þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Alice Cooper


...bauð mig velkominn í martröð sína á Laugardaginn. Og mér líkaði hún. Ég get varla byrjað að lýsa hvernig upplifun það var. Í stystu máli þá hafði þetta allt sem góðir rokktónleikar geta boðið manni og vel til. Ég hef dýrkað manninn síðan í gaggó og fór sem hann á grímuball í MR. Ekki minni maður en Bob Dylan sagði að honum fyndist Alice Cooper vanmetinn lagasmiður. Hann gerir afar góð og rokkuð lög og textar hans eru hugmyndaríkir og búa yfir innsæi og eru oft mjög fyndnir. Ekki spillir að bak við grímuna þykir hann afar viðkunnalegur maður. Alice Cooper er frumkvöðull í sjokki og rokki, að gera heila hryllingsleiksýningu í kring um frábært rokk og hefur hneykslað og skemmt síðan ’68 (ef maður miðar við upprunalegu Alice Cooper-grúppuna en hún var upphaflega The Earwigs (Bítla-spoof), síðan The piders og varð svo The Nazz áður en hún þróaðist yfir í Alice cooper) Þegar við Doddi mættum þrusaði bandið út „No More Mr. Nice Guy, og svo tók hver klassíkin við, t.d. „Gimme“, „Under My Wheels“, „Billion Dollar Babies“ (kominn í hvítu kjólfötin), „School’s Out“, „Eighteen“, „Killer“, „Feed My Frankenstein“, „Poison“, „Welcome To My Nightmare“, „Only Women Bleed“ og „Ballad of Dwight Fry“, sem er e.t.v. í mestu uppáhaldi hjá mér. Alice var í einu orði sagt bókstaflega geðveikur. Maðurinn er magnaður söngvari og lagasmiður, æðislegur performer og persóna hans eflaust sú besta sem sköpuð hefur verið í rokkinu, syndarinn sem endurspeglar öl mein samfélagsins, með því að vera holdgervingur þeirra. Hann er ögrandi og hrollvekjandi en um leið bráðskemmtilegur og umfram allt mikill húmoristi og einstaklega hugmyndaríkur. Sýningin var rosaleg og spannst út frá „Welcome To My Nightmare“. Sem dæmi má nefna að Alice var með sverð og rýting og skar unga stúlku á háls í einu lagi en svissaði þaðan beint yfir í hið fallega lag „Only Women Bleed“, sem fjallar um konu sem er kúguð af eiginmanni sínum, mjög einlægt lag og var mjög áhrifaríkt. Margir aukaleikarar komu við sögu, einhvers konar fuglahræður eða frík, erótískur vampírudansari, ung saklaus stúka og Paris Hilton, sem var bitin til blóðs af hundinum sínum. Allar voru stúlkurnar leiknar af dóttur Alice. Það var fyndið. Hann lék sér einnig með afhöggvna útlimi, varpaði blöðrum fram í sal og hjó þær í tætlur. Alice var auk þess dæmdur til dauða og hálshöggvinn með fallöxi og troðið í spennitreyju, hvaðan hann söng „Ballad of Dwight Fry“, og var það e.t.v. nokkurs konar hápunktur tónleikana, hann túlkaði geðveikina og einmanaleikann mjög vel en eins og er venjan með Cooper var þó húmorinn ekki langt undan. Ef ég ætti að vera með einhvern sparðatíning, þá var hljóðið dálítið slæmt fyrri hluta tónleikana en lagaðist svo. Áhorfendur voru líka nokkurn tíma að taka almennilega við sér en þegar þeir gerðu það var stemmningin líka rífandi og þá varð ekki aftur snúið. Að sjálfsögðu skorti ekki fíling hjá okkur fóstbræðrunum eitt augnablik. Fólk var þarna á öllum aldri en e.t.v. minna af gömlu brýnunum en maður hafði búist við. Tónleikarnir voru bannaðir innan átján en þó sá ég litla stráka þarna.
Alice lýsti því sjálfur að þegar áhorfandinn færi heim eftir tónleikana liði honum eins og hann hefði verið í villtasta partýi sem hann hefði upplifað. Það má með sanni segja. I’m not worthy!!!

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.