Orð í eyra
Í dag rifjaðist upp fyrir mér jólalag sem ég fékk í kjölfarið á heilann og hef oft fengið áður á heilann um jólaleitið. Það er Jólasveinslagið með Ómari Ragnarssyni og krakkakór, þar sem krakkarnir syngja "Jólasveinn" í viðlaginu og Ómar svarar einhverju sem ég hef aldrei getað greint almennilega hvað er, romsar því enda hratt og óskýrt út úr sér, eitthvað "paðtifluriguegue".
Mamma þóttist mögulega heyra "Taktu í húfuna á þér" en fyrir mér hljómaði þetta meira í líkingu við "taktu í stúfinn á mér/þér" eða "Friedrich Schleiermacher". Gæti svo sem líka hafa verið "Partý í Úrúgúæ".
Eitt þarf auðvitað ekki að útiloka annað og þetta getur vel farið saman. Allt er þá þrennt er, sem sjá má:
"Jólasveinn - Friedrich Schleiermacher
Jólasveinn - Tók í stúfinn á sér/mér
Jólaveinn - í partý í Úrúgúæ
Jólasveinn"
Árum saman hélt ég líka að James Hetfield syngi "And so you retire, so then you die" í laginu Creeping Death á plötunni Ride The Lightning með Metallica. Það fannst mér og finnst enn flott lína og mikið til í henni, passaði þar að auki vel við titil lagsins. Dökk sýn, kannski, en alls ekki svo fjarri lagi. Árin líða og ég sé loks að textinn mun vera "So let it be written, so let it be done".
Ég á enn ómöglegt að greina seinni línuna eins og textinn tjáir mér að hún sé í söng Hetfields, og er það mun fremur að ég heyri "mína" útgáfu (sem er nottla miklu flottari).
"Sothetibere- tijaaa -aah!" "Sothebijudjaaah-ahhhh!"
Engin ummæli:
Skrifa ummæli