Jesús, Pétur, Kiljan og heilaga jómfrú!
Þessi orð, úr samnefndu lagi Bubba Morthens, eiga ágætlega við hvað viðvíkur að manni að nafni Jack Chick. Ég þakka nafna mínum Jóhannessyni fyrir að hafa bent mér á þetta. Jack Chick skrifar fanatískar trúarnöttaramyndasögur. Þar ræðst hann gegn demónískum áhrifum Harry Potter, Dungeons And Dragons, Hrekkjarvöku, gegn samkynhneigðum og þróunnarkenningunni, svo eitthvað sé nefnt. Einnig er skemmtilegt hvernig trúleysingjar eru ávallt hatursfullar og viðskotaillar sálir í sögum hans, nánast eldspúandi og ósjaldan að dansa lambada við Lúsifer. Þegar maður les þetta myndi maður ætla, eða fremur vona að maðurinn væri að grínast, en onei, börnin góð. Honum er fúlasta alvara. Ég á varla til orð yfir þetta, get einunungis gapað yfir flónsku mannsins. Maður veit, svei mér þá, varla hvort maður á að hlæja eða gráta. Þetta er grátbroslegt, eins og þegar trúður deyr. Ég skelli hlekkjum á nokkrar sögurnar.
Og munið það, lömbin mín; að ef þið trúið þróunarkenningunni munið þið brenna í helvíti. Líka ef þið snúið ekki frá kynvillu, Harry Potter, Dungeons and Dragons, Islam, gagnrýni á Ísraelsríki eða biblíu James I, sem vill svo til að er eina biblían sem hefur ekki verið saurguð af Satani etc. etc. Góða skemmtun:
The Nervous Witch (Harry Potter-sagan)
Dark Dungeons og síðast en ekki síst: Big Daddy, þar sem tekist er á við þróunarkenninguna.
Loks má svo geta þess, að félag bókmenntafræðinema stendur fyrir ljóðadagskrá á föstudag. Dagskrána má finna hér.
Um kvöldið kl. 9 verður ljóðaupplestur á 22 á Laugarvegi og stendur fram eftir kvöldi. Þar mun fjöldi skálda lesa úr verkum sínum. Verður undirritaður á meðal þeirra.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli