Áðan horfði ég á bráðskemmtilega og áhugaverða heimildamynd um blúsarann Honeyboy Edwards. Rakin var saga hans og delta-blússins og mannlífið á þeim árum sem hann var að þróast. Hann umgekkst menn eins og Charlie Patton, Robert Johnson og Muddy Waters og spilaði, veit ég, með þeim tveimur síðarnefndu. Hann er orðinn níræður og er enn að spila. Þegar ég hlustaði á hann fannst mér orðið “snillingur” ekki nóg til að lýsa færni og tilfinningu hans í tónlist. Ég fékk gæsahúð, eða réttara sagt hrifningarhroll við að hlusta á hann. Kannski vegna þess að orðið “snillingur” hefur verið ofnotað, en ef einhver er hreinn og tær snillingur í dýpstu merkingu orðsins, þá er það hann. Ég minnist vart að hafa heyrt aðra eins spilamennsku og hann syngur með sálinni. Helst gæti ég nefnt vin hans, Robert Johnson.
Ég bölva því hins vegar í sót og ösku að uppgötva að ég hef misst af tónleikunum með honum. Ég vissi ekki einu sinni að hann væri á landinu. Þegar ég fór í gegn um blöðin fann ég einungis eina litla frétt úr mogganum í fyrradag, þegar önnur eins goðsögn og snillingur sem er auk þess einn af fáum frumkvöðlum sem er eftir lifandi, finnst manni vægast sagt að hefði átt að auglýsa þetta betur. Andskotinn hafi það, ég hefði vel gefið vinstri fótinn fyrir að geta farið á þessa tónleika. Allavegana stóru tána. Ég strengi þess hér með heit að ég skal sjá hann spila, ef ég á séns á að sjá hann meðan hann er enn á lífi. Ég væri þess vegna til í að fara pílagrímsför til Bandaríkjanna í þeim einum tilgangi að sjá hann spila. Ef Múhameð kemur ekki til fjallsins (eða ef fjallið missir af honum), þá verður fjallið að koma til Múhameðs. Ég ætla líka að panta mér diska með honum á netinu.
sunnudagur, nóvember 13, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli