föstudagur, mars 28, 2008

La Traviata

Ég fór á La Traviata með Vésteini bróður um daginn og vorum við báðir hæstánægðir með sýninguna. Ekki síst með Sigrúnu Pálmadóttir, sem söng Víólettu og Tómas Tómasson sem söng Giorgio föður aðalkarlhetjunnar, Alfredo.
Það var þó eitt sem böggaði okkur bræður við lógík sögunnar. Faðir Alfredo fer fram á það við Violettu að hún slíti sambandi sínu við son hans, Alfredo með þeim rökum að heitmaður hinnar hreinu og saklausu yngri systur Alfredos vilji ekki eiga hana nema að Alfredo snúi heim í faðm fjölskyldunnar. Samt eiga systirinn og heitmaðurinn að vera yfir sig ástfanginn og faðirinn þrýstir á Violettu að “stofna ekki ást þeirra í glötun” og segist ekki vilja kalla óhamingju yfir bæði börnin sín. Honum finnst sumsé í himnalagi að kalla óhamingju yfir son sinn og Violettu vegna vægast sagt vafasamrar “ástar” dótturinnar og heitmannsins, sem elskar hana svo ofurheitt að hann vill fremur beygja sig undir reglur stífs og yfirborðslegs borgaralegs siðgæðis en að eiga hana, en Violetta hafði verið fylgikona og þótti hún því “fallin” og Alfredo eiginlega líka fyrir að eiga e-ð saman við Violettu að sælda og “spillta borgarlífið”. Með blæðandi hjarta beygir Violetta sig undir þetta, þó Alfredo komist að hinu sanna á dánarbeði Violettu, og jafnframt að Violetta elskar hann jafn heitt og áður.
Það var einmitt þetta stífa og yfirborðslega borgaralega siðgæði sem var að bögga okkur, en það virðist vera það sem býr í raun fyrst og fremst að baki kröfu Giorgio. Við vorum ásáttir um það að þetta myndi aldrei gerast eftir byltinguna. ;)
Senan þar sem faðirinn, Giorgio, reynir að höfða til samvisku Alfredo og rifja upp gömlu góðu heimahagana verður þar af leiðandi nokkuð hjákátleg, sér í lagi þar sem við fáum upphafna sveitarómantík af gamla skólanum þar sem íturvaxnar heimasæturnar mæna löngunaraugum á tindilfætta hjáróma hjarðsveina sem syngja þeim angurværa mansöngva er þeir taka í þvalar hendur þeirra og kiðin skoppa um tún og engi.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.