Jólasveinar
Barnagælur og-fælur
Nú fer að líða að jólum og kólasveinarnir fara að halda til byggða. Ýmist 9 eða 13, samkvæmt opinberum tölum. Rauð- og hvítklæddir og sérvitrir (ok, MJÖG sérvitrir) barnavinir. 9 eða 13 klónasveinar, óskilgetin afkvæmi Nikurlásar og Coca Cola, með dreitil af af tröllablóði í æðum. Svo sem gott og blessað, að hafa góðar vættir sem gleðja börnin, en fyndið að hugsa til þess að ekki er of langt síðan að jólasveinarnir voru hafðir sem barnafælur. Ég held að það myndi hljóma nokkuð undarlega í dag að segja við barn: „Ef þú verður ekki þæg/ur, þá fær jólasveinninn þig!“. „Jibbí !“ hrópar þá barnið, skiljanlega, og hyggur sér gott til glóðarinnar.
Það er áhugavert og skemmtilegt að skoða hvernig jólasveinarnir voru í þjóðtrúnni. Ein ágætis heimild um það er bókin Íslenskir þjóðhættir, rituð af séra Jónasi Jóssyni á Hrafnagili. Afar fróðleg bók í alla staði. Mismunandi hugmyndir gátu verið uppi um jólasveinana, eftir því hvar maður grípur miður á landinu. Almennt sagt að þeir séu 9 eða 13 og synir Grýlu og Leppalúða, en sumir segja þá syni hennar og annars eiginmanns hennar, Bola. Þó hefur fundist gífurlegur fjöldi annara jólasveinanafna, sumir jólasveinar báru líka mörg nöfn. Úr Mývatnssveit eru Moðbingur, Móamangi og Hlöðustrangi, Þvengjaleysir og síðast en ekki síst Flórsleikir. Einnig er Faldafeykir nefndur meðal hinna níu. Einnig hef ég heyrt talað um Bandaleysi, en hann og Þvengjaleysir eru líklegast sá sami. Sagt að þeir komi af fjöllum til þess að stela „“keipóttum börnum eða skælóttum“ og til þess að ná sér í eitthvað af jólagæðunum. Eru það ýmist þeir eða Grýla sem ræna börnunum og eru þau höfð til átu þar á bæ. Af nöfnum þeirra má sjá að þeir gerðu fólkinu ýmsa grikki og skráveifur að auki.
Ég tek hér beina tilvitnun úr Íslenskum þjóðháttum:
„Á Austurlandi var önnur sögn um jólasveinana; er þeim var svo lýst að þeir séu að vísu í mannsmynd, nema að þeir séu klofnir upp í háls, en því miður man ég ekki uppruna þeirra og ekki heldur hvað þeir eiga að gera. En allar líkur eru til, að það séu eldri sagnir en hinar.“
Einhverjar sagnir eru um það að klofnu jólasveinarnir komi af sjó.
Í bókinni er líka skemmtilegur fróðleikur um Grýlu. Börn voru hrædd með henni ef þau þóttu óþæg eða þóttu ekki vinna verk sín nógu vel. Þá áttu ýmist Grýla eða jólasveinarnir að hirða þau í pokana sína. Hún tekur þau börn sem
„æpa og hrína; hirðir hún þau og hefir til bíslags á jólunum handa sér og karli sínum. Henni kippti þar í kynið við önnur tröll að þykja mikið til koma að hafa nýtt mannaket á jólunum. Eru margar sagnir um það og sumar framan úr forneskju.“
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er áfram fjallað um Grýlu, maka hennar og börn. Sagt að Grýla sé meira að segja nefnd með öðrum tröllum í Snorra-Eddu. Hún og Leppalúði voru bæði mannætur. Var hún all ófrýnileg úlits þó mismunandi lýsingar séu til, hún er þá sögð hafa „hala fimmtán en á hverjum hala hundrað belgi en í hverjum belgi börn tuttugu“, sumsé e-ð um 30.000 börn í eftirdragi. Einnig sagt að hún sé með hófa og horn. Svo er annars staðar getið þess að hún sé sögð hafa „ótal hausa og þrenn augu í hverju höfði“ og enn segir að hún hafi
„kartnögl á hverjum fingri, helblá augu í hnakkanum og horn sem geit, eyrun lafi ofan á axlir og áföst við nefið framan. Hún var og skeggjuð um hökuna og fór bskeggið ekki betur en hnýtt garn á vef og hékk þar við bót eða flóki, en tennurnar voru sem grjót ofnbrunnið.“
Grýlu er eignaður sægur af börnum sem ekki tjóir að telja upp öll hér, vegna fjölda, auk jólasveinanna. Alla vega 31. „Ef þið þekkið vísuna Grýla kallar á börnin sín“ eru þar nokkur nefnd. Minna segir af Leppalúða, hann hafi verið „að öllu samboðinn henni í háttum sínum en ekki fullt eins skrímslislegur ef til vill“. Sjálfur hef ég einnig heyrt talð um alla vega einn mann Grýlu í viðbót, Bola, en veit ekkert meira um hann. Leppalúði átti líka „holukrakka einn; það var Skröggur karl sem í fáu var föðurbetrungur“ með stúlkunni Lúpu og er saga hans og frekari upplýsingar í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, en verður ekki endursögð hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli