þriðjudagur, desember 20, 2005

Af Gunnari Gunnarssyni og Nóbelsverðlaununum, viðtali við Gunnar yngri og yfirlýsingu fjölskyldu Gunnars


Mikið hefur verið rætt um gögn sem fram hafa komið um tildrög Nóbelsverðlaunanna 1955. Skeytið sem Ragnar í Smára, Peter Hallberg, Sigurður Nordal og Jón Helgason sendu sænsku akademíunni, þess efnis að það væri íslendingum “til vansa” að Gunnar Gunnarsson fengi Nóbelsverðlaunin. Nefndu þeir tengsl hans við Þýskaland og að hann skrifaði á dönsku.
Sænska akademían hafði verið var búin var að tilkynna Gunnari að hann fengi Nóbelsverðlaunin og hafði hann að vonum glaðst ákaft. Hann hafði tvisvar áður verið tilnefndur. Því má rétt ímynda sér það reiðarslag sem það var fyrir hann er honum var sagt frá skeytinu. Ekki einungis það að hann fengi ekki Nóbelinn, æðstu viðurkenningu sem rithöfundi getur hlotnast, á sjötugsaldri, ekki einu sinni skeytið sjálft, heldur að sendendurnir áttu að heita vinir hans, auk þess sem Ragnar í Smára var útgefandi hans. Gunnar náði sé aldrei fyllilega af þessu áfalli.


Þetta og fleira kemur fram í viðtali við Gunnar Björn Gunnarsson, barnabarnabarn skáldsins í Morgunblaðinu, síðastliðinn laugardag, þann sautjánda. Ég mæli með því að fólk lesi hana. Fjölskylda Gunnars tók skýrt fram að hún teldi Laxness stórskáld og að hann hefði átt verðlaunin skilið, en fyrst umræðan var komin í gang, yrði hún að skýra frá sinni hlið málsins. Ég tek undir þetta, og ég fagna þessari góðu grein sem varpar bæði ljósi á þetta mál og einnig á það hvernig maður Gunnar Gunnarsson var. Spurður út í meintan nasisma langafa síns þverneitaði að Gunnar hafi verið nasisti, hann hafi þvert á móti verið húmanisti. Hann var hins vegar Þýskalandsvinur. Þar átti hann mestum vinsældum að fagna og þar seldust bækur hans líka mest.

Áður en þetta fékkst staðfest hafði ég aldrei getað ímyndað mér að neitt hæft gæti verið í sögum um nasisma Gunnars. Til þess var húmanisminn í bókum hans of sterkur. Sá djúpi mannkærleikur sem skín í gegn í verkum Gunnars, er meðal þess sem hefur heillað mig mest við þær.
Þegar blaðamaður staðhæfir að Gunnar Gunnarsson hafi skrifað á dönsku, svarar Gunnar yngri: „Ég veit engan mann meiri Íslending en langafa minn. Hann elskaði Ísland og barðist fyrir málstað þess hvar og hvenær sem var.“
Þetta má sjá af hinum fallegu, mikilfenglegu og heillandi lýsingum af Íslandi, náttúrunni og íslenskri alþýðu í bókum Gunnars, einkum þó Fjallkirkjunni. Ég efast líka um að nokkur íslenskur höfundur hafi lýst jafn vel lífi íslenskrar alþýðu við lok 19. aldar en Gunnar Gunnarsson í þeirri bók, sem lætur þó ekki staðar numið þar.

“Langafi var húmanisti fyrst og fremst” segir Gunnar. „Hann stóð einn úti á sínum berangri og bar sig vel, þótt hann gæti ekki unnið úr sínu reiðarslagi. Hann var stórmenni, ekki vegna ríkidæmis og frægðar, heldur fyrir það með hvaða hætti hann brauzt áfram frá fátækt, hversu gott hjártalag hans var og hvernig hann beitti sjálfan sig ótrúlegum aga. Langafi var maður gjafmildur. Í áratugi hélt hann uppi heilu fjölskyldunum í Danmörku og hérna heima. Hann styrkti listamenn og borgaði meðal annars Jóhannesi Kjarval föst mánaðarlaun. Hann og langamma gáfu íslenszu þjóðinni Skriðuklaustur í Fljótsdal, sem er stærsta gjöf sem nokkur Íslendingur hefur í lifanda lífi gefið íslenzka ríkinu.“

Þetta kemur enn fremur fram í orðum hans annars staðar í viðtalinu:
„Langafi var af gamla skólanum. Ég held að hann hafi trúað því, að þeir sem eru hugdjarfir og góðir menn og bera sannleikann fyrir brjósti, að þeir myndu uppskera.“
Þessi hugsjón er eins falleg og göfug og hugsast getur. Sum fyrri verka Gunnars gátu verið bölsýn, en jafnvel í þeim lýsti þessi von í gegn. Þetta er viðhorf sem ég hef sjálfur reynt að temja mér, alltént að halda í vonina.


Það er ánægjulegt að vita að Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson, þessir tveir af mestu höfundum Íslands, voru ávallt góðir vinir og báru djúpa virðingu hvor fyrir öðrum. Báðir töldu hinn vera besta (eða þá allav. næst-besta) höfund Íslands. Þeir þýddu einnig hvor annan. Gunnari fannst alltaf að Halldór hefði átt Nóbelsverðlaunin skilið.

Ég tek einnig undir með orðum fjölskyldu Gunnars sem koma fram í yfirlýsingu þeiira á Skriðuklaustursvefnum. Við Íslendingar megum gleðjast yfir því að við áttum tvo framúrskarandi höfunda sem báðir þóttu verðugir kandídatar til Nóbelsverðlauna. Ekki amalegt á eyju þar sem búa innan við 300.000 manns, og færri þá en nú. Þeir eiga skilið málefnalega umföllun og að verk þeirra fái að lifa.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.