laugardagur, nóvember 27, 2010

Tvær leiðréttingar v. Frjálsa Palestínu

Fyrir slysni birtist föðurnafn Vésteins Valgarðssonar rangt við greinina "Tilvistarréttur og vopnuð barátta" í nýjasta tölublaði Frjálsrar Palestínu. Þá er það rétt að Moshe Dayan gegndi stöðu varnarmálaráðherra og á stríðstímum, t.a.m. í Sex daga stríðinu (hér er vísað til greinarinnar "Maður er nefndur Joe Sacco"), en þegar fjöldamorðin áttu sér stað í Rafah og Khan Younis var hann yfirmaður herráðsins (Chief of Staff). Varnarmálaráðherra var Menachem Begin.
Ekki auðnaðist að leiðrétta þetta áður en blaðið fór í prentun en það er gert hér og beðist velvirðingar.
Einar Steinn Valgarðsson, ritstjóri.

miðvikudagur, nóvember 24, 2010

Samstöðufundur með Palestínu í Norræna húsinu mánudaginn 29. nóvember kl. 17Alþjóðlegur samstöðudagur til stuðnings palestínsku þjóðinni er haldinn 29. nóvember ár hvert að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og Félagið Ísland-Palestína var stofnað á þessum degi árið 1987. Félagið hefur alla tíð gert þennan dag að baráttudegi fyrir grundvallarréttindum palestínsku þjóðarinnar.

Dagskrá:
Árni Þór Sigurðsson alþingismaður, formaður utanríkismálanefndar Alþingis flytur ræðu.

Sveinn Rúnar Hauksson læknir, formaður félagsins segir frá nýlegri ferð til Gaza í máli og myndum.

Kristín Sveinsdóttir syngur nokkur íslensk lög við undirleik Jóns Stefánssonar.

Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndargerðarmaður og stjórnarmaður FÍP sýnir tvær stuttmyndir frá Gaza.

Fundurinn er öllum opinn - ókeypis aðgangur.

Frjáls PalestínaÚt er komið tímaritið Frjáls Palestína, málgagn félagsins Ísland-Palestína, í ritstjórn minni og Hjálmtýs Heiðdal. Félagsmenn fá það sent heim til sín en aðrir geta keypt blaðið á 500 krónur.
Blaðið verður einnig haft til sölu á viðburðum félagsins. Þá eru enn til eintök af Frálsri Palestínu frá því í fyrra (sem ég ritstýrði einnig, en í ritstjórn sátu auk mín Hjálmtýr Heiðdal og Katrín Mixa) og er það einnig til sölu, á 250 krónur.

Ágóði blaðins rennur allur óskiptur í neyðarsöfnun fyrir Palestínu. Fókus okkar hefur verið á að safna til að koma gervifótum til fólksins á Gaza. Einnig er hægt að leggja inn á reikning söfnunarinnar.
Reikningur: 0542-26-6990
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu: Neyðaraðstoð við Palestínu

Þá vill félagið leggja áherslu á starfsemi Maríusjóðs Aisha á Gaza, sem er til stuðnings konum og börnum á Gaza sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Stefnt er að því að safna áskrifendum sem myndu vilja styrkja verkefnið með föstu mánaðarlegu framlagi. Lagt er til að það verði á bilinu 2400 til 12 þúsund krónur mánaðarlega (20-100 USD), en er að sjálfsögðu frjálst. Stefnt er að því að leggja inn í sjóðinn 5000 bandaríkjadali mánaðarlega í þrjú ár til að byrja með, frá 1. janúar 2011 og verður safnað áskrifendum að samstöðu með konum og börnum á Gaza.
Reikingsnúmer er það sama og að ofan. Skýring greiðslu: Framlag til Maríusjóðs.

Maríusjóðurinn er kenndur við Maríu M. Magnúsdóttur hjúkrunarfræðing en hún starfaði í Lundúnum á stríðsárunum og alls í hálfa öld. María, sem varð 94 ára á Alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn 10. október, býr á Blönduósi. Hún er eldhress og hefur um árabil verið helsti stuðningsaðili Neyðarsöfnunar FÍP.

