sunnudagur, ágúst 31, 2008

Lag dagsins : Denim and Leather með Saxon


Jæja, nú ættuð þið allav. að hafa e-ð að smjatta á :)

Uppfært 22:25

Gat ekki stillt mig um að bæta við titillagi Jesus Christ Superstar í flutningi Laibach.
Með kærri þökk til víkingabastarðsins.

Jay & Silent Bob - Keepin' it REAL

föstudagur, ágúst 29, 2008

Michael Jackson og The Flying Pickets

Michael Jackson varð fimmtugur í fyrradag og ég blasta eftirlætislögunum mínum með honum, rugga mér eilítið í lendunum í leiðinni og sný mér í hring:
Don't Stop 'Til You Get Enough, Bad og . Smooth Criminal, Thriller, Dirty Diana, Black or White, Can You Feel It?, I'll Be There, Beat It og I Want You Back

Tékkið svo á a capella - útgáfu The Flying Pickets á Billie Jean.

Og talandi um The Flying Pickets, þá finnst mér útgáfa þeirra af Only You frábær.

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Í dag eru liðin 45 á frá göngunni til Washington, þar sem Martin Luther King hélt frægustu ræðuna sína;


Á þessum sama degi, árið 1749 og 1828 fæddust þýsku og rússnesku stórskáldin Johann Wolfgang von Goethe og Leo (Lev) Tolstoy.
Sama dag, 1917 fæddist myndasöguhöfundurinn Jack Kirby (Jacob Kurtzberg), meðhöfundur Fantastic Four, X-Men, Hulk og Captain America o.fl.

Á þessum sama degi hefði svo Keli föðurbróðir, Áskell Egilsson, sjómaður, skipasmiður og ljóðsmiður orðið sjötugur, en hann lést úr krabbameini árið 2002. Í minningu hans orti pabbi eftirfarandi ljóð, sem kom út í ljóðabókinni hans, Á mörkum:


Bróðurkveðja

Hestur þinn þræðir horfna fjallaslóð
hamar þinn dynur líkt og fyrr á tíðum
hefillinn fágar; þinn hugur orð í ljóð
En hafið bíður þess að ljúki smíðum

Huldufar úr sævi ber í sýn
- syngur í hamri undir höggum stríðum
erindi þess er brýnt: og beint í vör
er báti stefnt með orðsending til þín

Þar liggur haf og hylur mönnum svör
- eyfirsk birtan með undarlegum tónum -
Þú leggur frá þér hamar, hefur för
hiklaust gengur veginn niðrað sjónum

akkerið híft - og huldufarið lætur
í ljósaskiptum út
til hafs - og nætur




Lög dagsins: Get Up, Stand Up með Bob Marley & The Wailers, Strawberry Fields Forever og Dear Prudence með Bítlunum og Seaside Rendezvous með Queen.

Cranberry sauce...

Misheyrnir

Í dag heyrði ég eitthvað popplag, með Skítamóral, held ég, í útvarpinu og var ekki viss hvort þeir syngju "Ástin byrjar á hrifningu" eða "ástin minnir á rigningu".
Bæði má sjálfsagt til sanns vegar færa. :P

Eins hef ég lifað í þeirri blekkingu árum saman að til væri fyrirtæki sem kallaði sig Einar farísea, taldi mig enda oft heyra auglýsingarnar hans í útvarpinu. Hann heitir víst Farestveit.
Mér finnst samt mín útgáfa flottari.

Síðdegissjónvarp

Maður veit að ástandið er slæmt þegar skásta sjónvarpsefnið er e-r spænsk sápa og Big Momma's House með Martin Lawrence. :P

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Get your motor runnin'... - Ökunám bækur og blaður

Með biksvörtu morgunkaffinu (nennti ekki út í búð að kaupa mjólk, þó ég endi eflaust með því að dragnast þangað): Tónlistin úr O Brother, Where Art Thou?, Dirt með Alice in Chains og Maskerade eftir Terry Pratchett, úr Discworld-seríunni. Kominn tími til að ég færi að lesa þessar bækur, en þessi var mér lánuð um daginn, í ljósi þess hversu margir hafa lengi mælt með bókunum við mig. Áður hafði ég lesið “Undir berum himni” í flokknum “Ævintýri nálfanna” (e. “Truckers” í “Bromeliad”-þríleiknum) í þýðingu Þorgerðar Jörundsdóttur, og fannst hún bráðskemmtileg. Það eru ca. 11 ár síðan að ég las hana. Tíminn flýgur. Maður ætti kannski að fara að tékka á framhaldsbókunum. :P
Kominn í þessum skrifuðu orðum á bls. 41 af 381 í Maskarade og líst vel á. :)

Andaktungurinn er byrjaður að læra á bíl hjá Knúti Sölva Hafsteinssyni, sem einnig var íslensku- og umsjónarkennari hans í lærða skólanum. Nú má heimurinn fara að vara sig. Hér kemur Einar Steinn! Vrúúúúúúmmmm!
Það var skrýtið að vera aldursforsetinn í bóklegu tímunum í ökuskóla eitt. Fannst ég óttalega gamall e-ð innan um slefandi 17-18 ára krakka. No offence sko, ef eitthvert ykkar er að lesa þetta, svona augum lít ég einfaldlega unglinga, deal with it. ;)
Ég undanskil svo ekkert sjálfan mig á þessum aldri þó að mér hafi eflaust þótt ég fjandanum þroskaðri á þeim tíma. Þetta skánar líka eftir busavígslu. :)
Fékk sterkan svona "ertu snjallari en menntaskólakrakki?"-fíling þarna, oft komu e-r tækniatriði sem risaeðlan ég hváði yfir í huganum en var svo sem ekkert alltof spenntur fyrir að auglýsa það á staðnum að kornabörnin hefðu betri þekkingu á ýmsu svona heldur en ég. Ég var btw. aldrei með sérlega tækni-eða bíladellu (annað en að þykja flottir bílar flottir), og helmingurinn af þessu hljómaði ergo eins og volapyk í mínum eyrum. Á meðan þetta var fróðlegt þá gat þetta dregist dálítið á langinn, 4 tíma slide-show með 6-10 mínútna pásum. Að auki var þetta um kvöld í nokkuð þungu lofti og heilinn minn hefði alveg mátt vera móttækilegri.
Mér verður hugsað til þess þegar ég var að kenna pápa á geislaspilarann ("Sjáðu, hér er STOP-takkinn, hann er svona til að STOPPA með" os.frv.) á sínum tíma (honum hefur n.b. farið mikið fram í tækninni, hann getur brúkað tölvu núna), s..s. þegar maður þarf ekki að bjarga sér með e-ð er auðvelt að láta aðra um það.
Í stað þess að auglýsa fáfræði mína í tímanum, geri ég það bara í netheiminum. Þar er leyndarmálið óhult. :P
Kennslustofan mín hýsir einnig Barðstrendingafélagið Konnakot. Það þótti mér skondið.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Lög dagsins: Wake Me og Lucky One með KK, Unchained Melody með The Righteous Brothers og

The Ship Song með Nick Cave & The Bad Seeds:

mánudagur, ágúst 25, 2008

Lag rísandi dags/hnígandi nætur: Loom of the Land með Nick Cave & The Bad Seeds.

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Layne, John & ég

Þá er ég orðinn 24gjra ára.Það er ágæt tilfinning. Átti ánægjulegan afmælisdag og stefni á að halda teiti í næstu viku.

Tveir tónlistarmenn sem eru í miklum metum hjá mér deila afmælisdegi með mér; John Lee Hooker og Layne Staley, söngvari Alice in Chains. Ég játa að ég var sleginn af fregninni um andlát Layne Staley, en hann lést langt fyrir aldur fram, 35 ára að aldri, úr of stórum skammti eiturlyfja. Kannski lá þetta þó í loftinu, þar eð hann hafði lengi átt við alvarlega eiturlyfjaneyslu að stríða. Layne var og er einn uppáhalds rokksöngvarinn minn og ég held mikið upp á Alice in Chains, þá fyrst og fremst aðra plötuna þeirra; meistaraverkið Dirt frá árinu 1992.



Eftirlætis lagið mitt á þeirri plötu er Down in a Hole og því næst Rooster Ég rakst á upptöku frá MTV Unplugged þar sem sveitin tekur Down in a Hole. Layne virkar viðkvæmur og dettur e-ð út í harmóníum frá 4:40 til ca. 5:10, svo Jerry Cantrell bakkar hann upp en Layne kemur svo það áhrifaríkt inn aftur að það meira en fyrigefst, enda er en hann er svo einlægur og sálarríkur í söngnum að undirritaður fær gæsahúð. Layne upplifði því miður þann raunveruleika sem hann syngur um. Lofuð sé minning þessa magnaða söngvara og hljómsveitarleiðtoga. Þetta voru bestu myndgæðin sem ég fann á myndbandinu, svo þið látið ykkur vonandi hafa það að fyrstu 6-7 sekúndurnar virðast vera úr e-i mynd með Neve Campell. :P



Má svo til með að láta eðallagiðMan in the Box fljóta með af plötunni Facelift, frá árinu 1990. Layne er auk þess frískari þarna.

Sömuleiðis er John Lee Hooker einn eftirlætis blústónlistarmaðurinn minn. Hér flytur hann It Serves Me Right to Suffer og Tupelo. Reyndar steikt að hafa þennan texta með myndböndunum, sérstaklega þar sem það er dágóður slatti af villum í honum. :P


mánudagur, ágúst 18, 2008

Do you use your pointy nipples as telescopic antennae transmitting data back to earth?

Flight of the Conchords eru frábærir þættir. Í einum besta þættinum sem ég hef hinga til séð vitrast David Bowie Bret í draumi til að gefa honum hollráð:



Lag dagsins nr. 1 er úr sama þætti, hið æðislega Bowie's In Space:


Lag dagsins nr. 2 er The Name of The Game með ABBA:

sunnudagur, ágúst 17, 2008

Tók próf á fésbókinni; "Hvaða drykkjulag ertu?" og fékk Whiskey River með Willie Nelson. Þetta er drullugott lag og vel að því komið að vera lag dagsins, þó ég sé nú ekkert kvalinn á sálinni eins og sögumaður lagsins. Hef það ágætt. Samt sem áður svamlaði ég aðeins í Viskýánni í afmælisteiti í gær og fékk mér hressilega í stóru tána. Þetta var gott teiti og ég þakka fyrir mig. Vaknaði öskuþunnur í morgun en líður þokkalega núna.

Lag dagsins nr. 2 er I Got Stoned And I Missed it með Dr. Hook.

Jon Stewart fjallar um átökin í Georgíu:

föstudagur, ágúst 15, 2008

Mahmoud Darwish

Mahmoud Darwish, þjóðskáld Palestínu og eitt fremsta ljóðskáld araba, er látinn, 67 ára að aldri og er hans víða minnst, sem von er. Hann hefur verið kallaður rödd og samviska Palestínu og það ljóðskáld sem best eigi skilið að vera kallað lárviðarskáld (poet laureate). Friðaraktívistinn Uri Avnery, einn stofnmeðlima ísraelsku friðarsamtakanna Gush Shalom, sem þekkti Darwish vel, sagði þetta um Darwish við fjölmiðlafulltrúa víðs vegar að úr heiminum: "Hann var ljóðskáld reiði, þrár og vonar. Hann tjáði dýpstu tilfinningar palestínsku þjóðarinnar. Við verðum að skilja þessar tilfinningar ef við viljum semja frið." Darwish var jafnframt mannvinur og baráttumaður fyrir friði og samskiptum milli gyðinga og araba. Það er mikill missir af honum, hvað þá á þessum síðustu og verstu tímum fyrir Palestínu. Fyrstu kynni mín af Darwish voru þegar ég var að lesa Freedom Next Time eftir John Pilger, en þar birtust þessar ljóðlínur Darwish úr ljóðinu "State of siege" (í enskri þýðingu Ramsis Amun), lögð í munn sjálfsmorðssprengjumanns/píslarvotts:

...for I love life
On earth, amid fig trees and pines,
But I cannot reach it, and then, too, I took aim at it
With my last possession...


Ljóðið má lesa í heild sinni hér

Gush Shalom eru meðal þeirra sem votta Darwish viðringu sína og berjast nú, ásamt fleirum, fyrir því að ljóð Darwish verði hluti af námsskránni í ísraelskum skólum. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu þess efnis; Not to late to include poems of Mahmoud Darwish in the school curriculum

Mahmoud Abbas Palestínuforseti lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg í kjölfar fráfalls Darwish og ísrelska dagblaðið Ha'aretz heldur því fram að önnur eins hryggð hafi ekki sést í Ramallah við fráfall eins manns frá því að Yasser Arafat dó.

Á Electronic Intifada er Mahmoud Darwish vottuð virðing í greinunum Remembering Mahmoud Darwish, Mahmoud Darwish: Palestine's prophet of humanism og A guest of eternity: Mahmoud Darwish in memoriam


Síðast en ekki síst er Mahmoud Darwish minnst á opinberri heimasíðu hans, en ég setti jafnframt hlekk á hana hægra megin á síðunni.

Uppfært sunnudaginn 17. ágúst kl. 14:04


Ég hvet svo lesendur sérstaklega til að lesa grein Uri Avnery; The Anger, the Longing, the Hope

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Ég horfði á nokkra þætti af þeim sýrðu snilldar-grínþáttum The Mighty Boosh með Sólrúnu og lag dagsins, Electro Boy, er þaðan. Aðdragandi hljómleikanna er sá að Vince gengur í rafhljómsveit og fær Harold með sér. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að andi djassins ofsækir Harold og hyggst taka sér bólfestu í honum og láta hann gera vandræðalega hluti (í byrjun myndbandsins er handinn fanginn í ryksugu) . Við hlógum okkur bæði máttlaus yfir þessu:



Uppfært:


Þetta, fyrr úr sama þætti er svo bara snilld:

föstudagur, ágúst 08, 2008

Aumur er kattlaus kofi

Í gærmorgun ók ég með bróður mínum upp í Víðidal með ástkæran fjölskylduköttinn okkar, Skottu Pamínudóttur, sem tilheyrir opinberlega bróður mínum, til að láta svæfa hana hinsta svefni.
Skotta var orðin háöldruð og nýrun auk þess að gefa sig. Hún var á síðasta snúning og löngu kominn tími til að fara með hana en engu að síður er sárt að sjá á eftir þeim blíða og indæla ljúfling sem Skotta var, hvað þá þegar maður hefur alist upp með henni, frá því að hún var kettlingur en við bræður stráklingar. Samtímis hugsar maður með hlýju til allra þeirra góðu stundir sem maður fékk með henni og móður hennar, en Pamína hélt á sínar eilífu veiðilendur í fyrra. Skottu sá ég nota bene aldrei klóra nokkra manneskju (en móðir hennar var t.a.m. óhrædd að beita klónum ef hún sá ástæðu til). Okkur bræðrum var því eðlilega þungt í brjósti þegar við ókum til baka. Við fáum öskuna hennar í næstu viku og stefnum á að dreifa ösku hennar og móður hennar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu.
Lofuð sé minning Skottu. Megi hún hvíla í friði.
Ég hyggst skella inn myndum af þeim mæðgum við tækifæri.

...

Ég óska landsmönnum til hamingju með Gay Pride og með þessa fjölmennustu göngu til þessa. Ég missti af göngunni sjálfri sökum vinnu en brá mér niður í bæ í mannhafið og þeta var sannarleg tilkomumikið. Að sama skapi þakka ég fyrir sérlega fróðlega sögugöngu samkynheigðra í Reykjavík á fimmtudaginn var. Við það tækifæri steig ég jafnframt í fyrsta sinn fæti mínum inn í hús Samtakanna '78 og var það hið viðkunnalegasta.

....

