mánudagur, janúar 31, 2005

Stríð

Undarlegir eru menn
sem ráða yfir þjóðum

Þeir berjast fyrir föðurland
eða fyrir hugsjón

og drepa okkur sem eigum
ekkert föðurland nema jörðina
einga hugsjón nema lífið


(Ari Jósefsson; „Nei“ 1961)

laugardagur, janúar 22, 2005

Mjallar foldir fella
fannir skjannahvítar
brúnir roðnar röðli
rýður dreyri hlíðar
myrki markir lýsa
mönduls hvarma bjarma
skína stjörnur fornar
sindra norðurs tindar

föstudagur, janúar 21, 2005

Út frá blendnum tilfinningum um skólagöngu varð svo þetta dróttkvæði til:

Glaumi fylgir glamur
glatt að leggja á bratta
magnast uggur meðal
manna, eykst þá spenna
lýður lærir fræði
lærdómsgyðju mæra
Ver er vís af læsi
vandi um hnúta að binda


Síðustu dagar hafa einkennst af miklu námi sem hefur á stundum verið að gera undirritaðan gráhærðan. Þá hefur verið ljúft að geta svifið í faðm minnar heittelskuðu Auðar, en milli lærdóms og anna höfum við reynt að vera saman eins mikið og við höfum getað. Við höfum nú verið lagalega saman í 2 vikur, en kynntumst í desember.
Fórum í síðustu viku á Edith Piaf, bæði í annað sinn og var það immer gleich schön. Brynhildur Guðjónsdóttir er gyðja og það er sem hún syngi í senn með hjarta, sál og líkama.

NOTA BENE: Lesandi góður, ef þú sérð einhverja mynd í ár skaltu sjá hina mögnuðu mynd Un Long Dimanche, nýjustu mynd meistarans Jean-Pierre Jeunet (City of lost Children, Amélie), sem er sýnd á frönsku kvikmyndahátíðinni. Þessi mynd er stórfengleg, yndislegt listaverk sem ég trúi ekki að láti neinn ósnortinn. Svo var alla vegana ekki með mig.

Alla tíma sælir og blessaðir, heykrókar góðir!

Það er helst af mér að segja að ég er nýorðinn hákúltiveraður háskólanemi, ungur maður á framabraut sem mun landið erfa. Eftir mikil heilabrot og tilvistarkreppu skráði ég mig í ensku, en hefi einnig getað hugsað mér bókmenntafræði, ef tímar hefðu ekki skarast. Ég er nú skráður í 12,5 einingar; enska málfræði, enska málsögu, bandaríska menningarsögu og bandarískar bókmenntir. Það eru óneitanlega nokkur viðbrigði að vera byrjaður í skóla aftur. Gaman að hitta gömul og nýa andlit og spennandi að byrja ný fög sem eru ýmis hver áhugaverð og gjarnan skemmtileg en um leið nokkuð uggvænlegt að hefja hörkunám á ný eftir að hafa ekki lært síðan í vor, þar af mesta heimnavinnan í menningarsögunni, auk þess sem fögin og efni er auðvitað misskemmtilegt. Kennararnir eru viðkunnalegir, sérlega eru Mathew Whelpton og Julian D’Arcy skondnir fýrar. Í fyrsta tíma menningarsögu í Háskólabíói skýrði Mr. D’Arcy okkur frá hvernig kennslu yrði hagað í faginu og varði svo restinni af tímanum til að segja okkur frá eftirlætis íþróttinni sinni; amerískum fótbolta. Var það bæði áhugavert og fyndið.
Eins og gefur að skynja var ég mjög spenntur fyrir bókmenntunum og hafa textarnir og tímarnir hingað til enda verið að mestu afar ánægjulegir. Um daginn hvatti bókmenntakennarinn okkar okku þór til að nálgast Ralph Waldo Emerson og "Self-reliance" með opnum hug og gefa honum séns. Það gerði ég. Mér fannst hann samt leiðinlegur og var í mörg afar ósammála honum.
"Biblía sjálfstæðisflokksins" hugsaði ég að lestri loknum. Þeim mun skemmtilegra var að lesa „Rip Van Winkle“ eftir Washington Irving og „My kinsman,Major Molineux“ og Young Goodman Brown“ eftir Nathaniel Hawthortne, þær voru alveg magnaðar.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Tek svo ofan fyrir Hallgrími Helgasyni sem skrifaði magnaða grein í Fréttablaðið á Gamlársdag og heitir „Svikasumarið mikla“. Þar varpar hann á ný kærkominni sprengju í þjóðfélagsumræðuna. Greinin hefur til að bera þá mælsku og húmor sem jafnan einkennir skrif Hallgríms og er hann er óvæginn, reiðir vöndinn hátt og heggur á báða bóga.

Hjálparstarf
Þegar þetta er skrifað hafa hræðilegustu náttúruhamfarir í manna minnum dunið yfir Indlandshaf. Hörmungununum verður vart lýst með orðum. Tala þeirra sem vitað er að hafi farist í flóðbylgjunni sem varð af völdum jarðskjálftans nálgast nú 200.00 manns. 2 milljónir munu vera heimilislausar. Fjölda fólks er enn saknað og líkin hrannast upp. Fólk er matar - og drykkjarlaust og hætta á farsóttum stigmagnast. Lík þarf að grafa og það flæðir út um ræsin. Skelfilegast þykir manni þó líklega að heyra fregnir af mannránum, þar sem munaðarlausum börnum hefur verið rænt og þau seld mannsali.
Það er ljóst að þetta fólk þarf á hjálp að halda og það strax. Án hjálpar munu þeir sem lifðu flóðið af ekki lifa mikið lengur. Því er brýnt að allir taki höndum saman og geri það sem í þeirra valdi stendur til að styrkja þetta fólk. Vesturveldin mega við miklu meira en þau hafa viljað láta af hendi og þar með talin er ríkisstjórn Íslands og íslenska þjóðin. Þetta varðar okkur öll og það munar um hvert framlag. Í stað þess að eyða fé í rusl getur þú látið gott af þér leiða og komið bágstöddu fólki til bjargar. Söfnunarsími Rauða kross Íslands er 907-2020 Enn fremur þarf fólkið á vatni að halda, og hvet ég og alla sem vettlingi geta valdið til að leggja sitt að mörkum í þeim efnum.
Bendi á magnaða grein eftir Uri Avnery á Gush-Shalom.org , sem nefnist „Before the Next Catastrophe“ þar sem hann fjallar um hörmungarnar, viðbrögðin við þeim og hvernig megi hugsanlega koma í veg fyrir að þær verði jafn miklar næst.

Flugeldafár

Þann 30. desember 2004, þegar gamla árið var að líða sitt skeið á enda var ég að brjálast yfir hinni grábölvuðu síbylju flugeldasprenginga sem tröllreið borginni allan daginn. Af hverju getur fólk ekki alltént hundskast til að bíða? Hávaðinn ætlaði allt um koll að keyra. Dýr vita ekki hvaðan á þau stendur veðrið í slíkum ofsalátum. Mörg ærast hreinlega og ekki að undra, á áramótum mætti halda að dómsdagur væri runninn upp, slíkur er hávaðinn. Skemmst er að minnast um árið, þegar hross ærðust við sprengingar í Mosfellsbæ og brutust út úr hesthúsum, hlupu fyrir hamra og fórust.
Og hvað með gamalt og/ eða hjartveikt fólk, slíkar sprengingar við næstu húsadyr geta hreinlega gengið af þeim dauðum! Er virkilega ekki komið nóg af brjálseminni?
Á hverju ári eyðum við svo ógrynni fjár í þessa vitleysu, sem eyðist sama kvöld, þetta er svipað og að skeina sér með gullklósettpappír, himinninn stendur í ljósum logum alla nóttina og hávaðanum mætti líkja við þann er glymur úr horni Heimdallar í Ragnarökum. Að ógleymdri loftmenguninni, brennisteinsþokunni sem liggur síðan yfir bænum.
Það er afar gott að styrkja Landsbjörgu en þetta er ekki rétta leiðin til þess, ekki á meðan aminn er slíkur af draslinu. Það er ekki lausn að skapa vandamál. Ég held, þvert á móti að landsmenn mættu sjá sóma sinn í að styrkja Landsbjörgu með frjálsum framlögum í stað þess að spreða fé í gagnslaust rusl.

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Uppfærði loksins hlekkinn á Agga og smellti einnig hlekk á mína hjartkæru Auði fögru Hepburn. Þá má nálgast til vinstri. :)

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.