Ferðasaga, II hluti
Nú er ég orðinn 21. árs og kann því ágætlega.
Nú er ég snúinn aftur frá Danmörku þar sem ég átti yndislega helgi. Þar var ég með Jórunni og Arnari, Valla og Katrínu ásamt Vigni og Evu og strákunum þeirra, Hilmi og Arnari og Einari og Maríu og Emblu, dóttur þeirra, sem komu á öðrum degi. Við bjuggum í afbragðs sumarhúsi og höfðum það mjög notalegt. Veðurblíðan var með eindæmum. Siglingin var notaleg, börnin fundu sína paradís í leikherberginu og maturinn var ótrúlega góður, hlaðborð og þegar mín innri Gípa er einu sinni vöknuð þá er ekki séns að halda henni í skefjum.
Fyrsta daginn skruppum við í Sædýrasafnið og sáum þar meðal annars beinhákarla. Á einum stað mátti klappa fiskunum (ekki hákörlunum NB) og var þar sérlega vinaleg skata. Drekafiskar, risahumar, eitraður froskur og píranafiskar eru meðal annara eftirminnlegra sjávarlífvera sem við sáum þenann dag. Gáfum okkur góðan tíma og mjög áhugaverð ferð í alla staði. Skruppum svo á ströndina. Þá var sólin að hverfa af himni og vatnið ískalt en við Arnar og Vignir og krakkarnir skruppum út í engu að síður. Það var mjög hressandi en eftir að hafa vaggað lengi í öldunum og synt langt út og aftur til baka var ég með smá sjóriðu.
Svo rættist bernskudraumur þegar við fórum í Legoland. Hvað er hægt að segja sagt: Það er ótrúlegt hvað menn geta gert úr Lego-i. Amalienborg var til dæmis mjög flott, hvað þá Mount Rushmore, Sitting Bull, egypsku stytturnar, Capitol og Agropolis, wsvo eitthvað sé nefnt. Jamm, þá skortir ekki ímyndunaraflið eða getuna. Krakkarnir fóru í ýmis tæki og ég kíkti í nokkur með þeim, og keypti svo myndina af mér í drekarússsíbananum þar sem ég sést hrópa eins og vitfirringur. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og voru orðin dálítið uppveðruð. Þarna keypti ég mér líka sombrero sem mér finnst helvíti nettur. Talsverð örtröð í Legolandi og sum staðar vart þverfótandi fyrir börnum.
Þá var rólegra í Djurs sommerland, þar voru trampólín, vatnsgarður og ég prófaði stóra rússíbanann þar, Thor. Hann var skemmtilegur en allt of stuttur.
Einnig skruppum til Ebeltoft. Það er mjög huggulegur lítill strandbær með fallegum gömlum húsum, fjölda verslanna og göngugötum. Keypti mér svissneskan vasahníf þar, smá afmælisgjöf frá mér til mín. Kvöldin voru falleg og ánægjuleg, við grilluðum og drukkum rauðvín og bjór. Afmælisköku-ísinn smakkaðist afar vel.
Á siglingunni heim spjallaði ég við nokkur dönsk ungmenni á þilfarinu og við spiluðum og sungum saman. Það var gaman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli