Af umhverfisvernd og Jóakimum
Nú um daginn lauk ráðstefnu stóriðjufyrirtækja um rafskautaiðnað sem haldin var á Hótel Nordica. Fyrirhuguð verksmiðja í Hvalfirði á að álverksmiðjum landins fyrir rafskautum og mun hafa gífurlega mengun í för með sér. Þessu hefur verið mótmælt harðlega, en betur má, ef duga skal. Ísland hefur verið auglýst sem ódýr paradís fyrir þungaiðnað og sérhver virðist vera velkominn sem er tilbúinn að reisa nógu stórt eimyrjuspúandi skrímsli undir því yfirskyni að það skili hagnaði í þjóðarbúið. Og auðvitað á allt að heita umhverfisvænt. Mótmælendur þessa eru hins vegar álitnir hryðjuverkamenn og þaðan af verra.
Þetta fékk mig til að hugsa til myndasögu sem Carl Barks, helsti og mesti höfundur Andrésar Andar-sagnanna skrifaði 1961 og ýmsir kynnu að þekkja. Þetta er sagan af dverg-indíánunum, eða „In The land of The Pygmy Indians“, eins og hún heitir á frummálinu. Sú fallega og magnaða saga flytur sterkan boðskap og er fyrsta myndasagan til að vekja athygli á mikilvægi umhverfisverndar.
Í sögunni vill Jóakim flýja reykmengun og hávaða Andabæjar, þó það hafi nú verið hann sjálfur sem lét reisa flestar verksmiðjurnar. Hann kaupir því stórt ósnortið landsvæði norðan við Lake Superior af hinum feitum og subbulegum fasteignasala og heldur til landsins með Andrési og ungunum.
Það er grátbroslegt að í gegn um alla söguna kemst Jóakim ekki hjá því að sjá ríkidæmin sem felast í þem hráefnum sem finna má út um allt í hinu fagra og ósnortna landi og né getur hann komist hjá að hugleiða hvernig það myndi best nýtast til þungaiðnaðar. Ungarnir minna hann þá á hvað þessi hráefni gerðu Andabæ. Ekki líður á löngu fyrr en föruneytið okkar uppgötvar að landið er alls ekki óbyggt mönnum heldur býr þar ættflokkur dverg-indíána sem kærir sig ekki, fremur en dýrin á svæðinu, um að landinu verði rústað með stóriðju. Indíánarnir búa svo vel að geta talað við dýrin og mega félagar okkar sín lítils í þeirri baráttu enda indíánar og dýr sameinuð í vel skipulagðri baráttu gegn þeim. Loks eru þeir teknir til fanga og fær þá Jóakim að ræða við indíánahöfðingjann. Þá fylgir eftirminnilegt samtal, þar sem indíánahöfðinginn spyr Jóakim með hvaða rétti hann eigni sér þetta land, og hvort sólin, vindarnir og regnið eða eldingin hafi undirritað þetta skjal.
Jóakim svarar að fasteignasalinn Sidewalk Sam hafi gefið honum skjalið, og þar með sé hann lögmætur eigandi landsins. Indíánahöfðinginn segist eiga bágt með að trúa að fiskarnir, dýr skógarins eða fuglarnir, sem indíárnarnir álíta bræður sína, myndu virða slíkt skjal. Því enginn hafi rétt til að selja landið nema að allir bræðurnir myndu samþykkja það saman. Jóakim segist þá einmitt vilja vernda landið og hafa flúið heimkynni sín vegna mengunar og hávaða. Indíánarnir eru enn tortryggnir og verður Andrés að veiða tröllvaxna risageddu til að vinna traust þeirra. Það tekst með hjálp sterkra efna sem ungarnir kasta í kúlu í gin geddunnar. Þeir reykja þá friðarpípu með höfðingjanum og Jóakim lofar að halda vötnunum hreinum og skógunum grænum.
30 árum seinna gerði myndasöguhöfundurinn Keno Don Rosa sjálfstætt framhald þessarar sögu. Þar hefur Jóakim vissulega reist verndarsvæði fyrir indíánana, en pappírsmyllan sem hann hefur byggt flytur til skóglendisins eiturefni sem breytist í súrt regn og veldur því að trén visna. Sterk eiturefni fara beint í fljótið og það berst síðan í vötnin á leið til hafsins. Dverg-indíánarnir taka Jóakim gísl því þeir segja hann hafa brotið loforð sitt. Jóakim verða ljós hin skaðlegu áhrif myllunnar og segist þá munu loka pappírsmyllunni. Kemur þá til stríðs milli verkstjórans, sem þykist ekki trúa yfirlýsingunni frá Jóakim, og dýranna á svæðinu, sem safna liði til að eyðileggja mylluna. Verkstjórinn er nefnilega genginn af göflunum í græðgi sinni, því hann kærir sig ekkert um að fá Jóakim aftur, heldur vill hann sjálfur yfirtaka mylluna. Dýrin sigra að lokum en fórnarkostnaðurinn er mikill. Vegna skógarbruna og eiturefna sem verkstjórinn leysti úr læðingi þá verður landsvæðið dautt í tuttugu ár.
Jóakim segist hefðu getað hindrað þetta ef honum hefði verið sleppt og að móðir náttúra hafi engan rétt til að taka eign hans af honum. Indíánahöfðinginn spyr þá Jóakim hver hafi veitt honum ríkidæmi sitt? Hvort það hafi verið maðurinn sem fyllti fjöll og hæðir með góðmálmum, hafi komið olíunni fyrir í jörðunni eða plantað fornum trjám sem menn nú nýta til kolavinnslu? Hann segir Jóakim að hann skuldi náttúrunni þakkir fyrir velmegun sinni og þennan dag hafi náttúran tekið eilítið brot af henni til baka.
Ég vona að þessar sögur verði fólki til umhugsunar, því margt má læra af þeim. Ef við stöndum ekki vörð um náttúruna, þá verður einn daginn ekkert eftir af ósnortnum svæðum og friðlöndin munu deyja. Stóriðjustefna stjórnvalda hefur nú þegar leitt af sér Kárahnjúkavirkjun og er vel á veg komin með að rústa einu af síðustu stóru ósnortnu landsvæðunum í Vestur-Evrópu. Álverið á Reyðarfirði mun framleiða 320.000 tonn af áli árlega. Menn geta rétt ímyndað sér hversu mikið slík verksmiðja mun þá menga. Fyrirhuguð rafskautaverksmiðja í Hvalfirði mun menga á við þriðjung bílaflota landsmanna. Framkvæmdir stjórnvalda stefna einnig Þjórsárverum í hættu. Hluti Þjórsárvera er friðland , verndað af Ramsar-sáttmálanum. Nú þegar hefur 40% vatns verið veitt burt af svæðinu, en vatnið er lífæð Þjórsárvera. Jóakimarnir í ríkisstjórn og stóriðju halda því samt fram að framkvæmdir þeirra muni ekki skaða friðlandið og að áhrif stóriðjustefnu þeirra hafi lítilfjörleg áhrif á náttúruna. Minnir þetta einhvern á pappírsmylluna? Síðast en ekki síst virðist vera einróma samþykki að horfa framhjá hættunni sem skapast þegar rafskautaverksmiðjan í Hvalfirði mun skila meira af krabbameinsvaldandi eiturefnum út í andrúmsloftið heldur en hefur nokkru sinni áður þekkst hérlendis.
Ef svo fer sem horfir verður Faxaflói eitt mengaðasta svæði í N-Evrópu. Gífurlegu fé hefur verið dælt í þetta apparat og sér ekki fyrir endann á því.
Þeir sem græða eru erlendu fyrirtækin. Náttúran og komandi kynslóðir gjalda mest. Ef við verndum ekki náttúruna er ekki einungis úti um hana heldur okkur öll.
Er þetta það sem við viljum? Við, sem hreykjum okkur alltaf af fallegri og ósnortinni náttúru okkar, fersku vatni og hreinu lofti? Á sama tíma erum við að bjóða upp á að landið okkar verði fyrir óbætanlegum umhverfisspjöllum. Ef ekki verður spornað við þessu þá nær það fram að ganga. Og það verður einungis upphafið. Verði ekki brugðist við strax, þá verður það of seint. Þá verður ekkert eftir af fallegu ósnortnu landi, fersku lofti eða hreinu vatni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli