mánudagur, mars 31, 2008

Fari það í hoppandi heitasta horngrýtis helvíti

Síminn minn er týndur. Já, ég veit. Aftur. Hann er einhvers staðar hér í húsinu, en mér er gjörsamlega fyrirmunað að finna hann. Hann er auk þess batterýslaus núna og þegar ég hef reynt að hringja í hann hefur engin hringing heyrst heldur hef ég strax fengið bansettans talhólfið.

Svo ef einver þarf að ná í mig í millitíðinni, þá er það bara heimasíminn eða tölvupóstur.

Uppfært þriðjudaginn 1. apríl kl.12:58.

Síminn er fundinn. Nei, þetta er ekki aprílgabb. Takk, mamma.

Merkilegar eru þessar mömmur. Ég tel mig vera búinn að leita af mér mestan grun hátt og lágt um allt hús, tékka aðra staði sem mögleiki væri á að ég hefði tapað honum, þó sannfærður um að hann hljóti að vera í húsinu og er að verða gjörsamlega gráhærður. Mamma rétt hugsar sig um og finnur hann undir púða í sófanum.
Jáen jáen,...ég ... ég var búinn að leita þar... Hélt ég allav. Greinilega ekki nógu vel. Grmbl.

Mamma hefur sérstaka náðargáfu þegar kemur að því að finna. Ég hef sérstaka náðargáfu þegar kemur að því að týna. Ætli megi því ekki segja að við mæðginin eigum ágætlega saman.

Þessu ber að fagna. Ágætis leið til þess er að blasta lögum á borð við Brighton Rock með Queen af plötunni Sheer Heart Attack, Thunderstruck með AC/DC og

T.N.T. með AC/DC

Heilög makkaróna!

Ekki er öll vitleysan eins.

Ekki veit ég hvort þessi gaukur trúir sjálfur þessu orkankjaftæði en grunar allt eins að þetta sé einfaldlega enn einn loddarinn sem hefur auðtrúa fólk að féþúfu. Rugludallar flytja annan rugludall inn. Að kalla þetta "vísindi" er svona ámóta eins og að halda því fram að Manos; the Hands of Fate sé vönduð kvikmynd, eða að tilnefna Blossa eða Opinberun Hannesar sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna. Að nokkur tími að borga sig inn á þetta húmbúkk er ofar mínum skilningi. Karlskrattinn rukkar svo 12.000 fyrir einkanámskeið. Þá kynni ég nú sýnu betur við að skeina mér bara á seðlunum. Auðvitað græðir hann líka á áhuga fjölmiðla á svona rugludöllum. Gunnar í Krossinum er lifandi sönnun þess. "Stewart Swerdlov vekur landsmenn af værum blundi" segir í fyrirsögn 24 stunda og vona ég að það sé tilraun blaðamanns til að reyna að vera fyndinn. Ef þetta er að vekja fólk af værum blundi, megi ég þá þjást af svefnsýki sem lengst. Þessi maður heldur staðfastlega fram kenningum um eðlumenni (e. "reptililians), fjandinn hafi það! Lesið bara helvítis viðtalið!

Nú vantar bara að Vísindakirkjan reisi sér kirkju hér.

Gerið sjálfu ykkur og mér greiða og horfið á Southpark-þáttinn um Vísindakirkjuna. Ef þið hafið séð hann, horfið þá aftur á hann.

...

Oft lendir maður í því að maður er rabba við e-a viðkunnalega manneskju sem virkar ýmist skynsöm eða ekki en rekur sig á það að viðkomandi heldur e-u fram sem manni finnst vera überkjaftæði eða getur allav. á einhvern hátt fett fingur út í. Viðkvæmustu málin eru jafnan stjórnmál og trúmál, því það vill svo oft verða persónulegt, sérstaklega trú fólks. Ef maður gagnrýnir e-ð við trú e-s tekur viðkomandi því oft sem persónulegri árás. Sé þetta manneskja sem manni fellur á annað borð vel við er manni ekkert keppikefli að særa viððkomandi en getur þurft að hafa sig allan við ef maður ætlar að halda aftur af sér.


Um daginn, eftir Íraksmótmælin, lenti ég í ágætu spjalli við ungan Svisslending. við fórum að ræða stjórnmál, mannréttindi og frelsisbaráttu og vorum á nokkuð svipuðum meiði. Þetta virkaði skynsamur piltur og var þægilegur og vinalegur í viðkynningu. Ég spyr hann hvað hann geri og hann segist vera staddur hér sem trúboði, ég man ekki fyrir hvaða söfnuð. "Jajá" segi ég, og stilli mig um að koma með eitthvað gagnrýnið eða kaldhæðið tilsvar, ég hugsaði "virkar fínn gaur fyrir því". Hann leiðir talið nokkuð að Jesú og hvað sé verið að predika og gera í Jesú nafni vs. það sem Jesús sagði. Aftur jamma ég og jánka e-ð þó ég gæti mælt ýmislegt á móti. Hann fer svo svona aðeins að própagandera söfnuðinn sinn, þau hittast reglulega yfir kaffi og ræða málin og svona, hvort ég hafi áhuga? Ég segist fremur vera agnostic en bróðir minn sé atheist og við bræður séum hvort eð er iðulega að rabba um trúmál.

Þá segir hann þessa gullnu setningu: "Is he an evolutionist?" (leturbreyting mín)

Ég varð eiginlega kjaftstopp og glápti á hann sívaliturnsaugum. Stamaði svo út úr mér. "Uhhh... errr... if you mean wheither he believes in evoultion, wel,l we both do..". Hann segir það einmitt vera það sem sé mest rökrætt hjá þeim. "Öh.. Aha. Einmitt það, já." segi ég agndofa, hósta og rembist við að halda andliti.

Eftir því sem aulahrollurinn stigmagnaðist reyndi ég að malda í móinn (á ensku nottla) og stama upp úr mér: "Eh... uhhh... bleh..., þúst, steingerfingar e-ð"

Hann vill þá meina að ýmislegt passi hjá Darwin ef maður tekur hlutina héðan og þaðan og lagar það af fyrirfram mótuðu kerfi, sem hann vill meina að Darwin hafi í raun gert, og líkir því við að hitt og þetta í Biblíunni hafi reynst sagnfræðilega rétt. Ég reyndi eftir bestu getu að útskýra muninn á tilgátu og vísindalega studdri kenningu en fann ekki alveg réttu orðin á ensku.
Talið fór víðar og barst að myndasögum, ég gaukaði nokkrum góðum að honum og sagði hann þá að þau í söfnuðinum notuðu líka myndasögur til að koma boðskap sínum áleiðis. Mér flaug Jack Chick í hug og svaraði bara e-ð "Núnú" eða "so" (með íslenskum framburði). Áður en við kvöddumst gaf hann mér eintak af heftinu þeirra og það er nú meira þruglið. "hér er það sem þróunarsinnar segja" í týpískri afbakaðri og útþynntri útgáfu og svo "en bíddu nú við, er ekki hér pottur brotinn?". "Við viljum bara horfa á hlutina í víðara samhengi" "og varpa upp fleiri möguleikum" fefefefe. Merkilegt líka hvað trúarnöttarar gagnrýna oft vísindin en reyna samt að hafa "vísindalega" slikju á gagnrýninni, án þess að þeim verði jafnan mikið ágengt.

...

Næst þegar einhver fer að tala um trúna sína við mig mun ég svara því til að ég tilbiðji Fljúgandi spagettískrýmslið:






Lof sé Fljúgandi spagettískrýmsinu! Lifi Pastafari!

"Oss vantaði ekki viljann, þótt verkið reyndist lakt"

Ég þakka Kristínu Svövu kærlega fyrir að rifja upp gamla góða McGonnagall fyrir mér í nýjustu færslunni sinni og fyrir að varpa hlekk á síðu þar sem ég skemmti mér konunglega við að lesa fleiri skrif mannsins.

Línan hér að ofan er sótt í ljóð Steins Steinarr, Til minningar um misheppnaðan tónsnilling. Mér varð óneitanlega hugsað til þess þegar ég las McGonnagall. Fyrr yrði hann kallaður misheppnaður en snillingur, svo vægt sé til orða tekið, en hann vantaði sannarlega ekki viljann, og var sannfærður um ágæti eigin kveðskapar. Verst að hann var einn um það. McGonnagall er sumsé þekktur fyrir að vera "versta ljóðskáld í enskri tungu".

Mín fyrstu kynni af yndislega ömurlegum kveðskap hans var þegar ég las The Vile Victorians í þeirri ágætu seríu Horrible Histories, þar sem ég kútveltist af hlátri yfir frægasta ljóðinu hans; The Tay Bridge Disaster.

Að sama skapi langar mig mikið að sjá leikritið hans, Jack' O The Cudgel (or The Hero of a Hundred Fights). Þar kemur m.a. þessi dásamlega lína frá kónginum:

“Sir Jack, I give thee land to the value of six hundred marks
In thine own native county of Kent, with beautiful parks
Also beautiful meadows and lovely flowers and trees
Where you can reside and enjoy yourself as you please.”


Kallinn er óttalega tragikómískur en það er hreinlega hættulegt heilsunni að reyna að bæla niður í sér hláturinn þegar verk hans þegar rísa hæst/lægst. Flatneskjan getur verið alveg yfirþyrmandi. Mér varð hugsað til Oscars Wilde, sem hafði þetta að segja um tiltekna sögu Charles Dickens: „One must have a heart of stone to read the death of little Nell without laughing".

Á McGonnagall-síðunni er m.a. hlekkur á grein e. David nokkurn Lister hjá Scotland Correspondent sem skrifar nánar um leikritið og tiltekur nokkur klassísk dæmi um arfaslakan kveðskap Mc Gonnagall, sem ég má til með að deila með ykkur:

Ye sons of Great Britain, I think no shame
To write in praise of brave General Graham!
Whose name will be handed down to posterity without any stigma,
Because, at the battle of El-Teb, he defeated Osman Digna.

Úr The Battle Of El-Teb

Oh! it was a most fearful and beautiful sight,
To see it lashing the water with its tail all its might,
. . . Then the water did descend on the men in the boats,
Which wet their trousers and also their coats.

The Famous Tay Whale

Oh, mighty city of New York, you are wonderful to behold -
Your buildings are magnificent - the truth be it told -
They were the only thing that seemed to arrest my eye,
Because many of them are thirteen storeys high.

Jottings of New York

I must now conclude my lay
By telling the world fearlessly without the least dismay,
That your central girders would not have given way,
At least many sensible men do say,
Had they been supported on each side with buttresses,
At least many sensible men confesses,
For the stronger we our houses do build,
The less chance we have of being killed.

The Tay Bridge Disaster

föstudagur, mars 28, 2008

La Traviata

Ég fór á La Traviata með Vésteini bróður um daginn og vorum við báðir hæstánægðir með sýninguna. Ekki síst með Sigrúnu Pálmadóttir, sem söng Víólettu og Tómas Tómasson sem söng Giorgio föður aðalkarlhetjunnar, Alfredo.
Það var þó eitt sem böggaði okkur bræður við lógík sögunnar. Faðir Alfredo fer fram á það við Violettu að hún slíti sambandi sínu við son hans, Alfredo með þeim rökum að heitmaður hinnar hreinu og saklausu yngri systur Alfredos vilji ekki eiga hana nema að Alfredo snúi heim í faðm fjölskyldunnar. Samt eiga systirinn og heitmaðurinn að vera yfir sig ástfanginn og faðirinn þrýstir á Violettu að “stofna ekki ást þeirra í glötun” og segist ekki vilja kalla óhamingju yfir bæði börnin sín. Honum finnst sumsé í himnalagi að kalla óhamingju yfir son sinn og Violettu vegna vægast sagt vafasamrar “ástar” dótturinnar og heitmannsins, sem elskar hana svo ofurheitt að hann vill fremur beygja sig undir reglur stífs og yfirborðslegs borgaralegs siðgæðis en að eiga hana, en Violetta hafði verið fylgikona og þótti hún því “fallin” og Alfredo eiginlega líka fyrir að eiga e-ð saman við Violettu að sælda og “spillta borgarlífið”. Með blæðandi hjarta beygir Violetta sig undir þetta, þó Alfredo komist að hinu sanna á dánarbeði Violettu, og jafnframt að Violetta elskar hann jafn heitt og áður.
Það var einmitt þetta stífa og yfirborðslega borgaralega siðgæði sem var að bögga okkur, en það virðist vera það sem býr í raun fyrst og fremst að baki kröfu Giorgio. Við vorum ásáttir um það að þetta myndi aldrei gerast eftir byltinguna. ;)
Senan þar sem faðirinn, Giorgio, reynir að höfða til samvisku Alfredo og rifja upp gömlu góðu heimahagana verður þar af leiðandi nokkuð hjákátleg, sér í lagi þar sem við fáum upphafna sveitarómantík af gamla skólanum þar sem íturvaxnar heimasæturnar mæna löngunaraugum á tindilfætta hjáróma hjarðsveina sem syngja þeim angurværa mansöngva er þeir taka í þvalar hendur þeirra og kiðin skoppa um tún og engi.

fimmtudagur, mars 27, 2008

"Die musik fühlt stark in der Brust"

Þessi orð tilheyra Kaspar Hauser (Bruno S.) í þeirri ágætu kvikmynd Werner Herzogs; Jeder für sich und Gott gegn alle, sem ég horfði á rétt í þessu. Mæli með henni við lesendur. Fyrir þá sem ekki skilja þýskuna, myndi þetta útleggjast n.v. sem "tónlistin vekur sterka tilfinningu í brjóstinu". Í eftirminnilegu atriði í myndinni hljómaði hið íðilfagra tónverk Kanon í d dúr eftir Johann Pachelbel, sem hlýtur þann heiður að vera tónverk dagsins og má hlusta á hér.

Hið stórfenglega tónverk Ariel Ramirez, Misa Criolla, hefur líka verið þó nokkuð í spilun hjá mér. Ég mæli með útgáfunni þar sem Mercedes Sosa syngur einsöng. Til að gefa ykkur smjörþef af þeirri plötu er hér annar kafli verksins, Gloria dios. Það er raunar eini hluti verksins sem ég hef fundið á youtube.

Uri Avnery spyr hversu langt þurfi að líða áður en rætt verður við Hamas og fjallar um tangarhald hersins á Ísrael



miðvikudagur, mars 26, 2008

Vel sé þeim sem veitti mér.

Joy Division hefur verið mikið í spilaranum hjá mér undanfarið og get ég ekki stillt mig um að hugsa ef Ian Curtis hefði aðeins lifað lengur, þá hefði maður e.t.v. getað notið meira efnis með honum. Raunar er ekki víst að hljómsveitin hefði haldið áfram, allav. með honum, hann talaði oft um að hætta í henni. Óháð frábærri tónlistinni er andlát svo ungs manns yfirleitt sorglegt, hvað þá þegar það ber að með þessum hætti, en eins og þekkt er hengdi Ian Curtis sig í maí árið 1980, 24gjra ára gamall, og skildi eftir sig konu og barn. Eftir standa tvö meistaraverk með Joy Division, plöturnar Unknown Pleasures og Closer auk smáskífa. Af smáskífum ber líklegast hæst Dead Souls/Atmosphere.
Ég ætti kannski að gefa New Order meiri séns. Hef lítillega hlustað á þá og alveg þótt fínt, en þeim hefur enn ekki tekist að vekja með mér sömu tilfinningu og Joy Division.
Ég sá Control á kvikmyndahátíðinni og þótti mjög góð, og langar að sama skapi að sjá heimildamyndina Joy Division.

Það er þannig með suma listamenn, að eftir því sem maður hlustar meira á þá, horfir á eða les verk þeirra eða eða sér þá tala, þá þykir manni æ vænna um þá og fyllist þakklæti í þeirra garð.
Kurt Vonnegut er einn þeirra sem vekur þá tilfinningu hjá mér. Ekki síst þegar hann er hann sjálfur og talar frá hjartanu um allt milli himins og jarðar, eins og í A Man Without a Country, sem ég kláraði í gærmorgun. Ég var að sama skapi afar hrifinn af Slaughterhouse Five, og eftir því sem ég finn meira af viðtölum við hann, fyrirlestra, greinar o.s.frv. þá þykir mér æ vænna um hann, þó ég hafi aldrei hitt hann, og er þakklátur fyrir veru hans á jörðinni og að hann hafi deilt hugðarefnum sínum með okkur og einfaldlega fyrir að hafa verið sá sem hann var, Kurt Vonnegut yngri. Og eins og gjarnan er með góða höfunda, þá fær hann mig til að þyrsta í að lesa meira eftir hann.
Ólíkt Ian Curtis þá er úr fleiru að moða hjá Vonnegut, einfaldlega vegna þess að hann lifði lengur og gaf út meira. Það er missir af þessum tveimur snillingum en maður er ánægður með það sem maður hefur.
Hér geta lesendur horft á eitt af síðustu sjóvarpsviðtölunum við Kurt Vonnegut, sem var sjónvarpað 7. október 2007.

Í spilaranum: Decades með Joy Division af pötunni Closer.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Orð í eyra

Í dag rifjaðist upp fyrir mér jólalag sem ég fékk í kjölfarið á heilann og hef oft fengið áður á heilann um jólaleitið. Það er Jólasveinslagið með Ómari Ragnarssyni og krakkakór, þar sem krakkarnir syngja "Jólasveinn" í viðlaginu og Ómar svarar einhverju sem ég hef aldrei getað greint almennilega hvað er, romsar því enda hratt og óskýrt út úr sér, eitthvað "paðtifluriguegue".
Mamma þóttist mögulega heyra "Taktu í húfuna á þér" en fyrir mér hljómaði þetta meira í líkingu við "taktu í stúfinn á mér/þér" eða "Friedrich Schleiermacher". Gæti svo sem líka hafa verið "Partý í Úrúgúæ".
Eitt þarf auðvitað ekki að útiloka annað og þetta getur vel farið saman. Allt er þá þrennt er, sem sjá má:

"Jólasveinn - Friedrich Schleiermacher
Jólasveinn - Tók í stúfinn á sér/mér
Jólaveinn - í partý í Úrúgúæ
Jólasveinn"

Árum saman hélt ég líka að James Hetfield syngi "And so you retire, so then you die" í laginu Creeping Death á plötunni Ride The Lightning með Metallica. Það fannst mér og finnst enn flott lína og mikið til í henni, passaði þar að auki vel við titil lagsins. Dökk sýn, kannski, en alls ekki svo fjarri lagi. Árin líða og ég sé loks að textinn mun vera "So let it be written, so let it be done".
Ég á enn ómöglegt að greina seinni línuna eins og textinn tjáir mér að hún sé í söng Hetfields, og er það mun fremur að ég heyri "mína" útgáfu (sem er nottla miklu flottari).
"Sothetibere- tijaaa -aah!" "Sothebijudjaaah-ahhhh!"

mánudagur, mars 24, 2008

Í minningu Rachel Corrie

Mér láðist að geta þess um daginn að sama dag og fólk hvarvetna í heiminum mótmælti stríðsrekstri í Írak, Afghanistan og víðar voru liðin 5 ár frá dauða Rachel Corrie en hún dó 23ggja ára gömul eftir að brynvarin ísraelsk jarðýta ók á hana. Jarðýtan var þarna í því skyni að leggja palestínskt hús í rúst en Rachel og félagar hennar í International Solidarity Movement (ISM) vildu aftra því.

Enn hefur renginn verið dreginn til ábyrgðar fyrir dauða hennar. Tom Wright og Therese Saliba skrifa grein um Rachel Corrie á Electronic Intifada; og um boðskap hennar, sem má ekki gleymast; Rachel Corrie's Case for Justice.

Eftir dauða Rachel leyfði fjölskylda hennar birtingu bréfa sem Rachel sendi þeim í tölvupósti.
Hér má lesa úrdrætti úr tölvupósti hennar til fjölskyldunnar sinnar sem hún sendi 7. febrúar 2007: http://electronicIntifada.net/v2/article1254.shtml". Fleiri tölvupóstar til fjölskyldu og vina eru svo hér, þar sem hún skýrir nánar frá ástandinu, stafi sínu í Palestínu og hvers vegna hún var að leggja sig í hættu: http://www.guardian.co.uk/world/2003/mar/18/usa.israel.

Árið 2005 setti Alan Rickman upp leikritið My Name is Rachel Corrie, sem byggði á dagbókarfærslum Corrie og tölvupósti, í Royal Court Theatre.Það fékk áhorfendaverðlaun (Theatre's choice Awards) sem besta leikritið, Alan Rickman var jafnframt valinn besti leikstjórinn og Megan Dodds, sem lék Rachel Corrie, var valinn besti einleikarinn. Flytja átti sýninguna til New York Theatre Workshop en því var "frestað til óákveðins tíma" því forstöðumenn leikritsins óttuðust viðbrögð bandarískra gyðinga. Leikritið var sýnt í West End's Playhouse Theatre í London frá mars til maí 2006, sama ár var það jafnfram sýnt á Galway Arts Festival Edinburgh Fringe og var sýnt í Minetta Lane Theatre í New York.
Seattle Repertory Theatre sýndi leikritið frá mars til maí árið 2007 og The Kitchen & Roundhouse Theatre í Sliver Spring í Maryland var so með eina sýningu á því í júlí 2007.
The New Repertory Theatre sýnir nú leikritið í Watertown í Massachusets til og með 30. mars, 1. mars var það lesið í Project Arts Centre í Dublin og 28. mars er fyrirhuguð sýning hjá Theatre Yes í Edmonton í Alberta sem verður fram í apríl

Þetta er leikrit sem mig langar að sjá og þætti vel ef eitthvað hugað leikfélag tæki sig til og setti það up hér á landi.

Ef þið viljið fræðast nánar um Rachel Corrie þá er hér síða með mörgum hlekkjum tileinkuðum henni:http://electronicintifada.net/bytopic/people/8.shtml

Jon Lajoie er fyndinn gaur:

Song for Britney



Regular Everyday Normal Guy


Regular Everyday Normal Guy 2


Og talandi um Britney, þá mæli ég með nýjasta South Park-þættinum fyrir þá sem hafa ekki séð.


Gleðilega páska. :)

föstudagur, mars 21, 2008

"Krossfestingar og húðstrýkingar eru hættulegar heilsunni"*

I'll say...

*Fyrirsögn fréttar á bls. 16 í Morgunblaðinu í fyrradag.

Lítill er heimurinn

Merkilegt hvernig nýlegar fréttir sem ég hef heyrt tengjast. Fyrir nokkrum dögum frétti ég að sá mikli stórsöngvari Ivan Rebroff væri látinn. Var það mér harmdauði, þó ekki þekkti ég manninn persónulega, því ég hef löngum verið mikill aðdáandi. Það er líka ekki á hvers manns færi að komast 4 áttundir. Ef lesendur vilja hlusta á lög þar sem Rebroff nýtur sín til hins ítrasta bendi ég á lög á borð við Wenn ich einmal reich Wäre, Mütterchen Ruβland og Abendglocken.

Nokkrum dögum seinna kemur frétt um að hvarf Antoine De Saint-Exupérie, sem m.a. skrifaði hina dásamlegu bók Le Petit Prince sé upplýst. Þýskur flugmaður, Horst Rippert, heldur því fram í nýlegri heimildamynd um þann fyrrnefnda að allar líkur séu á að hann hafi skotið flugvél hans niður í stríðinu. Þegar það gerðist hafði hann ekki hugmynd um hver það var sem hann skaut, en Rippert var og er mikill aðdáandi de Saint-Exupéry og var auðsjáanlega miður sín í viðtalinu.
Það hlýtur annars að vera einn mesti hryllingur stríðs, að drepa eða að þurfa að drepa einhvern sem mann líkar við eða dáir. Það leiðir hugann að því þegar gert var hlé á árásum í fyrri heimsstyrjöldinni á jólunum og andstæðingarnir fóru yfir víglínuna, hittu hvorn annan, og spiluðu fótbolta saman. Daginn eftir þurftu þeir svo að halda áfram stríðinu og drepa þá mögulega einhvern sem þeir höfðu hitt og líkað við.
Báðar fyrrnefndar fréttir þykja mér merkilegar ,en ekki síst þegar ég les að Horst Rippert er enginn annar en bróðir Ivans Rebroff, en Rebroff er fæddur Hans Rolf Rippert.

mánudagur, mars 17, 2008

Uri Avnery skifar öfluga grein um nýliðna atburði þar sem Ísraelar myrtu 4 palestínska fyrrum vígamenn í Betlehem og einn í Tulkam og hvernig þeir eru með því að stofna möguleikum um vopnahlé í hættu, en eldflaugaárásum frá Gaza hafði fækkað úr rúmlega 12 á dag í 2. Greinin nefnist "I Came, I Saw, I Destroyed"

...THE BETHLEHEM killing raises a number of hard questions, but with very few exceptions, the media did not voice them. They shirk their duty, as usual when it concerns "security" problems.
Real journalists in a real democratic state would have asked the following questions:

1.Who was it who decided on the executions in Bethlehem - Ehud Olmert? Ehud Barak? The Shin Bet? All of them? None of them?

2.Did the decision-makers understand that by condemning the militants in Bethlehem to death, they were also condemning to
death any residents of Sderot or Ashkelon who might be killed by the rockets launched in revenge?

3.Did they understand that they were also boxing the ears of Mahmoud Abbas, whose security forces, which in theory are in charge of Bethlehem, would be accused of collaborating with the Israeli death-squad?

4.Was the real aim of the action to undermine the cease-fire that had come about in practice in the Gaza Strip (and the reality of which was official denied both by Olmert and Barak, even while the number of rockets launched fell from dozens a day to just two or three?)

5.Does the Israeli government generally object to a cease-fire that would free Sderot and Ashkelon from the threat of the rockets?

If so, why?...

föstudagur, mars 14, 2008

15. mars - Stríðinu verður að linna



Á morgun er alþjóðlegur baráttudagur gegn stríði og verður útifundur á Ingófstorgi. Þann dag verða jafnframt liðin 5 ár frá innrás Bandadíkjamanna í Írak. Enn er Ísland í hópi stuðingsþjóða við hernámið í Írak og Afghanistan. Sjá meira á friði.is.
Mér hefur annars þótt afar sorglegt hversu Afghanistan hefur almennt orðið út undan í umræðunni um stríðsrekstur Bandaríkjanna og stuðning ríkisstjórnarinnar við hann. Ég mæli eindregið með því að lesendur horfi á afbragðs heimildamynd John Pilgers: Breaking The Silence: Truth & Lies in the War on Terror. Hún er um 52 mínútur. Sú ágæta síða freedocumentaries.org býður upp á hana og u.þ.b. hundrað aðrar til áhorfs endurgjaldslaust á netinu.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Af hverju þykir þetta fréttnæmt?

Af hverju er verið að reyna að halda áfram að tönnlast á Múhameðsteikningunum, og reyna að mikla mótmælin? Eru skilaboðin einhver önnur en að þessir múslimaterroristabrjálæðingaöfgasnar séu á móti málfrelsinu?
Þetta eru um 100 hræður í borginni Multan í Pakistan sem eru að mótmæla, skv. fréttinni. í Pakistan búa 162. 5 milljónir. M.ö.o. 0.00000062% íbúa Pakistan mótmælti. Sér er nú hver fréttin. 0.000000319% landmanna Íslands stendur reglulega með mótmælaskilti í strætóskýli á Langholtsvegi á degi hverjum án þess að það þyki fréttnæmt. Prósentið nefnist Helgi Hóseasson.

Sagt er í fréttinni að a.m.k. 50 manns hafi látið lífið að undanförnu í mótmælaaðgerðum. Auðvitað er hörmulegt þegar fólk lætur lífið í mótmælum. Það fylgir hins vegar ekki sögunni á hversu löngum tíma þetta muna hafa gerst, hvar það mun hafa gerst, hverjir dóu (mótmælendur eða vandsveinar valdsins) og hverjir drápu hverja. Við erum engu nær um upptökin.
Nema að þessir múslimar eru nottla kreisí, maar.

Til frekari staðfestingar þessa getur fréttin líka þess að heil 0.00000598% fleiri en Helgi mótmæltu í Bangok í Taílandi. 400 af rúmlega 62, 8 milljónum landsmanna.

En ef við miðum við hlutfall í borgarbúa í Bangkok og Reykjavík þá mótmælir 0.0000084% borgarbúa, Helgi Hóseasson, á hverjum degi við Langholtsveg gagnstætt 0.00000637% borgarbúa í Bangkok. Í Bangkok búa rúmlega 8,2 milljónir manns, og mótmæltu 400, í Reykjavík e-ð í kring um 118.000 manns og mótmælir einn reglulega á Langholtsvegi. Hvað áðurefnda Multan í Pakistan varðar búa þar ca. 3083000 manns og 100 mótmæltu. Sumsé 0,00003244% borgarbúa í Multan. Hefur því Helgi vinninginn í báðum tilfellum.

...

Í spilaranum:Blood Red Skies með Judas Priest.

þriðjudagur, mars 11, 2008

We're number one! We're number one!

Strákastelpustrákur

Í fyrradag var ég að glápa á sjónvarpið og límdist við She's The Man. Svona nokkuð týpísk rómantísk gaman-unglingamynd með Háskólarokki und alles. Aðalpersónan, leikin af Amöndu Bynes þykist vera bróðir sinn (sem þá er í London) til þess að geta keppt í fótbolta. Svona Spice Girls-Girl Power fílingur yfir myndinni, og svo sem bara gott um það að segja. Mér varð hins vegar sterklega hugsað til eftirfarandi senu í Blackadder Goes Forth:


Edmund: So you're a 'chap', are you Bob?

Bob: Oh yes, sir. (hlær digurbarkalega og slær sér á læri)

Edmund: You wouldn't say you were a girl at all?

Bob: Oh, definitely not, sir. I understand cricket, I fart in bed, everything.

Edmund: Let me put it another way, Bob, you are a girl. And you're a girl with
as much talent for disguise as a giraffe in dark glasses trying to get
into a 'Polar Bears Only' golf club.


Merkilegt nokk virðist þó enginn átta sig á því að “pilturinn” er stúlka. Þó svo að hún sé förðuð með augnskugga, vara- og kinnalit und alles og bara yfirleitt kvenleg útlits, fyrir utan gerfibarta, drengjakollshákollu og lím yfir augabrúnirnar. Hvernig nokkur gæti ruglað henni við bróður hennar er mér gjörsamlega óskiljanlegt, nema að það sé Súpermann-lógíkin: “Bíddu nú við... Clark Kent er þó nokkuð líkur Ofurmenninu í útliti... þeir sjást aldrei á sama tíma... hah, kjáni get ég verið að láta mér detta svona vitleysu í hug! Clark Kent með gleraugu!” Að þessu leiti er myndin alveg í anda Shakespeare, en hún ku lauslega byggð á Shakepeare-leikriti.
Myndin hafði sitt afþreyingargildi og ég stóð mig að því að vera pínulítið skotinn í Amöndu Bynes.

