miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Heja från Sverige, gubbar!
-ferðasaga af fyrsta degi


Ég er nú kominn til Svíþjóðar, þar sem ég verð í tvær vikur í góðu yfirlæti hjá Jórunni systur minni, Arnari mági mínum mági og Valla og Katrínu, börnum þeirra.

Tíminn líður þegar það er gaman. Við Doddi og Einar sátum dágóða stund yfir rabbi á Mokka, áður en við kvöddumst, rölti þó með Einari á Hlemm. Eftir að hafa kvatt hann rölti ég í hægðum mínum heim og átti þá eftir að ganga frá ýmsu, var orðinn dauðsyfjaður og var ergo enn lengur að tékka að ég væri nú ekki að gleyma neinu, taka til dót sem þurfti að skila á bókasafnið etc. Mamma tjáði mér hvenær ég flygi, hvenær ég leggði af stað og hvenær ég þyrfti að vakna. Það þýddi að ég fengi þriggja tíma svefn. Pabbi keyrði mig svo á flugvöllinn. Skýin voru brún-mórauð í morgunskímunni, svo tók að rofa til. Tveir samsíða regnbogar voru á himninum, ég greindi gulan, rauðan grænann og fjólubláann. Þetta þótti mér fallegt. Í útvarpinu var leikin “Vögguvísa eftir Brahms” (Góða nótt). Það lag á sérstakan sess í hjarta mínu, það var í spiladósinni minni þegar ég var ungabarn, og minningin um þá spiladós, gráan fíl, er eflaust elsta minningin sem ég á.

Núnú, flugið til Köben var god nok, en þetta var ódýrt hraðflug svo greiða þurfti fyrir matinn, og ekkert sjónvarp eða útvarp. Það síðasta var kannski bara gott, enda þurfti ég nú helst að sofa, þar eð ég þurfti svo að halda mér vakandi í lestinni.
Ég hef aldrei átt auðvelt með að sofna í flugvélum. Það er eins og þær séu hannaðar til að hqalda manni vakandi. Sætinn ekkert ofur-þægileg, ef maður situr aftast hindrar veggur mann í að halla sætinu almennilega, og ef einhver er fyrir aftan mann hindra lappir hans mann í því. Auk þess sem í þessu tilviki var ekki hægt að halla því nema örlítið. Ég las því smásöguna A Letter From Gaza eftir Ghassan Kanafani og mér er engin launung á því að hún snart mig það djúpt að tárinn runnu niður kinnar mínar. Hlustaði einnig á Bob Dylan og las aðeins áfram í Harry Potter, uns ég lagðist til dotts. Tókst að dotta e-ð, var með lítinn kodda.

Það er skondin saga að segja frá lestarferðinni. Ég mátti að sjálfsögðu ekkert sofa, svo nú var það bara harkan sex plús kaffi. Ég átti alls að þurfa að taka þrjár lestir. Kaupmannahöfn-Malmö, Malmö –Næssjö og Næssjö-Skövde. Allt gekk vel þar til kom að Næsjjö-Skövde lestinni. Til að byrja með hafði ég e-ð 5 mínútur til að ná lestinni, eftir að hafa keypt miðann. Á miðri leið fattaði ég að ég hafði gleymt lestarmiðanum á afgreiðsluborðinu. Þaut ég því til baka og hljóp í loftköstum með ferðatöskuna og gítarinn til að reyna að ná lestinni. Það tókst, en ég hef eflaust slegið hraðamet í spretthlaupi. Það hafði hitnað mjög og ég var móður og másandi og löðrandi af svita þegar í lestina var komið. Brá þá ekki betra við en að hér var enginn matsalur og hvergi hægt að fá neitt að drekka. Súr biti að kyngja. Tíminn leið uns lestin stoppaði á einum stað og sá ég skilti út um gluggann þar sem á var letrað “Skövde”. Var ekki annað að sjá en lestin væri tuttugu mínútum á undan áætlun. Ég spurði fólkið næst mér hvort það gæti staðist að þetta væri Skövde. Það virtist halda það. Ég þreif því mitt hafurtask en áður en ég fékk deplað auga var lestin lögð af stað aftur. Ég reytti hár mitt og skalla, nú myndi ég tefjast, vsiis ekki nema að Jórunn og Arnar væru komin að sækja mig og hringdi fram og aftur í Arnar og Jórunni. Maður við hlið mér sagði að við værum enn ekki komin til Skövde og nú var ég gjörsamlega ringlaður og vissi ekkert hvað ég ætti að halda. Lestarvörður hvergi sjáanlegur og ég þorði ekki að fara að leita að honum ef lestin skyldi stoppa í Skövde í millitíðinni. Þegar ég svo sé “næsta stop: Skövde” tek ég dótið aftur til og fer út á næstu stöð. Nema hvað. Það er ekki Skövde heldur Stenstorp. Ég tek mér hálfa mínútu til að óska að lestarkerfið fari í sjóðbullandiheitastahelvíti og stekk svo upp í næstu lest sem kemur aðvífandi. Beið við dyrnar og ákvað að hoppa bara út næst. Nú hlyti þetta að virka. Allt er þá þrennt er. Og viti menn, eftir að hafa hoppað út var ég loks kominn á áfangastað. Mikill léttir það. Tyllti mér með gítarinn og lék við ágætis undirtektir tveggja ungmenna sem þar sátu. Róa taugarnar aðeins. Loks kom Jórunn og miklir fangaðarfundir með okkur og krökkunum. Huggulegt kvöld í faðmi fjölskyldunnar og ég fór snemma að sofa. Lúkum vér hér að segja frá fyrsta degi.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.