Bókmenntahátíð
Nú er bókmenntahátíð hafin í Reykjavík. Er það vel. Þá verð ég eins og lítið barn í sælgætisverslun. Ég elska að fara á bókmenntahátíðina og góða upplestra yfirleitt, og finnst hreinasta unun að sitja um kvöld í Iðnó og hlýða á þetta mikla andans fólk, margir þeirra meðal fremstu rithöfunda í dag, lesa úr verkum sínum. Maður hrífst með, það er eitthvað sem talar til manns, hugmyndaflugið og hughrifin fara af stað, innlifun og samkennd, þegar best lætur og maður fyllist einhverjum innbæstri. Svo er annað mál hvort maður getur nýtt hann. Oft finnst manni eitthvað bergmála frá manni sjálfum, eða umhverfi sem maður kannast við, og maður óskar þess að geta tjáð hugmyndir sínar og tilfinningar á jafn áhrifamikinn hátt. Já, mér þætti gott að vera rithöfundur eða ljóðskáld en veit að ef það yrði einhvern tíman, yrði ég eflaust sjálfur harðasti gagnrýnandinn á verk mín. Það rifjast einnig upp fyrir mér þegar við pabbi sáum Seamus Heaney og Liam O’Flynn í fyrra, það var sannarlega áhrifamikil stund. Skemmtilegt um hversu auðugan og fjölbreyttan garð er að grisja, en oftast hefur hver höfundur eitthvað að segja manni Í kvöld hlýddi ég á Javier Cercas lesa úr Stríðsmönnum Salamis, Vilborgu Dagbjartsdóttur, sem las úr ljóðabók sinni, Fiskar hafa enga rödd, Ólafur Gunnarsson las úr Tröllakirkju, Margaret Atwood las ljóð og prósa og Karin Wahlberg las úr skáldsögu sinni sem ég því miður veit ekki hvað heitir. Eftir upplesturinn keypti ég mér Stríðsmenn Salamis og Fiskar hafa enga rödd og fékk þær áritaðar. ég hlakka til að hefja lestur þeirra. Ég er staðráðinn í að reyna að komast á jafn marga viðburði og ég get, á meðan á hátíðinni stendur.
Einhverntíman tuttugasta hefst svo Kvikmyndahátíð í Reykjavík. Ég er þegar orðinn afar spenntur fyrir henni. Ef ég þekki sjálfan mig rétt, mun ég eflaust setjast að í bíóinu. Svefn? Hver þarf svefn? Í bland við myndirnar er svo gaman ef leikstjórar og leikarar ræða við áhorfendur um verkin og svara spurningum áhorfenda.
Hvað bíó áhrærir langar mig núna bæði að sjá Broken Flowers og Charlie and the Chocolate Factory. Bæíið líka í eftirvæntingu eftir The Corpse’s Bride. Þá gæti ég vel hugsað mér að sjá Narníu-myndina þegar hún kemur, enda hef ég lesið allar bækrunar og hef verið aðdáandi frá unga aldri. Loks hlakka ég sérlega til að sjá Bjófskviðu, þegar hún kemur. Búinn að sjá stutt myndbrot og þau voru vægast sagt flott.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli