föstudagur, júlí 29, 2005

Mótmæli, Brottrekstur frá Kárahnjúkum og stóriðjaNú deila menn hart um aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka,aðgerðir lögreglu, og að sjálfsögðu framvæmdirnar sjálfar og orð og gjörðir þeirra sem að þeim standa.
Bróðir minn hefur skrifað góðar færslur um þetta mál, sem ég hvet ykkur eindregið til að lesa, sem og skrifin hans Þórðar (hins Dodda).
Við þessar ágætu vangaveltur hef ég nokkru við að bæta.Ég var ekki staddur þarna þegar virðist hafa skorist í odda milli lögreglu og mótmælenda og veit því ekki hvor átti upptökin eða hvernig þetta fór beinlínis fram, enda stendur vissulega nokkuð orð mórti orði.
Ég veit hins vegar að fréttaflutningur af mótmælunum hefur einkennst af miklu háði í garð mótmælenda og mótmæla. Alltaf talað um hve fáir þeir séu, ef þeir mótmæla friðsamlega er litið á þá sem sauðmeinlaus grey og kjánalega en um leið og þeir taka sig til og beita beinum aðgerðum, þá er talað um þá eins og verstu hryðjuverkamenn, þá fyrst fá þeir einhverja meiri athygli. Ég þekki það af eigin raun hvernig lögregla getur beitt valdi sínu gagnvart friðsömum mótmælendum, ef þeir gera ekki eins og valdstjórnin býður þeim. Ef lögreglan veitist að mér er hún að vinna vinnuna sína, en ef ég verst henni þá er ég að ráðast á laganna vörð. Upphæðirnar sem fyrirtækin nefna og hið gífurlega tjón er líka áhugavert að skoða. Eftir skyrslettuhryðjuverkin ógurlegu var talað um 5 milljóna eignatjón, hvorki meira né minna. Svo var upphæðin einhverja hluta vegna minnkuð. Tjónið, skv. mínum síðustu upplýsingum sagt 2,3 milljónir. Skaðabótakrafan hljóaði hins vegar upp á 2,9 milljónir. Henni var vísað frá. Hvers vegna ærli það hafi verið, hmm? Sá hinna þriggja mótmælenda sem hefur til þessa mest þurft að gjalda fyrir aðgerðirnar er Paul Gill, sem sætir tveggja mánaða skilorðsbundnu fangelsi. fangelsi. „Atvinnumótmælandinn”, „málaliðinn” „náttúru-hryðjuverkamaðurinn“. Hvað þið viljið kalla hann. Nú var málað á skilti, brotin rúða í bíl og spreyjað á vinnuskúr. Að sögn er ekki hægt að ná því af. Nú veit ég ekkert um það. En það er talað um tjón frá tugum þúsunda upp í hundruðir þúsunda. Finnst mér einum vera dálítill munur á hvort það eru tugir eða hundruð? Hef ég einn á tilfinningunni að þeir nefni einhverja tölu út í loftið og reyni að gera sem mest úr tjóninu sem þeir geta? Stóriðjuhöldar vilja kæra mótmælendurna og vísa „helvítis útlendingunum“ úr landi. Finnst mér einum þetta tjón smámunalegt miðað við þau gífurlegu náttúruspjöll sem þessir menn eru að vinna landinu okkar með þessari virkjun og vilja auka með frekari stóriðju og hvernig yfirtvöld bakka það möglunarlaust? Smámunalegt miðað við þann lygaáróður og heilaþvott sem stjórnvöld og Landsvirkjun halda uppi um hversu æðsilegt batterý þetta sé, umhverfisvænt, hagstætt og hvernig atvinnu á Austurlandi verði bjargað? Smámunalegt miðað við það að fjölmiðlar éta þetta hrátt upp eftir þeim? Hvað sem mönnum kann að finnast um eignatjón þá er ljóst að orðræðan dugði ekki til. Skýrslur, rannsóknir, greinar, umræða, það var ekki hlustað á neitt af þessu. Rök skiptu engu máli fyrir stjórnvöld, stóriðjuhölda og fylgismenn þeirra. Mér fannst flott hjá mótmælendum að hlekkja sig við vélarnar. Slíkt skemmir ekkert, tefur framkvæmdir og sýnir að mótmælendur eru ekki bara meinlausir kjúklingar sem hægt er að hundsa. Að ætla mótmælendum einn dag til að taka niður búðirnar er svívirðilegt. Þetta er aðeins stærra batterý en svo að það verði gert si svona. „Hafa þessir menn ekkert betra að gera?” spyr Jón Kaldal í Fréttablaðinu í gær. Þá spyr ég: Hafa fréttamenn ekkert betra að gera en að hæðast að mótmælendnum sem vilja ekki sjá landinu rústað, gríðarlegu fé eitt í þetta dæmi, kapítalið fer aðallega út úr landinu, útlendingar verða mest að vinna þarna, við þrælakjör. Þessu eru mótmælendur tilbúnir að berjast gegn og munu vonandi halda áfram af efldum krafti. Á sama tíma hæðast menn að þeim, sömu menn og hafa ekki hreyft litlafingri til að sporna gegn eyðingu náttúrunnar, og er eflaust skítsama um hana. Auðvitað var varla séns á að geta stöðvað aðgerðirnar við Kárahnjúka, og varla margir sem bjuggust við því. Þetta var fremur fordæmi, til að láta áljöfra finna að þeir eru ekki velkomnir og við munum ekki láta þá komast upp með áframhaldandi framkvæmdir án baráttu. Beinar aðgerðir hefðu vissulega mátt koma fyrr, en menn fóru friðsömu leiðina, sem fyrr var frá greint og hún var hunsuð. Beinar aðgerðir einar og sér óttast ég að geti skapað neikvæða athygli og við verðum að vera varkár um þann trúnað sem fólk leggur á okkur. Orðræða ein og sér hefur ekki skilað miklu. Einungis ef nógu margir taka höndum saman af fullum krafti með allann pakkann í einu að vopni; greinar, skýrslur, rannsóknir, pistlar, hvers konar skrif og nýta sér alla þá miðla sem þeir komast í ásamt vel skipulögðum og kröftugum beinum aðgerðum, tel ég von á að hægt sé að sporna við frekari framkvæmdum. Eins er með kosningar, ef þú ert óánægður með aðgerðir stjórnvalda er ekki sérlega gáfulegt að styðja þá til valda. Ekki kjósa „illskásta kostinn“ eða kjósa e-n „þrátt fyrir“ galla. Ekki láta blekkja þig. Ekki láta telja þér trú um að innlegg þitt sé lítilsvert. Atkvæði þitt skiptir máli. Þú getur haft mikil áhrif. Valdið kemur frá þér og þjóðinni, frá öllum ríkisborgurum landsins. Þú getur líka kynnt þér málin, og er þá víðsýni ofar öllu. Ekki láta aðra stjórna þér, gera lítið úr þér, segja þér hvað þú getur og getur ekki gert. Hugaðu að sjálfum þér og ábyrgð þinni gagnvart sjálfum þér og samfélaginu og hvernig þú getur gert til að bæta sjáfan þig og samfélagið.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Ég óska Atla hjartanlega til hamingju með hinn frábæra þátt „Úr alfaraleið”, sem fluttur var á Rás 1 í útvarpinu í dag. Var hann helgaður suðurþýsku jóðli og suðurþýskri menningu. Það er langt síðan að ég hef heyrt jafn góðan og skemmtilegan þátt í útvarpinu. Unaðsleg og fjörug tónlistin yljaði mínu gamla hjarta. Í anda var ég kominn til Alpanna, kneyfandi þýskt öl og ég stóð mig af því að taka nokkur létt spor við tónlistina. Fróðleikur Atla um menninguna var afar áhugaverður og skemmtilegur og flutti Atli hann af alkunnri fagmennsku sinni, snyrtileika og sinni skýru og þýðu rödd. Þátturinn verður endurtekinn á laugardagskvöld og verða 2 aðrir, að mig minnir. Ég þakka kærlega fyrir mig, Atli. Þú stendur þig með mestu ágætum og ég hlakka til að heyra meira.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Think where man's glory most begins and ends, and say my glory was I had such friends

--William Butler Yeats

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Þorri hinnar stórgóðu greinar Uri Avnery, Þögnin er saurug. birtist í Fréttablaðinu á bls. 19 í dag, í þýðingu minni. Hér skrifar hann um ótryggt vopnahé Ísraelsmanna og Palestínumanna og átökin þeirra á milli, brottflutninginn frá Gaza og herförina á Vesturbakkanum. Greinina má lesa í heild sinni á Vísi, sbr. hlekkinn hér að ofan.


Arnarifjar upp grein sem hún skrifaði um ástandið í Palestínu, hernámið og múrinn. Afar góð grein.

Ég brá mér í brúðkaup Lalla frænda míns og Hönnu, en þau giftu sig í blíðskaparviðri Háteigskirkju á laugardaginn. Athöfnin var mjög falleg og skemmtileg. Presturinn var gamansamur en hafði einnig margt gott og djúpt að segja. Matthías Matthíasson úr Pöpum söng og gerði það óaðfinanlega. Hann hefur mjög fallega, tæra og hljómmikla rödd. Inngöngulagið sem leikið var á orgelið var með Van Halen og útgöngulagið var „Jump”, en Lalli hefur verið mikill Van Halen-aðdáandi frá unga aldri. Veislan var mjög gaman í veislunni,edna alltaf gaman að vera með skemmtilegu fólki. Góð máltíð, góðar ræður og brugðið á glens, sýndar skemmtilegar myndir frá dögunum fyrir brúðkaupið. Loks var djammað, og voru það vinir Lalla sem spiluðu og Lalli tók 2-3 lög á gítarinn, þ.á.m. „You Shook Me all Night Long”. Eftir það var kíkt niður í bæ og djammað. Þetta var mjög skemmtilegur dagur. Ég óska Lalla og Hönnu enn og aftur til hamingju og vona að gæfan fylgi ávallt þeirra hjónabandi. Ég trúi vart öðru, enda virðast þau sköpuð fyrir hvort annað.

föstudagur, júlí 22, 2005

Lauk rétt í þessu við Tevje kúabónda og dætur hans, eftir Sholom Alekheim. Dásamlegt verk. Þessi bók er allt í senn, falleg, fyndin og átakanleg. Með raunum Tevje lýsir hún um leið harmsögu gyðinga. Þessi bók snart mig og trúi ég varla öðru en hún muni vekja sömu tilfinningar hjá hverjum næmum lesenda. Tevje er persóna sem seint líður úr minni, einn af „litlu mönnunum", maður ýmist fagnar með honum, gleðst hlær með eða að honum eða fyllist harmi yfir raununum sem á honum dynja. Söngleikurinn Fiðlarinn á þakinu var seinna byggður á þessari bók. Þann söngleik dáði ég sem barn og geri í raun enn, þegar hann var sýndur í Þjóðleikhúsinu fór ég á hann aftur og aftur ...og aftur. Tónlistin, klezmerið, var líka svo skemmtileg.
Talandi um klezmer, það er komin ný plata með Schpilkas. Tékka á henni.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Þetta er rosalegt.Arna var handtekin í Ísrael, yfirheyrð í 10 klukkustundir og var haldið í varðhaldi í 30 klukkustundir og loks send úr landi.. Hún lýsir ógnandi framkomu hermannanna og að þegar hún hafi minnst á réttindi sinn hafi þeir hlegið að henni og öskrað á hana að hún hefði engin réttindi. Hún var þarna í friðsamlegum erindagjörðum, á leið á alþjóðlega kvennaráðsstefnu friðarhreyfinga í Jerúsalem og sjálfboðaliðastarfa í Palestínu. Yfirvöld í Ísrael vilja ekki að útlendingar sjái hvernig þeir traðka á mannréttindum Palestínumanna og svona er þeim tekið sem vilja hjálpa þeim og er umhugað um réttindi þeirra. Ég skora á íslensk yfirvöld að mótmæla þessu harðlega.

Á heimasíðu félagsins Ísland-Palestína er hlekkur á grein eftir Hasan Abu Nimah um vopnahléið milli Palestínumanna og Ísraela sem birtist á Electric Intifada. Þetta er góð grein og smelli ég því líka hlekk á hana hér. Nimah er fyrrum fastafulltrúi Jórdaníu hjá Sameinuðu þjóðunum og var meðlimur í Palestínsk-Jórdönsku nefndinni sem stóð í friðarumræðum við Ísraela í Washington snemma á síðasta áratug.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Fékk Abbey Road með Bítlunum á bókasafninu og hefur hann verið í stöðugri spilun undanfarna daga. Dásamleg plata, ekki síst lagasyrpan í lokin.
--And in the end, the love you take is equal to the love you make.

Ég þarf að fara að drífa mig í klippingu. Ég er orðinn skuggalega líkur Harry Potter.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Ísraelsher undirbýr árás á Gaza. Sharon gefur hernum lausan tauminn.Ríkisútvarpið kallar það að „taka af lífi” þegar leiðtogi Hamas á suðurhluta Gaza var myrtur í köldu blóði þegar hann vökvaði garðinn.

Ný súpergrein eftir meistara Avnery; Silence is Filth.

laugardagur, júlí 16, 2005

Greinin Morgundagurinn eftir Uri Avnery er komin á Vísi.is í þýðingu minni.

föstudagur, júlí 15, 2005

Uri Avnery, formaður ísraelsku friðarsamtakanna Gush Shalom, hefur lengi verið einn eftirlætis greinahöfundurinn minn.Ég vil benda ykkur á þrjár magnaðar greinar sem hann hefur sent frá sér nýlega. Þar fjallar hann um landtökumennina á Gaza og átök milli þeirra og hins lýðræðislega meirihluta Ísrael. The Day After, Arik's Horror Show og The War Of The Colors.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Michel Chossudovsky, prófessor í hagfræði við háskólann í Ottowa og Formaður Centre for Research on Globalization (CRG) skrifar öfluga grein um Live-8 tónleikana, fund iðnríkjanna og hvað býr að baki. T.d. féð sem rennur til styrktaraðilanna, minnkuð útgjöld til þróunaraðstoðar, kröfu um einkavæðingu; að gefa vestrænum stórfyrirtækjum frjálsar hendur að sölsa undir sig tekjulindir og opinberar stofnanir, svo sem skóla og sjúkrahús og fjármagnið sem mun renna úr löndunum í stað þess að fara í uppbyggingu þeirra. Lítið hefur farið fyrir þessum þáttum í íslenskum fjölmiðlum og raunar víðar. Ég hvet ykkur eindregið til að lesa þessa grein. Vissulega held ég að HÆGT væri að aflétta skuldum þessara ríkja og í raun er nóg fé í heiminum til að enginn þurfi að líða skort. Spurningin er bara hvort við viljum það. Hagmunaaðilar hvers brauð felst í annars nauð og dauða eru ekki líklegir til aðumturnast skyndilega í góðviljaða frelsisengla, því er nú verr og miður. En það má ekki draga úr von okkar hinna, sem viljum virkilega að fátækt og skuldir verði afnumdar, að slíkt sé framkvæmanlegt þó þessir aðilar muni ekki gera það.

mánudagur, júlí 11, 2005

Lag dagsins: "Time" með David Bowie af plötunni Aladdin Sane. Það er nú góð plata.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Sprengingar í London


Hræðilegar fréttir hafa nú borist okkur frá London. Þær hafa flestir heyrt sem þetta lesa. Sprengingarnar á lestarstöðvunum í London auk sprengingarinnar í strætisvagninum. Ekki færri en 50 eru nú látnir og um 700 særðir, þar af eflaust margir örkumlaðir. Enn er ekki víst hverjir frömdu verknaðinn, þó að talað sé um áður óþekktan arm Al-Quaida sem á að hafa lýst verknaðinum á hendur sér á heimasíðu hefur lögreglan ekki staðfest það enn. Vel getur verið að það séu þeir, ýmsar vísbendingar ku benda í þá átt, en eins gæti verið að svo væri ekki . Við getum ekkert vitað.
Áróður og þjóðernisrembingur leiðtoganna er hins vegar kominn á fullt skrið. Tony Blair segir að þeir muni herða stríðið gegn hryðjuverkum, lesist: Ganga jafnvel enn harkalegar fram í Írak, og herða öryggisgæslu. George Bush segir að þessir menn beri enga virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum. Sem er alveg rétt pre se. En þeir kumpánar eru síst til þess fallnir að fella dóm yfir öðrum í þeim efnum, þegar hendur þeirra sjálfra eru blóði drifnar og þeir myndu sannarlega ekki þekkja lýðræði og mannréttindi þótt þau gæfu þeim vel úti látið spark í óæðri endann. Guðmundur Steingrímsson skrifar góða bakþanka í Fréttablaðið í fyrradag og hefur hárrétt fyrir sér. Á meðan báðir aðilar brýna hnífana, herða gæslu, æra lýðinn í þjóðrembingi, stríðsæsingi og hatri, vega enn meira að mannréttindum fólks og persónufrelsi og beita enn hrottalegri aðferðum, valda tortímingu, morðum og pyntingum auk mannfalls hermanna, mun enginn friður fást. Þessu má líkja við blöðru sem tveimur stútum sem tveir menn blása upp. Með þessu áframhaldi, ef báðir blása af sem mestum móð, mun blaðran á endanum springa með vofeiflegum afleiðingum, og þá munu þær hörmungar sem á undan hafa gengið virka eins og dropi í það blóðhaf sem þá gæti myndast. Ofbeldi getur einungis af sér meira ofbeldi. Eina leiðin til friðar er gjörbreytt stefna í utanríkismálum, það verður að brjóta ísinn og reyna að koma til móts við óvininn, með gagnkvæman skilning og virðingu að leiðarljósi. Aðeins þannig er einhver von um að tryggja megi frið.

laugardagur, júlí 02, 2005

The Who er mikið góð sveit. Er með Live at the Isle of Whight Festival 1970 í græjunum núna. Gítarleikur Townshend er magnaður. Sérlega vekur diminuendo-crescendoið í forleiknum að Tommy mér hrifningarhroll.

Skúli hefur hér með verið hlekkjaður hægra megin á síðunni. Njóti hann vel.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.