þriðjudagur, júní 28, 2005

Honey Hor-Nay (It’s french): Don’t you just loove music?
Garth: Got any Megadeth?

--Wayne´s World

Megadeth


Nú er ég glaður á góðri stund. Fór á Megadeth á Nasa í gær. Hingað til hef ég ekki haft djúpa þekkingu á plötum þeirra (þó ég þekki nöfn) en þekkt dálítinn slatta af lögum og fílað þau mjög vel. Svo það var dálítið leiðinlegt að geta ekki sungið með í fleiri lögum. Fyrst í stað þótti mér miður að þeir fengu ekki stærri stað að spila á en í staðinn skapaðist þeim mun nánara samband milli hljómsveitar og áhorfenda. Fólk var þar á öllum aldri, yngstu sem ég sá voru ca. 9 ára en þau elstu komin yfir miðjan aldur. Fyrst hitaði Drýsill upp og voru mjög góðir, látúnsbarkinn Eiríkur Hauksson er líka þungarokkari Íslands nr.1 að mínu mati. Hljóðkerfið var þó dálítið böggandi þegar Drýsill léku en virtist það vera komið í nokkuð gott lag þegar aðalmennirnir stigu á svið. Eftir hálftíma bið var stemmningin orðin rífandi, allur skarinn hrópaði ýmist „Megadeth“ eða „Dave Mustaine“ uns goðin birtust loks á sviðinu. Megadeth spiluðu í rúmlega tvo tíma og léku öll sín bestu lög, eins og Symphony for Destruction, Holy Wars, Piece Sells, Hangar 18 og In My Darkest Hour. Mikið djöfulli rokkuðu þeir feitt. Harður hraður og þungur melódískur og grípandi og umfram allt skemmtilegur og góður thrashmetal. Mikið skemmti ég mér vel, ójá! Dave Mustaine er líka þungarokkið holdi klætt, með loðinn makkann lafandi niður í augun, eitursvalurgaur, gítargoð af guðs náð og virkaði afar viðkunnanlegur að auki. Riffin hjá manninum eru sjúkleg. Bandið var allt þrusugott og þétt. Það lá vel á okkar mönnum og voru ánægðir með dvöl sína hér og viðtökurnar. Húsið var troðið fram að dyrum og ég hef sjaldan séð aðra eins stemmningu á tónleikum. ALLIR voru í stuði, skælbrosandi, hoppandi, slammandi og með hendur upp í loft, hrópandi með, air-surfandi. Jörðin skalf. Gleraugun mín flugu af mér en fólk vék og hjálpaði mér að leita og mér voru rétt þau aftur í heilu lagi. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að halda því fram að þetta hafi verið meðal allrabestu þungarokkstónleika sem ég hef farið. Það er líka bersýnilegt að ég mun kafa dýpra í katalóg þessarar mögnuðu sveitar. Vel sé þeim sem veitti mér.

Í kvöld ætla ég að kíkja í Stúdentakjallarann að sjá Malneiophreniu spila. Ég hef ekki séð þá spila síðan að þeir hétu Medectophobia. Þá léku þeir góða tónlist og býst ég ekki við öðru af þeim núna. þeir sömdu m.a. tónlist við leikritið Miljónamærin snýr aftur öhh... held að það hafi verið 2003. Þeir voru allir í MR. Miðaverð er 500 km, en þeir eru að safna í ferð til Ítalíu og munu þeir leika þar. Fyrir þá sem vilja hlýða á góða tónlist og styðja gott málefni held ég því að væri þjóðráð að bregða sér í Stúdentakjallarann kl. 9 í kvöld.

sunnudagur, júní 26, 2005

Fyrirheitna landið

Við fluttum hann úr eymdinni til fyrirheitna landsins
þar sem gullið myndi drjúpa af hverju strái
og hann færi á hnotskóg og baðaði sig í smjöri
nú stritar hann allan daginn með bogið bak
við aðbúnað sem hæfir þræl
við borgum honum túskilding með gati
og minnum hann á að það er góðæri
ef við byðum löndum okkar sömu kjör
værum við húðflettir, troðið í gapastokk og loks hengdir úr hæsta gálga
heimalningarnir jarma um stolin störf
sem þeir nenna ekki að vinna
en er ekki öllum sama þó hann hafi það skítt?
Hann er helvítis útlendingur

miðvikudagur, júní 22, 2005

Bloggaði ekkert þann 19. svo ég var ekki búinn að tjá hamngjuóskir mínar til þjóðarinnar með 19. júní þegar landinn fékk jafnan kosningarétt og konur og eignalausir fengu fyrst að kjósa. Margt hefur áunnist en þegar maður lítur í kring um sig í þjóðfélaginu er enn miklu ábótavant og vona ég að við munum aldrei láta deigann síga í jafnréttisbaráttu.

Fleira brennur á hjarta, ekki síst málefni Kastljóssins í gær en nú neyðist ég til að fara að sofa, enda þarf ég að vakna á ókristilegum tíma fyrir allar aldir á morgun. Seisei já, bæjarbúar í dvala og hanarnir hrjóta svo drynur í. Geri eflaust bragarbót á morgun. Góða nótt.

MA-kvartettinn er í útvarpinu núna og lætur ljúft í eyrum.

laugardagur, júní 18, 2005

Ég óska landsmönnum til hamingju með þjóðhátíðardaginn og vona að hátíðin hafi verið þeim gleðileg.
Ylur þjóðernisástar leikur um mig. Þá er kannski gott að taka fram að það er mikill munur á þjóðernisást og að vera þjóðernissinni. Ég er mótfallinn þjóðernishroka, því að setja Íslendinga á stall ofar öðrum og hvers kyns fordómum í garð annarra þjóða, kynþátta og menningarheima. Hins vegar ber ég virðingu fyrir íslenskri sögu og er annt um þjóðina og fósturjörðina. Í tilefni dagsins birti ég ljóð sem að mínu mati er eitthvað það fallegasta ættjarðarljóð sem við eigum. Það er Íslendingaljóð 17. júní 1944 eftir Jóhannes úr Kötlum. Lagið þykir mér mjög fallegt líka.

Íslendingaljóð 17. júní 1944

Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi:
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér
-ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.

Hvíslað var um hulduland
hinzt í vestanblænum:
hvítan jökul, svartan sand,
söng í hlíðum grænum.
Ýttu menn á unnarslóð
Austmenn, vermdir frelsisglóð
fundu ey og urðu þjóð
úti í gullnum sænum.

Síðan hafa hetjur átt
heima í þessu landi,
ýmist borið arfinn hátt
eða varist grandi.
Hér að þreyja hjartað kaus,
hvort sem jörðin brann eða fraus,
-flaug þá stundum fjaðralaus
feðra vorra andi.

Þegar svalt við Sökkvabekk
sveitin dauðahljóða,
kvað í myrkri um kross og hlekk
kraftaskáldið móða.
Bak við sára bænaskrá
bylti sér hin forna þrá,
þar til eldinn sóttu um sjá
synir vorsins góða.

Nú skal söngur hjartahlýr
hljóma af þúsund munnum,
þegar frelsisþeyrinn dýr
þýtur í fjalli og runnum.
Nú skal fögur friðartíð
fánann hefja ár og síð,
varpa nýjum ljóma á lýð
landsins, sem vér unnum.

Hvort sem skrýðist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögu, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki ung og frjáls
undir norðurljósum

þriðjudagur, júní 14, 2005

Ljóð eftir mig , Nátttröllið er ljóð dagsins á ljod.is. Gaman að því. Ég skelli því hér:

Nátttröllið

Dynhamrar dökkir
dagur í austri
máttlaus myrkraöfl
steinrunnin vættur
stöfum roðin
grjót er grýla nætur

Meðferð valds, stjórnmálaleg umræða og Chewbacca-vörnin


Stjórnmálamenn eru saklausir. Og ávallt óskeikulir. Svo gæti maður alltént ætlað. Nú segir ríksendurskðandi að Hann telji Halldór Ásgrímsson ekki hafa verið vanhæfan þegar hann skipti sér af sölu Búnaðarbankans.

Því er merkilegtað sjá hvernig menn tala um málið. Eða tala ekki um það. Ríkisendurskoðandi telur að það þurfi barasta ekkert að ræða aðold Halldórs að málinu frekar og formanni fjárlaganefndar finnst umræðan ekki við hæfi. Sannarlega merkilegt. Hvers vegna er alltaf svona hræðilegt að ræða lagaleg vafamál um hvernig ráðamenn beita valdi sínu? Ef menn grunar að e-ir ráðamenn hafi misbeitt því, er það þá ekki fullkomnlega eðlilegt og lagaleg skylda að ræða það, fara með málið fyrir dóm og leiða það til lykta? Og menn sæti viðurlögum ef þeir sýnast hafa gerst brotlegir? Er það ekki að fara eftir lögum? Mér er einnig spurn hví ráðamenn sem fá slíka gagnrýni geta aldrei svarað gagnrýni málefnalega. Þeir rjúka upp til handa og fóta og taka gagnrýninni sem persónulegri árás, gera lítið úr gagnrýnandanum, segja að hann bulli bara, þetta séu bara dylgjur, láta oft uppnefni og köpuryrði fylgja, án þess þó að svara gagnrýninni. Hvers vegna svara þeir alltaf fullum hálsi ef þeir hafa ekkert að fela, hví gera þeir ekki hreint fyrir sínum dyrum? En þarf þess nokkuð? Hefur félagi Napóleon ekki ávallt rétt fyrir sér?

Maður hlýtur um leið að velta því fyrir sér hversu langt menn þurfi að ganga til þess að þeir séu taldir brjóta lög og yfirleitt þyki ástæða sé til að gera e-ð í málinu . Æðstu menn valdstjórnarinnar virðast alltaf hvítþvegnir, en svipaða sögu er að segja með forstjóra stórfyrirtækja. Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson komust t.d. upp með að ákveða einir að Ísland skyldi lýsa stuðningi við ólögmætt innrásarstríð, af því að Bandaríkjamenn vildu það og skiptu þá íslensk lög og alþjóðalög litlu. Þeir komust upp með að hundsa forseta og þjóðina og þæfa allt það mál endalaust, enda greinlegt hverjum sumir lögmenn eru hliðhollir, fyrst ,með því að véfengja að hann hefði það vald sem þó stóð augljóslega í stjórnaskránni og gerðu svo allt til að flækja fyrir þjóðaratkvæðagreislu, uns við vorum svipt kosningarétti okkar, frumvarpið dregið til baka og skömmu síðar sett aftur fram með smávægilegum breytingum. Skammt er einnig að minnast olíubófanna, síðast þegar ég vissi þá sat einn þeirra enn sem forstjóri. Og þeir geta alltaf svissað yfir í e-ð annað fyrirtæki og eflaust lítið sem hindrar þá í að leika sama leikinn aftur. Alltént var sektin minnkuð því þeir voru svo góðir að hjálpa til. Skiptir þá engu að þeim bar lagaleg og siðferðisleg skylda til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Og enn hafa viðskipatvinir ekki fengið aftur fjárhæðirnar sem þessir menn höfðu af þeim. Stór bróðir sér greinilega um sína. Mál eru þæfð endalaust, allt er „túlkunaratriði“ og flestir komast upp með þetta, séu þeir nógu háttsettir. Alþingi getur lýst vantrausti á ráðherra ef hann verður uppvís af broti á valdi sínu, eða hann sagt af sér, en það er vægast sagt ekki mikil hefð fyrir því. Oftast þá sjúga þeir bara spena valdstjórnarinnar. Og þjóðin gleymir þessu, henni er alveg sama. Halldór vill að „fjölskylda hans sé látinn í friði“.
Aumingja Halldór. Hann veltir eflaust fyrir sér hvers vegna eru allir séu svona vondir við hann.
Orðræðan er á sorglega lágu plani. Auk þess að kýta og nota köpuryrði gerist það í besta falli að valdstjórnin gefi út yfirlýsingu sem fréttamenn eiga ekkert að vera að spyrja út í heldur lepja nákvæmlega upp það sem þeim er ætlað að lepja. Maður hlýtur að spyrja sig „Who’s to police the police? Því hún virðist ekki standa sig sérlega vel í að gera það sjálf.
Þegar orðræðan og málarekstur er kominn á þetta plan þá undrar mig að menn hafi ekki enn gripið til Chewbacca-varnarinnar. Ég leyfi mér að vitna í South Park:


Johnny Cochran: Ladies and gentlemen of the supposed jury, Chef's attorney would certainly want you to believe that his client wrote "Stinky Britches" ten years ago. And they make a good case. Hell, I almost felt pity myself!
But ladies and gentlemen of this supposed jury, I have one final thing I want you to consider: Ladies and gentlemen this [pointing to a picture of Chewbacca] is Chewbacca. Chewbacca is a Wookiee from the planet Kashyyyk, but Chewbacca lives on the planet Endor. Now, think about that. That does not make sense! Why would a Wookiee—an eight foot tall Wookiee—want to live on Endor with a bunch of two foot tall Ewoks? That does not make sense!
But more important, you have to ask yourself, what does this have to do with this case? Nothing. Ladies and gentlemen, it has nothing to do with this case! It does not make sense!
Look at me, I'm a lawyer defending a major record company, and I'm talkin' about Chewbacca. Does that make sense? Ladies and gentlemen, I am not making any sense. None of this makes sense!
And so you have to remember, when you're in that jury room deliberating and conjugating the Emancipation Proclamation... does it make sense? No! Ladies and gentlemen of this supposed jury, it does not make sense. If Chewbacca lived on Endor, you must acquit! The defense rests.

mánudagur, júní 13, 2005

Eftir löðrandi sveittan vinnudag í blíðskaparviðri er rétti tíminn til að fara í sund, fá sér jökulkaldan sjeik og Newcastle Brown Ale, sleikja sólina, lesa í Hundshjarta og hlusta á KISS á góðum styrk. Það ætla ég mér og að gera. Ef einhverjir hafa lengi beðið með þá löngun í brjósti að vilja dást að goðumlíkum hálfnöktum líkama mínum, Adonis hins nýja, er ég flatmaga sem skjaldbaka í garðinum þá la voilà!

sunnudagur, júní 12, 2005

Hið íslenska tröllavinafélag


Ég smelli hlekk á heimasíðu Hins íslenska tröllavinafélags, hægra megin á síðunni. Hið íslenska tröllavinafélag er félag áhugamanna og vildarvina trölla og hvet ég áhugasama til að kynna sér félagið og vonandi að fleiri nýir félagar bætist við. Öllum er velkomið að ganga í félagið eða skrá sig úr því. Ég er sjálfur meðlimur í félaginu.
Meðal annars hafa verið vettvangsferðir á tröllaslóðir, haldin myndakvöld og skemmtikvöld auk þess sem tröllafræði eru ígrunduð. Næsta ferð verður 25. júní. Hvet ég svo fólk til að skrá sig í félagið. Ársgjaldið er 1500 krónur, sem veitir afslátt í ferðir auk þess sem félagsmeðlimir fá þá hið stórglæsilega tölubað Tröllafrétta sent í pósti. Allir eru velkomnir á kvöldin og í ferðirnar en það er dýrara fyrir þá sem ekki eru meðlimir.

Með morgunkaffinu: Hundshjarta eftir Mikhaíl Búlgakov.

föstudagur, júní 10, 2005

Hvítur hestur í tunglskini

Hvítt,
hvítt eins og vængur
míns fyrsta draums
er fax hans.

Eins og löng, löng ferð
á línhvítum fáki
er líf manns

og feigðin heldur sér
frammjóum höndum
í fax hans


--Steinn Steinarr

miðvikudagur, júní 08, 2005

Iron MaidenÉg fór á Iron Maiden í Egilshöll í gær ásamt Vésteini, Telmu, Ara og Bessa frændum mínum og vinum Vésteins, Markúsi og Maren frá Þýskalandi. Byrjuðum að hita okkur upp um fimmleitið og tókum svo taxa í Egilshöll um átta. Ég var í rifna Iron Maiden-bolnum mínum. Tónleikarnir voru í einu orði sagt geðveikir. Strax frá upphafstónum Murders in the Rue Morgue vissi maður að þetta yrði einstakt kvöld. Þeir léku lög af fyrstu fjórum plötunum; Iron Maiden, Killers, Number Of the Beast og Piece of Mind. Hljómsveitin var í sínu besta formi, spilaði óaðfinnallega, gaf allt í þetta. Þéttari en andskotinn og spilagleðin ljómaði af þeim. Hver klassíkin rak aðra, þetta var yndislegt! Sanctuary, Prowler, Remember Tomorrow, Phantom of the Opera, Running Free, Iron Maiden, Wrathchild, The Trooper, Die With Your Boots On og fleiri. Stemmningin í salnum var líka rífandi og reis hæst í Run To the Hills, Number of the Beast og Hallowed Be Thy Name. Eddie fór líka mikinn, fyrst uppblásinn af fyrstu plötunni og svo gangandi risi af Piece of Mind. Rifni Maiden-bolurinn minn endaði svo sem Maiden-vestið mitt. Las mér svo til ánægju að Rás 2 hafi tekið upp tónleikana og muni útvarpa þeim bráðlega.

Oh, well, wherever
wherever you are
Iron Maiden’s
gonna get you
No matter how far
See the blood flow,
Watching it shed
Up above my head
Iron Maiden wants you for dead

mánudagur, júní 06, 2005

Smelli hlekk á heimasíðuna fridur.is Hann má nú finna til hægri á síðunni.

Nú er rætt um málefni Saddam Hussein og að réttarhöld hefjist í sumar og haust. Ákæran í 12 liðum. Óvinir hans sleikja út um og geta varla beðið eftir að höfuðið fjúki af honum. Sjálfur get ég ekki sagt að ég hafi samúð með Saddam Hussein utan þess að ég vil að hann fái sanngjörn réttarhöld hjá viðurkenndum dómstóli og farið verði að alþjóðalögum í meðferð á máli hans. Og ég vil að allir sekir séu dregnir fyrir dóm, að maður refsi ekki einum á meðan aðrir samsekir fái að ganga lausir og spila sig saklausa. Ég vísa í grein sem ég skrifaði um þetta mál 1. júlí 2004 og má finna á þessari bloggsíðu.

Stiklur

Doddi og Mossi útskrifuðust um daginn. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir skemmtilega stúdentsveilsu og ánægjulegt kvöld. Þeir eru núna báðir í útskriftarferð og vona ég að þeir skemmti sér vel.

Eins, zwei, Arbeit macht frei. Ég er byrjaður aftur í vinnunni og kann ágætlega við mig. Þægilegt fólk að vinna með manni og allt annað að vinna í góðu veðri, ólíkt við það að þurfa að vinna um vetur í myrkri, snjó og hríðarbyl.

Ég gerði góð kaup í fyrradag, keypti Adore með Smashing Pumpkins og Hunky Dory með David Bowie á verði eins disks og hef hlustað á þá nánast linnulaust.

Ég er loks búinn að fá einkunnir úr öllum prófunum og er mjög sáttur. Meðal einkunn 7, 875. 7 í málfræði, 7,5 í enskri málsögu, 8 í bandarískri menningarsögu og 9 í amerískum bókmenntum.

Ég fer á tónleika með Iron Maiden á morgun. Þá verður gaman.

sunnudagur, júní 05, 2005

Einar fór í bíó, pars quintus:
Der UntergangÉg fór á Der Untergang í gær og hún skilaði aldeilis sínu. Mögnuð mynd sem skilur mann eftir sleginn. Ég held að fáar myndir komist jafn nálægt því að lýsa raunveruleika og firringu stríðsins. Eins og flestir vita lýsir þessi mynd síðustu dögunum í ævi Hitlers í neðanjarðarbyrginu á meðan barist er um Berlín. Firringin er algjör. Myndin er einstaklega vel gerð en eflaust stendur túlkun Bruno Ganz upp úr. Það er ekki auðvelt verk að túlka Adolf Hitler. Annað hvort gerir maður það listilega eða hræðilega. Mér fannst Ganz takast listilega. Hann sýnir okkur aldraðann Hitler sem er bugaður og beygður, firrtur og ofsóknaróður. Ýmist er hann niðurdreginn og vonlaus eða kennir mönnum sínum og þjóðinni um að hafa svikið sig, ellegar hann fyrirskipar árásir með ímynduðum herstyrk og heldur því fram til streitu að hann hafi gert rétt.
Maður sér brostnar hugsjónir hrynja; nasismann, foringann og þriðja ríkið sem virtist ósigrandi, blinda húsbóndahollustuna og óttann sem glíma við skynsemi, menn smjaðra fyrir Hitler eða ljúga að honum og mátt sjálfsblekkingarinnar. Það var e.t.v. skelfilegast að sjá frú Göbbels þegar hún sagði að hún vildi fremur að börnin sín dæju heldur en að alast upp í þjóðfélagi án nasismans.
Eins og e-r gagnrýnandi benti réttilega á þá fær maður tilfinningu fyrir Nýju fötum keisarans, keisarinn er nakinn, og reyndar allt Þriðja ríkið en enginn þorir að benda á það. Enda ekki svo auðvelt að rísa gegn Foringjanum, sem allt hafði oltið á, jafnvel þegar allt er tapað og foringinn búinn að missa veruleikaskyn. Hitler er orðið sama um allt, einnig sína eigin þjóð sem hann telur hafa svikið sig (líkt og flesta aðra) og að hún hafi sjálf kallað ófarirnar yfir sig. Að ýmsu leiti er sumt af þessu óhugnarlega satt, en menn geta endalaust deilt um hversu mikinn þátt þýska þjóðin átti í að koma Nasistum til valda. Engu að síður er átakanlegt að horfa upp á fall Berlínar, dauða manna kvenna og barna auk þess að sjá fámennt lið hermanna, illa vopnum búnir í sjálfsmorðsstríði við algert ofurefli.
Í allir firringunni skynjar maður þó einnig að þetta voru allt saman manneskjur, með allla sína galla. Þ.e.a.s. ef maður ákveður að e-r sé skrímsli og lætur þar við sitja þá einfaldar maður hlutina of mikið og sjáum ekki hve illskan er bindandi fyrir menn, að hvatirnar og getan til að gera illt sem dvelur einhvers staðar í öllum mönnum og forðumst að líta í eigin barm.

og sér ekki illskuna sem blundar í manninum og getu hans til að gera illt, og forðumst að líta í eigin barm.

Bróðir minn benti mér á, eitt sinn er við röbbuðum, að eins mikið og maður les og sér um Heimstyrjöldina, helförina og nasismann, þá er þetta manni alltaf fjarlægt. Þessir atburðir hafa einhvern veginn tekið á sig goðsagnakenndan blæ. Því finnst mér alltaf jafn ótrúlegt að amma mín var í Berlín áður en henni var rústað og hún sá Hitler og Mussolini með eigin augum þar sem þeir óku framhjá í bíl. Amma mín verður áttatíu og sjö ára í ár og er afar ern. Við bræður vorum staddir í Berlín fyrir nokkrum árum, ásamt mömmu. Þar er e-ð 80-90% nýjar byggingar, byggðar eftir stríð. Þar var meðal annars rústir af Kaiser Wilhelms Gedächtnichskirche, og stúð bara framhliðin; anddyrið eftir. Inni gat maður svo séð á ljósmynd að þetta hafði verið glæsileg gotnesk kirkja. Einnig sáum við rústir aðaljárnbrautarstöðvarinnar, þar var einnig bara smá af framhliðinni sem enn stóð, en maður sá að þetta hafði verið tilkomumikil bygging.
Amma mín gekk framhjá kirkjunni heilli á hverjum degi þegar hún var úti og hefur áreiðanlega einnig komið að járnbrautarstöðinni.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.