The Lodger
Ég var að koma af afbragðs kvikmyndatónleikum í Háskólabíó. Sýnd var kvikmyndin Ther Lodger eftir meistara Alfred Hitchkock. Þetta er ein af fyrstu myndunum hans þögul kvikmynd og undir sýnilegum áhrifum frá þýska expressionismanum. Góð mynd, maður sér líka í henni mikið af því sem koma skal í seinni myndum Hitchcocks. Myndin gerist í London, hún er skuggaleg og myrk, þokukennt yfirbragð yfir borginni, gotnesk morðgáta. Thames brúin, Big Ben, allt hefur sín áhrif við að skapa stemmningu. Raðmorðingi gengur laus sem kallar sig The Avenger, og myrðir ljóshærðar stúlkur á hverju þriðjudagskvöldi. Honum er lýst sem hávöxnum manni sem skýlir neðri hluta andlitsins. Eitt kvöldið kemur hávaxinn maður á gistiheimili foreldra ungrar stúlku sem er ein aðalpersónan, hann var með neðri hluta andlitsins hulinn þegar hann stóð í dyrunum. Hann leigir herbergi og þykir ýmislegt grunsamlegt í fari hans. Áhorfandanum virðist hann einmana, einrænn, dularfullur, sérvitur, kvalinn og ástríðufullur, einn af þessum klassísku “trufluðu ensku herramönnum” og undarleg, jafnvel dularfull hegðun hans fer að vekja ótta og grunsemdir. Morðunum fjölgar. Gæti það verið hann?
Ég óttast að spilla myndinni fyrir þeim sem ekki hafa séð hana, ef ég segi meira frá söguþræðinum, enda eru hlutirnir ekki eins einfaldir og þeir virðast á yfirborðinu. Ég get þó sagt að þetta er áhrifamikil mynd. Persónusköpunin virkaði líka dýpra á mig þegar leið á myndina. Sjónarhornin eru oft afar flott og hugmyndarík, svo sem þokumökkurinn þegar leigjandinn stígur út úr myrkrinu fyrir utan í fyrsta sinn, ljós og skuggi, t.d. hvernig birtan af glugganum fellur skáhallt á vegginn eða atriðið þar sem leigjandinn læðist niður stigann um nóttina, og myndavélin myndar ofanfrá, og horfir niður stigann. Hátindurinn undir lokinn er líka ógleymanlegur.
miðvikudagur, október 12, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli