Jólahreingerning og aðrar jólastiklur
Gamla góða jólahreingerningin er kominn á fullt skrið hjá undirrituðum. Það leiðinlegasta við hreingerningu finnst mér alltaf að flokka pappíra, blöð greinar etc. Maður tímir ekki að henda því, ýmislegt sem maður vill halda til haga, en hvar í andskotanum á maður að geyma það, svo það flækist ekki fyrir, en sé samt aðgengilegt? Ólíkt bróður mínum hef ég aðeins eitt herbergi fyrir hafurtaskið, fyrir utan háloftið, sem er einnig þekkt sem Ginnungagapið eða Glatkistan, því það sem lendir í þeim haug af drasli mun fyrst finnast á efsta degi.
Á Þorláksmessu fór ég í friðagöngu og söng svo með kórnum. Ég hef alltaf minnst jafn gaman af að vera á Laugarveginum á Þorláksmessu og á aðfangadeginum sjálfum. Elska stemmninguna. Við kíktum svo nokkur á Hverfisbarinn og hlýddum á tvo ágæta trúbadúra. Sungum með “So this Is Christmas” í röddum.
Ég átti afar góð jól í Lækjartúni með familíunni. :)
Jórunn og Arnar eru kominn með 6 mánaða kettling sem heitir Símon. Hann er mjög sætur og vinalegur bengal-kettlingur, ekki ósvipaður smávöxnu tígrisdýri.
Þessar jólagjafir fékk ég og kann öllum bestu þakkir fyrir:
- Argóarflísina eftir Sjón frá ömmu
- The Beatles. The Biography eftir Bob Spitz frá Jórunni og Arnari.
- Svarta loðhúfu frá mömmu og pabba, sem ég fékk að velja sjálfur. Vantar helst að ég setji e-ð merki í hana, eins og rauða stjörnu. ;)
- The Fantastic Four-Volume II frá Dodda. Dr. Doom er og verður flottasti ofur-skúrkur allra tíma.
- Lítinn tuskubangsa frá Mossa og Írisi. Mússímúss.
- Og síðast en ekki síst: Elvis Presley, The King of Rock ‘N’ Roll. Complete fifties recordings frá Vésteini bróður. Hef verið að hlusta á kónginn nánast linnulaust síðustu daga. Ég held að sé óhætt að fullyrða að Elvis Presley hafi verið einhver mesta rokkstjarna nokkurn tíma. Þessi rödd, lögin, sem hentuðu honum fullkomnlega, sviðsframkoman, sjarminn, auk þess sem hann var fjallmyndarlegur maður. Iðinn var hann einnig, tilbúinn að taka hundrað tökur ef þess þurfti, til að fá lagið eins og það ætti að hljóma.
- Loks keypti ég geisladiskinn Geislavirkir með með Untagarðsmönnum í jólagjöf handa sjálfum mér.
Þegar kemur að því að kaupa jólagjafir, er gott að kíkja í fornbókabúðir. Í fornbókabúðinni hjá honum Braga má margt skemmtilegt finna á góðu verði. Bragi er líka sjálfur mesti heiðursmaður. Gerði ég þar kjarakaup, þar sem ég fann fjórar bækur sem ég greiddi alls um 3000 krónur fyrir. Voru það Frelsið eða dauðinn eftir Nikos Kasantzakis, sem ég gaf mömmu, Dodda gaf ég Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson, ömmu gaf ég Platero og ég eftir Juan Ramón Jiménez og pabba gaf ég Á sjó og landi. Æfisögu Reinalds Kristjánssonar pósts milli Ísafjarðar og Bíldudals. Í búðinni heyrði ég einhvern Bandaríkjamann vera að úthúða gyðingum og spurði sjálfan mig hvort enn væri svo sterkt gyðingahatur þar vestra. Svo sé ég að Bobby Fischer er í búðinni og var þá ekki erfitt að leggja saman tvo og tvo...
Auk þess gaf ég Dodda Sin City (kvikmyndina) í jóla/afmælisgjöf.
Mossa gaf ég Bjargið okkur eftir Hugleik Dagsson.
Vésteini gaf ég Clerks.
Ég gaf Valla stóran Bionicle-kall sem var ansi flókið að setja saman.
Við Vésteinn gáfum Katrínu bílastæði fyrir matchbox-bíla. Það er annars naumast hvað leikföng eru orðin dýr í dag. Bækur reyndar líka, þ.e. í almennum bókabúðum. En börnin voru alsæl, og er það vel.
miðvikudagur, desember 28, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli