Hugleiðingar um Íran og afstöðu Vesturveldanna
Þessa dagana er að hitna í kolunum milli vesturveldanna og Írans. Ástæðan er að sögn kjarnorkuáætlanir Írans. Ahmadinejad vill verja rétt Írans til að nýta kjarnorku sem NTP-samningurinn heimilar landinu og þverneitar að Íran hafi í hyggju að hanna kjarnavopn. Vesturveldin halda því til streitu fram að heimnum geti staðið ógn af honum, og hefur verið nefnt að leggja viðskiptabann á Íran.
Nú veit ég ekki hvað þeir þykjast hafa fyrir sér í þessu. Vel má vera að Íranir vilji þróa kjarnavopn. En lítum fyrst á nokkrar staðreyndir. Vesturveldin eiga nóg af kjarnavopnum og ég hef ekki tölu á kjarnorkuverunum. Bandaríkin hanna t.d. sífellt ógurlegri stríðstól og Blair lýsti sjálfur yfir um daginn að hann vilji láta þróa ný kjarnavopn. Finnst engum neitt athugavert við það að þeir geti átt og þróað áfram gereyðingarvopn og nýti kjarnorku blygðunarlaust en vilji banna Írönum að nýta kjarnorku? Það fyrra er sumsé allt í lagi en hitt ógnar heimsfriði? Eru engin takmörk fyrir hræsninni? Hví ættum við að vera öruggari með að vesturveldin ráði yfir gereyðingarvopnum? Kannski vegna þess að þeir eru „okkar tíkarsynir“ og „hundtyrkjanum“ er ekki treystandi? Þannig gæti málið sannarlega litið út. Horfum á aðra staðreynd. Það er þegar búið að ljúga að okkur einu sinni. Minnist einhver gereyðingarvopnanna sem Saddam átti að eiga? Hvað varð um þau? Þau fundust aldrei og nú er ljóst að þetta var allt ein lygaþvæla. Er þá einhver ástæða til að gleypa hrátt það sem ríkin segja núna? Bandaríkjamenn skutu sig allvel í fótinn þegar þeir bentu á að Íran byggi yfir næstauðugustu gas- og olíulindum í heimi, og þyrftu því ekki á kjarnorku að halda. Bandaríkin nýta sjálf kjarnorku þó ekki skorti þá auðlindirnar, auk þess sem þeir eru öflugasta efnahagsveldi heims.
Írak býr yfir auðugustu olíulindum heims. Bandaríkin réðust þar inn. Líkin í Fallujah voru varla kólnuð þegar ýjað var að því að íran kynni að vera næst á dagskrá. Mér finnst ég skynja óhugnarlegt munstur.
Ég óttast mjög viðskiptabann á Íran, þegar maður hefur í huga hvaða afleiðingar viðskiptabannið á Írak hafði; um 700.000 börn létu lífið vegna þess, þegar þau fengu ekki lyf. Viljum við sjá slíkan glæp aftur? Ég tel engann meira treystandi fyrir kjaravopnum en örðum. Ég lýsi andstyggð minni á þessari örgu hræsni og ég vona að við megum upplifa heim án kjarnavopna og sá dagur renni upp að við munum ekki lengur notast við kjarnorku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli