föstudagur, mars 07, 2008

Rétturinn til að verja sig - Hugvekja

Mikið er talað í fréttum um “rétt Ísraels til að verja sig” sem í praksís getur þýtt að þeir verji sig með massífum árásum af landi og sjó og úr lofti á palestínska alþýðu, svelti þá, kúgi og terroríseri á aðra lund. En mér er spurn: Hafa Palestínumenn rétt til að verja sig? Og þá hvernig? Maður sem sprengir sjálfan sig og aðra í loft upp er kallaður hryðjuverkamaður. Maður sem varpar eldflaug á ísraelska byggð er einnig kallaður hryðjuverkamaður. Slíkar árásir valda jafnan eyðileggingu og særa stundum eða deyða. Loks geta menn barist með skotvopnum. Einnig þá er oft talað um hryðjuverkamenn og vopnasmygl fordæmt.
Palestínumenn eiga engan her sambærilegan einum öflugasta her heims sem Ísrael býr yfir. Ef við erum sammála um það að morð á saklausum borgurum, eins og bæði Ísraelar og Palestínumenn hafa gerst sekir um, séu óafsakanleg, sama hver á í hlut hlýtur sú spurning að vakna hvort og þá hvernig Palestínumenn megi “verja sig”. Þeir hafa ekki önnur úrræði en þau sem er lýst hér að ofan nema ef ske kynni að þeir reyndu friðsamlegar eða diplómatískar leiðir.

Margir gætu sagt að það sé það eina rétta í stöðunni. Sjálfur myndi ég vilja sjá sem mest af slíku en ég myndi einnig vilja sjá það skila frekari árangri. Ekki hjálpar þá til að lýðræðislega kjörin stjórnvöld þar séu ekki viðurkennd, fjársvelt, fulltrúar handteknir og/eða drepnir og nátúrlega kallaðir hryðjuverkamenn. Þjóðir taka höndum saman við að rústa innviðum Palestínu sem þó standa á nógum brauðfótum fyrir undir hernáminu.

Utanríkisráðherra vill einnig að diplómatíska aðferðin verði reynd, fremur en að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Það hefur verið reynt og er enn reynt en ekki er að undra ef margir örvæntna þegar það virðist ætla að skila litlu, allav. til skamms tíma litið og Ísrael heldur áfram að “verja sig” eins og áður er lýst. Mörgum Palestínumönnum finnst að heimurinn horfi þögull á eymd þeirra. Það rekur í raun fremur aðdáun og furðu þegar menn eru ekki tilbúnir að gefast upp heldur halda áfram a þrautsegju við slíkar aðstæður. Sérstaklega í ljósi þess að friðsamir mótmælendur eru ekkert síður terroríseraðir í Ísrael en þeir sem grípa til ofbeldis.

Sameinuðu þjóðirnar hafa t.a.m. margoft gagnrýnt Ísrael og veit ég ekki til að önnur þjóð hafi brotið jafn oft gegn alþjóðalögum og Ísrael en Ísrael skellir skollaeyrunum við því. Eins og ég vona að slíkar aðferðir muni skila e-u þá get ég ekki verið of bjartsýnn. Það þarf að vera raunverulegur vilji fyrir hendi og alvöru þrýstingur, t.a.m. stingur í augu að Ísrael sé enn meðlimur í Sameinuðu þjóðunum í ljósi þess hversu Ísrael hefur virt ályktanir alþjóðaþings og Öryggisráðs að vettugi. T.a.m. gæti þa ðsett e-n þrýsting á Ísrael ef Ísrael væri meinaður aðgangur að menningarviðburðum og væri hunsað akademískt nema að fulltrúar væru tilbúnir að gagnrýna hernámið. Þá er ég t.d. að hugsa um heimsmeistarakeppnina í fótbolta, Evróvisjón, Ólympíuleikana o.s.frv. Þess má geta að Ísrael hefur róið svo seglum að nú virðist ómögulegt að palestínska landsliðið í fótbolta fái að keppa á Ólympíuleikunum 2010.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.