Í dag er opinber Frank Zappa-dagur haldinn hátíðlegur í Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum til heiðurs minningu þess mæta tónlistarmanns. Þeim sem vilja heiðra minningu kappans er sérlega bent á plöturnar Hot Rats, þá ekki síst Peaches en Regalia, The Gumbo Variations og, Willie the Pimp, (fáránlega flott gítarsóló hjá Zappa) ogWe're Only In It For the Money með Frank Zappa & The Mothers, að ógleymdu Bobby Brown Goes Down.

mánudagur, ágúst 04, 2008

Bréf til RÚV

Ég sendi í gær bréf til Ríkisútvarspins til að gera athugasemd við frétt sem ég las á heimasíðu RÚV og nefndist "Breskir múslimar styðja talibana". Bréfið er svohljóðandi:



Ágæta starfsfólk Ríkisútvarpsins.

Þann 2. ágúst 2008 birtist svohljóðandi frétt á heimasíðu RÚV:


"Breskir múslimar styðja talibana

Fyrrverandi yfirmaður breska heraflans í Afganistan, Ed Butler, segir í viðtali við breska dagblaðið Telegraph að breskir múslimar berjist með hersveitum talibana í Afganistan. Hann segir einnig að öfgasinnaðir múslimar í Suðaustur-Asíu aðstoði skoðanabræður sína á Bretlandi við undirbúning á hryðjuverkum þar í landi.
Einnig valdi það honum áhyggjum að Bretar sem koma heim eftir að hafa barist með talibönum séu vel þjálfaðir í framkvæmd hryðjuverka. Því sé nauðsynlegt að halda baráttunni í Afganistan til streitu, þar til fullnaðarsigur gegn talibönum hafi unnist.

Alls hafa 114 breskir hermenn fallið í átökum í Afganistan, þar af 17 í síðasta mánuði."


Mig langar að gera athugasemd við þessa frétt.
Fyrir það fyrsta gæti orðalagið í fyrisögninni gefið í skyn að múslimar í Bretlandi styðji almennt talibana, og tel ég, að öðru ósönnuðu, ólíklegt að svo sé og að það hafi varla verið tilgangur fréttarinnar.
Í öðru lagi er þessi talsmaður eina heimild fréttarinnar og engar sannanir eru gefnar fyrir fullyrðingu hans. Hann hefur starfað sem yfirmaður breska heraflans og málpípa og málflutningur hans litast því óneitanlega af þeirri stöðu hans. Ólíklegt má telja að hann fari að koma með fullyrðingar sem stríði gegn hagsmunum hersins eða sem eru í andstöðu við þá mynd sem herinn vill gefa af ástandinu.
Mér þykir það alvarleg þróun í fjölmiðlum ef málflutningur talsmanna hersins, í þessu tilfelli hernámsliðs, er æ oftar eina heimildin sem vísað er til, sér í lagi ef þau orð eru tekin góð og gild sem sannleikur um ástandið án frekari eftirgrennslanar.
Sjálfur myndi ég mæla með fyrirsögn á borð við “Segir breska múslima berjast í liði talibana” eða eitthvað þvíumlíkt, svo ljóst sé að þessi fullyrðing hafi ekki verið staðfest óyggjandi og að hinn almenni múslimi í Bretlandi styðji ekki við talibana, enda hafa ekki komið fram neinar heimildir um slíkt.
Viðingarfyllst
Einar Steinn Valgarðsson

PS Það væri e.t.v. ekki úr vegi að geta jafnframt í fréttinni hversu margir Afganar hafa fallið í átökum í Afganistan og hversu margir þar af í þessum mánuði.


Þegar þessi færsla er skrifuð hefur mér enn ekki borist svar frá RÚV og eins og er stendur fréttin óbreytt á heimasíðu RÚV.

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Andaktungurinn hefur verið að skemmta sér vel yfir snilldarþáttunum The Flight of the Choncords. Hér taka þeir Business Time og The Humans are Dead á tónleikum:


Deiglan á Huga...

Því meira sem ég les á þeirri síðu, því oftar hugsa ég: "Bara að börnin mín verði ekki svona".

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.