fimmtudagur, ágúst 26, 2004


Áðan sá ég yndislega kvikmyndaklassík á Þjóðarbókhlöðunni. Það var meistaraverkið Faust eftir F.W. Murnau frá árinu 1926. Murnau er þekktastur fyrir annað meistaraverk; Nosferatu-Eine Symhonie des Grauens (hryllingssynfonía), sem var ein fyrsta vampírumyndin og ein eftirlætismyndin mín. Faust hefur nú bæst í þann hóp. Hefði Murnau einungis gert Nosferatu hefði það samt nægt til að nafn hans lifði að eilífu. En hann lét sér greinilega ekki eitt meistaraverk nægja. Eins og nafnið ber til kynna segir sagan hina klassísku táknrænu dæmisögu um baráttu góðs og ills yfir mannssálinni. Og hver er betur til þess fallinn að takast þetta verk á hendur en Murnau, meistari myrkurs og ljóss, fegurðar og dramatíkur, einn mesti meistari, frumkvöðull og sjáandi kvikmyndasögunnar. Sýn hans á verkið og meðferð er stórfengleg sem og máttur hans til að vekja dýpstu tilfinningar manns. Ég vil ekki spilla fyrir ykkur sögunni um of en segi ykkur þó að í bestu atriðum myndarinnar, byrjuninni, og þegar dramatíkin, myrkrið og harmurinn stigmagnast eftir því sem líður á og sérstaklega í ógleymanlegri endasenunni, stendur maður á öndinni.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Ég var visið laufblað
sem barst með haustvindinum
ég var sjóreka skip
sem rak stefnulaust á ógnarbylgjum hafsins
og skolaði á strönd eilífðar
ég var reikandi vofa
hljóður skuggi
sem féll um stund
á ísað vatnið sem glitraði svo fagurt í nótt

Tónlist dagsins: Tónlist Mikis Theodorakis við Zorba The Greek. Er einmitt að hlusta á Zorba's Dance núna. Dásmleg tónlist. :)

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Lag dagsins: The Ship Song með Nick Cave

Loks gladdi það mitt gamla hjarta að hitta kórinn aftur og einnig raddaður afmælissöngurinn og hlýjar hamingjuóskir. Við sungum svo við Skólasetninguna í dag. Kl. 8 borðaði svo fjölskyldan dýrindis máltíð á Horninu og átti notalega kvöldstund saman.

A day in the life.. (ok. 3 þá!)

Mál er að linni að sinni. Góða nótt. :)

Í gær skrapp ég svo í Listasafn Reykjavíkur og sá sýninguna ,,Kenjarnar” eftir Fransisco De Goya.
Fáum eitt strax á hreint. Goya var SNILLINGUR. Þessi myndaröð markaði tímamót og frumkvöðlaverk í svartlist. Í genni kannar Goya kenjar mannsins, hinar myrku hliðar, og duttlunga sálarinnar, hins margbrotna mannshugar og samfélagsins. Hann veitti sér hér listrænt frelsi og braut af sér hlekkina sem hann hafði verið í þegar hann málaði eftir pöntunum. Honum er ekki margt heilagt nema að sýna samfélagið, þrátt fyrir afskræmingu, djöful- og skrípaleik,og martröð er myndirnar um leið í raun næstum óiþægilega raunsæar, eitthvað sem við könnumst öll við. Myrkar og draumenndar en eru þó skuggsjá mannlífsins og óra okkar. Ég var sleginn og heillaður í senn og leið áfram í andakt milli mynda en eftir ca. 24. myndina var verið að loka. Keypti mér hins vegar bók um verkin eftir Guðberg Bergsson þar sem hann fjallar um þau og túlkar.
Goya kynntist ég annars fyrst eftir að hafa séð afbragðs kvikmynd eftir spænska leikstjórann Carlos Saura fyrir þónokkrum árum á kvikmyndahátíð. Mæli eindregið með henni. Annars ættu ýmsir að aknnast við olíumáverkið ,,Krónos étur börnin”.

Um kvöldið skrapp ég svo með Agga á Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð í flutningi Landleiks. Að honum standa 7 Mr-ingar, mér að góðu kunnir. Ég hafði lesið bókina eftir Finnan Arto Paasilinna og finnst hún bráðskemmtileg. Það reyndist einnig vera með leiksýninguna sem var afar vel heppnuð og ánægjuleg. Auk frábærrar frammistöðu aðstandenda, sem ég vil sérlega óska til hamingju með afrekið, fannst mér tónlistin setja alveg sértakan blæ á sýninguna. Þar var finnsk gleðitónlist og Tango.

Enginn skyldi vanmeta Borgarbókasafnið. Þangað fór ég í dag og fékk 5 afbragðs diska. Alice með Tom Waits, Unknown Pleasures með Joy Division, In Rock með Deep Purple, safndiskinn The World of Klezmer og Sei mir gezunt með Schpilkas.

Einnig eru ýmsar myndasögur sem ég hlakka til að lesa. Sérlega líst mér vel á Buddha eftir Osamu Tezuka. Langar líka að lesa Hellboy, Sleeper, Bones, The Invisibles, Filth o.s.frv.

Síðasta ,,graphic novel” sem ég las var eflaust Isaac the pirate eftir Cristophe Blain. Hreinasta listaverk. Mæli eindregið með þeirri frábæru sögu. Sjálfur get ég varla beðið eftir hinum tveimur bókunum.

Og talandi um myndasögur; Mogginn fær stórt prik hjá mér fyrir að birta Kalvin & Hobbes. Gargandi snilld.

Það er yndisleg tilfinning að vera orðinn tvítugur. Samt er eins og maður sé varla búinn að venjast því (enda er ég einungis búinn að vera tvítugur frá því í gær). 18 er flott tala, 17 sleppur en þegar maður segir 19 ára, segir maður og hugsar um leið ,,að verða tuttugu”. Einkar plebbaleg tala e-ð og þetta er sannarlega ,,að verða tuttugu” aldurinn, maður telur niður dagana.
Skal nú rekið gróflega það helsta sem á daga mína dreif síðustu 3 daga.

Menningarnótt
Föstudag var Menningarnótt og rölti ég um bæinn með Dodda og Mossa að soga í mig menninguna. Nokkrir atburðir eru sérlega minnisstæðir. Fyrst hittumst við Doddi á pallborðsumræðum um myndasögur á Borgarbókasafninu. Hinni bráðskemmtilegi snillingur Hugleikur Dagsson stýrði umræðum, 5 fulltrúar ólíkra staða og sjónarmiða ræddust við og svöruðu spurningum úr sal. Var þetta í alla staði mjög skemmtilegt og fræðandi.

Á einhverjum tímapunkti áður en við Doddi hittum Mossa man ég að hungrið svarf að. Gladdi það glyrnur okkar að landssamband Kúabænda var með ókeypis heilgrillað naut og hugðum okkur gott til glóðarinnar. Þegar við höfðum loks brotist gegn um mikla þvögu fengum við að vita að þeir voru í klukkutíma hléi.

Einnig bera að geta málverkasýningar sem við Doddi sáum sem var úti í garðinum á Fríkirkjuvegi 11. Það vildi ég óska að ég myndi hvað málarinn heitir því þessar olíulandslagsmyndir hans voru hrífandi. Hrifnastir vorum við Doddi eflaust af sólarlagsmynd frá Drangey og næturmynd af Kapelluhrauni. Græn birta á þeirri síðarnefndu og draugaleg stemmning.

Þaðan héldum við aftur að grillinu og vonuðumst nú eftir vænni flís. Við sáum tannstöngla út undan okkur á borðinu.
Það boðaði ekki gott...
Þetta voru sumsé pínu-réttir og við Doddi urðum bara að gera sem best úr því. Kjötið var lygilega gott og því synd að skömmtun var ekki mikil á mann. Er við vorum í matarleit hittum við Mossa og bróður hans og fengum okkur vænan Nonna.

Í e-u porti rétt hjá Þjóðleikhúsinu (veit ekki hvað það heitir) léku Schpilkas gyðinga-og þjóðlagatónlist, Klezmer. Einstaklega skemmtileg, falleg og grípandi tónlist, ómögulegt annað en að dansa við hana, sem við og gerðum af miklum móð. Ég hafði mikla unun af þessari tónlist, finnst Klezmer frábær auk þess sem greinilegt var hversu miklir fagmenn voru á ferð sem spiluðu af tilfinningu og ástríðu. Slavnesk tónlist og sígaunatónlist heilla mig mjög mikið. Ragnheiður Gröndal söng nokkur lög með þeim og gerði það óaðfinnanlega.

Skildum við bróður Mossa ekki löngu síðar og erum þá þremenningar.

Við sáum eilítið af Egó. Fyrst tóku þeir fínt lag sem ég þekkti ekki. Svo tóku þeir Utangarðsmannalagið ,,Kyrlátt kvöld við fjörðinn” í nokkuð frjálslegri útgáfu, sem mér fannst ekki taka frumgerðinni fram. Sérlega fannst varð ,,jojó-ið” hans Bubba í tíma og ótíma fljótt þreytt og ég saknaði sárlega síðara gítarsólósins. Mun betur hljómaði svo sóló-lagið ,,Það þarf að mynda hana” sem bandið tók með miklum krafti, tilfinningu og tilþrifum”. Við piltarnir röltum í burt og fengum þá að heyra ,,Stórir strákar fá raflost” sem lét ljúft í eyrum.

Jagúar voru sjóðheitir í Pósthússtræti og nam okkur fljótt í trylltan dans. Frábærir tónleikar með frábærri hljómsveit.

Loks hugðumst við hlýða á Megas og Súkkat. Mætum á svalir Kaffihússsins við Tjörnina, þar sem þeir áttu að spila, kaupum veigar og fáum þessi líka fínu sæti. Okkur er þá tjáð að það verði auka 45 mínútur eða svo í meistarann (ekki í fyrsta sinn;). Þá var flugeldasýningin hafin og við kíktum auðvitað á hana (það gerði meistarinn líka). Hún var mjög glæsileg, fallegt að sjá reykmettaðan himininn upplýstan og sérlega fallegt að sjá reykinn sjálfan lýsa grænum og rauðum litum. Hungur var sigið á afmælisbarnið og fengum við okkur Pizzu á Pizza Pronto. Þegar við komim til baka voru svalirnar orðnar fullar og hætt að hleypa inn. Við hlýddum á nokkur lög og virtum fyrir okkur hnakka hljómlistarmannana og héldum svo í burt. Kvöddumst við fóstbræður svo með virktum og héldum hver sína leið.

Meira seinna

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Ferðasaga

Um daginn hélt ég með Jórunni systur minni, föður mínum og Arnari mági mínum til Skagafjarðar þar sem ætlunin var að fara í dags gönguferð. Við áðum í Varmahlíð og gistum í góðu yfirlæti á gistiheimili hjá ættfólki mínu (í móðurætt), Indu og Jósafat. Eru þau eitt mesta sómafólk sem ég hef kynnst. Í næsta dag lögðum við svo í hann í mesta blíðviðri, sól og hlýja allan daginn. Við lögðum upp frá Kolbeinsdal og gengum þaðan upp hálsinn, Heljardalsheiðina yfir í Svarfaðardal. Áðum oft á leiðinni og nutum veðursins og stórbrotinnar náttúrunnar. Norðlenskir hamrar og basaltfjöll eru í senn voldug, hrikaleg og falleg og má með sanni segja að ég hafi verið bergnuminn yfir mikilfengleik þeirra. Við vorum auk þess með eitt besta nesti sem maður getur haft með sér; kaffi, flatbrauð með osti og kæfu, lifrarpylsu og harðfisk. Rammíslensk og stolt af! ;)
Þórir frændi minn (í föðurætt) var svo höfðinglegur að sækja okkur svo á bíl og keyrði okkur til baka. Kemst að því að Jósafat og Inda eru tengdarforeldrar hans. Við erum bræðrasynir. Jamm, heimurinn er lítill. :) Hann sagði okkur frá Fiskideginum mikla á Dalvík sem hafði víst verið daginn áður, heppnast með eindæmum vel og mættu um 30.000 manns. Ekki örgrannt um að maður hefði viljað vera þar.
Fýsti okkur mjög í væna máltíð eftir vel heppaðað dag en það var hætt að framreiða mat á hótelinu og grillið lokað í sjoppunni svo það endaði með einni með öllu. Reyndar hesthúsaði ég þremur. Fengum okkur svo öl og skáluðum við fyrir förinni.
Loks var afar kærkomið að geta hvílt lúin bein í heita pottinum áður en gengið var til náða.
Næsta dag skruppum við í Byggðasafnið í Glaumbæ og skoðuðum torfbæinn þar. Þar skoðaði ég hvern krók og kima, varð að vita allt um hvern einasta smáhlut. Hjá andyrrinu var fjöldi mynda af framamönnum úr nágrenninu og fann ég mér til ánægju mynd af langalangalangafa mínum, Einari á Hraunum, þingmanni Skagfirðinga, og hangir sama mynd upp á vegg heima.
Hrifning mín á safninu olli þó því að mér dvaldist ef til vill helsta lengi þar og fjölskylda mín var orðin nokkuð óþreyjufull þegar ég loksins kom til baka.
Næst skoðuðum við kirkjuna á Reynistað og fundum leiði Reynistaðabræðra sem urðu úti á Kili 1780 of fundust ekki fyrr en um 60 árum seinna, fyrir tilviljun. Systir þeirra var langalangalangalangamma mín. Jón Helgason orti um skelfileg örlög þeirra í ljóði sínu, Áföngum;

Liðið er hátt á aðra öld
enn mun þó reimt á Kili
þar sem í snjónum bræðra beið
beysklegur aldurtili
skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili
hleypur þar einn með hærusekk
hverfur í dimmu gili

Loks ber að nefna að við skoðuðum safnið á Reykjum í Hrútafirði, en það er minjasafn um Hákarlaöldina og bar þar hæst eina heila hákarlaskipið sem varðveitt er á Íslandi, Ófeig. Má segja að hákarlaöldin hafi verið eins konar Klondike-ástand, reyndi mjög karlmennsku og hetjulund. Þar var tækifæri til að þéna vel en því fylgdi mikil hætta og mannskaði.

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Ég bið lesendur mína innilega afsökunar á löngu og dæmalausu bloggleysi mínu. Í augnablikinu er ég þó full syfjaður til að fjalla um það sem á daga mína hefur drifið og flogið hefur í gegn um hug minn á meðan því stóð. En ég vil leyfa ykkur að njóta með mér annarar tilvitnunnar í Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson, sem er áreiðanlega ein besta og fegursta bók sem ég hef lesið, í þýðingu Halldórs Laxness. Þetta er úr annari bók, "Skip heiðríkjunnar";

Undarlegir eru mennirnir, hræðilegir sakir dularinnar sem sveipar þá, djúpir eru brunnar sálar þeirra, uppsprettur þols þeirra ríkar, undraverður hæfileiki þeirra til stuttrar gleði og langra ólíkindaláta, leyndra þjáninga og blóðdöggvaðs lífs þeirrar rósar sem springur út á næturþeli

föstudagur, ágúst 06, 2004

Nóttin eins og dökkhærð stúlka
djúp augu og myrk
leiftrandi sjáöldur
blóðrauðar varir
roðaglóðin lýsir í brosi hennar
og tunglið er hrímhvítur fákur
með silfraða spora
norðurljósin ólgandi bylgur
reikandi sála í faxi hans
kaldar lýsa stjörnurnar
í augu hennar

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Jæja, Clint á sér þó nokkra jafnoka í svalleika. Nick Cave til dæmis. Fékk Murder Ballads á bókasafninu. Stórkostleg plata. Tom Waits er einnig svellkaldur. Ég hef mest hlustað á Franks Wild Years og er hún í miklu uppáhaldi hjá mér, wunderschön.

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Ég hef ávallt verið unnandi góðrar tónlistar. Í augnablikinu er Ennio Morricone efst á baugi og keypti ég mér safndisk með tónlist úr ýmsum kvikmyndum hans úti. Í augnablikinu hljóma magnþrungnir tónar The Good The Bad And The Ugly í hlustum mér auk laga úr For A Fistfull Of Dollars.

Sá loksins For A Fistfull Of Dollars í gær. Hún var afbragð. Þeir gerast ekki mikið svalari en Clint Eastwood sem The man with no name.

Einnig langar mig til að viða að mér tónlist Roy Budd. Hann hefur samið tónlist við fjölda mynda enn þekktust og eftirminnilegust er þó líklega tónlist hans við myndina Get Carter sem skartaði Michael Caine sem hinum ískalda og miskunarlausa Carter. Aðalstefið er sérstaklega eitursvalt; Carter takes a train með dynjandi og grúví bassalínu, lestarhljóði, bongótrommu og bergmálandi hljómborðinu sem Budd spilar sjálfur á. Glæpadjass eins og hann gerist bestur.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.