fimmtudagur, desember 15, 2005

Í gær héldum við fjölskyldan upp á afmæli ömmu minnar á veitingahúsinu Rauða húsinu (sem af einhverjum ástæðum var þó hvítt) á Eyrarbakka. Maturinn þar var hreinasta hnossgæti. Ef þið eigið einhvern tíma leið þar um og viljið fá ykkur góða máltíð þá fær staðurinn topp einkunn hjá mér. Þarna snæddi ég sjávarréttasalat með rækjum og meðlæti og humar og skáluðum við fyrir afmælisbarninu í rauðvíni. Ég rak einnig nefið í ljósmyndabók með gömlum ljósmyndum af svæðinu, einhvers staðar frá bilinu 1914 til tuttugu og eitthvað. Afar gaman að skoða þessar gömlu þjóðlífsmyndir.

Fór með Dodda á King Kong í gær. Hún er tvímælalaust ein af bestu myndum sem ég hef séð á árinu.

Áðan skrapp ég á bókasafnið að ná í safndisk með The Cure sem ég hafði pantað nokkrum dögum áður. Ég hlustaði einnig mikið á þennan disk um jólaleitið í fyrra. Háftíma áður var ég í Skífunni og ætlaði þaðan á bókasafnið í áðurnefndum erindagjörðum og þá heyri ég einmitt spilað "Boys Don't Cry" með The Cure. Heimurinn er lítill.
Ég hef alltaf haft gaman að uplestri góðra bóka og fann á bókasafninu Aðventu Gunnars Gunnarssonar á hljóðsnældu, lesna af Róberti Arnfinnssyni leikara. Ég er að lesa hana núna. Síðast en ekki síst fékk lítinn dýrgrip, kassettu þar sem átta þjóðskáld lesa úr verkum sínum; Tómas Guðmundsson, Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson, Jón Helgason, Sigurður Nordal, Steinn Steinar, Þórbergur Þórðarson og Davíð Stefánsson. Ekki amalegt það. :)

Búinn í tveimur prófum og á tvö eftir. Bókmenntirnar gengu nokkuð vel og menningarsagan alltént þokkalega. Að prófum loknum get ég endanlega skriðið úr grábjarnarhamnum og orðið jólabarn.
Á morgun fer ég í próf í almennum málvísindum. Það fag hef ég vanrækt í vetur .þannig að jacta est alea. Ég verð bara að læra vel núna og gera mitt besta. Kann eitthvað hrafl í hljóðfræðinni, það próf verður á mánudag. Alors, qui sera sera.
Mig langar í jólaglögg. Ég smakkaði jólaglögg í fyrsta sinn í kórpartýi hjá Gísla um daginn. Hef einsett mér að kenna sjálfum mér að malla hana núna um jólatímann.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.