Eftir myndina umpólaði ég og horfði á Aguirre, der Zorn Gottes eftir Werner Herzog. Afbragðs mynd. Klaus Kinski er auk þess sem fyrr magnaður í titilhlutverkinu. Ég var hins vegar ekkert skotinn í honum. Stafar það í senn af gagnkynhneigð minni og þeirri staðreynd að hann er vægast sagt ekkert sérlega smáfríður.
Leiðir það hugann að KISS. Margar grúppíur hafa eflaust fengið áfall þegar KISS ákvað að svipta sig farðanum: “Plís, skelltu honum aftur á!”.

Glöggt er gests eyrað...

Sem unnandi Pink Floyd og hafandi m.a. hlustað mikið á The Piper at the Gates of Dawn og The Dark Side of the Moon rann upp fyrir mér að það er eiginlega sami hljómagangur í orgelinu í Pow R. Toc H. á Piper, sem hefst á ca.03.06 og í upphafsstefinu í Breathe á Dark Side. Ekki nóg með það, hlátur og svo neyðaróp leiðir inn í stefið í Breathe en manískur hlátur inn í stefið í Breathe.
Þið getið hlustað á Pow R. Toc H. og Breathe ef þið viljið sjá hvað ég á við.

Mér finnst eiginlega líkindin vera full mikil til að um hreina tilviljun geti verið um að ræða. Þætti gaman að vita hvað Roger Waters hefði um þetta segja. Þætti einnig gaman að vita hvort fleiri hafa uppgötvað þetta en ég.

Njörður? Moi?

Pési eða Makki?

A Bit of Fry & Laurie - Hijacked Words



Svo er hér þrælgott atriði með Rowan Atkinson og Hugh Laurie þar sem þeir taka Shakespeare og Hamlet fyrir :)

mánudagur, mars 10, 2008

Íslandspóstur og tollurinn

Hversu mikið þarf maður að þola af hendi þessara helvítis skriffinnskuskítapakks? Megi flær af þúsund úlföldum taka sér bólfestu í handarkrika þeirra. Ég lýsi yfir Jihad.

Two plus two is four

Þetta er of mikil grimmd. Hversu hrottalegir geta menn verið?


Lag dagsins: The Millionare Waltz með Queen, af plötunni A Day at the Races.

föstudagur, mars 07, 2008

V

Eilíf er þessi kröfuganga
Milli hugsjónar og veruleika
Listir vorar auka á spennu tímans
Vísindi vor auka á þennslu rúmsins
Mál vort er viðþolslaust af eftirvæntingu
Menning vor á þönum eftir opinberun
Þetta er hinn fyrsti og síðasti dagur
Í þessari andrá verður tilgangurinn að finnast
Á þessu augnabliki verður athöfnin að gerast
Einhver verður að þeyta frelsisblysinu
Einhver verður að spenna friðarbogann
Einhver verður að rísa
Gegn viðurtyggð uppgjafarinnar

2
Þess bíðum vér gamlir bakhúsgestir
Sjálfir sviptir uppreisnarkraftinum
Því draumórar vorir hafa umhverfst í martröð
Pennarnir upplitazt bókfellin gulnað
Vaninn og efinn slævt raddirnar
Þær láta nú sem annarlegt bergmál hins liðna
Í hlustum þeirrar ungbornu kynslóðar
Sem hefur verið svikin um dýrð fyrirheitsins
En getur þó ein bjargað himni og jörð

3
Því sérhver ný kynslóð verður að frelsa heiminn
Með því að skapa hann í sinni mynd

4
Og þarna er hún að koma þarna er hún að rísa
Einmitt nú og hér er hún að brjótast
Út úr þokum og segulstormum óskapnaðarins
finnur sjálfa sig í tóminu
Samtengir angistina kvöl hins stríðandi lýðs
Lyftir ódauðlegum manninum upp úr viðbjóðnum
Endurfæðist gerir kraftaverk
Breytir helsprengju í lífskjarna
Gefur framtíðinni nýtt mál nýja merkingu
Trúir vonar elskar

5
Gagntekið heilögu ofstæki
Upptendrað af fögrum voða jarðstjörnunnar
Hugsjóninni
Skírist blóð hennar í hreinsunareldi morgunsólar
Ofar lífi og dauða


Jóhannes úr Kötlum, Ný og nið, 1970.

Rétturinn til að verja sig - Hugvekja

Mikið er talað í fréttum um “rétt Ísraels til að verja sig” sem í praksís getur þýtt að þeir verji sig með massífum árásum af landi og sjó og úr lofti á palestínska alþýðu, svelti þá, kúgi og terroríseri á aðra lund. En mér er spurn: Hafa Palestínumenn rétt til að verja sig? Og þá hvernig? Maður sem sprengir sjálfan sig og aðra í loft upp er kallaður hryðjuverkamaður. Maður sem varpar eldflaug á ísraelska byggð er einnig kallaður hryðjuverkamaður. Slíkar árásir valda jafnan eyðileggingu og særa stundum eða deyða. Loks geta menn barist með skotvopnum. Einnig þá er oft talað um hryðjuverkamenn og vopnasmygl fordæmt.
Palestínumenn eiga engan her sambærilegan einum öflugasta her heims sem Ísrael býr yfir. Ef við erum sammála um það að morð á saklausum borgurum, eins og bæði Ísraelar og Palestínumenn hafa gerst sekir um, séu óafsakanleg, sama hver á í hlut hlýtur sú spurning að vakna hvort og þá hvernig Palestínumenn megi “verja sig”. Þeir hafa ekki önnur úrræði en þau sem er lýst hér að ofan nema ef ske kynni að þeir reyndu friðsamlegar eða diplómatískar leiðir.

Margir gætu sagt að það sé það eina rétta í stöðunni. Sjálfur myndi ég vilja sjá sem mest af slíku en ég myndi einnig vilja sjá það skila frekari árangri. Ekki hjálpar þá til að lýðræðislega kjörin stjórnvöld þar séu ekki viðurkennd, fjársvelt, fulltrúar handteknir og/eða drepnir og nátúrlega kallaðir hryðjuverkamenn. Þjóðir taka höndum saman við að rústa innviðum Palestínu sem þó standa á nógum brauðfótum fyrir undir hernáminu.

Utanríkisráðherra vill einnig að diplómatíska aðferðin verði reynd, fremur en að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Það hefur verið reynt og er enn reynt en ekki er að undra ef margir örvæntna þegar það virðist ætla að skila litlu, allav. til skamms tíma litið og Ísrael heldur áfram að “verja sig” eins og áður er lýst. Mörgum Palestínumönnum finnst að heimurinn horfi þögull á eymd þeirra. Það rekur í raun fremur aðdáun og furðu þegar menn eru ekki tilbúnir að gefast upp heldur halda áfram a þrautsegju við slíkar aðstæður. Sérstaklega í ljósi þess að friðsamir mótmælendur eru ekkert síður terroríseraðir í Ísrael en þeir sem grípa til ofbeldis.

Sameinuðu þjóðirnar hafa t.a.m. margoft gagnrýnt Ísrael og veit ég ekki til að önnur þjóð hafi brotið jafn oft gegn alþjóðalögum og Ísrael en Ísrael skellir skollaeyrunum við því. Eins og ég vona að slíkar aðferðir muni skila e-u þá get ég ekki verið of bjartsýnn. Það þarf að vera raunverulegur vilji fyrir hendi og alvöru þrýstingur, t.a.m. stingur í augu að Ísrael sé enn meðlimur í Sameinuðu þjóðunum í ljósi þess hversu Ísrael hefur virt ályktanir alþjóðaþings og Öryggisráðs að vettugi. T.a.m. gæti þa ðsett e-n þrýsting á Ísrael ef Ísrael væri meinaður aðgangur að menningarviðburðum og væri hunsað akademískt nema að fulltrúar væru tilbúnir að gagnrýna hernámið. Þá er ég t.d. að hugsa um heimsmeistarakeppnina í fótbolta, Evróvisjón, Ólympíuleikana o.s.frv. Þess má geta að Ísrael hefur róið svo seglum að nú virðist ómögulegt að palestínska landsliðið í fótbolta fái að keppa á Ólympíuleikunum 2010.

Ástandið á Gaza hefur ekki verið verra síðan 1967.

Svo segir í skýrslu sem 8 bresk mannréttindasamtök sendu sameiginlega frá sér í gær. Amnesty International var þar í hópi. Nánar er fjallað um þetta á bls. 8 í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni "Neyðin á Gaza aldrei meiri. Árið 1967 hertóku Ísraelar Gaza.
Einnig má lesa nánar um þetta á ynetnews og þar er hlekkur á skýrsluna sjálfa í heild sinni, hún er 16 síður alls.

þriðjudagur, mars 04, 2008

Kalt stríð

Þetta er ekki blóð.

Þetta er ekki sú sanna uppspretta hjartans
þetta er ekki straumfall ástarinnar
þetta er ekki lækurinn
ekki áin
ekki fljótið
ekki hafsjórinn
sem litar líf vort rautt.

Þetta mórauða skólp sem hnígur þyngslalega um æðar vorar
það er ekki mannsblóð
ekki hinn skapandi lífsflaumur kynslóðanna
heldur tóbak og kaffi og brennivín.

Þurfum vér þá svipuhögg í andlitið
þarf að brenna land vort
svívirða konur vorar
henda börn vor á byssustingjum
til þess að blóð vort verði rautt og heitt
til þess að blóð vort verði lifandi
til þess að blóð vort verði ósvikið mannsblóð?

Verður blóð vort þá fyrst rautt og heitt og lifandi
þegar vér liggjum helsærðir í valnum
og það fossar niður í rúst vorrar glötuðu ættjarðar?


-- Jóhannes úr Kötlum, Sjödægra, 1955.

Útifundur á morgun, miðvikudag, vegna Gaza

Efnt verður til útifundar á Lækjartorgi í hádeginu á miðvikudag 5. mars kl 12:15 til að mótmæla blóðbaðinu á Gazaströnd.

Kröfur dagsins eru: Stöðvum fjöldamorðin og rjúfum umsátrið um Gaza.

Ræðumenn verða Katrín Fjeldsted læknir og Ögmundur Jónasson alþingismaður.

Fundarstjóri er Sveinn Rúnar Hauksson formaður Félagsins Ísland-Palestína.


Fjölmennum og látum boðin berast!

„Íslensk stjórnvöld rjúfi þegar í stað stjórnmálasamband við Ísrael“

Félagið Ísland-Palestína var að senda eftirfarandi ályktun frá sér:

Íslensk stjórnvöld rjúfi þegar í stað stjórnmálasamband við Ísrael
Ísraelsk stjórnvöld hafa haldið íbúum Gaza innilokuðum í níu mánuði og stöðugt verið hert að þannig að nauðsynjar eru af æ skornari skammti. Matvæli og mörg lyf eru ófáanleg, varahlutir í lækningatæki á sjúkrahúsin fást ekki flutt til svæðisins, rafhlöður fyrir heyrnartæki eru á bannlista og lokað hefur verið fyrir eldsneyti og rafmagn. Það síðastnefnda hefur í för með sér að vatnsdælur við brunna stöðvast og einnig dælur sem fjarlægja eiga skólpið. Vatnsskorturinn er bæði alvarlegur heilbrigðis- og mengunarvandi, sem valdið getur drepsótt. Það eru engu líkara en stefnan sé að breyta þessu risafangelsi í útrýmingarbúðir.

Samhliða umsátrinu um Gaza hafa stöðugt verið gerðar árásir á íbúana úr lofti, af landi og láði og einstaklingar og fjölskyldur verið myrtar. Á þeim hefur verið hert síðustu daga með grimmilegum loft- og skriðdrekaárásum á íbúðahverfi. Síðustu fimm daga hafa á annað hundrað Palestínumenn verið myrtir og þar af 19 börn. Á einum degi, laugardeginum 1. mars, voru 67 drepnir. Þann dag féllu tveir ísraelskir hermenn og hafa ekki aðrir fallið úr árásarhernum þessa dagna. Átylla þess morðæðis sem gripið hefur Ísraelsher er dauði eins Ísraelsmanns á fimmtugsaldri í Sderot sem varð fyrir heimatilbúinni eldflaug og var það fyrsta mannfallið af slíkum völdum þar í níu mánuði.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt árásir Ísraels og krafist þess að þeim linni. Ísraelsstjórn skellir skollaeyrum við slíku og Olmert forsætisráðherra Ísraels kallaði árásirnar „sjálfsvörn“ og sagði að ekki yrði gert einnar sekúndu hlé á árásunum. Evrópusambandið hefur mótmælt árásunum á Gaza en það virðist engu breyta. Abbas forseti Palestínu hefur slitið sambandi við ísraelsk stjórnvöld. En Bandaríkjastjórn stendur á bak við Ísraelsher með því að sjá honum fyrir vopnum og réttlætir þessar árásir í samhljóman við áróður Ísraelsstjórnar.

Umheimurinn horfir upp á stríðsglæpi Ísraels og fær lítið gert til að stöðva grimmdarverkin. Í þessari stöðu verða ríki eins og Ísland að reyna að koma vitinu fyrir Ísraelsstjórn með því að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael, þar til bundinn hefur verið endir á stríðsglæpina, hernáminu linnir og palestínsku þjóðinni verið tryggður réttur til lífs og friðar. Þjóðir Ísraels og Palestínu eiga ekki lífvænlega framtíð án friðarsamkomulags sem byggir á réttlæti og gagnkvæmri virðingu. Þjóðir heims verða að gera Ísraelsstjórn ljóst að nú er komið nóg.

Heimasíða Félagsins Ísland-Palestína

Goal Dreams sýnd í Alþjóðahúsinu í kvöld, þriðjudaginn 4. mars

Hvernig getur fótboltalið, sem hefur ekki viðurkennt heimaland, engan stað til að þjálfa á og býr við hörmulegar aðstæður, keppt í knattspyrnu á alþjóðavettvangi? Félagið Íslands-Palestína mun í vetur standa fyrir sýningum á athyglisverðum heimildar- og bíómyndum er hafa með málefni Palestínu og Ísraels að gera, fyrsta þriðjudag hvers mánaðar í Alþjóðahúsinu. Að þessu sinni verður á boðstólum heimildarmyndin 'Goal Dreams - A Team Like No Other'.
Í myndinni er fylgst með landsliði Palestínu í knattspyrnu undirbúa sig og leika í undankeppni fyrir Heimsmeistaramótið (World Cup) í Þýskalandi árið 2006, eftir að Ísraelar gerðu loftárás á æfingarsvæði liðsins á Gaza. The Palestinian Football Association (PFA) var stofnað árið 1928 og er eitt elsta knattspyrnusamband í Arabaheiminum. Eftir að Alþjóðknattspyrnusambandið FIFA viðurkenndi PFA árið 1998 hefur Palestínska liðið hækkað um 70 sæti á styrkleikalista sambandsins.
Hernám Palestínu hefur þó haft sín áhrif á landsliðið og liðsmenn þess. Í lok síðasta árs urðu möguleikar Palestínu um að komast á Heimsmeistaramótið í Suður-Afríku árið 2010 að engu þegar hernámsyfirvöld neituðu landsliðsönnunum um leyfi til að ferðast frá Vesturbakkanum og Gaza til að leika í undankeppni mótsins í Singapore. Síðan heimildarmyndin var gerð hefur einn liðsmaður liðsins fallið fyrir kúlum ísraelskra hermanna á meðan hús annars hefur verið lagt í rúst.
---------------------------------------------------------
Goal Dreams - A Team Like No Other (86 min)
Þriðjudagurinn 4. mars, klukkan 20.00
Alþjóðhúsið, Café Cultura, Hverfisgata 18
Aðgangur ókeypis!
---------------------------------------------------------
---------------------------------------------------------
Vefsíða:

http://www.goaldreams.com/

Um Palestínska landsliðið: http://en.wikipedia.org/wiki/Palestine_national_football_team
---------------------------------------------------------

Yfirlýsing Dr. Mustafa Barghouti um stríðsglæpina á Gaza:

Military escalation against Gaza and Israeli threats of ’holocaust’

Palestinian National Initiative
2 March 2008

Ramallah, 02/03/2008. Dr. Mustafa Barghouthi MP, Secretary General of the Palestinian National Initiative declared today that "Israel is killing babies, children and entire families while the world remains silent. This very silence is enabling the Israeli crimes. It must stop."

Dr. Barghouthi stated that the Israeli military has killed 104 Palestinians in Gaza since Wednesday 27 February and injured more than 300. Saturday alone, 66 Palestinians were killed and more than 180 injured in Israeli military attacks.

Dr. Barghouthi insisted on the plight of Gaza’s children who are targeted without any restraint by Israel. 19 children have been killed and more than 25 injured since Wednesday. This death toll includes a 2-day-old baby, a 5-month-old baby, and many children younger than 12. Civilians have been killed in their homes, bombed by the Israeli military.

This blatant disregard for civilian life is a clear breach of the Geneva Conventions, and Israel is committing war crimes in the Gaza Strip. Dr. Barghouthi expressed his disgust at the comments by Matan Vilnaï, deputy of minister Ehud Barak, who threatened Friday an ’holocaust’ against Gaza.

Dr. Barghouthi commented "this reveals the moral bankruptcy of the Israeli leadership. They feel vindicated in their criminal policies by the silence of the international community. They do not want to negotiate anything and only use military force and extreme threats".

Dr. Barghouthi detailed how since Annapolis Israeli military attacks have increased by 300%, settlements have grown, checkpoints have increased from 521 to 562 and no real negotiations have taken place. He concluded: "Israel is using Annapolis as a cover for its criminal attacks against the Palestinians. There is no Israeli partner for peace, only the continuation of a policy of Apartheid against Palestinians in Gaza, Jerusalem and the West Bank."

mánudagur, mars 03, 2008

Árið var 1969...



... og Jefferson Airplane lék á Woodstock. Þessi frábæra sveit flytur hér White Rabbit eftir söngkonuna, Grace Slick. Grace Slick tel ég einhverja mögnuðustu söngkonu rokksins og sem heyra má er hún líka afbragðs lagasmiður. Þar fyrir utan var hún forkunnarfögur og heillandi flytjandi.
Það er eins og ég sé að e-u leiti farinn að skilja Lögfræðinginn í Fear And Loathing in Las Vegas, sem lá útúrstónd í baðkarinu og heimtaði að Rael Duke varpaði brauðristinni ofan í baðkarið í hápunkti lagsins. Ég meina, ef maður ætlar að gera svona á annað borð, þá getur maður allt eins gert það með stæl.
...hins vegar er svo sem auðvitað ekkert "töff við það í snöru að hanga", eins og Bubbi sagði, hvað þá að liggja örendur í vatni og eigin úrgangi í baðkari. Þannig að... þúst... do not try this at home. :P

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.