mánudagur, nóvember 21, 2005

White Stripes


Fór með Dodda á tónleika White Stripes í Laugardagshöll í gær. Þeir tónleikar voru æðislegir.
Jakobínarína hituðu upp og voru fínir. Maður fékk svona síð-sjöunda áratugar fíling, minnti mig um margt á pönkrokkbönd sem voru að spila í Englandi á þeim tíma, ekki síst Clash, snemma á ferlinum, sviðsframkoma söngvarans var einnig í stíl við það. Á meðan við svo biðum eftir bandinu hljómuðu fín lög í græjunum, afar ánægður að heyra “Summertime Blues” með Blue Cheer.
Ég er nýgræðingur í aðdáun á sveitinni, var nýbúinn að eignast Get Behind Me Satan og hafði heyrt stök lög að auki. Hafði fílað allt það sem ég hafði heyrt. Eftir þessa tónleika er ég endanlega frelsaður. Maður furðar sig enn fremur á að önnur eins tónlist geti komið frá tveimur manneskjum. Þetta líka fallega, kröftuga og fjöruga rokk. Engin smávegis orka í bandinu! Innlifunin, gleðin, hressleikinn, fjörið! Jack White fór hamförum á gítarinn. Það er kannski klisja, en þessir tónleikar rokkuðu feitt. Bandið greinlega að fíla sig í botn og áhorfendur sömuleiðis. Jack er einnig góður píanóleikari. Og góður lagasmiður er hann. Vægast sagt hæfileikaríkur drengur, það ætti ekki að dyljast neinum. Erfitt að nefna einn hápunkt en ég var kannski hrifnastur af því þegar þau tóku „Jolene“ eftir Dolly Parton. Jack hefur líka mikinn sjarma og þau bæði. Meg er flottur og dýnamískur trommari og býr yfir alveg sérstökum þokka, hún er tignarleg. Skemmtilegt hvernig maður greinir áhrif héðan og þaðan í tónlistinni, en samt hafa þau alveg eiginn hljóm. Stemmningin var öflug enda tónlistin mjög grípandi. Meg og Jack voru klöppuð upp í aukalög með gífurlegu klappi, hrópum og stappi. Eftir að tónleikunum lauk hljómaði „Loving Cup“ með Rolling Stones í hátölurunum. Punkturinn yfir i-ið á frábæru kvöldi. Ef eitthvað var saknaði ég eilítið að heyra ekki „Take,take,take“ sem er eitt uppáhaldslagið mitt með White Stripes, en það er nú sparðatíningur. Nú mun ég leggjast í massíf diskakaup.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.