fimmtudagur, september 28, 2006

Af andakt drengs og manns
Eða: Mínar fimm mínútur frægðar


Eitt sinn var andaktugi ungi maðurinn andaktugur ungur drengur. Er hann var sex ára kom hann fram í sjónvarpinu hjá Hemma Gunn, var einn af krökkunum. Hemmi Gunn var ein af æskuhetjum andaktuga unga drengsins og dreymdi hann um að verða eins og Hemmi þegar hann yrði stór. Maðurinn var einfaldega svalastur. Alltaf í stuði, alltaf hress – ekkert stress. Hermann Gunnarsson hringdi í andaktuga unga manninn fyrir nokkrum dögum og tjáði honum að hann hefði fengið þá hugmynd að smala saman mörgum af nú uppkomnum börnunum og athuga hvar þetta fólk væri í dag.Varð honum hugsað til andaktuga unga mannsins og spurði hann hvort hann vildi koma fram í fyrsta þætti þáttaraðar sem Hemmi er nú með á stöð 2, sem ku verða ekki ósvipaður Á tali. Andaktuga unga manninum þótti gaman að þessu og sagði „Hvers vegna í fjáranum ekki?“ við sjálfan sig. Verður þættinum sjónvarpað í beinni útsendingu í kvöld nokkrar mínútur yfir átta.

Andaktugi ungi maðurinn minnir lesnendur sína á að í kvöld verður slökkt á götuljósum í Reykjavík í tilefni þess að sama kvöld hefst ALþjóðelg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Minnir að þetta hefjist klukkan níu. Borgarbúar fá að líta stjörnuhimininn í allri sinni dýrð, lausir við ljósmengun, í hálftíma.

Cliff Burton
- In memoriam



Aðfaradag þessarar nætur voru 20 ár liðinn frá dauða Cliff Burton, bassaleikara Metallica, en hann lést í rútuslysi í Svíþjóð, 24 ára að aldri. Blessuð sé minning hans. Ég bendi á fyrirtaks opnugrein eftir Orra Pál Ormarsson um kappann, sem birtist í Morgunblaðinu á Sunnudaginn. Þar eð ég hygg að þögn hefði verið Cliff lítt að skapi held ég að réttara sé að heiðra minningu hans með því að leyfa Metallicu að glymja úr hátölurunum á miklum styrk. Það hef ég altént gert. Mæli ég þá sérlega með Ride The Lighting, Master Of Puppets og ...And Justice For All.

sunnudagur, september 24, 2006

Andaktugi ungi maðurinn kann mjög vel að meta Balkantónlist. Um daginn hlýddi hann á ágætis þátt á RÚV, tileinkaðan Balkantónlist, og heyrði þar lag með rúmönsku hljómsveitinni Taraf de Haidouks sem heitir Carolina. Einnig var flutt Remix þýska plötusnúðsins Shantel af því. Andaktugi ungi maðurinn fílar báðar útgáfur og hefur verið húkkaður á re-mixið síðan. Virkilega flott stöff. Ef þið fílið Goran Bregovic (sem samdi t.d. tónistina við Underground) eða góða samsuðu af Balkantónist og danstónlist, þá er þetta alveg málið.

Andaktugi ungi maðurinn minnir svo á lagið Mdlwembe með Zola, sem heyrðist í kvikmyndinni Tsotsi, og mælir enn og aftur með þeirri ágætu mynd. Myndbandið má nálgast hér

laugardagur, september 23, 2006

Gunnarskaffi


Alli er snillingur. Það var hann sem bjó til rapplagið Gunnarskaffi, við allsvakalega ræðu Gunnars í Krossinum. Þetta er alveg hreint magnaður andskoti. Lagið og upprunalegu ræðuna má finna hér
.

föstudagur, september 15, 2006

Ég fjarlægði hlekkinn á Gagnauga. Hef séð misvirtar greinar á síðunni þeirra í gegn um tíðina, og var eiginlega búinn að gleyma að ég væri með hlekk á þá. Greinin um Helförina réði líklega úrslitum um þessa ákvörðun.

fimmtudagur, september 14, 2006

Með hádegiskaffinu: Bjólfskviða (þýðing Seamus Heaney) og safndiskurinn Remasters með Led Zeppelin.

Meðan ég man: Ég þarf að fá nýtt batterí í myndavélina hennar múttu (hverja ég fæ lánaða, þegar þess þarf) og nýtt lok. Enn er kórfélögum mínum og sjálfum mér í minni það reiðarslag sem dundi yfir mig þegar ég uppgötvaði á Shanghai-veitingahúsinu í Vasaa að engin filma hafði verið í myndavélinni allan þann tíma sem ég hafði talið mig verið að taka óragrúa af stórkostlegum myndum. Ég var sjálfsagt einn sá myndavélaóðasti í ferðinni. Þarna voru eitthvað 3-4 dagar eftir af ferðinni. Ekki batnar svo ástandið þegar ég athuga myndavélina nokkrum dögum síðar, og sé að lokið hefur einhvern vegin brotanð af og batteríið hrokkið úr. Ekki spyrja mig hvernig það atvikaðist. Ég er eiginlega enn að klóra mér í hausnum yfir því.
Til allrar lukku voru þó flestir kórfélagarnir einnig duglegir að taka myndir.

Í nóvember mun ég líkast til halda í vígi óvinarins, þar eð enskudeildin fyrihugar vísindaferð í Landsvirkjun. Ég er þegar byrjaður að pakka Molotov-kokteilunum.

Lag dagsins: Ramble On með Led Zeppelin.

þriðjudagur, september 12, 2006

MR. T





BE SOMEBODY...
OR BE SOMEBODY'S FOOL!

Löngu seinna, mánudagskvöldið 13. mars 1911, vorum við þrír baðstofubræðurnir á árangurslausum spássérutúr um stræti borgarinnar. Það var skýlaus himinn, hvítalogn og tunglsjós, prýðilega hljóðbært í andrúmsloftinu, fjöldi fólks á Rúntinum.
Það kvöld gerðust þau tíðindi á Alþingi Íslendinga, að meirihluti þingheims svipti Björn Jónsson ráðherradómi og krýndi Kristján Jónsson háyfirdómara ráðherratign landsins.
En þetta sama kvöld, á sama tíma, varð það til nýjungar í lestrarsal Íþöku, bókhlöðu Hins almenna menntaskóla, að fraukan svipti einn frómasta baðstofuherran skírum sveindómi og kvittaði meglaranum skilvíslega fyrir agentúrinn.
Svona bjó íslenzka ríkið að menningu efnilegustu sona sinna á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar, áður en einstaklingsframtakið gerði bílana að opinberum hóruhúsum þjóðarinnar.


-- Þórbergur Þórðarson, Ofvitinn, bls. 207

Hvað er svo glatt, sem góðra vina fundur?



Skelfing verður gaman kl. 17:15 á eftir. Kóræfingar hjá skemmtilegasta kór í heimi, Háskólakórnum, hefjast aftur. Mikið helvíti er maður búinn að sakna kórfélaganna. Fráhvarfsóþol hefur þjakað mig lengi.
Kórinn tekur vel á móti nýjum meðlimum og vonumst við til að eigi eftir að fjölga í honum. Við æfum í Neskirkju kl. 17:15-19:30 á þriðjudögum og fimmtudögum. Auk metnaðarfulls kórstarfs er félagslífið sérlega öflugt. Ferðir, partý, fleri partý o.s.frv.
Það þarf til dæmis varla að taka fram að við komum, sáum og sigruðum Finnland, og skemmtum okkur konunglega þess á milli. Ég held að það sé óhætt að segja að þessi æðilsega ferð sé öllum ógleymanleg sem í hana fóru. Kristján sagði mér að önnur ferð væri á prjónunum í vor, en það er ekki ljóst enn hvert verður farið. Hann sagði mér jafnframt að planið sé að fara minnst annað hvert ár út. Nicht schleckt.
Ég hef sagt það áður, og ég segi það aftur: Inngagna mín í kórinn er eflaust það besta sem hefur komið fyrir mig á skólagöngu minni í Háskóla Íslands, og skynsamlegasta ákvörðun sem ég hef tekið, síðan að ég hóf nám þar.
Eða svo að ég vitni í sjálfan mig (og blási í eigið gjallarhorn), seinni hluta ljóðs undir ljóðahætti (fyrri hlutinn á ekki við þetta, enda var hann ortur til MR-inga):

...
hittast á hólmi
halir og snótir
vel er vinafundur

laugardagur, september 09, 2006

Ljóðið Víg Þráins á höfuðísum, eftir undirritaðan var valið ljóð dagsins á ljod.is

Er að hlusta á Queen sem stendur, plötuna A Night At The Opera. Fyrir fjórum dögum hefði Freddy Mercury orðið sextugur, hefði honum enst aldur. Blessuð sé minning hans.

Hugsa að ég tékki á sándtrakkinu við Flash Gordon. Doddi segir mér að það sé gott. Skeggræddum líka um þá ágætu mynd The Highlander. Tvær senur finnst mér bera af í myndinni. Sú fyrri er opnunarsenan þegar Queen glymur þessa mögnuðu harmóníu í Princes Of The Universe: HERE WE ARE o.s.frv.

Hin senan er sú þegar Connor veit að hann mun lifa að eilífu en hans ástkæra eiginkona, Heather mun deyja. Tíminn sést líða, við sjáum stundir þeirra saman sem styttast óðfluga, stórfenglegt landslag ber fyrir augu, uns komið er að dauðastundinni, þar sem hún biður hann um að kveikja einu sinni á ári á kerti til minningar um hana, á afmælisdegi hennar, sem hann lofar henni að hann muni gera. Yfir þessu öllu syngur Freddy Mercury með fulltyngi Queen lagið Who Wants To Live Forever?
Sá sem er ekki snortinn af þessari senu hlýtur hreinlega að vera gersneiddur tilfinningum.

föstudagur, september 08, 2006

Et tu, Brute?
- Nebbzkvebbz o.fl.



Bölvað skítaveður úti. Kjeppz er kominn með nefnkvef sem virðist ætla að ágerast. Gaman að því.

Hef stundað kvikmyndahátíðina af áfergju og það ekkert lát á því. Fer á Beowulf And Grendel á eftir. Svo verður líklegast haldið á einhverja knæpuna.

Í þessu skítaveðri er gott að fá sér góðan kaffibolla, sitja með köttinn á löppunum og hlusta á 1. kafla 25. sinfóníu Gottlieb og 5. sinfóníu gamla góða Ludwig Van. Kíki ef til vill eitthvað í kaflana í Bjólfskviðu fyrir skólann, þýdda af Seamus Heaney. Er annars líka enn að lesa Ofvitann, svo það verður annað hvort.

Ákvað að ota mínum tota aðeins með því að skella hlekk á ljóð ungskáldsins, sem nú má finna beint fyrir neðan prófælinn.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.