Klukk, stund sannleikans er runnin upp (og lesendur bíða með öndina í hálsinum)
Doddalingur klukkaði mig. Jamm, maður var farinn að halda að maður yrði skilinn útundan í klukkæðinu sem hefur tröllriðið bloggheimunum. Það mun eiga að nefna 5 staðreyndir um sjálfan sig, helst persónulegar. ég hef bætt um betur og nefni 8 (brave or what?!) ;). Þær eru mispersónulegar en flestar held ég að séu síður á allra vitorði. Dæmi svo hver fyrir sig hversu safaríkt þetta þykir.
1)
Don't cry
Don't raise your eye
It's only teenage wasteland (The Who)
Ég hef, ótrúlegt en satt, ekki alltaf þótt eins überkúl og kynæsandi og ég er í dag (in my mind!). Mér var strítt í gegn um barnaskóla og í gaggó. Átti ca. 2-3 vini´í Vesturbæjarskóla, þar af höfum við Doddi verið bestu vinir í 12 ár. Ég var lagður í einelti í Hagaskóla. Þeir sem ekki stríddu manni skildu mann út undan eða sóttust ekki eftir að umgangast mann. Það skánaði í níunda og tíunda bekk, ég fór að sækja Frostaskjól og vingaðist við fólkið sem þar starfaði. Það er samt spurning hvort hægt sé að tala um að ég hafi eignast raunverulega vini í Hagaskóla. Í besta falli félaga, kunningja. Ég var alltaf utanveltu og hornreka. Doddi var þá fluttur og kominn í annan skóla, en við hittumst eftir megni.
Svo kom MR. Maður fór þá líka að byggja sig upp.
Maður getur alltaf byggt sig upp og bætt sig, en um leið verður maður að vera maður sjálfur.
Í MR var maður viðurkenndur, og gat fengið að vera maður sjálfur án þess að verða fyrir aðkasti fyrir það eitt. Allir voru auðvitað að taka út þroska, og voru viðmótsþýðari, jákvæðari og málefnalegri fyrir vikið. Varð það eins með mig. Þar kynntist ég mörgu góðu fólki. Ásamt bekkjarfélögum held ég að stór vendipunktur í félagslífinu hafi verið að ég fór í Herranótt og kórinn. Flestir mínir félagar úr MR voru þar. Maður eignaðist góða vini, félaga og kunningja. Auk þess kynntist ég Kidda og Möggu í Hallanum, og yndislegra fólki getur maður varla kynnst. Ýmsir segja að menntaskólaárin séu bestu árin manns.Ég get að mörgu leiti tekið undir það. Margar af mínum bestu minningum eru úr MR. Atburðir eins og Krítarferðin, tolleringin, Morfís og gangaslagurinn líður engum úr minni sem það hefur upplifað. Kennararnir í MR ekki heldur. Kór-og herranæturstarfið, partýin, ferðirnar..., dimmisssio.... Starfið í listafélaginu var líka skemmtilegt og lærdómsríkt að ógleymdu Fiðluballinu, sem er tvímælalaust skemmtilegasta ball sem ég hef farið á á allri skólagöngunni í MR.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar. Hvað gamla eineltið varðar, þá rakst ég um daginn á ónefndan fyrrum skólafélaga úr Hagaskóla. Hafði hann verið duglegur í að hafa mig að skotspón í skóla, án þess að vera sá versti. Hann heilsaði mér og bað mig fyrirfram afsökunar á hvernig hann hefði komið fram við mig í Hagaskóla. Sagði hann að ef það væri eitthvað sem hann gæti gert til að bæta mér þetta upp þá skyldi ég láta hann vita, hvenær sem væri. Mér datt ekkert í hug, sagði honum að hafa ekki áhyggjur af þessu.Ég var djúpt snortinn af þessu. Auðvitað fyrirgaf ég honum. Hann hafði sýnt það hugrekki og drengileik að biðja mig óumbeðinn afsökunar. Það væri óskandi að fleiri sýndu slíkan drengskap.
2)Ég held að ég gæti ekki lifað án tónlistar. Ég er gífulegur tónlistarunnandi og hrífst algjörlega af tónlist sem höfðar til mín. Tónlist er enda sú list sem nær beinast til tilfinninga manns. Ég ólst upp við klassíska tónlist, Jórunn systir spilaði svo fyrir okkur bræðuna popptónlist þegar hún fór me ðokkur í bíltúr, ég fór að fíla þungarokk í gegn um Véstein ogThe Friday Rockshow á VH1. Tommy Vance var skilgreiningin á svalleika. Ýmsir aðrir höfðu svo áhrif, maður fór að viða meira að sér og nú er svo komið að mér líkar flestar tónlistarstefnur. Ekki svo að segja að ég gleypi við hverju sem er, get verið helvíti selektívur. Fer meira eftir hljómsveitum, flytjendum og lögum. Lágmarkskrafa er melódía. Þannig hef ég t.d. aldrei geta fílað hardkor að ráði. Ég hef næmt tóneyra og greyni t.d. hljóðfæri í sundur við hlustun og man lög nákvæmlega eins og ég heyri þau. Mér hefur hins vegar aldrei tekist almennilega að læra nótur. ég hef verið í nokkrum kórum og hef unun að því að syngja. Stend mig oft að því að syngja þegar ég hef haldið að enginn væri nálægur. Syng líka oft í sturtu. Sérlega neyðarlegt ef maður er úti á gangi og heldur að maður sé einn, er með lag í höfðinu, byrjar að humma uns maður beljar hvellum rómi: IT’S THE EYYYEE OF THE TIGER, IT’S THE THRILL OF THE FIGHT!!! Uppgötvar svo að maður var ekki einn á götunni og gerir sig að fífli.
3) Ég er yngstur af 5 systkinum. Það vita ekki margir að ég átti annan bróður, Einar Véstein, sem lést 5 ára í bílslysi áður en við Vésteinn fæddumst. Við bræður heitum í höfuðið á honum. Eins vita fæstir að ég á hálfsystur. Hún heitir Arnhildur, og er 39ára. Dóttir pabba. Hingað til höfum við ekki hist oft, jafnvel liðið ár á milli, en höfum nýverið verið að bæta úr því. Arnhildur er afskaplega góð og skemmtileg systir og því um að gera að halda sambandi. Auk þess er Jórunn systir mín, 36 ára og Vésteinn bróðir minn sem er 24 ára (1980-módel).
4) Ég á bangsa, sem hvílir í rúminu mínu. Hann gaf Mossi mér í jólagjöf, og hefur hann komið í góðar þarfir, hehe. Þar eð Mossi og Íris krússímússast talsvert þegar maður er með þeim (og eflaust meira þegar maður er ekki með þeim ;) fékk bangsinn nafnið Mússi.
Hvað bangsa varðar, þá voru fyrstu bangsarnir sem ég eignaðist hundar. Stórisnati og Litlisnati. Eftir það hétu nánast allir bangsarnir mínir einhverju nafni sem endaði á –snati. Jafnvel Bangsasnati. Ég var afar frumlegur í nafngiftum, þegar ég var lítill.
5) Ég hef varla verið mikið eldri en 5 ára gamall samdi ég mitt fyrsta leikrit. Það hét Ríkharður konungur. Fékk ég nokkra aðstoð hjá föður mínum og bróður við tæknilega útfærslu leikritsins, man t.d. ekki eftir að ég hafi kunnað að lesa og skrifa þegar þetta var. Í stystu máli er Ríkharður Englandskonungur á siglingu, í leit að Íslandi, sem hann hafði heyrt getið, ásamt Ármóði, þræl sínum. 3 norskir njósnar brugga launráð og segja Noregskonungi frá. Birtist hann þá og ætlar að hindra framgöngu Ríkharðs. Ríkharður hneppir Noregskonung í fangelsi. Lýkur þá sögunni.
-Segið svo að maður hafi ekki verið bráðþroska barn.
6) Ég er eflaust yngsti Íslendingurinn til að hafa klifið Bjarnarfellsskriður. Þær voru áður sagðar ófærar mönnum en þó hefur faðir minn verið leiðsögumaður í Fjörðum á hverju ári og þá farið þessar ferðir, ergo: ef maður er vel útbúinn, í góðum hóp og fótviss, e r fremur séns að maður geti farið þar um. Ég var níu ára þegar ég fór fyrst Bjarnarfellsskriður.
7) The Who er eflaust uppáhalds rokkhljómsveitin mín.
8) One more for the road. Mér þykir iðulega illa lyktandi matur góður. Ég er vitlaus í hvítlauk, gráðost og hákarl. Merkilegt, hvað daunillur matur getur verið góður. Ég er einnig mjög sólginn í þorramat. Mysa hefur mér hins vegar aldrei þótt góð.
That’s all folks. Kannski eitthvað fleira seinna. :)
Ég klukka Möggu, Atla, Snæbjörn, Mossa og Helga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli