Ég er kominn heill á húfi úr prófinu og tel nokkuð óhætt að segja að mér hafi gengið vel. Furða ég mig óneitanlega á því miðað við að ég hef ekki sofið meira en 5 tíma og er auk þess að jafnaði mesti purkur á morgnana. Er heim var komið lagði ég mig og náði að hvílast í nærri tvo tíma. Ég er byrjaður í ræktinni og skrapp þangað með föður mínum. Sá mér til ánægju Frank og Nönnu. Long time no see. Hef tekið deginum nokkuð rólega eftir það og hitti Mossa, Írisi og Dodda á kaffihúsi um kvöldið. Nú eru mín háleitu markmið að hreiðra um mig í sófa með tebolla og horfa annað hvort á heimildamyndina Don't Look Back um Bob Dylan eða aðra seríu af Blackadder.
Í gær, þegar ég sat við lestur barst til mín yndisleg tónlist úr útvarpinu sem yljaði mér um hjartarætur. Þetta var tónlist eftir Jórunni Viðar, ömmu mína, frá tónleikum í Skálholti í sumar, en þar hafði ég verið viðstaddur. Flutt voru tónverkin "Stóð ég við Öxará" við Ljóð Halldórs Laxness, "Hvítur hestur í tunglskini" við ljóð Steins Steinarrr, "Mamma ætlar að sofna" við ljóð Davíð Stefánsson, "Séð frá tungli" við ljóð Sjóns og "Mansöngur við Ólafsrímu Grænlendings. Af þessum verkum eiga "Stóð ég við Öxará" og "Séð frá tungli" enn eftir að koma út á geisladisk, auk þess sem "Ólafsríman" var flutt í upprunalegri útsetningu fyrir strengjasveit, en var útsett fyrir píanó á geisladisknum.
Séð frá tungli er tvímælalaust ein allra besta tónsmíð ömmu og ég er mjög hrifinn af ljóði Sjóns. Ég birti það við tækifæri, hef ekki aðgang að því eins og er.
miðvikudagur, október 12, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli