Vel sé þeim sem veitti mér.
Joy Division hefur verið mikið í spilaranum hjá mér undanfarið og get ég ekki stillt mig um að hugsa ef Ian Curtis hefði aðeins lifað lengur, þá hefði maður e.t.v. getað notið meira efnis með honum. Raunar er ekki víst að hljómsveitin hefði haldið áfram, allav. með honum, hann talaði oft um að hætta í henni. Óháð frábærri tónlistinni er andlát svo ungs manns yfirleitt sorglegt, hvað þá þegar það ber að með þessum hætti, en eins og þekkt er hengdi Ian Curtis sig í maí árið 1980, 24gjra ára gamall, og skildi eftir sig konu og barn. Eftir standa tvö meistaraverk með Joy Division, plöturnar Unknown Pleasures og Closer auk smáskífa. Af smáskífum ber líklegast hæst Dead Souls/Atmosphere.
Ég ætti kannski að gefa New Order meiri séns. Hef lítillega hlustað á þá og alveg þótt fínt, en þeim hefur enn ekki tekist að vekja með mér sömu tilfinningu og Joy Division.
Ég sá Control á kvikmyndahátíðinni og þótti mjög góð, og langar að sama skapi að sjá heimildamyndina Joy Division.
Það er þannig með suma listamenn, að eftir því sem maður hlustar meira á þá, horfir á eða les verk þeirra eða eða sér þá tala, þá þykir manni æ vænna um þá og fyllist þakklæti í þeirra garð.
Kurt Vonnegut er einn þeirra sem vekur þá tilfinningu hjá mér. Ekki síst þegar hann er hann sjálfur og talar frá hjartanu um allt milli himins og jarðar, eins og í A Man Without a Country, sem ég kláraði í gærmorgun. Ég var að sama skapi afar hrifinn af Slaughterhouse Five, og eftir því sem ég finn meira af viðtölum við hann, fyrirlestra, greinar o.s.frv. þá þykir mér æ vænna um hann, þó ég hafi aldrei hitt hann, og er þakklátur fyrir veru hans á jörðinni og að hann hafi deilt hugðarefnum sínum með okkur og einfaldlega fyrir að hafa verið sá sem hann var, Kurt Vonnegut yngri. Og eins og gjarnan er með góða höfunda, þá fær hann mig til að þyrsta í að lesa meira eftir hann.
Ólíkt Ian Curtis þá er úr fleiru að moða hjá Vonnegut, einfaldlega vegna þess að hann lifði lengur og gaf út meira. Það er missir af þessum tveimur snillingum en maður er ánægður með það sem maður hefur.
Hér geta lesendur horft á eitt af síðustu sjóvarpsviðtölunum við Kurt Vonnegut, sem var sjónvarpað 7. október 2007.
Í spilaranum: Decades með Joy Division af pötunni Closer.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli