmiðjum landins fyrir rafskautum og mun hafa gífurlega mengun í för með sér. Þessu hefur verið mótmælt harðlega, en betur má, ef duga skal. Ísland hefur verið auglýst sem ódýr paradís fyrir þungaiðnað og sérhver virðist vera velkominn sem er tilbúinn að reisa nógu stórt eimyrjuspúandi skrímsli undir því yfirskyni að það skili hagnaði í þjóðarbúið. Og auðvitað á allt að heita umhverfisvænt. Mótmælendur þessa eru hins vegar álitnir hryðjuverkamenn og þaðan af verra.
Þetta fékk mig til að hugsa til myndasögu sem Carl Barks, helsti og mesti höfundur Andrésar Andar-sagnanna skrifaði 1961 og ýmsir kynnu að þekkja. Þetta er sagan af dverg-indíánunum, eða „In The land of The Pygmy Indians“, eins og hún heitir á frummálinu. Sú fallega og magnaða saga flytur sterkan boðskap og er fyrsta myndasagan til að vekja athygli á mikilvægi umhverfisverndar.
Í sögunni vill Jóakim flýja reykmengun og hávaða Andabæjar, þó það hafi nú verið hann sjálfur sem lét reisa flestar verksmiðjurnar. Hann kaupir því stórt ósnortið landsvæði norðan við Lake Superior af hinum feitum og subbulegum fasteignasala og heldur til landsins með Andrési og ungunum.
Það er grátbroslegt að í gegn um alla söguna kemst Jóakim ekki hjá því að sjá ríkidæmin sem felast í þem hráefnum sem finna má út um allt í hinu fagra og ósnortna landi og né getur hann komist hjá að hugleiða hvernig það myndi best nýtast til þungaiðnaðar. Ungarnir minna hann þá á hvað þessi hráefni gerðu Andabæ. Ekki líður á löngu fyrr en föruneytið okkar uppgötvar að landið er alls ekki óbyggt mönnum heldur býr þar ættflokkur dverg-indíána sem kærir sig ekki, fremur en dýrin á svæðinu, um að landinu verði rústað með stóriðju. Indíánarnir búa svo vel að geta talað við dýrin og mega félagar okkar sín lítils í þeirri baráttu enda indíánar og dýr sameinuð í vel skipulagðri baráttu gegn þeim. Loks eru þeir teknir til fanga og fær þá Jóakim að ræða við indíánahöfðingjann. Þá fylgir eftirminnilegt samtal, þar sem indíánahöfðinginn spyr Jóakim með hvaða rétti hann eigni sér þetta land, og hvort sólin, vindarnir og regnið eða eldingin hafi undirritað þetta skjal.
Jóakim svarar að fasteignasalinn Sidewalk Sam hafi gefið honum skjalið, og þar með sé hann lögmætur eigandi landsins. Indíánahöfðinginn segist eiga bágt með að trúa að fiskarnir, dýr skógarins eða fuglarnir, sem indíárnarnir álíta bræður sína, myndu virða slíkt skjal. Því enginn hafi rétt til að selja landið nema að allir bræðurnir myndu samþykkja það saman. Jóakim segist þá einmitt vilja vernda landið og hafa flúið heimkynni sín vegna mengunar og hávaða. Indíánarnir eru enn tortryggnir og verður Andrés að veiða tröllvaxna risageddu til að vinna traust þeirra. Það tekst með hjálp sterkra efna sem ungarnir kasta í kúlu í gin geddunnar. Þeir reykja þá friðarpípu með höfðingjanum og Jóakim lofar að halda vötnunum hreinum og skógunum grænum.
30 árum seinna gerði myndasöguhöfundurinn Keno Don Rosa sjálfstætt framhald þessarar sögu. Þar hefur Jóakim vissulega reist verndarsvæði fyrir indíánana, en pappírsmyllan sem hann hefur byggt flytur til skóglendisins eiturefni sem breytist í súrt regn og veldur því að trén visna. Sterk eiturefni fara beint í fljótið og það berst síðan í vötnin á leið til hafsins. Dverg-indíánarnir taka Jóakim gísl því þeir segja hann hafa brotið loforð sitt. Jóakim verða ljós hin skaðlegu áhrif myllunnar og segist þá munu loka pappírsmyllunni. Kemur þá til stríðs milli verkstjórans, sem þykist ekki trúa yfirlýsingunni frá Jóakim, og dýranna á svæðinu, sem safna liði til að eyðileggja mylluna. Verkstjórinn er nefnilega genginn af göflunum í græðgi sinni, því hann kærir sig ekkert um að fá Jóakim aftur, heldur vill hann sjálfur yfirtaka mylluna. Dýrin sigra að lokum en fórnarkostnaðurinn er mikill. Vegna skógarbruna og eiturefna sem verkstjórinn leysti úr læðingi þá verður landsvæðið dautt í tuttugu ár.
Jóakim segist hefðu getað hindrað þetta ef honum hefði verið sleppt og að móðir náttúra hafi engan rétt til að taka eign hans af honum. Indíánahöfðinginn spyr þá Jóakim hver hafi veitt honum ríkidæmi sitt? Hvort það hafi verið maðurinn sem fyllti fjöll og hæðir með góðmálmum, hafi komið olíunni fyrir í jörðunni eða plantað fornum trjám sem menn nú nýta til kolavinnslu? Hann segir Jóakim að hann skuldi náttúrunni þakkir fyrir velmegun sinni og þennan dag hafi náttúran tekið eilítið brot af henni til baka.
Ég vona að þessar sögur verði fólki til umhugsunar, því margt má læra af þeim. Ef við stöndum ekki vörð um náttúruna, þá verður einn daginn ekkert eftir af ósnortnum svæðum og friðlöndin munu deyja. Stóriðjustefna stjórnvalda hefur nú þegar leitt af sér Kárahnjúkavirkjun og er vel á veg komin með að rústa einu af síðustu stóru ósnortnu landsvæðunum í Vestur-Evrópu. Álverið á Reyðarfirði mun framleiða 320.000 tonn af áli árlega. Menn geta rétt ímyndað sér hversu mikið slík verksmiðja mun þá menga. Fyrirhuguð rafskautaverksmiðja í Hvalfirði mun menga á við þriðjung bílaflota landsmanna. Framkvæmdir stjórnvalda stefna einnig Þjórsárverum í hættu. Hluti Þjórsárvera er friðland , verndað af Ramsar-sáttmálanum. Nú þegar hefur 40% vatns verið veitt burt af svæðinu, en vatnið er lífæð Þjórsárvera. Jóakimarnir í ríkisstjórn og stóriðju halda því samt fram að framkvæmdir þeirra muni ekki skaða friðlandið og að áhrif stóriðjustefnu þeirra hafi lítilfjörleg áhrif á náttúruna. Minnir þetta einhvern á pappírsmylluna? Síðast en ekki síst virðist vera einróma samþykki að horfa framhjá hættunni sem skapast þegar rafskautaverksmiðjan í Hvalfirði mun skila meira af krabbameinsvaldandi eiturefnum út í andrúmsloftið heldur en hefur nokkru sinni áður þekkst hérlendis.
Ef svo fer sem horfir verður Faxaflói eitt mengaðasta svæði í N-Evrópu. Gífurlegu fé hefur verið dælt í þetta apparat og sér ekki fyrir endann á því.
Þeir sem græða eru erlendu fyrirtækin. Náttúran og komandi kynslóðir gjalda mest. Ef við verndum ekki náttúruna er ekki einungis úti um hana heldur okkur öll.
Er þetta það sem við viljum? Við, sem hreykjum okkur alltaf af fallegri og ósnortinni náttúru okkar, fersku vatni og hreinu lofti? Á sama tíma erum við að bjóða upp á að landið okkar verði fyrir óbætanlegum umhverfisspjöllum. Ef ekki verður spornað við þessu þá nær það fram að ganga. Og það verður einungis upphafið. Verði ekki brugðist við strax, þá verður það of seint. Þá verður ekkert eftir af fallegu ósnortnu landi, fersku lofti eða hreinu vatni.
föstudagur, september 30, 2005
Klukk, stund sannleikans er runnin upp (og lesendur bíða með öndina í hálsinum)
Doddalingur klukkaði mig. Jamm, maður var farinn að halda að maður yrði skilinn útundan í klukkæðinu sem hefur tröllriðið bloggheimunum. Það mun eiga að nefna 5 staðreyndir um sjálfan sig, helst persónulegar. ég hef bætt um betur og nefni 8 (brave or what?!) ;). Þær eru mispersónulegar en flestar held ég að séu síður á allra vitorði. Dæmi svo hver fyrir sig hversu safaríkt þetta þykir.
1)
Don't cry
Don't raise your eye
It's only teenage wasteland (The Who)
Ég hef, ótrúlegt en satt, ekki alltaf þótt eins überkúl og kynæsandi og ég er í dag (in my mind!). Mér var strítt í gegn um barnaskóla og í gaggó. Átti ca. 2-3 vini´í Vesturbæjarskóla, þar af höfum við Doddi verið bestu vinir í 12 ár. Ég var lagður í einelti í Hagaskóla. Þeir sem ekki stríddu manni skildu mann út undan eða sóttust ekki eftir að umgangast mann. Það skánaði í níunda og tíunda bekk, ég fór að sækja Frostaskjól og vingaðist við fólkið sem þar starfaði. Það er samt spurning hvort hægt sé að tala um að ég hafi eignast raunverulega vini í Hagaskóla. Í besta falli félaga, kunningja. Ég var alltaf utanveltu og hornreka. Doddi var þá fluttur og kominn í annan skóla, en við hittumst eftir megni.
Svo kom MR. Maður fór þá líka að byggja sig upp.
Maður getur alltaf byggt sig upp og bætt sig, en um leið verður maður að vera maður sjálfur.
Í MR var maður viðurkenndur, og gat fengið að vera maður sjálfur án þess að verða fyrir aðkasti fyrir það eitt. Allir voru auðvitað að taka út þroska, og voru viðmótsþýðari, jákvæðari og málefnalegri fyrir vikið. Varð það eins með mig. Þar kynntist ég mörgu góðu fólki. Ásamt bekkjarfélögum held ég að stór vendipunktur í félagslífinu hafi verið að ég fór í Herranótt og kórinn. Flestir mínir félagar úr MR voru þar. Maður eignaðist góða vini, félaga og kunningja. Auk þess kynntist ég Kidda og Möggu í Hallanum, og yndislegra fólki getur maður varla kynnst. Ýmsir segja að menntaskólaárin séu bestu árin manns.Ég get að mörgu leiti tekið undir það. Margar af mínum bestu minningum eru úr MR. Atburðir eins og Krítarferðin, tolleringin, Morfís og gangaslagurinn líður engum úr minni sem það hefur upplifað. Kennararnir í MR ekki heldur. Kór-og herranæturstarfið, partýin, ferðirnar..., dimmisssio.... Starfið í listafélaginu var líka skemmtilegt og lærdómsríkt að ógleymdu Fiðluballinu, sem er tvímælalaust skemmtilegasta ball sem ég hef farið á á allri skólagöngunni í MR.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar. Hvað gamla eineltið varðar, þá rakst ég um daginn á ónefndan fyrrum skólafélaga úr Hagaskóla. Hafði hann verið duglegur í að hafa mig að skotspón í skóla, án þess að vera sá versti. Hann heilsaði mér og bað mig fyrirfram afsökunar á hvernig hann hefði komið fram við mig í Hagaskóla. Sagði hann að ef það væri eitthvað sem hann gæti gert til að bæta mér þetta upp þá skyldi ég láta hann vita, hvenær sem væri. Mér datt ekkert í hug, sagði honum að hafa ekki áhyggjur af þessu.Ég var djúpt snortinn af þessu. Auðvitað fyrirgaf ég honum. Hann hafði sýnt það hugrekki og drengileik að biðja mig óumbeðinn afsökunar. Það væri óskandi að fleiri sýndu slíkan drengskap.
2)Ég held að ég gæti ekki lifað án tónlistar. Ég er gífulegur tónlistarunnandi og hrífst algjörlega af tónlist sem höfðar til mín. Tónlist er enda sú list sem nær beinast til tilfinninga manns. Ég ólst upp við klassíska tónlist, Jórunn systir spilaði svo fyrir okkur bræðuna popptónlist þegar hún fór me ðokkur í bíltúr, ég fór að fíla þungarokk í gegn um Véstein ogThe Friday Rockshow á VH1. Tommy Vance var skilgreiningin á svalleika. Ýmsir aðrir höfðu svo áhrif, maður fór að viða meira að sér og nú er svo komið að mér líkar flestar tónlistarstefnur. Ekki svo að segja að ég gleypi við hverju sem er, get verið helvíti selektívur. Fer meira eftir hljómsveitum, flytjendum og lögum. Lágmarkskrafa er melódía. Þannig hef ég t.d. aldrei geta fílað hardkor að ráði. Ég hef næmt tóneyra og greyni t.d. hljóðfæri í sundur við hlustun og man lög nákvæmlega eins og ég heyri þau. Mér hefur hins vegar aldrei tekist almennilega að læra nótur. ég hef verið í nokkrum kórum og hef unun að því að syngja. Stend mig oft að því að syngja þegar ég hef haldið að enginn væri nálægur. Syng líka oft í sturtu. Sérlega neyðarlegt ef maður er úti á gangi og heldur að maður sé einn, er með lag í höfðinu, byrjar að humma uns maður beljar hvellum rómi: IT’S THE EYYYEE OF THE TIGER, IT’S THE THRILL OF THE FIGHT!!! Uppgötvar svo að maður var ekki einn á götunni og gerir sig að fífli.
3) Ég er yngstur af 5 systkinum. Það vita ekki margir að ég átti annan bróður, Einar Véstein, sem lést 5 ára í bílslysi áður en við Vésteinn fæddumst. Við bræður heitum í höfuðið á honum. Eins vita fæstir að ég á hálfsystur. Hún heitir Arnhildur, og er 39ára. Dóttir pabba. Hingað til höfum við ekki hist oft, jafnvel liðið ár á milli, en höfum nýverið verið að bæta úr því. Arnhildur er afskaplega góð og skemmtileg systir og því um að gera að halda sambandi. Auk þess er Jórunn systir mín, 36 ára og Vésteinn bróðir minn sem er 24 ára (1980-módel).
4) Ég á bangsa, sem hvílir í rúminu mínu. Hann gaf Mossi mér í jólagjöf, og hefur hann komið í góðar þarfir, hehe. Þar eð Mossi og Íris krússímússast talsvert þegar maður er með þeim (og eflaust meira þegar maður er ekki með þeim ;) fékk bangsinn nafnið Mússi.
Hvað bangsa varðar, þá voru fyrstu bangsarnir sem ég eignaðist hundar. Stórisnati og Litlisnati. Eftir það hétu nánast allir bangsarnir mínir einhverju nafni sem endaði á –snati. Jafnvel Bangsasnati. Ég var afar frumlegur í nafngiftum, þegar ég var lítill.
5) Ég hef varla verið mikið eldri en 5 ára gamall samdi ég mitt fyrsta leikrit. Það hét Ríkharður konungur. Fékk ég nokkra aðstoð hjá föður mínum og bróður við tæknilega útfærslu leikritsins, man t.d. ekki eftir að ég hafi kunnað að lesa og skrifa þegar þetta var. Í stystu máli er Ríkharður Englandskonungur á siglingu, í leit að Íslandi, sem hann hafði heyrt getið, ásamt Ármóði, þræl sínum. 3 norskir njósnar brugga launráð og segja Noregskonungi frá. Birtist hann þá og ætlar að hindra framgöngu Ríkharðs. Ríkharður hneppir Noregskonung í fangelsi. Lýkur þá sögunni.
-Segið svo að maður hafi ekki verið bráðþroska barn.
6) Ég er eflaust yngsti Íslendingurinn til að hafa klifið Bjarnarfellsskriður. Þær voru áður sagðar ófærar mönnum en þó hefur faðir minn verið leiðsögumaður í Fjörðum á hverju ári og þá farið þessar ferðir, ergo: ef maður er vel útbúinn, í góðum hóp og fótviss, e r fremur séns að maður geti farið þar um. Ég var níu ára þegar ég fór fyrst Bjarnarfellsskriður.
7) The Who er eflaust uppáhalds rokkhljómsveitin mín.
8) One more for the road. Mér þykir iðulega illa lyktandi matur góður. Ég er vitlaus í hvítlauk, gráðost og hákarl. Merkilegt, hvað daunillur matur getur verið góður. Ég er einnig mjög sólginn í þorramat. Mysa hefur mér hins vegar aldrei þótt góð.
That’s all folks. Kannski eitthvað fleira seinna. :)
Ég klukka Möggu, Atla, Snæbjörn, Mossa og Helga.
miðvikudagur, september 28, 2005
Masters of War (Bob Dylan)
Come you masters of war
You that build all the guns
You that build the death planes
You that build the big bombs
You that hide behind walls
You that hide behind desks
I just want you to know
I can see through your masks
You that never done nothin'
But build to destroy
You play with my world
Like it's your little toy
You put a gun in my hand
And you hide from my eyes
And you turn and run farther
When the fast bullets fly
Like Judas of old
You lie and deceive
A world war can be won
You want me to believe
But I see through your eyes
And I see through your brain
Like I see through the water
That runs down my drain
You fasten the triggers
For the others to fire
Then you set back and watch
When the death count gets higher
You hide in your mansion
As young people's blood
Flows out of their bodies
And is buried in the mud
You've thrown the worst fear
That can ever be hurled
Fear to bring children
Into the world
For threatening my baby
Unborn and unnamed
You ain't worth the blood
That runs in your veins
How much do I know
To talk out of turn
You might say that I'm young
You might say I'm unlearned
But there's one thing I know
Though I'm younger than you
Even Jesus would never
Forgive what you do
Let me ask you one question
Is your money that good
Will it buy you forgiveness
Do you think that it could
I think you will find
When your death takes its toll
All the money you made
Will never buy back your soul
And I hope that you die
And your death'll come soon
I will follow your casket
In the pale afternoon
And I'll watch while you're lowered
Down to your deathbed
And I'll stand o'er your grave
'Til I'm sure that you're dead
mánudagur, september 26, 2005
Í gær, þegar ég leit í spegil, rann upp fyrir mér að ef ég safnaði yfirskeggi og hökutoppi væri ég ekki svo ósvipaður Trotsky í útliti.
Heimspekilegar og tilvistarlegar vangaveltur mínar um daginn leiddu mig einnig að eftirfarandi niðurstöðu. Það má segja að ég sé ein heild. En eins má segja að ég skiptist í nokkra hluta, eða sjálf. Það er minn innri maður, hið andlega og svo er hið líkamlega. Auk þess á ég mér rafrænt sjálf sem lifir sjálfstæðu lífi á þessu bloggi. Ergo: Ég er þríeinn.
Í gær, þegar ég leit í spegil, rann upp fyrir mér að ef ég safnaði yfirskeggi og hökutoppi væri ég ekki svo ósvipaður Trotský í útliti.
Heimspekilegar og tilvistarlegar vangaveltur mínar um daginn leiddu mig einnig að eftirfarandi niðurstöðu. Ef það má segja að ég sé ein heild þá má eins til sanns vegar færa að ég skiptist í hluta, eða sjálf sem mynda þessa heild. Það er minn innri maður, hið andlega og svo er hið líkamlega. Auk þess á ég mér rafrænt sjálf sem lifir sjálfstæðu lífi í blogginu mínu. Ergo: Ég er þríeinn.
sunnudagur, september 25, 2005
Lag dagsins: „The Loom of the Land“ með Nick Cave And The Bad Seeds. Gullfalleg og rómatínsk rökkurballaða sem mér finnst flottasta lagið á Henry's Dream og tvímælalaust eitt allra flottasta lag þeirra. öll platan er annars fantagóð. Sérlega gott að hlusta á þetta lag við kertaljós þegar myrkrið er skollið á, á stjörnubjartri nótt.
Planið næstu klukkutímanna er að leggjast til svefns og hrjóta eins og sögunarverksmiðja í Brasilíu.
Palestínsku samtökin Al-Aqsa Martyrs segja að vopnahé milli Ísarelsmanna og Palestínumanna sé lokið , í kjölfar loftárásar Ísraelshers á Gaza. Ég vona og bið að það muni ekki verða að veruleika. Ef menn ná ekki gagnkvæmum sáttum, sem myndi þýða að báðir legðu niður vopn og að Ísraelsher bakki frá Vesturbakkanum, óttast ég að ný intifada breiðist út.
laugardagur, september 24, 2005
NB: Afsakið misskilninginn með frumsýninguna á Corpse Bride. Dagsetninginn sem ég nefndi var frumsýning í Bandaríkjunum. Ég veit ekki hvenær hún verður frumsýnd hér heima, en það er vonandi ekki langt í það.
Mamma er kominn heim frá Englandi. Gaman að því. Úti keypti hún kvikmyndina Metropolis eftir Fritz Lang frá 1927. Þessi sígilda mynd er eitt helsta meistaraverk kvikmyndasögunnar. Eins keypti hún La Rêgle du jeu eftir Jean Renoir. Ég hef ekki séð hana enn en líst mjög vel á hana. Loks keypti mamma Henry's Dream með Nick Cave and the Bad Seeds. Það er góð plata.
Jórunn systir mín hefur búið í nokkur ár í Svíþjóð ásamt Arnari mági mínum og Börnum þeirra, Valla og Katrínu. Það er því sérlega ánægjulegt að þau séu núna flutt heim.
Lag dagsins: Papa won't Leave you, Henry með Nick Cave and the Bad Seeds
fimmtudagur, september 22, 2005
Á morgun verður nýja myndin hans Tim Burton; Corpse Bride frumsýnd. 19-aldar gotneskt rómantík, virðist ætla að verða bæði tragísk og gamasöm. Þetta er brúðumynd með tækni a la The Nightmae Before Christmas, stop-motion tekník. Hún er í svipuðum anda og Edward Scissorhands, Sleepy Hollow og The Nightmare before Christmas. Johnny Depp og Helena Bonham Carter ljá aðalpersónunum raddir sínar. Með öðrum orðum; meistari Burton að gera það sem hann gerir best. Og engir apar, hehe! Djöfull hlakka ég til að sjá hana. Trailerinn má nálgast Hér er trailer. Lofar góðu. :)
Annað gott; 29. september hefst Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Sama dag setur Nemendaleikhúsið upp sýninguna Forðist okkur, eftir Hugleik Dagsson. Góð tíð í vændum.
mánudagur, september 19, 2005
Gamli góði Uri Avnery varð 82ggja ára um daginn. Ég óska honum til hamingju með það. Ég hef alltaf borið mikla viðingu fyrir Avnery, og hann er eftirlætis dálkahöfundurinn minn. Meistari Avnery er enn virkur aktívisti þrátt fyrir háan aldur, hann hefur aldrei látið undan síga í baráttu fyrir friði milli Palestínumanna og Ísraela, sem hann hefur varið þorra lífs síns í. Nýjasta grein hans nefnist Who murdered Arafat Hér veltir hann fyrir sér vafasömum opinberum skýringum á fráfalli Arafats, að enginn fótur virðist vera fyrir þeirri staðhæfingu að Arafat hafi látist úr alnæmi, (eins og dagblöðin vilja öll ýja að) heldur bendi öll einkenni til þess sama, að honum hafi verið byrlað eitur. Hann veltir fyrir sér hverjir kynnu að hafa staðið að slíku morði og hverjir myndu hafa hagnast á því.
Í seinni greininni í dálkinum fjallar hann um för sína og friðaraktívista til þorpsins Bil’in á Vesturbakkanum. Þar hefur verið vikuleg mótmælaganga gegn aðskilnaðarmúrnum, sem sölsar til sín gífurlegan hluta lands frá palestínumönnum og skiptir þorpinu í tvennt. Ísraelsher hertók Bi’lin, bannaði mótmælagönguna, girti af svæðið og setti á útgöngubann. Þrátt fyrir það hafa mótmæli farið fram, 200 manna hópurinn sem Avnery var þátttakandi í, komst til Bi’lin en urðu fyrir barðinu á harkalegu ofbeldi af hálfu hermanna.
Á Heimasíðu Gush Shalom er einnig sagt frá því að Gush Shalom bauð hollenska píanómeistaranum Jacob Allegro Wegloop að koma til til Bil’in og leika fyrir friði og á móti hernáminu. Hafði hann áður fengið hugmyndina um að leika fyrir friði í Ísrael. Wegloop Hann er langtíma stuðningsmaður Gush Shalom. Hann lék tónverk eftir Bach og Chopin og fólk þyrptist að til að fylgjast með. Þetta hefur verið áhrifaríkt og mér þykir þetta mjög falleg leið til að lýsa afstöðu og sýna málefni stuðning.
mánudagur, september 12, 2005
Í myrkri Edengarðsins
fann ég þig liggjandi
stúlkuna undir klöppinni
ég þurfti að kafa í dýpstu iður
uns ég fann þig
vanginn þinn var fölbleikur
og ég vildi ferma hvíta höndina
hún var ísköld og mjúk á yfirborðinu
en hörð að innan, eins og þú sjálf
og innst inni varstu tóm
þú starðir á mig tómu augnaráði
brostir til mín, frosnu brosi
svo tennurnar lýstu í myrkrinu
og ég fylltist náhrolli
og illur daunn steig upp og fyllti vit mín
gat verið að ég hefði vakið þig af Þyrnirósarsvefninum
eftir fegurðarblund í hundrað ár?
Ég flúði í dauðans ofboði
nú geng ég milli stofanna
og sérfræðingar telja mig stórfenglegt viðfangsefni
en enn man ég nafn þitt;
Nekrófilía
sunnudagur, september 11, 2005
Bókmenntahátíð
Nú er bókmenntahátíð hafin í Reykjavík. Er það vel. Þá verð ég eins og lítið barn í sælgætisverslun. Ég elska að fara á bókmenntahátíðina og góða upplestra yfirleitt, og finnst hreinasta unun að sitja um kvöld í Iðnó og hlýða á þetta mikla andans fólk, margir þeirra meðal fremstu rithöfunda í dag, lesa úr verkum sínum. Maður hrífst með, það er eitthvað sem talar til manns, hugmyndaflugið og hughrifin fara af stað, innlifun og samkennd, þegar best lætur og maður fyllist einhverjum innbæstri. Svo er annað mál hvort maður getur nýtt hann. Oft finnst manni eitthvað bergmála frá manni sjálfum, eða umhverfi sem maður kannast við, og maður óskar þess að geta tjáð hugmyndir sínar og tilfinningar á jafn áhrifamikinn hátt. Já, mér þætti gott að vera rithöfundur eða ljóðskáld en veit að ef það yrði einhvern tíman, yrði ég eflaust sjálfur harðasti gagnrýnandinn á verk mín. Það rifjast einnig upp fyrir mér þegar við pabbi sáum Seamus Heaney og Liam O’Flynn í fyrra, það var sannarlega áhrifamikil stund. Skemmtilegt um hversu auðugan og fjölbreyttan garð er að grisja, en oftast hefur hver höfundur eitthvað að segja manni Í kvöld hlýddi ég á Javier Cercas lesa úr Stríðsmönnum Salamis, Vilborgu Dagbjartsdóttur, sem las úr ljóðabók sinni, Fiskar hafa enga rödd, Ólafur Gunnarsson las úr Tröllakirkju, Margaret Atwood las ljóð og prósa og Karin Wahlberg las úr skáldsögu sinni sem ég því miður veit ekki hvað heitir. Eftir upplesturinn keypti ég mér Stríðsmenn Salamis og Fiskar hafa enga rödd og fékk þær áritaðar. ég hlakka til að hefja lestur þeirra. Ég er staðráðinn í að reyna að komast á jafn marga viðburði og ég get, á meðan á hátíðinni stendur.
Einhverntíman tuttugasta hefst svo Kvikmyndahátíð í Reykjavík. Ég er þegar orðinn afar spenntur fyrir henni. Ef ég þekki sjálfan mig rétt, mun ég eflaust setjast að í bíóinu. Svefn? Hver þarf svefn? Í bland við myndirnar er svo gaman ef leikstjórar og leikarar ræða við áhorfendur um verkin og svara spurningum áhorfenda.
Hvað bíó áhrærir langar mig núna bæði að sjá Broken Flowers og Charlie and the Chocolate Factory. Bæíið líka í eftirvæntingu eftir The Corpse’s Bride. Þá gæti ég vel hugsað mér að sjá Narníu-myndina þegar hún kemur, enda hef ég lesið allar bækrunar og hef verið aðdáandi frá unga aldri. Loks hlakka ég sérlega til að sjá Bjófskviðu, þegar hún kemur. Búinn að sjá stutt myndbrot og þau voru vægast sagt flott.
laugardagur, september 10, 2005
föstudagur, september 09, 2005
fimmtudagur, september 08, 2005
Ég er núna búinn með ca. einn fjórða af The Grapes of Wrath, eftir John Steinbeck. Það er góð bók og mér líkar þeim mun betur við hana sem á líður. Ég er svo sem ekki viss um að ég væri tilbúinn að mæla með henni fyrir alla. Sagan er ekkert léttmeti,getur virkað dálítið þung á köflum, ég var dálítinn tíma að komast inn í hana og stundum þarf maður að hafa sig við að halda þræði og beita ímyndunaraflinu. Á það sérlega við ef hún er lesin á ensku. Stíll Steinbecks er mjög sérstakur og kannski ekki við allra hæfi. Hann lýsir öllu af mjög mikilli nákvæmni, frá umhverfi til útlits fólksins en hægt og hægt fær maður sympatíu með fólkinu og atburðunum. Einnig er bygging kaflanna nokkuð mismunandi eftir því hvað hann tekur fyrir, bæði að lengd og formi. Það verður ekkki annað sagt að hann reyni að varpa eins fjölbreyttri og greinagóðri mynd af ástandinu, umhverfinu og fólkinu og auðið er. Hann tengir líka stóra atburði við einstaklinginn. Það er mikil ádeila og reiði í bókinni í bókinni en einnig finnur maður fyrir húmanisma og mikilvægi samstöðu. Fyrir þá sem ekki þekkja gerist þessi bók á kreppuárunum og lýsir því þegar uppskerubrestur verður í Oklahóma og eigendur landsins, bankar og lánastofnanir rústa húsum ábúendanna, reka þá af landinu og senda á vonarvöl. Samhliða heildarmyndinni rekur Steinbeck sögu einnar fjölskyldunnar, Joad-fjölskyldunnar auk fyrrum prestisins, Jim Casy. Allt fólkið neyðist til að selja búslóðina fyrir notaða bílgarma og leggur í langferð um þjóðveg 66 til Kaliforníu, þar sem er búið að lofa gulli og grænum skógum. ég birti hér klausu sem mér fannst afar áhrifarík, eftir að fólkið hefur, með blæðandi hjarta þurft að selja allt sem það átti:
Maybe we can start again in the new rich land – in California, where the fruit grows. We’ll start over.
But you can’t start. Only a baby can start. You and me – why, we’re all that’s been. The anger of a moment, the thousand pictures, that’s us. This land, this red land, is us; and the flood years and the draught years and the dust years are us. We can’t start again. The bitterness we sold to the junk man – he got it all right, but we have it still. And when the owner men told us to go, that’s us; and when the tractor hit the house; that’s us until we’re dead. To California or any place – every one a drum major leading a parade of hurts, marching with our bitterness. And some day – the armies of bitterness will all be going the same way. And they’ll all walk together and there will be a dead terror from it.
Faðir minn skrifaði góða grein um fyrirhugaðar framkvæmdir við byggingu Siglufjarðarganga í gegn um Héðinsfjörð, og birtist hún í umræðunni á bls. 40 í Morgunblaðinu, laugardaginn 3. september. Hann bendir á að fyrir helming þess fés sem nú á að verja í göng gegn um Héðinsfjörð mætti leggja göng undir Siglufjarðarskarð. Fyrir sama fé mætti svo leggja göng gegn um Siglufjarðarskarð og önnur í gegn um Vaðlaheiði, eins og hann leggur til. Hann minnist einnig á framtíðarvonir Siglufjarðar, en atvinnuvegur er ótryggur vegna snjóflóðahættu. Auk þess sem fyrirhuguð göng gegn um Héðinsfjörð myndu raska friðsæld Héðinsfjarðar og Hvanndala bendir pabbi á sérstöðu þessara staða staðanna og einstaka mannlífssögu.
miðvikudagur, september 07, 2005
Nú hef ég kippt letri síðunnar aftur í lag, skellt teljaranum inn og er aftur kominn með haloscan-kommentakerfi. Öll gömlu kommentin þurrkuðust því miður út. Mér þykir sálfum fyrir því og bið lesendur afsökunar. Ég veit ekki afhverju þetta bölvaða drasl þarf alltaf að þurrka út gömul komment við template-breytingar. Hvimleiður andskoti. En ég er hvort sem er ekki að fara að breyta kommentakerfinu aftur, svo tjáið ykkur að vild. Ég þakka bróður mínum fyrir hjálpina.
Davíð Oddson er búinn að segja af sér og er hættur í stjórnmálum. Það er aldeilis. Nú er ég síður en svo mikill fylgismaður hans, en vissulega undarlegtilfinning að hann sé að hætta. Hann hefur verið ráðherra frá því að maður var patti og verið í stjórmálum þarna frá því áður en maður man eftir sér eða var fæddur. Misjafn ferill með góðu og slæmu, eins og gerist á löngum ferli. Ég fer ekki að mér finnst gott að hann sé ekki lengur í stjórn í ljósi margra ákvarðanna og stefnu sem hann og fyrrum ríkisstjórn hans hafa haldið á lofti og ég er aldeilis andsnúinn. Það er einnig tímabært. Hann hefur setið lengi við völd. Hann og Halldór hefðu raunar átt að sjá sóma sinn í að segja af sér eftir að upplýst var að þeir höfðu blekkt þjóðina þegar þeir skýrðu frá hvernig staðið var að stuðningnum við stríðið í Írak. Maður spyr sig samt líka hvað taki við. Hvernig munu íslensk stjórmál líta út eftir breytta ráðherrastöðu, nýjan formann Sjálfstæðisflokksins og hvernig og hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni standast þetta. Davíð hefur verið andlit þessa flokks og óskoraður leiðtogi í áraraðir. Hann hefur orðið samnefnari fyrir flokkinn, hvort maður fílar flokkinn hefur mikið verið tengt hvort maður fíli Davíð og hefur það bæði náð til hans sem stjórnmálamanns og persónu hans. Hann hefur verið allt í öllu í flokknum og sameiningartákn í margra augum. Hann er umdeildasti stjórmálamaður á Íslandi og sá sem hefur verið lengst í stjórn. Hvað sem mönnum finnst um hann verður ekki af honum skafið að hann kann (oftast nær) að koma fyrir og hefur sinn sjarma. Sjarma sem mér finnst t.d. núverandi forsætisráðherra ekki búa yfir. Hvað nýja stöðu hans sem bankastjóra varðar, get ég ekki sagt að það komi mér sérlega á óvart. Bankastjórar koma iðulega úrt röðum þingmanna og mætti segja að kerfið sjái um sína. Eins settist hann ekkert í helgan stein eftir að hann sagðist ætla að hætta sem forsætisráðherra. Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldinu. Maður vonar að ástandið muni fremur batna en vernsa en veit svo sem ekkert enn. Það er bara að bíða og sjá. Alla vegana fram að næstu kosningum.