Sjálfur vil ég vil nota tækifærið til að þakka öllum sem áttu aðkomu að blaðinu, öllum þeim sem hafa unnið göfugt starf í þágu félagsins eða stutt hjálparstarf fyrir Palestínu á annan hátt. Þið vitið hver þið eruð og framlag ykkar er dýrmætt.
Niður með hernámið. Niður með herkvína. Niður með andlega og veraldlega múra. Megi friður og réttlæti ná að ríkja. Shalom salaam.*

*Kveðjan shalom/salaam er sameiginleg gyðingum og aröbum, og heilsast þeir og kveðja svona. Orðið merkir í senn friður, heilsa og velfarnaður. Þannig gæti arabi sagt "Salaam aleikum og gyðingur "shalom alekheim", sem mætti útleggjast sem "megi friður og velfarnaður fylgja þér".

þriðjudagur, nóvember 16, 2010

Skaktu þig, Skurbeinn!

Það rann upp fyrir mér á kóræfingu í kvöld að frasinn hér að ofan, úr Æfintýravísum Jóns Leifs sem við erum að æfa fyrir tónleika 23. nóv. nk., er ágætis útlegging á "Shake it baby". Gunnsteinn, kórstjórinn okkar, lagði til að fyrri frasinn yrði nafnið á disk Háskólakórsins næsta vor og að sá enski yrði undirtitill í sviga. Tillagan hlaut góðar undirtektir.

mánudagur, nóvember 01, 2010

"Stríðið við Ísraelsmenn"

Það er hætt við að það gefi falska mynd af ástandinu þegar talað er um "stríðið við Ísraelsmenn" þannig að mynd fáist af sem tveimur tiltölulega jafnvígum herjum sem berjast sín á milli.
Herkvíin sem Gaza er í er stríðsaðgerð í sjálfu sér og hernámið sjálft ólöglegt, ef út í það er farið, en það vill oft hverfa í bakgrunn fjölmiðlaumræðu, eins og þetta tvennt, sem og landtökur á Vesturbakkanum eða í Austur-Jerúsalem séu status quo sem ekkert sé athugavert við.
Er hægt að kalla það stríð, af hálfu Palestínumanna, heimagerðar eldflaugar, sem verða þegar mest lætur 1-3 til bana á ári, auk þess að valda eyðileggingu, í samanburði við einn öflugasta her heims? Palestínumenn eiga í andspyrnu við hernámslið sem hefur alla tilveru þeirra í hendi sér og vopnin sem þeir sjálfir hafa eru á borð við áðurnefndar eldflaugar, riffla og sprengjubelti. Þeir eiga engar herflugvélar, skriðdreka eða herskip.
Taka skal fram að árásir sem bitna á óbreyttum borgurum eru stríðsglæpur, og á þetta jafnt við eldflaugaárásir og land- og loftárásir, sem og sjálfsmorðsárásir. 1400 manns sem féllu í árásarhrinu Ísraela á Gaza versus 13 Ísraelar segir þó sína sögu. Einnig má geta þess að "Hamas-liði" er vítt hugtak, þar sem Hamas heldur ekki bara úti vopnuðum armi heldur hefur einnig úti víðu félagslegu neti, skólum, spítulum o.fl. þannig að sjúkraflutningamaður eða leikskólakennari sem drepinn er af Ísraelsher gæti allt eins flokkast sem "Hamas-liði" án þess að það þurfi að þýða að viðkomandi sé vígamaður.

"sem titlaður er innaríkisráðherra Hamas" (leturbreytingar mínar)?
Hver er tilgangurinn með þessu tvíræða orðalagi? Er hann þá ekki jafnframt innaníkisráðherra PALESTÍNUMANNA?! Það er sem ég sjái RÚV tala um "Mahmoud Abbas, sem titlaður er forseti Fatah".

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.