Innipúkinn og bloggafmæli
Í gær átti ég tveggja ára bloggafmæli. Jamm, tíminn líður og margt vatn hefur fallið til sjávar á þeim tveimur árum. Áhugasamir geta leisð fyrstu færsluna hér. . Ég hélt upp á þetta stórafmæli með því að fara með Dodda á Innipúkann og skemmti mér konunglega. Allar hljómsveitirnar sem ég sá var ég að sjá í fyrsta skipti á sviði, hafði þó séð Mugison og Trabant í Sjónvarpinu.
Fyrri daginn kíktum við fyrst á Jonathan. Hann fannst mer god nok án þess að þykja neitt sérlega mikið til hans koma. Nokkur lög fannst mér þó standa upp úr, en veit ekkert hvað þau heita.
Næstan sáum við Mugison og hann var æðislegur. Afburða hæfileikamaður og magnaður náungi. Hann byrjaði á Egó-laginu „Fjöllin hafa vakað“ en vatt sér svo af fullum krafti í „I want You“ . Rosalegt. Mugison er frábær flytjandi, gamansamur og skemmtilegur og rokkar sannarlega feitt, en er jafnfært að syngja falleg og ljúf lög, sérstaklega hið gullfallega lag „Two Birds“ sem hann söng með Rúnu, eiginkonu sinni. Mikil innlifun og mögnuð sviðsframkoma. Ætli hátindurinn hafi þó ekki verið „Murr Murr”; Hann byrjaði það sem hægan, grúví og sálarfullan blús en um miðbikið hraðaði hann því yfir í útgáfuna sem við þekkjum og gerði þetta allt óaðfinnanlega. Ég fékk gæsahúð.
Næstir voru Apparat Organ Quartet. Mjög gaman að þeim, góð sveit þar á ferð. Kom manni vægast sagt í stuð. Alveg magnað hvaða hljóðum þeir geta náð með fjórum rafmagnsorgelum, og „tölvuröddin“ hjá Jóhanni Jóhannssyni er alltaf flott. Þarf að kaupa mér diskinn. Það eina sem amaði að hjá mér var að ég hefði viljað þekkja fleiri lög, en kannaðist þó við þau þekktustu. Hefði þótt gaman að heyra „Stereo Rock And Roll“ en ég kvarta ekki.
Sá líka stórsveit Nix Nolte og hafði mjög gaman að. Ef ég ætti að gera heiðarlega tilraun til að lýsa tónlistinni þá virkaði hún einhvers konar austurevrópsk jazz-tango gyðinga/sígaunatónlist. Vill svo vel til að ég fíla alla slíka tónlist og þegar það kemur saman getur það ekki verið slæmt. Í bandinu hljómuðu blásturshljóðfæri, selló, fiðla, harmonikka og tromma. Afar grípandi og skemmtileg tónlist, mér varð einhvern veginn hugsað til Underground. Náungi hvers nafn ég man ekki, en vann í Hljómalind, langur og grannur, söng svo í tveimur lögum og gerði það mjög vel. Ég held að hann hafi sungið á rússnesku. Sérstaklega var tilfinningin sterk í fyrra laginu, hægt, taktfast lag sem hann kyrjaði af mikilli innlifun.
Daginn eftir náðum við í skottið á Lake Trout. Þeir voru alls ekki slæmir og flott spilamennska hjá þeim en fyrstu lögin sem ég heyrði virtust einmitt meira ganga út á spilamennsku heldur en grípandi laglínu og var ekkert séretaklega skemmtilegt. Svo komu eitt-tvö lög sem ég gat fílað vel.
Næstir á svið voru Dr. Spock. Gaman að þeim, skemmtilega hráir og villtir, diskó-pönk if you will. Yndislega steikt og flippuð sveit. Óttarr Proppé er bráðskemmtilegur gaur. Sá galli var á gjöf Njarðar að hljóðblöndunin var ómöguleg, það heyrðist of hátt í sumum hljóðfærum en of lágt í öðrum en verst með sönginn oft heyrði maður lítið sem ekkert í Óttarri, en var þá heppinn að vera nálægt sviðinu. Sérstaklega leiðinlegt að heyra ekki almennilega textann við lagið „Condoleeza Rice“. Lag með annað eins nafn þarf að skiljast.
Ég hafði aldrei heyrt í The Raveonettes en líkaði afar vel. Rokkuð, falleg of grípandi popp-rokk. Sendi mann í sveittan fíling. Ætla mér að kynna mér þá sveit betur.
Mesti fílingurinn var þó eflaust þegar Trabant spiluðu. Ég hafði heyrt e-ð smá með þeim og séð í Sjóvarpi en óraði ekki fyrir að þeir væru svona æðislega góðir og skemmtilegir. Þvílík sjóðandi rokk-fönk-diskó-whatever blanda, langt síðan að ég hef verið í öðru eins rokna stuði. Sviðsframkoma þeirra er frábær og held ég að nokkuð sé til í orðum Dodda að þeir séu eins og hinir nýju Stuðmenn. Þó hafa þeir alveg sinn dásamlega stíl. Þetta var G-E-Ð-V-E-I-K-T. Maður hristi alla skanka, hoppaði og slammaði og dillaði sér í sæluvímu dauðans. Þetta er hljómsveit sem ég þarf að sökkva mér í.
Ég er alsæll með þessa tónleika. Lifi Innipúkinn!!!
Áðan var ég að hlusta á Alice Cooper. Það var ég líka að gera er ég bloggaði í fyrsta sinn. Fer á Alice Cooper 13. ágúst. Það er vel og ég hlakka mjög til. Lögin sem hafa verið í spilun á meðan þetta var skrifað eru „Feed My Frankenstein“, „He’s Back (The Man Behind The Mask) og „Teenage Frankenstein.
Ég er hins vegar að hlusta á „Two Birds“ með Mugison núna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli