mánudagur, október 31, 2011

Fæddur þar, fæddur hér


Þá er ég öllu spenntari fyrir I Was Born Here, I Was Born There eftir palestínska ljóðskáldið Mourid Barghouti en bókinni að neðan. ég pantaði mér Bók Barghoutis og hún ætti að vera komin í kringum sjöunda til níunda nóvember. Hlakka mikið til að lesa hana. Fyrri bókin hans, I Saw Ramallah, er hreint afbragð og með því allra besta sem ég hef lesið um ástandið.
Ég fjallaði um fyrri bókina hans í Frjálsri Palestínu árið 2010. Greinin, sem ég nefndi "En ég á orðið einhvern veginn ekkert föðurland" (tilvísun í Stephan G. Stephansson), er á bls. 16 -17 í blaðinu.

Handbendi Shin Beit


Nýútkomin bók hefur verið áberandi í bókabúðum og verið auglýst víða, en hún nefnist "Sonur Hamas" og er eftir Mosab Hassan Yousef, son Sheikhs Hassan Yosef, eins af stofnendum Hamas.

Fram kom á vefnum að Mosab, sem kristnir zíonistar eru núna sérlega duglegir að hampa sem hetju, snerist frá Hamas til kristni en lét sér það ekki nægja, heldur hóf að starfa með ísraelsku innanríkisleyniþjónustunni, Shin Beit.

Sumir hafa reyndar efast um að Yosef sé heill í stuðningi sínum við ísraelsk yfirvöld og leiki jafnvel tveimur skjöldum, nú eða að hann hafi verið þvingaður til þessa, í kjölfar þess að hann var handtekinn af ísraelum. Um það skal ég ekkert segja, en hann heldur því alltént fram opinberlega að hann hafi snúist af hugsjónaástæðum.

Ég get hins vegar ekki losnað við tilfinninguna að annarlegur ásetningur kunni að vera að baki þessari útgáfu og spyr mig hvaða hagsmunum hún þjónar. Finnst eins og útgáfa hennar sé ekki síst til að ala á einhæfri mynd og ýta undir fyrirfram gefnar hugmyndir. Þá vekur tímasetningin einnig grunsemdir. Seint yrði ég kallaður hrifinn af Hamas, og held að gagnrýnin sem þeir fá kynni svo sannarlega að eiga rétt á sér. Eins væri áherslan á að Ísraelar séu ekki allir vondir rétthá, þó það nú væri. En að ætla að skella allri skuld á andspyrnuna en engri á hernámsliðið þykir mér vafasamt í meira lagi.

Ég veit ekki mikið um þýðandann, annað en að hann heldur úti þættinum "ljós í myrkri" á Omega. Hef ekki staðfest hvort hann sé zíonisti, en mann skyldi ekki undra.

Ef sonur Sitting Bull hefði sagt skilið við andpyrnu Sioux-indíána og gengið til liðs við bandaríska riddaraliðið sem uppljóstrari, með þeim rökum að Sioux-indíánar væru hryðjuverkamenn sem flettu höfuðleður af hvítum, á sama tíma og hinir hvítu teygðu sig æ lengra yfir á landsvæði indíána og sviku loforð um verndarsvæði, hefðu þá indiánar fremur átt að álíta hann hetju eða svikara?

Ísrael og Palestína: Kjarni málsins

Mér finnst lítið unnið með rökræðum um trú, fornleifafræði eða "hver kom fyrstur", hversu rétt sem hægt er að hafa fyrir sér í þeim efnum. Mér finnst það vera komnar nokkuð út fyrir kjarna málsins. Staðan er þannig að hvorug þjóðin er að fara af svæðinu nema að hún verði þvinguð til þess. Væri slík þvingun æskileg? Hvað eigin afstöðu varðar, þá er svar mitt hreint og klárt "nei". Það sem mér finnst skipta mestu máli í dag er að þjóðirnar geti lifað saman í friði, við lífvænleg skilyrði og að mannréttindi þeirra séu virt.

fimmtudagur, október 13, 2011

óskalisti III

Skyldi einhvern tíman grípa einhvern óstjórnleg löngun til að gefa mér gjöf af því að ég er svo ógisslega frábó má viðkomandi alveg gefa mér eithvað af eftirfarandi. Þessi listi verður svo uppfærður með tímanum, detti mér fleira í hug og eignist ég eitthvað sem er á honum núna. Annars brúka ég bókasafnið. :)

Skáletrað er það sem ég hef eignast síðan að þessari færslu var fyrst póstað.


Tónlist:
Metallica - Live Shit -Binge and Purge (Tónleika-box set með Metallica)

Le Trio Joubran - Asfar
Rockers - soundtrack (reggítónlist)
Manhattan - soundtrack
Sinfónía frá Nýja heiminum eftir Antonín Dvorák í hljómsveitarstjórn Herberts von Karajan
The Road to Or Shalem (tónlistarDVD með hljómsveitinni Orphaned Land)

Ljóð:
Taha Muhammad Ali: So What: New and Selected Poems, 1971-2005
Ljóð Mahmoud Darwish, t.d. Unfortunately it Was Paradise,
Mourid Barghouti: A Small Sun, Midnight and Other Poems
Pablo Neruda: E-ð ljóðasafn?
Allen Ginsberg: The Collected Poems 1947-1995
The Collected Poems of Langston Hughes
Poets for Palestine


Bækur:

Uri Avnery: 1948- A Soldier's Tale - The Bloody Road to Jerusalem

Adina Hoffman: My Happiness Bears No Relation to Happiness - A Poet's Life in the Palestinian Century (ævisaga palestínska ljóðskáldsins Taha Muhammad Ali)
Avi Shlaim: The Iron Wall: Israel and the Arab World, The Lion of Jordan
Dov Yirmiya: My War Diary
Eknath Easwaran: Nonviolent Soldier of Islam: Badshah Khan: A Man to Match His Mountains
Abdul Ghaffar Khan: My life and struggle;: Autobiography of Badshah Khan
Edward Said: The Question of Palestine, Covering Islam: How the Media and the Experts Determine How We See the Rest of the World, Orientalism
Vittorio Arrigoni: Gaza; Stay Human
Tom Segev: One Palestine Complete: Jews and Arabs Under the British Mandate
Hanan Ashrawi: This Side of Peace: A Personal Account
Sahar Khalifeh: Wild Thorns
Noam Chomsky: Hvað sem er nema Gaza in Crisis (ásamt Ilan Pappé) og Fateful Triangle ogLatin America og 9/11), þar sem ég á þær.
Gideon Levy: The Punishment of Gaza
Benny Morris: The Birth of the Refugee Problem 1947-1949
Ilan Pappé (ritstjóri): The Israel/Palestine Question ; The Ethnic Cleansing of Palestine (höfundur)
Amira Hass: Drinking the Sea at Gaza: Days and Nights in a Land under Siege

Jon Lee Anderson: Che Guevara, A Revolutionary Life

Neil McCormick: I Was Bono's Doppelganger
Lemmy Kilmister ásamt Janiss Garza: White Line Fever: Lemmy - The Autobiography
Neil Gaiman: American Gods
Truman Capote: In Cold Blood og Handmade Coffins
Tom Wolfe - The Electric Kool-Aid Test
P.J. O' Rourke: Peace Kills
Anthony Loyd: Another Bloody Loveletter
George Orwell Down and Out in Paris and London.
Nick Mason: Inside Out: A Personal History of Pink Floyd


DVD/VHS (sniðugt að tékka Mál og Menningu, Eymundsson og Nexus)

Tek alltaf vel í myndir í Masters of Cinema-seríunni. :)

Rana's Wedding
Amreeka
Bab El Shams (Gate to the Sun, kvikmyndin s.s., ef hún er fáanleg með enskum texta)
The Time that Remains
Myndir e. Ousmane Sembene (aðrar en Mooladé, sem ég á
Myndir eftir Yousef Chahine
German Expressionism Collection
Time of Gypsies e. Emir Kusturica
Gimme Shelter
Quadrophenia
Almost Famous
Don't Look Back (heimildamynd um Bob Dylan)
No Direction Home (líka heimildamynd um Bob Dylan, eftir Martin Scorcese)
D. W. Griffith - Monumental Epics
Buster Keaton - The Complete Short Films 1917-1923
Buster Keaton - The General
Myndir eftir Ingmar Bergman
Ivan The Terrible
The Jim Jarmusch collection volume one (á núna Stranger than Paradise og Dead Man)
The Legend of The Shadowless Sword
The Muppet Show Series One
Cliff 'Em All (e.t.v. bara til á VHS, videó með efni (viðtölum, tónlistarflutningi og þess háttar) með Cliff Burton heitnum, bassaleikara Metallica).

Í átt til friðar - Ólínu Klöru Jóhannsdóttur svarað

Ólína Klara Jóhannsdóttir, félagi í Ísland-Ísrael, ritar grein í Morgunblaðið 12. Október undir heitinu “Dagurinn sem heimurinn breyttist.” Í henni virðist Ólína reyni að tengja ósk Palestínumanna eftir sjálfstæðu ríki við hryðjuverkin 11. September. Eftir lestur greinarinnar er sá sem hér skrifar litlu nær um þau tengsl. Hér verður þó gerð tilraun til að svara helstu atriðum.

Ólína heldur því fram að menn hafi farið í stríð (nú veit ég ekki hvort hún hugsi fremur um Afghanistan eða Írak, það kemur ekki fram) á hæpnum forsendum. Þar getum við verið sammála, þó ég myndi leyfa mér að taka dýpra í árinni. Engar sannanir fundust allavega fyrir meintum gereyðingarvopnum Saddams Hussein, meintum tengslum hans við Al-Kaída eða þá meintu ógn sem Vesturveldum átti að standa af honum. Saddam var helst hættulegur eigin fólki, en Vesturveldunum virtist alveg sama um það þegar hann beitti efnavopnum á Kúrda og Írani og voru reyndar dugleg að útvega honum vopn.

Ólína heldur fram að Islam fjölgi hraðast trúarbragða. Mælikvarðar á útbreiðslu trúarbragða eru óljósir og enginn einhugur þar um, hvorki hverjum fjölgi mest né hvernig það skal mælt. T.a.m. bendir ýmislegt til að það gæti allt eins verið kristni sem breiðist hraðast þegar litið er til árlegrar fjölgunar. Þá væri Islam í öðru sæti. Ekki að ég sjái hvaða máli það skiptir.

Ólína alhæfir svo um gyðingahatur meðal múslima. Ef styðjast ætti við trúarrit mætti allt eins segja að kæmi fram “heiðingja”hatur í kristni og gyðingdómi. Það vantar sannarlega ekki kafla í þeim ritum þar sem blessun er lögð yfir dráp á “heiðingjum”, samkynhneigðum, hórkonum o.s.frv. Nú gæti Ólína sagt að það fari eftir túlkun, eða að nýja testamentið sé það sem gildi. En kaflarnir um hórið og samkynheigðina eru reyndar úr því nýja, lagðir í munn Páls postula, sem átti jú að vera innblásinn heilugum anda.

Þá má halda því fram að kristnir hugsi ekki svona í dag, en það segir þá meira um að réttlætis- og frelsishugmyndir okkar séu komnar fram úr trúarbókstafnum. Við sjáum að það er ekki gefið að þeir sem aðhyllast ákveðin trúarbrögð taki undir það ofstækisfyllsta í ritunum eða kjósi að túlka bókstaflega. Kristnir vilja gjarnan túlka bókstafinn frjálslega eða horfa framhjá vandræðalegum köflum, en það er ekkert einsdæmi, það gerist í flestum ef ekki öllum trúarbrögðum. Salman Tamimi, ágætur kunningi minn og formaður Félags múslima á Íslandi túlkar t.d. Kóraninn ekki sem svo að hann réttlæti ofbeldi gegn konum, þó að margir kynnu að lesa bókstafinn orðrétt. Ef fólk vill ásaka Salmann um tvískinnung í trúmálumi verður það að horfast í augu við að það er þá allavega síst meiri tvískinnungur en hjá meðalkristnum, eða almennt þeim sem telja sig hófsmenn í trúmálum; sem sagt að kjósa að túlka líka ofstækisfyllstu kaflana á besta veg eða líta hreinlega fram hjá þeim.

Múslimar eru 1,3- 1.5 milljarðar fólks. Ef heiminum stæði raunverulega þessi ógn af islam, og múslimar væru upp til hópa morðóðir brjálæðingar, þá væri allt löngu farið til fjandans og eflaust búið að útrýma kristnum. En bíðum nú við… hverjir voru það sem útrýmdu mest gyðingum? Voru það múslimar? Nei, það voru Vesturlandabúar, sem meira að segja kenndu sig margir hverjir við kristni. Sambúð gyðinga og múslima í Mið-Austurlöndum var almennt góð öldum saman, alltént í samanburði við þær stæku ofsóknir sem gyðingar urðu fyrir á Vesturlöndum.

Reglulegt gyðingahatur í Mið-Austurlöndum ágerðist hins vegar þegar arabar sáu fram á að missa landsvæði í Palestínu. Það var auðvitað ekki réttlátt að það yrði að almennu hatri gagnvart öllum gyðingum, svona ekki fremur en það er réttlátt að útmála alla múslima sem froðufellandi ofstækismenn.

Í þessu sambandi má ég til með að mæla með ræðu Nurit Peled-Elhanan, Education or Mind Infection (“Menntun eða hugsýking” en undirritaður þýddi hana fyrir júnítölublað Frjálsrar Palestínu árið 2007) sem hún hélt í Connecticut-Háskóla í Bandaríkjunum 27. September 2006. Dóttir hennar var myrt í sjálfsmorðsárás árið 1997. Hún var 14 ára gömul.
Fáir hefðu átt jafn mikinn rétt á heift og Nurit og Rami eiginmaður hennar. En þau stofnuðu samtök foreldra sem misst höfðu börnin sín í átökunum. Samtökin hvetja til samræðu milli gyðinga og araba sem orðið hafa fyrir slíku áfalli og tala fyrir friði. Nurit og Rami styðja sjálfstætt Palestínuríki. Hvað segir það manni, þegar fólk sem hefur gengið í gegn um annað eins er reiðubúið til þessa, en fólk sem gefur sig út fyrir að bera hag Ísraels fyrir brjósti er það ekki?
á Íslandi er það ekki?

Svo virðist að Ólína vilji leggja Palestínumenn sem heild að jöfnu við Al Kaída ef ekki bara alla múslima. Mætti þá ekki allt eins leggja alla kristna að jöfnu við Alexander Breivik?
Getur svo Ólína lýst fyrir mér hver þessi “kristnu gildi” og “kristna siðferði “eru? Eru það gildi Breiviks? Eða gildi þeirra sem vilja meina samkynheigðum að giftast eða njóta kynlífs sín á milli með gangkvæmu samþykki? Er það siðferði þeirra sem vilja sífellt vera með nefið ofan í kynlífi annara, siðferði öfuguggans? Eða eru það frjálslyndara og húmanískra siðferði? Og á þá kristnin einhvern einkarétt á því siðferði? Eru þá trúlausir kannski siðblindir?

Ólína virðist svo komin í mótsögn við sjálfa sig þegar hún heldur því fram að Vesturveldin hafi boðið hinn vangann í kjölfar 11. September, sem hún segir vera samkvæmt kristnu siðferði. Það var ráðist inn í tvö ríki, Afghanistan og Írak, eins og hún vísar óbeint til í upphafi greinar sinnar. Og var hún ekki sjálf að hampa kristna siðferðinu? Eða kýs hún fremur herskáu línuna, sem myndi þá ríma vel við hugmyndir hennar um Islam?
Múslimar hafa vissulega framið hrottaleg hryðjuverk. Það hafa gyðingar líka gert. Deir Yassin? Jenín? Loftárásir á Gaza? Eða þegar Ísraelsher stóð vaktina þegar kristnir falangistar murkuðu lífið úr konum og börnum í Sabra og Shatila-flóttamannabúðunum í Líbanon? Hvað þykir Ólínu um þann hrottaskap? Ariel Sharon var dæmdur frá embætti sem varnarmálaráðherra fyrir óbeina aðild að fjöldamorðunum, sem reyndar hindraði hann ekki í að vera kosinn forsætisráðherra Ísraels síðar.
Eru þá allir gyðingar vondir? Auðvitað ekki. Ekki fremur en múslimar.

Ólína talar um fósturjörð gyðinga. Það er rétt að það var samfelld gyðingabyggð í Palestínu en gyðingar voru í minnihluta þar öldum saman. Og múslimar þá í meirihluta. Flestir gyðingar í Ísrael eru aðfluttir eða afkomendur innflytjenda. Er landið eitthvað síður fósturjörð annara sem fæðst hafa í landinu? Á kannski að fara út í kynstofnapælingar; hvaða kynstofn var fyrstur eða hverjir séu “hreinastir” afkomendur þeirra? Er þá ekki komið á hálan ís? Að ekki sé talað um hversu fólk blandast gegn um aldir. Á þá kannski að taka erfðaprufur á öllum í Ísrael og leyfa bara þeim “kynhreinustu” að vera þar? Það sér vonandi hver maður hvílík fásinna þetta er.

Allt þetta trúartal, sem mér fannst mér þó skylt að svara, leiðir frá kjarna málsins: Deilan snýst fyrst og fremst um land sem bæði Ísraelar og Palestínumenn gera tilkall til.
Ísrael lýsti einhliða yfir sjálfstæði árið 1948. Gyðingar höfðu samþykkt opinberlega ályktun Sameinuðu þjóðanna um skiptingu Palestínu í tvö ríki. Ben-Gurion lét samt t.a.m. þá skoðun sína í ljós á leynilegum fundum að landamærin væru óásættanleg og þyrfti að breyta við fyrsta tækifæri.
Arabaríkin höfnuðu tillögunni, en fulltrúar þeirra voru engan veginn fulltrúar Palestínumanna. Engin lýðræðisleg forysta fór í raun fyrir Palestínumönnum á þessum tíma. Arabanefndin sem fór fyrir samningaviðræðunum var ekki kosin og hafði litlar rætur í samfélaginu. Hefðu Palestínumenn í raun verið spurðir, hefðu þeir sjálfsagt hafnað skiptingunni. Þeir álitu að færa ætti útlendingum stóran hluta heimalandsins sins. Þá voru gyðingar um 1/3 af fólksfjölda landsins og það átti að úthluta gyðingum 55% landsins. Og jafnvel á því svæði voru arabar 44% íbúanna.
Gyðingar höfðu gengið í gegn um helförina og börðust fyrir landinu með kjafti og klóm. Arabar töldu sig hins vegar ekki bera ábyrgð á helförinni, heldur væri ábyrgðin Evrópu. Lái aröbum hver sem vill.
Palestínumenn höfðu sjálfir engan sameinaðan her, og gátu í best falli reitt sig á skærusveitir þar sem þeir höfðu mest megnis verið afvopnaðir eftir arabauppreisnina gegn breskum hernámsyfirvöldum, en hún stóð yfir á árunum 1936-9.
Vert er að hafa þennan bakgrunn allan í huga þegar litið er til árásar arabaríkjanna á Ísrael 1948, hvað sem manni annars finnst um þá árás.

Hernám Ísraels á Vesturbakkanum og Gaza er ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum. Sameinuðu þjóðirnar hafa margoft ályktað gegn hernáminu, að Ísrael beri að draga sig frá svæðunum. Fyrsta ályktun öryggisráðsins þess efnis, ályktun 242, var gerð árið 1967, en ályktanir öryggisráðsins eiga að vera bindandi fyrir ríki heims. Að auki brýtur stefna og framferði Ísraelsmanna á herteknum svæðunum í bága við fjölda alþjóðalaga og alþjóðlegra samþykkta. T.a.m. er í 49. grein Genfarsáttmálans bannað með skýrum hætti að þegnar hernámsveldis setjist að á herteknum svæðum. Þetta hafa ráðamenn í Ísrael hunsað. Meira að segja Bandaríkin hafa gagnrýnt stækkun landtökubyggða og byggingu nýrra. Það vill hins vegar oft gleymast að landtökubyggðirnar sem fyrir eru eru alveg jafn ólöglegar og Ísrael eina ríkið sem álítur þær löglegar.
Það var svo vel að merkja Ísrael sem hóf árásir í Sex daga-stríðinu. Það tengdist m.a. Súes-deilunni og að siglingafrelsi Ísraels var þar með heft. Með sömu rökum mætti réttlæta árásir af Gaza á Ísrael þegar Ísrael heftir hafnfrelsi Gazabúa.

Ólína, heldur því fram að Össur Skarphéðinsson hafi “lýst yfir stuðningi við þekkt hryðjuverkasamtök og lýsi andúð sinni á lýðræðisríkinu Ísrael”. Hún þarf hins vegar ekki að leita lengra en í Fréttablaðið deginum áður en grein hennar birtist til að sjá grein Össurar, um þetta. Gefum Össuri orðið: “Frá tíma Thors Thors hefur Ísland stutt tilvist og öryggi Ísraels. Tillaga mín um viðurkenningu á fullveldi Palestínu breytir engu um það. Núverandi ríkisstjórn hefur í engu stutt við ríkisstjórnir sem vilja má Ísrael út af landakortinu en minna má á að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar skipulagði opinbera heimsókn utanríkisráðherra til Írans árið 2003. Varla þarf að fara mörgum orðum um afstöðu þess ríkis til Ísraels.”

Það á svo ekki að þurfa að leita leyfis hernámsaðilans fyrir því að hernumda þjóðin lýsi yfir sjálfstæði. Voru Serbar beðnir um leyfi þegar Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði? Voru Sovétríkin spurð þegar Eistland, Lettland og Litháen lýstu yfir sjálfstæði?

Mál er að linni. Þjóðirnar eiga báðar skilið að lifa í friði. Sé ekki hægt að tryggja réttindi þjóðanna í einu ríki, þá þarf tvö. Og þá er lágmarkskrafa að bæði ríkin séu viðurkennd sem og réttur flóttamanna til að núa aftur. Hamas mun svo vissulega þurfa að viðurkenna Ísrael í orði, en ekki aðeins á borði, en það seinna hafa þeir gert með því að lýsa sig reiðubúna að fallast á landamærin fyrir 1967 ef það reynist almennur vilji Palestínumanna. Hernáminu þarf að linna. Báðir aðilar munu þurfa að láta af árásum.

Sannir vinir Ísraels ættu hún að fagna því skrefi í átt til friðar sem sjálfstæð Palestína gæti orðið. Það er vissulega ekki trygging fyrir friði að ríkið verði stofnað. Á hinn bóginn ætti að vera ljóst að enginn friður er mögulegur á meðan Palestínumenn búa við hernám Ísraels. Vil ég þá að lokum benda Ólínu og lesendum á ljóðlínur eftir Ísraelska skáldið Yehuda Amichai, þar sem hann lýsir sýn sinni á frið. Þýðingin, úr ensku, er mín:

Villifriður

Ekki friður vopnahlésins
Né einu sinni myndin af úlfinum og lambinu
Heldur fremur
Eins og hjartað þegar æsingnum er lokið
Og þú getur aðeins talað um mikla þreytu
Ég veit að ég kann að drepa, það gerir mig fullorðinn
Og sonur minn leikur sér með dótabyssu sem kann
Að opna og loka augunum og segja mamma
Friður
Án skarkalans þegar sverðum sem er breytt í plóga
Án orða án
Dynkisins frá þunga innsiglinu: megi hann verða
Léttur, fljótandi, eins og letileg hvít froða
Örlítil hvíld frá sárunum – hver sagði að þau yrðu grædd?
(og kvein munaðarleysingjanna berast frá einni kynslóðar til annarar eins og í boðhlaupi
keflið fellur aldrei)
megi hann koma
eins og villiblóm
skyndilega, því akurinn
þarfnast hans: villifriðar


Greinarhöfundur situr í stjórn Félagsins Ísland-Palestína.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.