Strákastelpustrákur
Í fyrradag var ég að glápa á sjónvarpið og límdist við She's The Man. Svona nokkuð týpísk rómantísk gaman-unglingamynd með Háskólarokki und alles. Aðalpersónan, leikin af Amöndu Bynes þykist vera bróðir sinn (sem þá er í London) til þess að geta keppt í fótbolta. Svona Spice Girls-Girl Power fílingur yfir myndinni, og svo sem bara gott um það að segja. Mér varð hins vegar sterklega hugsað til eftirfarandi senu í Blackadder Goes Forth:
Edmund: So you're a 'chap', are you Bob?
Bob: Oh yes, sir. (hlær digurbarkalega og slær sér á læri)
Edmund: You wouldn't say you were a girl at all?
Bob: Oh, definitely not, sir. I understand cricket, I fart in bed, everything.
Edmund: Let me put it another way, Bob, you are a girl. And you're a girl with
as much talent for disguise as a giraffe in dark glasses trying to get
into a 'Polar Bears Only' golf club.
Merkilegt nokk virðist þó enginn átta sig á því að “pilturinn” er stúlka. Þó svo að hún sé förðuð með augnskugga, vara- og kinnalit und alles og bara yfirleitt kvenleg útlits, fyrir utan gerfibarta, drengjakollshákollu og lím yfir augabrúnirnar. Hvernig nokkur gæti ruglað henni við bróður hennar er mér gjörsamlega óskiljanlegt, nema að það sé Súpermann-lógíkin: “Bíddu nú við... Clark Kent er þó nokkuð líkur Ofurmenninu í útliti... þeir sjást aldrei á sama tíma... hah, kjáni get ég verið að láta mér detta svona vitleysu í hug! Clark Kent með gleraugu!” Að þessu leiti er myndin alveg í anda Shakespeare, en hún ku lauslega byggð á Shakepeare-leikriti.
Myndin hafði sitt afþreyingargildi og ég stóð mig að því að vera pínulítið skotinn í Amöndu Bynes.
Eftir myndina umpólaði ég og horfði á Aguirre, der Zorn Gottes eftir Werner Herzog. Afbragðs mynd. Klaus Kinski er auk þess sem fyrr magnaður í titilhlutverkinu. Ég var hins vegar ekkert skotinn í honum. Stafar það í senn af gagnkynhneigð minni og þeirri staðreynd að hann er vægast sagt ekkert sérlega smáfríður.
Leiðir það hugann að KISS. Margar grúppíur hafa eflaust fengið áfall þegar KISS ákvað að svipta sig farðanum: “Plís, skelltu honum aftur á!”.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli