mánudagur, nóvember 21, 2005

30 ár frá andláti Gunnars Gunnarssonar skálds


Í dag eru liðin 30 ár frá því að stórskáldið Gunnar Gunnarsson lést, 86 ára að aldri. Ég tel að Gunnar sé einhver sá allra besti rithöfundur sem Ísland hefur alið. Hann skrifaði um 20 skáldsögur á æviferli sínum, tugi smásagna, nokkur leikrit, ljóð, greinar og fyrrlestra.
Af verkum hans hef ég núna lesið hinar 5 bækur Fjallkirkjunnar, Svartfugl, Sælir eru einfaldir og Vikivaka. Auk þess nokkrar smásögur. Fjallkirkjan og Svartfugl eru helstu meistaraverk hans að mínu mati. Gunnar er jarðsettur í Viðey ásamt konu sinni, Franziscu. Ég rifja upp fyrri færslur mínar sem ég skrifaði um þær bækur sem ég hef lesið eftir Gunnar;Sælir eru einfaldir, Fjallkirkjan, og Svartfugl og Fjallkirkjan. Aðra Fjallkirkjufærsluna skrifaði ég á meðan ég var að lesa bókina, hina eftir að ég lauk við hana. Ég var víst aldrei búinn að skrifa færslu um Vikivaka. Það er góð bók sem ég skrifa um einhvern tíman við tækifæri.
Þeim sem vilja fræðast meira um Gunnar bendi ég á vef Skriðuklausturs, sem ég hef hlekkjaðan hægra megin á síðunni og Skólavefinn.
Ég læt hér fylgja tilvitnun úr þriðju bók Fjallkirkjunnar, Nótt og draumi, þar sem Uggi Greipsson hugsar heim á siglingu til Danmerkur:

Enn lýsir af minningu djúpt í myrkrinu, hún brennir sig í mig:
Við erum saman komnir margir menn á einum hinna grjótorpnu bæja í heiðinni. Faðir minn er meðal þeirra. Ég hef farið með hestana út á tún að hefta þá. Dagurinn hefur verið mér erfiður, ég sest niður á sendna þúfu, þreyttur og dapur. Ég lít heim að bænum þaðan sem ég sit. Kring um túnskækilinn hringar sig skörðóttur grjótgarður. Æ, hér er allt tómt endalaust grágrýti! Það gægist upp úr túninu, starir út lágum veggjunum. Áfallið verður að gera sér það að góðu, það er ekki rúm fyrir ýkja marga dropa á strjálum stráunum. Bændurnir sem standa í hnapp umhverfis óupplitsdjarfa kofana eru einnig gráir, gráir eins og grjótið. Og þeir eru gráir í meira en einum skilningi því þeir eru bognir af erfiði, upplitaðir og veðurbitnir, grópaðir og sviðnir eftir misjafna daga. Síðan á landnámsöld hafa líklega búið álíka margir menn á þessum einmana bæ og nú eru hér saman komnir – það skakkar aldrei miklu. ég virði þessa grámenn fyrir mér, kemst að raun um að ég þekki þá ekki, hef adrei séð þá áður. Mér finnst sem ókunn örlög hafi steypt mynd þeirra í móti sínu, knífar fjarlægra sársauka hafi skorið þessi andlit út. Þeir hafa búið hér ár fram af ári, mann fram af manni síðan landið fannst og lifað á grjóti. Andi þeirra, trú og tryggð hefur gætt grjótið lífi. Og ekki hafa slíkir menn, orðvarir og dáðadýrir jarðarsynir setið þessa jörð eina, heldur allar aðrar gráar og grjótorpnar jarðir landsins. Eins og haugaeldur brennur á næturþeli yfir fólgnu gulli, tekur allt í einu eldur að brena yfir þessum forna, vallgróna bústað. Upp af grágrýtinu og mönnum þess leggur bjartan, kyrran loga sem ber við himinn, logann frá hinum síbrennandi þyrnirunni lífsins. Rödd Guðs hefur talað.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.