föstudagur, mars 07, 2008

V

Eilíf er þessi kröfuganga
Milli hugsjónar og veruleika
Listir vorar auka á spennu tímans
Vísindi vor auka á þennslu rúmsins
Mál vort er viðþolslaust af eftirvæntingu
Menning vor á þönum eftir opinberun
Þetta er hinn fyrsti og síðasti dagur
Í þessari andrá verður tilgangurinn að finnast
Á þessu augnabliki verður athöfnin að gerast
Einhver verður að þeyta frelsisblysinu
Einhver verður að spenna friðarbogann
Einhver verður að rísa
Gegn viðurtyggð uppgjafarinnar

2
Þess bíðum vér gamlir bakhúsgestir
Sjálfir sviptir uppreisnarkraftinum
Því draumórar vorir hafa umhverfst í martröð
Pennarnir upplitazt bókfellin gulnað
Vaninn og efinn slævt raddirnar
Þær láta nú sem annarlegt bergmál hins liðna
Í hlustum þeirrar ungbornu kynslóðar
Sem hefur verið svikin um dýrð fyrirheitsins
En getur þó ein bjargað himni og jörð

3
Því sérhver ný kynslóð verður að frelsa heiminn
Með því að skapa hann í sinni mynd

4
Og þarna er hún að koma þarna er hún að rísa
Einmitt nú og hér er hún að brjótast
Út úr þokum og segulstormum óskapnaðarins
finnur sjálfa sig í tóminu
Samtengir angistina kvöl hins stríðandi lýðs
Lyftir ódauðlegum manninum upp úr viðbjóðnum
Endurfæðist gerir kraftaverk
Breytir helsprengju í lífskjarna
Gefur framtíðinni nýtt mál nýja merkingu
Trúir vonar elskar

5
Gagntekið heilögu ofstæki
Upptendrað af fögrum voða jarðstjörnunnar
Hugsjóninni
Skírist blóð hennar í hreinsunareldi morgunsólar
Ofar lífi og dauða


Jóhannes úr Kötlum, Ný og nið, 1970.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.