mánudagur, mars 31, 2008

Heilög makkaróna!

Ekki er öll vitleysan eins.

Ekki veit ég hvort þessi gaukur trúir sjálfur þessu orkankjaftæði en grunar allt eins að þetta sé einfaldlega enn einn loddarinn sem hefur auðtrúa fólk að féþúfu. Rugludallar flytja annan rugludall inn. Að kalla þetta "vísindi" er svona ámóta eins og að halda því fram að Manos; the Hands of Fate sé vönduð kvikmynd, eða að tilnefna Blossa eða Opinberun Hannesar sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna. Að nokkur tími að borga sig inn á þetta húmbúkk er ofar mínum skilningi. Karlskrattinn rukkar svo 12.000 fyrir einkanámskeið. Þá kynni ég nú sýnu betur við að skeina mér bara á seðlunum. Auðvitað græðir hann líka á áhuga fjölmiðla á svona rugludöllum. Gunnar í Krossinum er lifandi sönnun þess. "Stewart Swerdlov vekur landsmenn af værum blundi" segir í fyrirsögn 24 stunda og vona ég að það sé tilraun blaðamanns til að reyna að vera fyndinn. Ef þetta er að vekja fólk af værum blundi, megi ég þá þjást af svefnsýki sem lengst. Þessi maður heldur staðfastlega fram kenningum um eðlumenni (e. "reptililians), fjandinn hafi það! Lesið bara helvítis viðtalið!

Nú vantar bara að Vísindakirkjan reisi sér kirkju hér.

Gerið sjálfu ykkur og mér greiða og horfið á Southpark-þáttinn um Vísindakirkjuna. Ef þið hafið séð hann, horfið þá aftur á hann.

...

Oft lendir maður í því að maður er rabba við e-a viðkunnalega manneskju sem virkar ýmist skynsöm eða ekki en rekur sig á það að viðkomandi heldur e-u fram sem manni finnst vera überkjaftæði eða getur allav. á einhvern hátt fett fingur út í. Viðkvæmustu málin eru jafnan stjórnmál og trúmál, því það vill svo oft verða persónulegt, sérstaklega trú fólks. Ef maður gagnrýnir e-ð við trú e-s tekur viðkomandi því oft sem persónulegri árás. Sé þetta manneskja sem manni fellur á annað borð vel við er manni ekkert keppikefli að særa viððkomandi en getur þurft að hafa sig allan við ef maður ætlar að halda aftur af sér.


Um daginn, eftir Íraksmótmælin, lenti ég í ágætu spjalli við ungan Svisslending. við fórum að ræða stjórnmál, mannréttindi og frelsisbaráttu og vorum á nokkuð svipuðum meiði. Þetta virkaði skynsamur piltur og var þægilegur og vinalegur í viðkynningu. Ég spyr hann hvað hann geri og hann segist vera staddur hér sem trúboði, ég man ekki fyrir hvaða söfnuð. "Jajá" segi ég, og stilli mig um að koma með eitthvað gagnrýnið eða kaldhæðið tilsvar, ég hugsaði "virkar fínn gaur fyrir því". Hann leiðir talið nokkuð að Jesú og hvað sé verið að predika og gera í Jesú nafni vs. það sem Jesús sagði. Aftur jamma ég og jánka e-ð þó ég gæti mælt ýmislegt á móti. Hann fer svo svona aðeins að própagandera söfnuðinn sinn, þau hittast reglulega yfir kaffi og ræða málin og svona, hvort ég hafi áhuga? Ég segist fremur vera agnostic en bróðir minn sé atheist og við bræður séum hvort eð er iðulega að rabba um trúmál.

Þá segir hann þessa gullnu setningu: "Is he an evolutionist?" (leturbreyting mín)

Ég varð eiginlega kjaftstopp og glápti á hann sívaliturnsaugum. Stamaði svo út úr mér. "Uhhh... errr... if you mean wheither he believes in evoultion, wel,l we both do..". Hann segir það einmitt vera það sem sé mest rökrætt hjá þeim. "Öh.. Aha. Einmitt það, já." segi ég agndofa, hósta og rembist við að halda andliti.

Eftir því sem aulahrollurinn stigmagnaðist reyndi ég að malda í móinn (á ensku nottla) og stama upp úr mér: "Eh... uhhh... bleh..., þúst, steingerfingar e-ð"

Hann vill þá meina að ýmislegt passi hjá Darwin ef maður tekur hlutina héðan og þaðan og lagar það af fyrirfram mótuðu kerfi, sem hann vill meina að Darwin hafi í raun gert, og líkir því við að hitt og þetta í Biblíunni hafi reynst sagnfræðilega rétt. Ég reyndi eftir bestu getu að útskýra muninn á tilgátu og vísindalega studdri kenningu en fann ekki alveg réttu orðin á ensku.
Talið fór víðar og barst að myndasögum, ég gaukaði nokkrum góðum að honum og sagði hann þá að þau í söfnuðinum notuðu líka myndasögur til að koma boðskap sínum áleiðis. Mér flaug Jack Chick í hug og svaraði bara e-ð "Núnú" eða "so" (með íslenskum framburði). Áður en við kvöddumst gaf hann mér eintak af heftinu þeirra og það er nú meira þruglið. "hér er það sem þróunarsinnar segja" í týpískri afbakaðri og útþynntri útgáfu og svo "en bíddu nú við, er ekki hér pottur brotinn?". "Við viljum bara horfa á hlutina í víðara samhengi" "og varpa upp fleiri möguleikum" fefefefe. Merkilegt líka hvað trúarnöttarar gagnrýna oft vísindin en reyna samt að hafa "vísindalega" slikju á gagnrýninni, án þess að þeim verði jafnan mikið ágengt.

...

Næst þegar einhver fer að tala um trúna sína við mig mun ég svara því til að ég tilbiðji Fljúgandi spagettískrýmslið:


Lof sé Fljúgandi spagettískrýmsinu! Lifi Pastafari!

5 ummæli:

Kristján Haukur sagði...

Ég las þetta hefti Einar minn, það mótmælti flekakenningunni(jarðfræði), Darwin(líffræði), jafnvel sumum vel þekktum eðlisfræði - og efnafræðikenningum.

Ég held að við verðum að finna þennan einstakling. Ég gríp tækifærið og fæ stigulanna, haxanna o.s.frv. saman í stóra vísindaferð þar sem hann les úr þessu hefti. Síðan getur hann reynt að vinna rök sönnuð af staðreyndum með einni bók. Ég er algjörlega fullviss að jörðin er eldri en 6000 ára.

Einar Steinn sagði...

Jamm, það sem ég hafði séð af heftinu var sannarlega ansi magnað. Þú mátt annars gjarnan lána mér aftur heftið, þó ekki væri nema til að ljósirita. Langar dálítið að gefa Vantrú og Siðmennt eintak.

Jamm, ég var nú nógu gáfaður til að láta hann fá netfangið mitt snemma í spjalli okkar en ég hef enn ekkert heyrt frá honum. Hjartanlega sammál því að við þurfum að leita hann uppi.

Einar Steinn sagði...

Humm, það er eiginlega einu "jammi" ofaukið í síðasta svari. Nota þetta orð býsna mikið. "Humm" reyndar líka. :)

Kristján Haukur sagði...

Þegar ég var búinn að lesa heftið þá rétti ég þér það aftur enda var ég ekki í úlpu sem gat geymt það.

Einar Steinn sagði...

Þá eru góðar líkur á að það sé einhvers staðar í draslhrúgunni. :)

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.