Ég keypti mér The White Album með Bítlunum fyrir nokkrum dögum. Það voru nú góð kaup og ég er með hann í sífelldri spilun. Jafnvel þau lög með Bítlunum sem teljast til þeirra síðri eru samt góð. Virka einhvern veginn alltaf, og maður veltir fyrir sér hvort yfirleitt hefði verið hægt að hafa þau öðruvísi Og þau bestu.. vá... tónlistarleg fullnæging, maður nálgast alsæluvímu. Ég get alltaf hlustað á eitthvað með Bítlunum og fundið til hamingju.
Lag dagsins er hið gullfallega Blackbird. Eflaust eitt fallegasta lag plötunnar og meðal fallegustu Bítlalagana. Læt textann fylgja:
Blackbird singing in the dead of night
Take these broken wings and learn to fly.
All your life
You were only waiting for this moment to arise.
Blackbird singing in the dead of night
Take these sunken eyes and learn to see.
All your life
You were only waiting for this moment to be free.
Blackbird fly, Blackbird fly
Into the light of the dark black night.
Blackbird fly, Blackbird fly
Into the light of the dark black night.
Blackbird singing in the dead of night
Take these broken wings and learn to fly.
All your life
You were only waiting for this moment to arise
You were only waiting for this moment to arise
You were only waiting for this moment to arise
mánudagur, ágúst 29, 2005
Á morgun kem ég heim. Um helgina var Matfestival í Skövde. Afar skemmtileg útihátíð og bærinn var fullur af fólki. Sautjánda júní-menningarnæturfílingur yfir þessu.
Fullt af tjöldum að selja mat og drykki, enda keppa veitingastaðir um bestu matseldina og þjónustuna. Það var tívolí og lifandi tónlist, og ball. Skemmti mér mjög vel. Kraftlyftingarkeppnin var mjög skemmtileg, lyfta átti mjölpoka upp á tréplanka sem hafði verið staflað hver ofan á annann. Mig minnir að stúlkan sem vann hafi verið frá Falsköping. Þótti mér undarlegt að önnur stúlka sem virtist ekkert of mössuð kom pokanum upp á án mikillar áreynslu á meðan stærðar jötunn átti fullt í fangi með hann. Kannski einnig spurning um verksvit. Meðal hljómsveita sem ég sá var Aftrodite. Stúlkna/kvennahljómsveit sem tók eitt sinn þátt í undankepnni Eurovision. Þær voru býsna góðar. Svo var sænska popp-rokksveitin Metro sem ku hafa fengið heilt neðanjarðarlestarkerfi í París nefnt eftir sér (or was it the other way around). Einnig ber að nefna hóp sem ég man því miður ekki hvað hét en samanstóð af hljómsveit og söngvurum sem einnig dönsuðu. Þau fluttu lög úr Blues brothers, með Arethu Franklin og AC/DC. Mjög flott. Var þarna báða dagana, kíkti á Sportbarinn fyrri daginn en seinni fórum við Arnar og Vignir saman á skálaglamm.
Dvöl minni hér er að ljúka. Svíþjóð er skemmtilegt land og fallegt og fólkið viðkunnalegt. Maður á eftir að sakna margs og gæti vel hugsað sér að koma aftur, þó J&A verði flutt heim. Það er hins vegar nokkuð sem maður getur hlakkað til. Eins er ég farinn að hlakka til að heilsa aftur heimarómi blíðum.
Í gær skruppum við með krökkunum í húsdýrsgarðinn Aspö. Þar voru hestar, kýr, gögl, svín og vinalega kindin sem ég mundi eftir frá því í fyrra. Gengum um skógin og niður að Kastorpsvatni. Þar finnst mér sérlega fallegt., og staður sem ég mun sakna. Það hefur verið frískandi að fá sér sundsprett þar og njóta umhverfisins.
Fór með Arnari á The Island í gær. Hún var fín. Góð mynd að horfa á í þynnku. Af leikurum fannst mér mest til Steve Buscemi og Sean Bean koma. Held mikið upp á báða og vil sjá þá í fleiri myndum. Einnig unun af því að heyra Ewan McGregor aftur dala með skoska hreimnum. Scarlett Johannson sýndi engan sérstakan leik en var hins vegar forkunnarfögur.
föstudagur, ágúst 26, 2005
Brottflutningurinn frá Gaza er loks hafinn. Það er mikilvægt skref en verður til lítils ef ekki verður snúið frá Vesturbakkanum. Sharon vill einmitt nota brottfluttningin frá Gaza til að tryggja landtökubyggðirnar á Vesturbakkanum. Uri Avnery skrifar um brottfluttninginn í nýjustu grein sinni,This Was The Day, á heimasíðu Gush Shalom.
Fyrir þá sem vilja vita meira um múrinn þá er gert góð grein fyrir honum hér , aðdraganda hans lýst, núverandi ástandi og fyrirhuguðum áætlunum. Því fylgir kort af Ísrael og Palestínu sem sýnir vel grænu línuna, innlimað land, það sem þegar er búið að byggja af múrnum og frekari áætlanir. Uppsetningin er mjög aðgengileg. Múrinn er hryðjuverk sem heggur í lífæð Palestínumanna, traðkar á mannréttindum þeirra og er þeim sem kyrkingaról. Hann er ekki þarna til að “stöðva ofbeldi” heldur kyndir hann undir enn frekari hörmungar.
"Sumir vilja líkja ástinni við eld. Af litlum neista verður mikið bál. En eldinn verður að glæða og eins verður að gæta að kertið brenni ekki upp. Dreirrauðir logarnir stíga lostafullan dans og geta lýst upp myrkrið, engu síður en stirndur næturhimininn, yljað manni og sviðið uns hjartað greipist í kol, og ekkert er eftir nema askan, öskugrár maður með öskuggráa sál.
Ást okkar fölnaði ekki. Hún var áþekktust rós sem er pressuð inn í bók.
Þar er hún varðveitt, minningin,
lifir einungis sem svipur þrár okkar og tára, reikul vofa bross sem er stirnað og okkar dýpstu tilfinninga, varþveitt í þurrum og stífnuðum blöðum."
fimmtudagur, ágúst 25, 2005
Ég hef hlustað mjög mikið á Bob Dylan undanfarið. Ég hef lengi verið hrifinn af honum, svo það er kannski kominn tími til að kaupa sér eitthvað meira með honum. Á tvo safndiska. Er að spá í plötum eins og Blonde on Blonde, Blood on the Tracks, Highway 61 Revisited, John Wesley Harding og The Freewheelin’ Bob Dylan.
Ég er einnig gífurlegur Bítla-aðdáandi, og get hlustað á þá hvenær sem er, þeir veita mér alltaf jafn mikla ánægju. Hef hlustað mikið á Sgt. Pepper’s Lonely Heart Club Band undanfarið, immer gleich schön. Heima á ég hann á vínil en kynni að kaupa mér hann á disk. Ég dýrka líka Abbey Road, ef til vill uppáhaldsplatan mín með þeim, af þeim sem ég hef hlustað á í heild sinni. Hún er skotheld, svo notuð sé margtuggin klisja. Eins kæmi til greina að kaupa Revolver og/eða The White Album.
Ég get varla ímyndað mér hverslags upplifun það hefur verið fyrir ungt fólk á sjöunda áratugnum að heyra fyrstu plötu Bítlanna. Mamma hefur vissulega skýrt mér frá hversu geðveikt það hafi verið. Og varla hefur það verið minni upplifun þegar Sgt. Pepper kom út.
Í augnablikinu er ég að hlusta á safndiskinn Nútímann með Þursaflokknum.
Ég er núna að lesa The Grapes of Wrath eftir John Steinbeck.
miðvikudagur, ágúst 24, 2005
jæja, þá eru linkarnir alla vegana komnir í lag. Meira kann ég ekki sem stendur. Letrið á síðunni er enn hörmulegt og ég kann ekki enn að skella tilvitnununum aftur inn. Svo er ég hræddur um að kommentin á forsíðunni hafi þurrkast út, og að þau verði ekki endurheimt. Eins veit ég ekki með teljarnann gæti þurft að starta honum frá byrjun. Ég vona að kommentakerfið virki þó, fyrir frekari komment. Ég vona að lesendur muni sína mér þolinmæði þangað til að þetta er komið í lag, mér finnst þetta sjálfum nógu grábölvað en ég treysti ykkurtil að dæma ekki bókina eftir kápunni. Hafið bara þennan holla boðskap Lilju Einsteins Ásgrímssonar eftir: "Varðar mest allra orða/undirstaðan rétt sé fundin."
Helvítis djöfulsins andskotans bloggdrasl!!! Fari það í sjóðbullandiheitastahelvíti og niðjar þess í sjö ættliði!!! Ég ætlaði að breyta templeitinu, þar eð ég var orðinn leiður á útliti síðunnar, en þá hurfu allir linkarnir, skriftin varð hrafnaspark og allt útlitið jafnvel ljótara en áður. Ég bið þá afsökunar sem ég hef hlekkjað, ég hef þó skrifað hjá mér hverja ég hlekkjaði, ég kann ekki að laga þetta en og mun reyna að redda þessu sem allra fyrst.
Ég lauk um daginn við smásagnasafnið Men in the Sun eftir arabíska rithöfundinn Ghassan Kanafani. Kanafani var þekktastur á Vesturlöndum sem talsmaður palestínsku frelsishreyfingarinnar en í Miðausturlöndum var hann ekki síður þekktur sem einn fremsti rithöfundur araba. Sögurnar í þessari bók segja frá aröbum, palestínumönnum og einkum flóttafólki.
Ef sögurnar væru einungis pólítík og heimspeki höfundarins yrðu þær líklegast fljótt leiðingjarnar. Sögur Kanafani voru flestar hverjar skrifaðar til að styðja málstað Palestínu en slíkar sögur gætu þó orðið einhliða ef fleira kæmi ekki til. Ghassan Kanafani er meistari í stíl og vefur ýmsum stílbrögðum saman til að skapa meiri áhrif. Sögurnar eru skrifaðar af miklu raunsæi veita manni góða innsýn í umhverfi og hugarheim palestínumanna, flóttafólks sér í lagi og þann harðneskjulega raunveruleika sem það býr við. Hann lýsir af næmni gleði fólksins og sorgum, vonum og grimmum örlögum. Sögurnar eru þannig að maður kemst ekki hjá því að láta þær sig varða, persónurnar og atburðir fá það mikla dýpt og vekja manni mikla samkennd og samúð. Tilfinnigin fyrir föðurlandinu er sérlega genumgangandi og öflugt þema. Eitt af því sterkasta hjá Kanafani er að þó sögurnar lýsi palestínumönnum og tali málstað palestínumanna hafa þær miklu meiri vídd, fólkið verður um leið táknrænt fyrir fólk um allan heim sem hefur kynnst sams konar raunveruleika, flóttafólk, og annað fólk sem hefur upplifað kúgun, ofsóknir og ótta og dreymir um betri kjör.
Þekktasta sagan í bókinni ber sama nafn og smásagnasafnið sjálft. Hún er listilega vel skrifuð af nánast brútal raunsæi og segir frá fjórum flóttamönnum
Sem vonast eftir betra lífi í Kuwait. Hver hefur sína sögu sem gert er vel grein fyrir og sem sagan fylgir atburðarásinni, er einnig skyggnst í hug mannanna þar sem þeir hugsa til baka og fram á veginn. Þeir leggja allir líf sitt í hendur vörubílstjórans Abu Quias sem mun smygla þeim yfir landamærin og þeir verða að fela sig í vatnstanki bílsins í brennandi sólinni, þar sem þeir ná vart andanum. Ég vil ekki segja fremur frá sögunni, af ótta við að spilla henni fyrir væntanlegum lesendum, en get sagt ykkur að hún þykir ein sú besta sem komið hefur úr arabískum bókmenntum og var kvikmynduð 195. undir nafniu The Deserted. Ég held að ég geti tekið ýmsum sem hafa sagt að Kanafani hefði getað fengið nóbelinn ef honum hefði enst lengur aldur, en
hann var myrtur af ísralsku leynisþjóunstunni, Mossad árið 1972. Sprengju hafði verið komið fyrir í bílnum hans og þar fórust hann og frænka hans.
A letter from Gaza , síðasta sagan í bókinni kallaði fram tárin í augum mér, snart mínar innstu hjartarætur. Ég læt hér fylgja smá brot:
...When I went on holiday in June and assembled all my posessions, longing for the seet departure, the start towards those little things wich give life a nice, bright meaning, I found Gaza just as I had known it, closed like the introverted lining of a rusted snail-shell thrown up by the waves on the sticky, sandy shore by the slaugterhouse. This Gaza was more crampled than the mind of a sleeper in the throes of a fearful nightmare, with its narrow streets wich had their particular smell, the smell of defeat and poverty, its houses with their bulging balconies ... this Gaza! But what are the obscure causes that draw a man to his family, his house, his memories, as a spring draws a small flock of mountain goats? I don’t know. All I know is that I went to my mother in our house this morning. When I arrived my late brother’s wife met me there and asked me, weeping, if I would do as her wounded daughter, Nadia, in Gaza hospital wished andvisit her that evening. Do you know Nadia, my brother’s beautiful daughter? ...
Ég óttast að ef ég ætti að segja meira frá sögunni, myndi ég spilla fyrir lesandanum þeim hughrifum sem hann gæti upplifað við lestur hennar. Ég hvet því lesendur mína til að lesa þessa bók.
Ferðasaga, II hluti
Nú er ég orðinn 21. árs og kann því ágætlega.
Nú er ég snúinn aftur frá Danmörku þar sem ég átti yndislega helgi. Þar var ég með Jórunni og Arnari, Valla og Katrínu ásamt Vigni og Evu og strákunum þeirra, Hilmi og Arnari og Einari og Maríu og Emblu, dóttur þeirra, sem komu á öðrum degi. Við bjuggum í afbragðs sumarhúsi og höfðum það mjög notalegt. Veðurblíðan var með eindæmum. Siglingin var notaleg, börnin fundu sína paradís í leikherberginu og maturinn var ótrúlega góður, hlaðborð og þegar mín innri Gípa er einu sinni vöknuð þá er ekki séns að halda henni í skefjum.
Fyrsta daginn skruppum við í Sædýrasafnið og sáum þar meðal annars beinhákarla. Á einum stað mátti klappa fiskunum (ekki hákörlunum NB) og var þar sérlega vinaleg skata. Drekafiskar, risahumar, eitraður froskur og píranafiskar eru meðal annara eftirminnlegra sjávarlífvera sem við sáum þenann dag. Gáfum okkur góðan tíma og mjög áhugaverð ferð í alla staði. Skruppum svo á ströndina. Þá var sólin að hverfa af himni og vatnið ískalt en við Arnar og Vignir og krakkarnir skruppum út í engu að síður. Það var mjög hressandi en eftir að hafa vaggað lengi í öldunum og synt langt út og aftur til baka var ég með smá sjóriðu.
Svo rættist bernskudraumur þegar við fórum í Legoland. Hvað er hægt að segja sagt: Það er ótrúlegt hvað menn geta gert úr Lego-i. Amalienborg var til dæmis mjög flott, hvað þá Mount Rushmore, Sitting Bull, egypsku stytturnar, Capitol og Agropolis, wsvo eitthvað sé nefnt. Jamm, þá skortir ekki ímyndunaraflið eða getuna. Krakkarnir fóru í ýmis tæki og ég kíkti í nokkur með þeim, og keypti svo myndina af mér í drekarússsíbananum þar sem ég sést hrópa eins og vitfirringur. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og voru orðin dálítið uppveðruð. Þarna keypti ég mér líka sombrero sem mér finnst helvíti nettur. Talsverð örtröð í Legolandi og sum staðar vart þverfótandi fyrir börnum.
Þá var rólegra í Djurs sommerland, þar voru trampólín, vatnsgarður og ég prófaði stóra rússíbanann þar, Thor. Hann var skemmtilegur en allt of stuttur.
Einnig skruppum til Ebeltoft. Það er mjög huggulegur lítill strandbær með fallegum gömlum húsum, fjölda verslanna og göngugötum. Keypti mér svissneskan vasahníf þar, smá afmælisgjöf frá mér til mín. Kvöldin voru falleg og ánægjuleg, við grilluðum og drukkum rauðvín og bjór. Afmælisköku-ísinn smakkaðist afar vel.
Á siglingunni heim spjallaði ég við nokkur dönsk ungmenni á þilfarinu og við spiluðum og sungum saman. Það var gaman.
miðvikudagur, ágúst 17, 2005
Ég fer til Danmerkur á morgun og verð þar yfir helgina. Við munum fara í Legoland. Verður því ekkert bloggað á meðan, en tek eflaust upp þráðinn á mánudaginn. Þið getið hins vegar lesið færslurnar að neðan auk þess sem þið getið kíkt á nokkra hlekki og lesið nokkar greinar sem ég mæli eindregið með:
Uri Avnery lýsir andrúmsloftinu við brottfluttninginn frá Gaza í nýjustu grein sinni; A Miracle of Rare Device. Hann gerir góða grein fyrir ferli Sharons og stefnu, hversu mótsagnakennd stefna Sharons og hersins virðist vera, sem og fylgenda hans og andstæðinga og skýrir hvað býr að baki. Ég mæli einnig með heimasíðu Gush Shalom, en ég er með hlekk á hana hægra megin á siðunni.
Brói gamli linkar á afar góða grein eftir Robert Higgs og ég geri það líka: Global Struggle Against Violent Extremism: Marketing Gimmick or Ominous Turn? Súpergrein sem ég hreinlega skora á ykkur að lesa.
Einnig getur verið gott að kíkja á heimasíðu Landverndar og Saving Iceland, auk hlekkjanna sem þar er að finna.
Loks hefur bróðurbetrungur minn skrifað margt gott nýlega, sem hans var von og vísa, og því tilvalið að lesa það, það má nálgast til hægri.
Skelli svo einnig hlekk á Þórð. Hann hefur einnig skrifað margt gott undanfarið.
Jæja, nú ætti ykkur varla að leiðast. Í millitíðinni bið ég að heilsa. :)
PS Lag dagsins er Tangled Up In Blue með Bob Dylan
Meira af mótmælum gegn stóriðju
Ég get tekið undir með bróður mínum að ýmislegt má út á ýmsar aðgerðir mótmælenda stóriðju setja, eða segja að þeir séu sumstaðar á villigötum þegar kemur að aðgerðum til að koma réttmætum málstað sínum á frmafæri. Að veggjakrot í miðbænum og Jón Sigurðsson, sem ekkert hefur til saka unnið, séu ekki vænleg til vinsælda. Jón Sigurðsson hefur ekkert til saka unnið og veggjakro Ég styð hins vegar málstað þeirra af heilum hug. Ég vísa aftur í skrif mín 29. júní síðastliðinn þar sem ég viðra skoðanir mínar á þessu, svo ég þurfi síður að endurtaka mig: http:// www.einarsteinn.blogspot....nn_archive.html
Lögreglan hefur ofsótt mótmælendur, elt þá á röndum, handtekið, og beitt harkalegum aðgerðum gegn þeim, þó þeir hafi verið í friðsamlegum erindagjörðum. Fjölmiðlar hafa einnig ýmist gert lítið úr þeim eða málað þá líkt og þeir væru óvinir samfélagsins nr.1. Eins standa menn í ströngu við að láta vísa þeim úr landi.
Ég hef hins vegar ekki orðið var við þá hryðjuverkamenn og eldspúandi fanatíkera sem fjölmiðlar, iðjuhöldar og stjórnmálamenn hafa lýst. Þeir mótmælendur sem ég hef kynnst hafa allir verið einstaklega viðkunnalegt fólk, fólk sem vill ekki sjá náttúru Íslands eða annars staðar rústað, og er tilbúið að ferðast yfir hafið til að berjast gegn því.
Á laugardaginn fóru fram mótmæli sem voru í flesta staði afar falleg og skemmtileg. Um 70 manns komu saman í mótmælapikknikk á Austurvelli í veðurblíðunni. Skilti voru víða, ýmsir uppáklæddir eða málaðir, fyrirtækja-kolkrabbanum með peningapoka sér við hlið var komið upp, einn var klæddur sem Sámur frændi, leikið var á hljóðfæri, sungið og farið í leiki. Tveir voru handteknir fyrir þann hryllilega glæp að vera í lögreglubúningi. Þeir hefðu jú kannski getað... vísað einhverjum til vegar. Afar góður andi var þó og þegar lögreglan ætlaði að hafa afskipti af einum óitmælenda fengu þeir alla upp ámóti sér. Best var þó hve hlýtt og jákvætt viðmót við fengum frá almenningi.
Mér fannst þetta geta verið teikn, alla vegana vona ég að svo geti orðið. Þessi pikknikk sýndi að mótmæli geta verið bráðskemmtileg og ég hugsa að ef fleiri áttuðu sig á því myndu kannski fleiri mótmæla.
Nú vilja ráðamenn og stóriðjuhöldar virkja Þjórsárver. Þjórsárver er friðuð náttúruperla, vernduð af íslenskum lögum og alþjóðalögum. En það virðist ekki skipta stjórnvöld og stóriðjuhölda neinu máli, fremur en Kárahnjúkar og Eyjabakkar. Reynslan hefur sýnt okkur að hef enginn segir múkk þá komast þeir upp með þetta. Það mega þei ekki. Viljum við sjá landinu rústað? Ef koma á í veg fyrir þetta duga engin vettlingatök, það þarf að berjast af fullum krafti frá byrjun, og nota allar tegundir mótmæla, beinar aðgerðir, borgaralega óhlýðni, skjöl, greinar u.s.w. Vonadi að aðrar þjóðir sýni stuðning en við getum ekki reitt okkur á það. Við getum ekki reitt okkur á að aðrir redid málunum fyrir okkur. Við þurfum sjálf að nota allt okkar afl til að taka í taumana.
Bróðir minn tjáði mér einnig að hann hefði frétt af því að lögregla hafi misþyrmt prófessor á áttræðisaldri. Ég verð að segja að ég er sleginn yfir þesari frétt, en veit ekkert meira um þetta. Ku ekki hafa verið í fjölmiðlum. Þar sem ég varð ekki vitni að þessu og er erledis þætti mér vænt um allar upplýsingar sem menn gætu veitt mér um þennan atburð. Ég vona að þetta verði kært og ég vona að menn sitji ekki þegjandi yfir svo hrottalegri valdníðslu.
Ég sendi mótmælendum hugheilar kveðjur, og hlakka til að geta lagt hönd á plóg þegar heim kemur.
Heja från Sverige, gubbar!
-ferðasaga af fyrsta degi
Ég er nú kominn til Svíþjóðar, þar sem ég verð í tvær vikur í góðu yfirlæti hjá Jórunni systur minni, Arnari mági mínum mági og Valla og Katrínu, börnum þeirra.
Tíminn líður þegar það er gaman. Við Doddi og Einar sátum dágóða stund yfir rabbi á Mokka, áður en við kvöddumst, rölti þó með Einari á Hlemm. Eftir að hafa kvatt hann rölti ég í hægðum mínum heim og átti þá eftir að ganga frá ýmsu, var orðinn dauðsyfjaður og var ergo enn lengur að tékka að ég væri nú ekki að gleyma neinu, taka til dót sem þurfti að skila á bókasafnið etc. Mamma tjáði mér hvenær ég flygi, hvenær ég leggði af stað og hvenær ég þyrfti að vakna. Það þýddi að ég fengi þriggja tíma svefn. Pabbi keyrði mig svo á flugvöllinn. Skýin voru brún-mórauð í morgunskímunni, svo tók að rofa til. Tveir samsíða regnbogar voru á himninum, ég greindi gulan, rauðan grænann og fjólubláann. Þetta þótti mér fallegt. Í útvarpinu var leikin “Vögguvísa eftir Brahms” (Góða nótt). Það lag á sérstakan sess í hjarta mínu, það var í spiladósinni minni þegar ég var ungabarn, og minningin um þá spiladós, gráan fíl, er eflaust elsta minningin sem ég á.
Núnú, flugið til Köben var god nok, en þetta var ódýrt hraðflug svo greiða þurfti fyrir matinn, og ekkert sjónvarp eða útvarp. Það síðasta var kannski bara gott, enda þurfti ég nú helst að sofa, þar eð ég þurfti svo að halda mér vakandi í lestinni.
Ég hef aldrei átt auðvelt með að sofna í flugvélum. Það er eins og þær séu hannaðar til að hqalda manni vakandi. Sætinn ekkert ofur-þægileg, ef maður situr aftast hindrar veggur mann í að halla sætinu almennilega, og ef einhver er fyrir aftan mann hindra lappir hans mann í því. Auk þess sem í þessu tilviki var ekki hægt að halla því nema örlítið. Ég las því smásöguna A Letter From Gaza eftir Ghassan Kanafani og mér er engin launung á því að hún snart mig það djúpt að tárinn runnu niður kinnar mínar. Hlustaði einnig á Bob Dylan og las aðeins áfram í Harry Potter, uns ég lagðist til dotts. Tókst að dotta e-ð, var með lítinn kodda.
Það er skondin saga að segja frá lestarferðinni. Ég mátti að sjálfsögðu ekkert sofa, svo nú var það bara harkan sex plús kaffi. Ég átti alls að þurfa að taka þrjár lestir. Kaupmannahöfn-Malmö, Malmö –Næssjö og Næssjö-Skövde. Allt gekk vel þar til kom að Næsjjö-Skövde lestinni. Til að byrja með hafði ég e-ð 5 mínútur til að ná lestinni, eftir að hafa keypt miðann. Á miðri leið fattaði ég að ég hafði gleymt lestarmiðanum á afgreiðsluborðinu. Þaut ég því til baka og hljóp í loftköstum með ferðatöskuna og gítarinn til að reyna að ná lestinni. Það tókst, en ég hef eflaust slegið hraðamet í spretthlaupi. Það hafði hitnað mjög og ég var móður og másandi og löðrandi af svita þegar í lestina var komið. Brá þá ekki betra við en að hér var enginn matsalur og hvergi hægt að fá neitt að drekka. Súr biti að kyngja. Tíminn leið uns lestin stoppaði á einum stað og sá ég skilti út um gluggann þar sem á var letrað “Skövde”. Var ekki annað að sjá en lestin væri tuttugu mínútum á undan áætlun. Ég spurði fólkið næst mér hvort það gæti staðist að þetta væri Skövde. Það virtist halda það. Ég þreif því mitt hafurtask en áður en ég fékk deplað auga var lestin lögð af stað aftur. Ég reytti hár mitt og skalla, nú myndi ég tefjast, vsiis ekki nema að Jórunn og Arnar væru komin að sækja mig og hringdi fram og aftur í Arnar og Jórunni. Maður við hlið mér sagði að við værum enn ekki komin til Skövde og nú var ég gjörsamlega ringlaður og vissi ekkert hvað ég ætti að halda. Lestarvörður hvergi sjáanlegur og ég þorði ekki að fara að leita að honum ef lestin skyldi stoppa í Skövde í millitíðinni. Þegar ég svo sé “næsta stop: Skövde” tek ég dótið aftur til og fer út á næstu stöð. Nema hvað. Það er ekki Skövde heldur Stenstorp. Ég tek mér hálfa mínútu til að óska að lestarkerfið fari í sjóðbullandiheitastahelvíti og stekk svo upp í næstu lest sem kemur aðvífandi. Beið við dyrnar og ákvað að hoppa bara út næst. Nú hlyti þetta að virka. Allt er þá þrennt er. Og viti menn, eftir að hafa hoppað út var ég loks kominn á áfangastað. Mikill léttir það. Tyllti mér með gítarinn og lék við ágætis undirtektir tveggja ungmenna sem þar sátu. Róa taugarnar aðeins. Loks kom Jórunn og miklir fangaðarfundir með okkur og krökkunum. Huggulegt kvöld í faðmi fjölskyldunnar og ég fór snemma að sofa. Lúkum vér hér að segja frá fyrsta degi.
þriðjudagur, ágúst 16, 2005
Alice Cooper
...bauð mig velkominn í martröð sína á Laugardaginn. Og mér líkaði hún. Ég get varla byrjað að lýsa hvernig upplifun það var. Í stystu máli þá hafði þetta allt sem góðir rokktónleikar geta boðið manni og vel til. Ég hef dýrkað manninn síðan í gaggó og fór sem hann á grímuball í MR. Ekki minni maður en Bob Dylan sagði að honum fyndist Alice Cooper vanmetinn lagasmiður. Hann gerir afar góð og rokkuð lög og textar hans eru hugmyndaríkir og búa yfir innsæi og eru oft mjög fyndnir. Ekki spillir að bak við grímuna þykir hann afar viðkunnalegur maður. Alice Cooper er frumkvöðull í sjokki og rokki, að gera heila hryllingsleiksýningu í kring um frábært rokk og hefur hneykslað og skemmt síðan ’68 (ef maður miðar við upprunalegu Alice Cooper-grúppuna en hún var upphaflega The Earwigs (Bítla-spoof), síðan The piders og varð svo The Nazz áður en hún þróaðist yfir í Alice cooper) Þegar við Doddi mættum þrusaði bandið út „No More Mr. Nice Guy, og svo tók hver klassíkin við, t.d. „Gimme“, „Under My Wheels“, „Billion Dollar Babies“ (kominn í hvítu kjólfötin), „School’s Out“, „Eighteen“, „Killer“, „Feed My Frankenstein“, „Poison“, „Welcome To My Nightmare“, „Only Women Bleed“ og „Ballad of Dwight Fry“, sem er e.t.v. í mestu uppáhaldi hjá mér. Alice var í einu orði sagt bókstaflega geðveikur. Maðurinn er magnaður söngvari og lagasmiður, æðislegur performer og persóna hans eflaust sú besta sem sköpuð hefur verið í rokkinu, syndarinn sem endurspeglar öl mein samfélagsins, með því að vera holdgervingur þeirra. Hann er ögrandi og hrollvekjandi en um leið bráðskemmtilegur og umfram allt mikill húmoristi og einstaklega hugmyndaríkur. Sýningin var rosaleg og spannst út frá „Welcome To My Nightmare“. Sem dæmi má nefna að Alice var með sverð og rýting og skar unga stúlku á háls í einu lagi en svissaði þaðan beint yfir í hið fallega lag „Only Women Bleed“, sem fjallar um konu sem er kúguð af eiginmanni sínum, mjög einlægt lag og var mjög áhrifaríkt. Margir aukaleikarar komu við sögu, einhvers konar fuglahræður eða frík, erótískur vampírudansari, ung saklaus stúka og Paris Hilton, sem var bitin til blóðs af hundinum sínum. Allar voru stúlkurnar leiknar af dóttur Alice. Það var fyndið. Hann lék sér einnig með afhöggvna útlimi, varpaði blöðrum fram í sal og hjó þær í tætlur. Alice var auk þess dæmdur til dauða og hálshöggvinn með fallöxi og troðið í spennitreyju, hvaðan hann söng „Ballad of Dwight Fry“, og var það e.t.v. nokkurs konar hápunktur tónleikana, hann túlkaði geðveikina og einmanaleikann mjög vel en eins og er venjan með Cooper var þó húmorinn ekki langt undan. Ef ég ætti að vera með einhvern sparðatíning, þá var hljóðið dálítið slæmt fyrri hluta tónleikana en lagaðist svo. Áhorfendur voru líka nokkurn tíma að taka almennilega við sér en þegar þeir gerðu það var stemmningin líka rífandi og þá varð ekki aftur snúið. Að sjálfsögðu skorti ekki fíling hjá okkur fóstbræðrunum eitt augnablik. Fólk var þarna á öllum aldri en e.t.v. minna af gömlu brýnunum en maður hafði búist við. Tónleikarnir voru bannaðir innan átján en þó sá ég litla stráka þarna.
Alice lýsti því sjálfur að þegar áhorfandinn færi heim eftir tónleikana liði honum eins og hann hefði verið í villtasta partýi sem hann hefði upplifað. Það má með sanni segja. I’m not worthy!!!
fimmtudagur, ágúst 11, 2005
Áðan keypti ég mér nýja diskinn með Schpilkas; So Long Sonya og er búinn að hlusta á nokkur lög. Dásamleg tónlist. Ég var einmitt mjög hrifinn af fyrri disknum og var með hann lengi á bókasafninu. Ég er afar heillaður af tónlist frá Balkanskaga eins og þessar háttar tónlist sem Schpilkas leikur, þjóðlagaónlist, klezmer og sígaunatónlist. Falleg, ástríðufull, dramatísk og skemmtileg tónlist. Ragnheiður Gröndal syngur af mikilli tilfinningu og innlifun og hefur gullfallega rödd.
Það er því ágætt að setjast niður að kvöldi, eftir langan vinnudag og hvíla lúin bein með Schpilkas í spilaranum, fá sér te og lesa nýjustu Harry Potter-bókina. Nú er ég rúmlega hálfnaður með hana, mjög skemmtileg og spennandi, ekki síst fróðleikurinn um uppruna Voldemorts. J.K. Rowling er góður höfundur. Ég hugsa að ég haldi mest upp á The Prisoner of Azkaban og The Goblet of Fire af bókum hennar.
Hugleiðingar um Íran og afstöðu Vesturveldanna
Þessa dagana er að hitna í kolunum milli vesturveldanna og Írans. Ástæðan er að sögn kjarnorkuáætlanir Írans. Ahmadinejad vill verja rétt Írans til að nýta kjarnorku sem NTP-samningurinn heimilar landinu og þverneitar að Íran hafi í hyggju að hanna kjarnavopn. Vesturveldin halda því til streitu fram að heimnum geti staðið ógn af honum, og hefur verið nefnt að leggja viðskiptabann á Íran.
Nú veit ég ekki hvað þeir þykjast hafa fyrir sér í þessu. Vel má vera að Íranir vilji þróa kjarnavopn. En lítum fyrst á nokkrar staðreyndir. Vesturveldin eiga nóg af kjarnavopnum og ég hef ekki tölu á kjarnorkuverunum. Bandaríkin hanna t.d. sífellt ógurlegri stríðstól og Blair lýsti sjálfur yfir um daginn að hann vilji láta þróa ný kjarnavopn. Finnst engum neitt athugavert við það að þeir geti átt og þróað áfram gereyðingarvopn og nýti kjarnorku blygðunarlaust en vilji banna Írönum að nýta kjarnorku? Það fyrra er sumsé allt í lagi en hitt ógnar heimsfriði? Eru engin takmörk fyrir hræsninni? Hví ættum við að vera öruggari með að vesturveldin ráði yfir gereyðingarvopnum? Kannski vegna þess að þeir eru „okkar tíkarsynir“ og „hundtyrkjanum“ er ekki treystandi? Þannig gæti málið sannarlega litið út. Horfum á aðra staðreynd. Það er þegar búið að ljúga að okkur einu sinni. Minnist einhver gereyðingarvopnanna sem Saddam átti að eiga? Hvað varð um þau? Þau fundust aldrei og nú er ljóst að þetta var allt ein lygaþvæla. Er þá einhver ástæða til að gleypa hrátt það sem ríkin segja núna? Bandaríkjamenn skutu sig allvel í fótinn þegar þeir bentu á að Íran byggi yfir næstauðugustu gas- og olíulindum í heimi, og þyrftu því ekki á kjarnorku að halda. Bandaríkin nýta sjálf kjarnorku þó ekki skorti þá auðlindirnar, auk þess sem þeir eru öflugasta efnahagsveldi heims.
Írak býr yfir auðugustu olíulindum heims. Bandaríkin réðust þar inn. Líkin í Fallujah voru varla kólnuð þegar ýjað var að því að íran kynni að vera næst á dagskrá. Mér finnst ég skynja óhugnarlegt munstur.
Ég óttast mjög viðskiptabann á Íran, þegar maður hefur í huga hvaða afleiðingar viðskiptabannið á Írak hafði; um 700.000 börn létu lífið vegna þess, þegar þau fengu ekki lyf. Viljum við sjá slíkan glæp aftur? Ég tel engann meira treystandi fyrir kjaravopnum en örðum. Ég lýsi andstyggð minni á þessari örgu hræsni og ég vona að við megum upplifa heim án kjarnavopna og sá dagur renni upp að við munum ekki lengur notast við kjarnorku.
miðvikudagur, ágúst 10, 2005
Þrjár súpergreinar sem ég skora á ykkur að lesa: Helgi Seljan skrifaði fyrir nokkru afbragðs grein um stóriðju á Reyðarfirði, sem birtist á heimasíðu Ögmundar Jónassonar og nefnist Ég biðst forláts. Helgi er sjálfur uppalinn á Reyðarfirði og studdi lengi framkvæmdirnar þar til blekkingin rann upp fyrir honum, eins og hann lýsir í greininni.
Grein Uri Avnery, March of The Orange Shirts og nýjasta greinin hans, A Massacre Fortold eru báðar þrælmagnaðar. Sú fyrri fjallar um aðför landtökumannanna á Gaza gegn lýðræði í Ísrael og sú seinni um ísraelska hermanninn sem myrti 14 araba í strætisvagni og var svo sjálfur myrtur af reiðum múgnum og tengsl hans við andstæðinga brottfluttniningsins frá Gaza og öfgaþjóðernishyggju- og trúarhópa. Hvet lesendur í leiðinni til að kynna sér heimasíðu Gush Shalom, en ég er með hlekk á hana hægra megin á síðunni.
Ég hef nú einnig hlekkjað Skarpa hægra megin á síðunni. Njóti hann vel.
mánudagur, ágúst 08, 2005
Þessa dagana streyma sífellt hræðilegri fréttir frá Írak. Sífellt fleri deyja og mannfallið hefur aldrei verið meira. Árásir hermanna andspyrnumanna, gíslatökur og sjálfsmorðsárásir eru nánast daglegur viðburður þar. Bush þvertekur fyrir að herliðið verði afturkallað en segir þvert á móti að hert verði tökin gegn ofsatrúarmönnum og illri hugmynafræði. Tony Blair tekur í sama streng og vill „aukið eftirlit“ með öfga-múslimum (hver á nú að skilgreina hverjir falla undir þann flokk?) og herta öryggisgæslu sem um leið merkir skert mannréttindi.
Greini ég hræsnisfnyk? Þessi orð koma frá sama manni og vill núna láta kenna sköpunarsöguna samhliða þróunarkenningunni sem jafn mögulega skýringu á tilurð heimsins og lífvera, vitnar í sífellu í biblíuna og heldur því fram að að guð sé með honum og tali til hans. Bush lýsir hernaði sínum sem krossferð gegn myrkaöflunum og öxulveldi hins illa, hefur ítrekað málað islam sem ill trúarbrögð og ætlar að færa íbúa mið-austurlanda úr myrkirnu í ljósið. Það er auðvelt fyrir Bush og Blair að tala um að flestir múslimar séu gott fólk og iðjusamt gegn um um annað munnvikið á meðan þeir spúa hatursáróðrinum gegn miðausturlöndum gegnum hitt og stunda blóðugt innrásarstríð sem hefur kostað gífurlegan fjölda austurlandabúa og vesturlandabúa lífið á meðan líf annara er orðið hreint helvíti. Þeir beita vissulega sérstökum aðferðumtil að „frelsa fólkið frá illu“, sendir unga menn út í stríð, þar sem þeir slátra fólki og er sjálfum slátrað. Sprengjum hefur rignt yfir Írak, borgir voru jafnaðar við jörðu, borgurum slátrað eða þeir handteknir án þess að neitt haldbært sé hægt að bera á þá, almenningur sætir kúgun, fangar eru pyntaðir og látnir dúsa um „óákveðinn tíma“ í dýflissum án dóms og laga, heilbrigðisþjónusta og vatnskerfi eru í lamasessi og sjálfsmorðsárásum fjölgar í sífellu. Hryðjuverkin hafa einungis aukist, og það til muna, síðan að árásin hófst, og mannfallið varð mest eftir að stríðinu var lokið. Ómetanlegar fornminjar Mesópótamíu glötuðust að eilífu og herinn gerði ekki nokkra tilraun til að stöðva það. Það sem er sorglegast og kaldhæðnislegast við þetta allt er að því meira sem mannfallið eykst, því meira fjarlægjumst við hörmungarnar, tölur eru bara orðnar tölur og margir ósnortnir. Ég hugsa að rithöfundurinn Dalton Trumbo hafi orðað þetta einna berst þegar hann skrifaði um þetta 1970, í viðauka við formála hinar mögnuðu stríðsádeilubókar „Johnny Got his Gun“ og vísaði til Víetnamstríðsins:
11 years later. Numbers have dehumanized us. Over breakfast coffee we read of 40.000 American dead in Vitetnam. Instead of vomitnig, we reach for our toast. Our morning rush through crowded streets is not to cry murder but to hit that through before somebody else gobbles our share. An equation: 40.000 dead young men = 3000 tons of bone and flesh, 124.000 pounds of brain matter, 50.000 gallons of blood, 1.840.000 years of life that will never be lived, 100.000 children who will never be born. (The last we can afford: there are to many starving children in the world already.)
Do we scream in the night when it touches our dreams? No. We don´t scream cause we don’t think about it; we don’t think about it beacause we don’t care about it. We are much more interested in law and order, so that American streets may be made safe while we transform those of Vietnam into flowing sewers of blood wich wereplenish each year by forcing our sons to choose between a prison cell here or a coffin there.
“Everytime I look at the flag, my eyes fill with tears.”
Mine too.
Það hefur ekki mikið breyst. Sagt er að e-ð um 200.000 bandarískir hermenn hafi fallið í Írak. Milli 2300 og 2700 írakar eru sagðar hafa dáið í árásum og er þá ekki búið að nefna þá sem dóu og deyja enn vegnavosbúðar, skorti á lyfjum, mat og vatni. Þegar öll kurl eru komin til grafar er talað um að allt að 100.000 írakar hafi látið lífið síðan að innrásin hófst og við vitum ekki hversu margir eru særðir. Við vitum hins vegar að meira en 13.000 bandarískir hermenn eru særðir, samkvæmt nýjustu opinberu tölum og margir hverjir örkumlaðir fyrir lífstíð.
Ég leyfi lesendum að reikna restina af dæminu sjálfir.
Ætli ráðamenn í Bandaríkjunum og Bretlandi og aðrir stuðningsaðilar stríðsins hugsi um þetta á nóttunni? Eða ætli það sé eins með þá og ísraelska herforingjann Dan Halutz, sem var formaður flughersins þegar sprengu sem vó heilt tonn var varpað á íbúðarhvefi á Gaza ströndinni í því skyni að drepa háttsettan meðlim Hamas og drap þar með 14 saklausa borgara, þar af 9 börn. Aðspurður um hveig honum liði eftir slíka árás sagðist Halutz hafa fundið fyrir smá dynki á vængjunum og bætti því við að hann svæfi vel á nóttunni. Svipaða sögu er að segja um flugmanninn sem varpaði sprengjunni á Hiroshima, og einnig er skammt að minnast ummæla Madeleine Albright, sem fannst dauði e-ð um sjö hundruð þúsund íraskra barna sem létust vegna af viðskiptabannsins réttlætanlegur í því skyni að sigra Saddam.
Þetta fólk virðist ekki kunna að skammast ín. Það virðist ekki heldur geta lært hina miklu lexíu sem sagan kennir okkur. Fólk talar um að helförin megi aldrei gerast aftur en lét kjarnorkusprenginguna á Hiroshima viðgangast, horfði á fjöldamorðin í Rúanda án þess að nokkuð væri gert og hernám Ísraela í Palestínu og nú Íraksstríðið. Er þá ekki einu sinni allt upp talið. Nekrófílían er þó ef til vill verst; þegar minningu fórnarlambanna er nauðgað til pólitísks framdráttar og réttlætingar á voðaverkum, eins og raunin var með sprengingarnar í London.Sömu menn og fordæma viðlíka aðgerðir stunda þá sjálfir annars staðar.
Ég veit sjálfur upp á mig sökina. Hversu oft höfum við ekki öll lent í því að sitja hjá þegar ódæði er framin, gjarnan undir blekkingarvef þess sem okkur er kærast og menn saurga hugtök á borð við frelsi , jafnrétti, mannréttindi, lýðræði og frið. Hversu oft hefur smavisku okkar ekki blætt vegna þessa, og við höfum spurt „hvers vegna gerði ðég ekki neitt“? Hversu oft höfum við ekki spurt okkur: „hvað getum við gert?“ Ég hef enga töfralausn, en ég trúi ekki öðru en okkur sem er raunverulega annt um mannréttindi getum haft áhrif, og getum látið gott af okkur leiða. Sú von heldur mér gangandi, annars þætti mér lífið ekki þess virði að lifa því. Ég trúi því að við séum, þrátt fyrir allt, í meirihluta. En það þarf samstöðu. hver og einn þarf að velta fyrir sér hvað hann getur gert í þágu annara og getur gert til að bæta sjálfan sig. Ég hugsa að það megi skilgreina mig sem húmanista, í gegn um bölið held ég í vonina um hið góða í manninum og að hann geti spornað gegn breiskleika sínum, rétt eins og sagði í gömlu indíánaþjóðsögunni um gamla manninn sem lýsti því að innra með honum berðust úlfar, annar var úlfur breiskleikans, hinn hugprýðinnar. Þegar hann var spurður hvor úlfurinn sigraði svaraði hann: „sá sem ég næri“. Ég held í vonina að við munum sigra að lokum, en þá má ekki sitja auðum höndum.
sunnudagur, ágúst 07, 2005
Í gær var ég við útför Þorsteins Óskars Guðlaugssonar, Steina á Ölvaldsstöðum, eiginmanns Guðrúnar Fjeldsted, frænku minnar. Fráfall hans var sorglegt, hann hafði þjáðst af miklum veikindum og lést langt fyrir aldur fram. Það var fallegt að sjá hversu margir voru mættir til að votta honum hinstu kveðju. Hann var góður maður og minnist ég hans einungis vel. Fjölskylda hans á alla mína samúð og hún hefur sýnt mikinn styrk á þessari sorgarstund. Athöfnin var falleg, Lovísa móðursystir mín léka undursamlega á selló og einsöngslögin voru vel valin. Blíðskaparviðri var í Borgarfirði þennan morgunn og ég minntist þess hversu fagurt er þar, að líta yfir fjörðinn, fjöllin og grösugar sveitir undir bláma himinsins. Það var gott að hitta frændfólkið, enda mikið af góðu og skemmtilegt fólki þar. Ég finn það að ég þarf oftar að gera mér ferð upp í Borgarfjörð. Hundarnir léku við hvern sinn fingur. Eins var gaman að koma í veiðiskúrinn og sjá alla gömlu munina sem tiheyrt höfðu langalangafa mínum og bróður hans, auk þeirra gripa sem niðjar þeirra áttu.
þriðjudagur, ágúst 02, 2005
Regn
Lífið þyrmdi yfir mig
en þá steyptist regnið niður
helltist ferskt úr fölgáum himni
endalaus víðátta glitrandi, dansandi dropa
flæðandi á götunum og gangstéttum
seitlandi læjarspræna úr gati á vatnsrennu
votur gróður endurfæðist er hann bergir á lífsvökvanum
og ég
löðrandi og gegnumblautur, kaldur og storkinn
hugur minn endurnærður, sál mín orðin hrein
úrhellið dregur sig í hlé
heiðbláminn gægist úr rofi
og brýst gegn um skýin
enn skín sólin
og enn speglast lífið
í ljóma daggarinnar
mánudagur, ágúst 01, 2005
Innipúkinn og bloggafmæli
Í gær átti ég tveggja ára bloggafmæli. Jamm, tíminn líður og margt vatn hefur fallið til sjávar á þeim tveimur árum. Áhugasamir geta leisð fyrstu færsluna hér. . Ég hélt upp á þetta stórafmæli með því að fara með Dodda á Innipúkann og skemmti mér konunglega. Allar hljómsveitirnar sem ég sá var ég að sjá í fyrsta skipti á sviði, hafði þó séð Mugison og Trabant í Sjónvarpinu.
Fyrri daginn kíktum við fyrst á Jonathan. Hann fannst mer god nok án þess að þykja neitt sérlega mikið til hans koma. Nokkur lög fannst mér þó standa upp úr, en veit ekkert hvað þau heita.
Næstan sáum við Mugison og hann var æðislegur. Afburða hæfileikamaður og magnaður náungi. Hann byrjaði á Egó-laginu „Fjöllin hafa vakað“ en vatt sér svo af fullum krafti í „I want You“ . Rosalegt. Mugison er frábær flytjandi, gamansamur og skemmtilegur og rokkar sannarlega feitt, en er jafnfært að syngja falleg og ljúf lög, sérstaklega hið gullfallega lag „Two Birds“ sem hann söng með Rúnu, eiginkonu sinni. Mikil innlifun og mögnuð sviðsframkoma. Ætli hátindurinn hafi þó ekki verið „Murr Murr”; Hann byrjaði það sem hægan, grúví og sálarfullan blús en um miðbikið hraðaði hann því yfir í útgáfuna sem við þekkjum og gerði þetta allt óaðfinnanlega. Ég fékk gæsahúð.
Næstir voru Apparat Organ Quartet. Mjög gaman að þeim, góð sveit þar á ferð. Kom manni vægast sagt í stuð. Alveg magnað hvaða hljóðum þeir geta náð með fjórum rafmagnsorgelum, og „tölvuröddin“ hjá Jóhanni Jóhannssyni er alltaf flott. Þarf að kaupa mér diskinn. Það eina sem amaði að hjá mér var að ég hefði viljað þekkja fleiri lög, en kannaðist þó við þau þekktustu. Hefði þótt gaman að heyra „Stereo Rock And Roll“ en ég kvarta ekki.
Sá líka stórsveit Nix Nolte og hafði mjög gaman að. Ef ég ætti að gera heiðarlega tilraun til að lýsa tónlistinni þá virkaði hún einhvers konar austurevrópsk jazz-tango gyðinga/sígaunatónlist. Vill svo vel til að ég fíla alla slíka tónlist og þegar það kemur saman getur það ekki verið slæmt. Í bandinu hljómuðu blásturshljóðfæri, selló, fiðla, harmonikka og tromma. Afar grípandi og skemmtileg tónlist, mér varð einhvern veginn hugsað til Underground. Náungi hvers nafn ég man ekki, en vann í Hljómalind, langur og grannur, söng svo í tveimur lögum og gerði það mjög vel. Ég held að hann hafi sungið á rússnesku. Sérstaklega var tilfinningin sterk í fyrra laginu, hægt, taktfast lag sem hann kyrjaði af mikilli innlifun.
Daginn eftir náðum við í skottið á Lake Trout. Þeir voru alls ekki slæmir og flott spilamennska hjá þeim en fyrstu lögin sem ég heyrði virtust einmitt meira ganga út á spilamennsku heldur en grípandi laglínu og var ekkert séretaklega skemmtilegt. Svo komu eitt-tvö lög sem ég gat fílað vel.
Næstir á svið voru Dr. Spock. Gaman að þeim, skemmtilega hráir og villtir, diskó-pönk if you will. Yndislega steikt og flippuð sveit. Óttarr Proppé er bráðskemmtilegur gaur. Sá galli var á gjöf Njarðar að hljóðblöndunin var ómöguleg, það heyrðist of hátt í sumum hljóðfærum en of lágt í öðrum en verst með sönginn oft heyrði maður lítið sem ekkert í Óttarri, en var þá heppinn að vera nálægt sviðinu. Sérstaklega leiðinlegt að heyra ekki almennilega textann við lagið „Condoleeza Rice“. Lag með annað eins nafn þarf að skiljast.
Ég hafði aldrei heyrt í The Raveonettes en líkaði afar vel. Rokkuð, falleg of grípandi popp-rokk. Sendi mann í sveittan fíling. Ætla mér að kynna mér þá sveit betur.
Mesti fílingurinn var þó eflaust þegar Trabant spiluðu. Ég hafði heyrt e-ð smá með þeim og séð í Sjóvarpi en óraði ekki fyrir að þeir væru svona æðislega góðir og skemmtilegir. Þvílík sjóðandi rokk-fönk-diskó-whatever blanda, langt síðan að ég hef verið í öðru eins rokna stuði. Sviðsframkoma þeirra er frábær og held ég að nokkuð sé til í orðum Dodda að þeir séu eins og hinir nýju Stuðmenn. Þó hafa þeir alveg sinn dásamlega stíl. Þetta var G-E-Ð-V-E-I-K-T. Maður hristi alla skanka, hoppaði og slammaði og dillaði sér í sæluvímu dauðans. Þetta er hljómsveit sem ég þarf að sökkva mér í.
Ég er alsæll með þessa tónleika. Lifi Innipúkinn!!!
Áðan var ég að hlusta á Alice Cooper. Það var ég líka að gera er ég bloggaði í fyrsta sinn. Fer á Alice Cooper 13. ágúst. Það er vel og ég hlakka mjög til. Lögin sem hafa verið í spilun á meðan þetta var skrifað eru „Feed My Frankenstein“, „He’s Back (The Man Behind The Mask) og „Teenage Frankenstein.
Ég er hins vegar að hlusta á „Two Birds“ með Mugison núna.