Kalt stríð
Þetta er ekki blóð.
Þetta er ekki sú sanna uppspretta hjartans
þetta er ekki straumfall ástarinnar
þetta er ekki lækurinn
ekki áin
ekki fljótið
ekki hafsjórinn
sem litar líf vort rautt.
Þetta mórauða skólp sem hnígur þyngslalega um æðar vorar
það er ekki mannsblóð
ekki hinn skapandi lífsflaumur kynslóðanna
heldur tóbak og kaffi og brennivín.
Þurfum vér þá svipuhögg í andlitið
þarf að brenna land vort
svívirða konur vorar
henda börn vor á byssustingjum
til þess að blóð vort verði rautt og heitt
til þess að blóð vort verði lifandi
til þess að blóð vort verði ósvikið mannsblóð?
Verður blóð vort þá fyrst rautt og heitt og lifandi
þegar vér liggjum helsærðir í valnum
og það fossar niður í rúst vorrar glötuðu ættjarðar?
-- Jóhannes úr Kötlum, Sjödægra, 1955.
þriðjudagur, mars 04, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli