föstudagur, febrúar 29, 2008

Þursaflokkurinn og andaktuga kjánaprikið

Eins og margir lesendur bloggsins míns munu kannast við, þá hef ég lengi verið einlægur aðdáandi Hins íslenska þursaflokks. Bræddi ég lengi með mér að fara á tónleikana með þeim og Caput en var á báðum áttum sökum óhóflegs verðs. Tíminn leið og loks var ég búinn að gleyma þessu. Les svo dóm þess efnis að tónleikarnir hafi verið æðislegir. Andskotinn. Týpískt. Sömu sögu er t.d. að segja um tónleika Roger Waters.

Þegar ég sé þetta myndband úr Kastljósinu bölva ég því enn meira að hafa ekki farið. Hér flytja Þursar og Caput "Hér undir jarðar hvílir moldu" en Háskólakórinn er einmitt að syngja sama lag núna. Útsetningin er nokkuð frábrugðin þeirri sem við syngjum en mjög flott.



Ach, ja. Það þýðir víst jafn lítið að gráta Björn bónda og Sæmund Klemensson.

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Sekkjapípur

Sekkjapípa er hljóðfæri sem ég hef lengi haldið mikið upp á. Ég held hins vegar að ég sé með þeim fáu sem finnst hljómurinn fallegur. Jafnvel þeir fáu sem ég þekki sem fíla sekkjapípur finnst þær kannski töff, jafnvel flottur hljómur en ekki fallegur. Mér finnst þær í senn hljómfagrar og töff. Gleymi til dæmis aldrei sekkjapípusenunni í Braveheart eftir að faðir William dó. Ég fyllist hrærðu skosku þjóðarstolti, eins konar hræringi bræðandi og örvandi fegurðar (svo ég slái nú um mig með Schiller), þó svo að ég viti ekki til þess að sé skoskur dropi í mér, og fýsir að klæðast skotapilsi "traditional manner, ma'am", rífa í mig Haggis, tala með sterkum skoskum hreim ( mér þykir skoskur hreimur svo heillandi: "Och, where's Mc Angus?" "Ay, he´s over there, talking to Farquar, that glaikit chiel") arka um hálendin með fjárhundinum mínum, stunda drumba- og/eða dvergakast og þar fram eftir götum. Roamin' in the gloamin' with my bonnie by my side.

Ég neyðist víst bara til að vera áfram wannabe.

Ég sker mig úr með ýmislegt svona. Mér finnst Ringo Starr vanmetinn. Mér finnst George Lazenby líka vanmetinn Bond-leikari.


Mér flýgur í hug sena Í Family Guy þar sem Peter sagist hafa grunað að að Louis væri ekki raunverulegur KISS-aðdáandi þegar hún klæddi sig up sem Peter Criss: "Nobody wants to be Peter Criss, not even Peter Criss".

Hlýðið svo á Irish Heartbeateftir Van Morrison í flutningi Billy Connolly.. Ekki síst á ca. 02:30 þegar sekkjapípurnar kikka inn.

KK er í mikilli spilun hjá mér, sem og Bob Marley. Í augnablikinu er ég að hlýða á Exodus

Játning syndarans

Ég hef oftar en einu sinni sagt að ég hafi aldrei verið og muni aldrei verða Framsóknarmaður.

Ég laug.

Sorrý.

Get used to it.

Sjá Spaugstofuna á Laugardaginn.

...

Fjárans snjór er þetta alltaf hreint. Alla vegana þegar ég þarf að moka hann. Grynt, mumle, eins og Andrés Önd er vanur að segja á dönskunni.

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Í gær voru 76 ár frá fæðingu Johnny Cash. Hér er upptaka þar sem hann flytur San Quentin fyrir fanga í San Quentin-fangelsinu árið 1969. Tónleikar hans í San Quentin og Folsom Prison voru gefnir út á tveimur plötum, Johhny Cash at Folsom Prison og Johnny Cash at Folsom Prison. Andaktungurinn mælir með báðum.



Annað gott Johnny Cash lag; Don't Take Your Guns to Town

Það er auðvitað af nógu að taka þegar Johnny Cash á í hlut. :)

börn mín staðfestum trúar játningu vora

hver er sá faðir sem af náð sinni bægir frá oss
bölvun moskvuvaldsins

atlantshafsbandalagið

hver er sá sonur sem fús er að fórna oss lífi
sínu lýðræðisins vegna

bandaríkjaher

hver er sá andi heilagur sem hreinsa mun oss af
erfðasynd tungu og þjóðernis

efnahagsbandalagið

játum þá að vor þrenning sé glæsileg þrenning
þegar miðað er við fólksfjölda


--Jóhannes úr Kötlum, Óljóð, 1962

...

Lag dagsins: Somebody to Love með Queen:




...

Ég las að mig minnir í Fréttablaðinu að Martin Scorcese sé að vinna að heimildamynd um Bob Marley. Það líst mér þrælvel og hlakka til að sjá hana, þegar þar að kemur.

...

Ef íslensk útlegging hins enska orðs "nerd" er "njörður", þá get ég ekki annað en fundið dálítið til með Nirði P. Njarðvík...

mánudagur, febrúar 25, 2008

Nýr dagur...

... og ég er að hrynja úr syfju. Próf 11:40. Á eftir að komast yfir smá efni en verð að gera það um morguninn. Gott er að byrja daginn/sofna út frá þessum lögum: Down in the River To Pray, Didn't Leave Nobody But The Baby, Man of Constant Sorrow og Feeling Good.

Góða nótt.

Sé einhverjum í þungt um sálartetrið...

... þá ætti þetta myndband að kæta:



Lifandi sönnun þess að það er til nokkuð sem kallast "OF sætt" :P

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Sokkarotta

Aggi skrifar á blogginu sínu um enskar afbakanir rómverskra og grískra nafna, sem flestar gjarnan í styttingum, Virgilus-Virgil, Horatius-Horace o.s.f.rv. Með þeim málfræðirökum hygg ég að Sókrates ætti að nefnast Sockrat á ensku.

John Pilger fjallar um þegar Palestínumenn rufu múrinn á Gaza og fordæmið sem það setur í áframhaldandi baráttu fyrir niðurrifi veraldlegra og huglægra múra í grein sinni,Bringing down the new Berlin Walls.

Hann fjallar líka um sjónarspil í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, en hann hefur fjallað um þær margar í greininni The dance macabre of US-style democracy


...What struck me, living and working in the United States, was that presidential campaigns were a parody, entertaining and often grotesque. They are a ritual danse macabre of flags, balloons and bullshit, designed to camouflage a venal system based on money power, human division and a culture of permanent war....

...

...Nothing has changed. Barack Obama is a glossy Uncle Tom who would bomb Pakistan. Hillary Clinton, another bomber, is anti-feminist. John McCain’s one distinction is that he has personally bombed a country. They all believe the US is not subject to the rules of human behaviour, because it is "a city upon a hill", regardless that most of humanity sees it as a monumental bully which, since 1945, has overthrown 50 governments, many of them democracies, and bombed 30 nations, destroying millions of lives..



Lag dagsins: A Change Is Gonna Come með Sam Cooke.

föstudagur, febrúar 22, 2008

It's the time of the season... eða: Here comes your 19th nervous breakdown

Í prófatörn verða ýmsir þættir einkennandi í fari mínu. Þar má t.d. nefna:

a) Ég verð stressuð taugahrúga og er mál að pissa.
b) Ég verð að sama skapi úrillur og geðvondur og hef allt á hornum mér (dæmi: ég bölva því í sand og ösku að safnið geti helvítis fjandakornið ekki djöflast til að vera lengur opið).
c) Tíminn virðist fljúga hjá.
d) Hugurinn dreifist og virðist geta fundið sér flest annað að gera en að einbeita sér að efninu
e) Útlitslega verð ég líkastur grábirni, úfinn, órakaður og luralegur, klórandi mér í herðakambinum og er það reyndar líka í hegðun (sjá b-lið).
f) Svefnvenjur mínar riðlast, ekki síst set ég mér markmið um hvenær ég ætla að vakna og sofna, sem rætast sjaldan.
g) Þegar ég er í prófum eru milljón skemmtilegir hlutir að gerast í kring um mig, sem ég missi þá jafnan af (sjá d-lið). Auk þess viðburðir sem ég þarf að sækja og taka tíma frá mér.

Eilítið um Fidel Castro

Nú er ekki annað að sjá en að Fidel Castro sé farin frá völdum og ekki útlit fyrir að hann muni gefa kost á sér í kosningunum. Það sem mér leiðist er hin svarthvíta umræða sem einkennir alla umfjöllun um hann núna. Þið vitið, engillinn/djöfullinn (en þetta er annars líka einkennandi í umræðum um Che Guevara). Ég spurði mig t.d. hvað ég þyrfti að bíða lengi áður en postuli frjálshyggju og frelsis, Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði umfjöllun um manninn og viti menn, hana má finna í Fréttablaðinu í dag.
Sjálfur virði ég Castro fyrir ýmislegt og er andvígur honum fyrir ýmislegt. Mér finnst vanta að horft sé meira á hlutina í samhengi. Þeir sem lofa Castro í hástert horfa gjarnan fram hjá mannréttindabrotum og einræði, þeir sem bölva honum kjósa gjarnan að gleyma hvering ástandið var á Kúbu fyrir Castro, undir Batista og því sem Castro tókst vel (ber þar hæst umbætur í heilbrigðis- og menntamálum) eða áhrif viðskiptabannsins. Eins skiptast menn nokkuð í tvo flokka þegar kemur að deilunni um kjarnavopnin. Ef ég á að mynda mér e-a endanlega skoðun finnst mér að ég þurfi að kynna mér feril hans og sögu Kúbu betur og hef enda áhuga á því.
Heima á ég bók George Galloway um Castro, Fidel Castro Handbook, sem Vésteinn gaf mér. Hún reynir ekki að vera “hlutlaus” eða í “jafnvægi” (balanced) og er í sjálfu sér heiðarleg hvað það varðar. Galloway segir sjálfur í formála: “...And that is what I am: a partisan, for Cuba for its revolution, for its leadership for its role in the world. The reader should know that this is no dispassionate “in the one hand but then again on the other hand” account”
Mér sýnist bókin alveg forvitnileg og ég mun eflaust lesa hana við tækifæri en með þessum fyrirvara verður maður náttúrulega að lesa hana með gagnrýnu hugarfari, óvíst hversu vel maður getur treyst bók um e-n, skrifuð af einlægum aðdáanda. Ég á svo svipaða bók um Che Guevara, Che Handbook eftir Hildu Barrio og Gareth Jenkins.
Jabbi lánaði mér hins vegar massíva bók um Che eftir Jon Lee Anderson “Che Guevara – A Revolutionary life”. Að mér vitandi er þetta e-r ítarlegasta rannsókn á ævi Che sem komið hefur út í ævisöguformi og dregur fram bjartari og dekkri hliðar mannsins og setur í samhengi við samtímann. Eftir því sem ég hef gluggað í hana sýnist mér hún skrambi vel skrifuð og hyggst lesa hana við tækifæri. Mig langar að sjá svipaða bók um Castro.

PS Mér sýnist orð leiðara Moggans um að "óhætt sé að segja að Castro hafi verið kominn með valdaþreytu" (tilvitnun eftir minni) vera eins og hver önnur þvæla, allav. varð ég ekki var við það. Hefði heilsa hans leyft, hefði hann örugglega haldið áfram. Áhrifum hans er auk þess hvergi nærri lokið, hann mun halda áfram pólítískum skrifum og Raúl bróðir hans mun taka við, og hyggst ekki breyta mikið um stefnu. Ef kosið verður, veit maður hins vegar ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Hvað sem segja má annars um Castro verður ekki af honum skafið að hann er symból og hefur charisma (í raun kannski ekki ósvipað Arafat, hvað þetta varðar) og spurning hvernig það skarð verður fyllt.

Dagur er risinn

.. og ég ætlaði að vakna fyrr ,en svona er þetta. Próflesturinn heldur áfram.

Lag dagsins: Waiting for the Sun af plötunni Morrison Hotel með The Doors.

Balls in the sense of balls

Ég þakka ónefndum lesanda Ekkibloggs Ármanns Jakobssonar fyrir að benda honum, og þar með mér á þennan skemmtilega skets með Hugh Laurie og Stephen Fry:



Þessi skets er líka æðislegur:

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Allt að gerast - Nöldur og væl

Af hverju þarf allt að vera að gerast þegar það er próf hjá mér á mánudaginn? Ellefu kaflar plús greinar til prófs.

Á morgun vinn ég tvo tíma og fer í tíma. Fer í dans 7-9. Próflestur og heimavinna, þarf að vinna mig aðeins upp. í hádeginu er fyirlestur um framlag kvenna til friðar í Ísrael. Á fimmtudag er próflestur, heimavinna, skóli og kór. Jón Guðni er að spila með Lister um kvöldið. Á föstudag er vísindaferð hjá ensku og próflestur. Það er víst líka vísindaferð hjá kvikmyndafræðinemum. Á laugardag er próflestur, kórpartý og fyrirbartý hjá röddum. Þarf líka að horfa á 7 stuttmyndir, Ansiktet eftir Ingmar Bergman og e.t.v. Smultronsstället. Ætla líka að reyna að komast e-ð í ræktina eða sund. Missi að sjálfsögðu af kvikmyndasýningu hjá Fjalarkettinum á sunnudag. Þarf svo yfirleitt að sjá Night and Fog og Blood of the Beasts.

Það virðist vera að ég hafi misst af Brúðkaupi Fígarós. Týpískt. Vonast til að geta séð La Traviata í næstu viku.

Lag dagsins: I want to Break Free með Queen



Uppfært 23:00

Hitt lag hverfandi dags er líka með Queen; I Want It All

Krítík

Þegar ég mætti í tíma í morgun var heilinn ekki alveg vaknaður ennþá.

Bekkjarsystir (bendir á hylki Smultränstället eftir Ingmar Bergman): Hvernig fannst þér myndin?
Ég (annars hugar): Ég er ekki ennþá búin að horfa á hana , en mér fannst hún mjög góð.

mánudagur, febrúar 18, 2008

Papa's got a brand new bag

(Fogg lætur Passepartout fá tösku fulla af peningum fyrir farareyri o.fl.)

Fogg: "Whatever you do, don't lose this bag."

Passepartout: "Don't worry master. I will cherish it like... like a woman."

Fogg: "Don't make love to it, just watch over it."

-- Around the World in Eighty Days (1956)


Lag dagsins, pars secundus: Don't Be Afraid of the Robot með Electric Six.

Fuck the fucking fuckers: Here's Rambo

Fór á möðerfökking Rambo í dag. Það er fátt sem ég get sagt um myndina sem meistari Þórður hefur ekki þegar sagt í þessari snilldarfærslu.

Lag nýs dags: Into My Arms með Nick Cave & The Bad Seeds

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Blaður og þvaður

Söng í messu með kórfélögum í dag. Þar var ung telpa skírð. Hlaut hún nafnið Eyrún/Eydís Sara (man það ekki alveg). Það fannst mér aldrei þessu vant ágæt nafn. Þegar presturinn spurði hvað barnið ætti að heita þá bað ég hins vegar í hljóði að það fengi ekki nafn á borð við Járnbrá Ína, Þöll Dögg Mjöll eða Glóeyg Doppa.

Messan var fín en ég nokkuð syfjaður, þar eð ég hafði fengið mér eilítið í stórutána og slett úr klaufunum á Dillon og Ellefunni í gær með Kristjáni. Hitti þar Sophie og gaf henni glas af Black Russian í afmælisgjöf. Dillon er svo sannarlega staður að mínu skapi, tónlistin nánast klæðskerasniðin fyrir mig. Mætti halda að fólkið þarna þekkti mig. Reyndar heilsaði Andrea mér uppi í útvarpshúsi um daginn, hef ég þó aðeins spjallað við hana á pöbbnum í sambandi við tónlist þegar hún var að plötusnúðast og var pínu huvmsa að hún myndi eftir mér. Jamm, þetta hefur verið fín helgi. Ölkorfaðist með Bastarðinum, Kristjáni, Ásgeiri og Agga.
Fyrr um kvöldið horfðum við á Sódómu, en hana hafði Kristján aldrei séð áður og var því kominn tími til.

Vika í próf. Yrk.

...

Ég er kominn með msn, það er hotmail-adressan. Tæknisteingerfingurinn ég hefur tekið sitt fyrsta skref inn í nýja veröld. Þetta er hins vegar óttalega ánetjandi andskoti.

...

I'm not gonna tell you about a girl...

Mig langar að sjá Der Himmel über Berlin eftir Wim Wenders. Skilst að hún sé góð. Hef séð eina mynd Wenders, Buena Vista Social Club og fannst hún mjög fín.
En fyrir mér er þessi sena með Nick Cave & The Bad Seeds þar sem þeir flytja From Her To Eternity nóg ástæða í sjálfu sér til að sjá myndina:



...

Fékk mér loksins nýja strengi í gítarinn. Þeir gömlu voru orðnir gersamlega úr sér gengnir. Ég man ekki einu sinni hvenær ég keypti mér síðast strengi. Finnst jafnvel að það gæti hafa verið 2006.

...

Égr doldið þunnur. Læri og hlusta á The Fall - Totally Wired: The Rough Trade Anthology.

Hér er gömul tónleikaupptaka þar sem The Fall flytja titllag safnplötunnar:

laugardagur, febrúar 16, 2008

Fór á Jesus Christ Superstar í gær og var hrifinn af. Hef alltaf verið skotinn í þessum og öðrum söngleikjum Andrew Lloyd Webber og Tim Rice. Það var æðilsegt að syngja Webber-syrpuna í MR-kórnum á sínum tíma. Krummi er fantagóður söngvari en mér finnst hann betri söngvari en leikari. Hann var góður ofsafenginn en ekki eins þegar hann átti að túlka sorg eða auðmýkt. Stjarna sýningarinnar að mínu mati var hins vegar Jenni í Brain Police í hlutverki Júdasar. Ekki aðeins er hann magnaður söngvari heldur er hann líka góður leikari.

Allir að horfa á Spaugstofuna í kvöld, þar er yðar einlægur statisti og leikur einn af mörgum túristum sem eru hingað komin að skoða dýrasta land í heimi.

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Áhugaverðar myndir

Kristján benti mér á þessa ágætu síðu sem hefur að geyma dágott safn af ókeypis heimildamyndum. Mér taldist að þær væru um 110. Njótið vel.
Sjálfur mæli ég sérstaklega með myndum John Pilger (Palestine is Still The Issue, Apartheid Did not Die, Vietnam -The Quiet Mutiny, Stealing a Nation, The War On Democracy, Breaking the Silence: Truth & Lies in the War on Terror o.fl.). Svo hefur Doddi mælt með Adam Curtis (The Power of Nightmares o.fl.) við mig svo ég held að það sé vert að tékka á honum líka.

Um daginn sá ég ég á e-a skemmtilegustu mynd sem við erum búin að horfa á í Kvikmyndasögunni, Skeleton Dance, úr smiðju Walt Disney (þó Ub Iwerks hafi verið aðalmaðurinn á bak við hana), frá árinu 1929. Þetta er jafnframt fyrsta Silly Symphonies-myndin.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Bwahaha

Þetta þykir mér fyndið.

Bandcamp o.fl.

Ég er kominn heim í heiðardalinn. Fór í kolbrjáluðu veðri í æfingabúðir Háskólakórsins í Skálholti um helgina. Samferðamenn í bíl voru Kristján, sem ók, og Colin. Við gátum varla þakkað honum nóg fyrir að aka því við sáum varla handa okkar skil í fárviðrinu. Sökum færðar fórum við heiðina fyrir slysni. Á æfingu sáum við og heyrðum þrumur og eldingar. Það var magnað. Sungum þeim mun hærra. Ég man ekki hvenær ég sá síðast eldingar á Íslandi, minnist reyndar aðeins að hafa séð þær í 2-3 skipti hér. Helgin var æðisleg. Nýliðar voru vígðir í kórinn, það var sungið, spilað, farið í leiki, skemmtiatriði, hangið, djammað og djúsað að ógleymdum heita pottinum. M.a. var okkur skipt í hópa þar sem við áttum að búa til bíl úr sjálfum okkur, leika atriði úr kvikmynd og semja dansatriði. Ég var í hópi þrjú og við unnum. Þar held ég að hafi borið hæst frjálsleg útfærsla okkar á þinginu í Rofadal úr Hringadróttinssögu. Í stystu máli var fjör. Ég þakka kórfélögum fyrir að vera svona frábær. Ef þetta er forsmekkurinn fyrir Pólland þá verður aðallrétturinn sannarlega ljúffengur. :) Atriði bassans að þessu sinni var kynæsandi dans og bassasöngur við Minn hinsta dans Páls Óskars.
Fór í gær á Brúðgumann og get með góðri samvisku sagt að þetta sé með betri íslenskum myndum sem ég hef séð í langan tíma, ef ekki með þeim betri yfir höfuð. Hrein og klár andaktungsmeðmæli. Þá er að skella sér á Ívanov. Stefnan er reyndar líka tekin á Jesus Christ Superstar á föstudag og Brúðkaup Fígarós e-n tíman í næstu viku.

Keypti mér Safe Area Gorazde, The Fixer og Notes from a Defeatist eftir meistara Joe Sacco í gær. Bætist í haug bóka sem mig langar til og á eftir að lesa. Það vill einkenna mig að ég kaupi og fái lánaðar bækur og komi því aldrei í verk að lesa þær. Staflarnir hrannast upp og verða að drasli, móður minni til armæðu. Það er eins og vinkona mömmu sagði: “So many books, so little time”. Mig langar t.d. líka að lesa Iraq: The broken Kettle eftir Slavoj Zizek, A Man Without a Country og Sirens of Titan eftir Kurt Vonnegut, Fear and Loathing in Las Vegas eftir Hunter S. Thompson, Glass eftir Eyvind P. Eiríksson o.s.frv. o.s.frv.

Who's Bad?
You ain't bad, you ain't nothing!


Ég hef legið dálítið yfir tónlistarmyndböndum með Michael Jackson. Don't Stop 'Til You Get Enough, Bad og . Smooth Criminal. Fyrir utan það að hafa verið myndarlegur maður á sínum tíma (á sínum tíma, já), eiga frábær lög og vera afbragðs söngvari á Michael Jackson mörg flottustu tónlistarmyndböndin í poppsögunni og ég þekki ekki til þess að dansmúvin hafi verið toppuð. Þegar ég horfi á myndband eins og Smooth Criminal, hversu oft hefur mig þá ekki langað til að geta dansað svona?
Það er svo gaman að geta þess að það er Martin Scorcese sem leikstýrir Bad og að foringi töffarana er leikinn af Wesley Snipes.

Loks læt ég hér fylgja senu úr Delirious með Eddie Murphy, frá árinu 1984, þar sem hann gerir grín að Michael Jackson:

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Eftir að hafa verið að stúdera myndir á borð við Listen to Britain, Trimuph des Willens og The Nazi Strike í heimildamyndum má ég til með að deila þessum þremur áróðursteiknimyndum frá Disney með Andrési Önd frá stríðsárunum með ykkur:

The New Spirit


Der fuehrer's face:


Spirit of '43

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Astraltertugubb, nöldur & væl

Jamm, ég fékk blessaðan vírusinn. Einkenni eru hiti, uppköst og að meltingin er í fokki. Massafjör. Stefni enn á æfingabúðir kórsins á föstudag. Held mig að mestu í sóttkví heima og reyni að ná fullri heilsu. Fór í einn tíma.
Ég fyllist óttalegu óþoli þegar ég er veikur. Fæ innilokunarkennd, líður eins og ég sé í prísund.
Núna er ég að hlusta á safndiskinn minn með Creedence Clearwater Revival. Í augnablikinu er það Fortunate Son. Gott fyrir taugarnar þegar maður er pissed off. Helvítis djöfulsins veikindahorbjóður.

Leiðinda snjókoma alltaf hreint. Ég skal svo sem alveg gútera að umhverfið getur verið fallegt í snó, ekki síst fjöllin. En ekki nóg með að hefta ferðir manns þarf líka iðulega að moka heimreiðina. Og hver á að gera það? Á ÉG að gera það? Ég er að verða vitlaus af þessu. Al-veg. AAL-VEEG!

Uppfært 12.28
...

Ég fagna því að Ármann Jakobsson sé farinn að netskrifa aftur á Ekkiblogginu.

...

Það er skömm frá þvi að segja en ég er fyrst núna að uppgötva þvílík snilldarþáttaröð Næturvaktin er. :)

Lag dagsins: Cotton Fields í flutningi Creedence Clearwater Revival

mánudagur, febrúar 04, 2008

Bíósýning í Alþjóðahúsinu á morgun, þriðjudaginn 5. febrúar kl. KL 20.00


Félagið Ísland-Palestína mun í vetur standa fyrir sýningum á athyglisverðum heimildar- og bíómyndum er hafa með málefni Palestínu og Ísraels að gera. Sýningarnar verða fyrsta þriðjudag hvers mánaðar í Alþjóðahúsinu og er það hin margverðlauna heimildarmynd Occupation 101 sem er fyrst í sýningarröðinni. Hvetjum félagsmenn sem aðra til fjölmenna á fyrstu sýninguna.




Occupation 101 (90 min
)


Þriðjudagurinn 5. Febrúar, klukkan 20:00
Alþjóðhúsið, Café Cultura, Hverfisgata 18
Aðgangur ókeypis! - Allir velkomnir!


Occupation 101 kemur fram með greiningu á staðreyndum og leyndarmálum sem eru umvafin hinni langvinnu deilu um Ísrael og Palestínu. Myndin lýsir líka lífi fólks undir hersetu Ísraels, hlutverki Bandaríkjanna í baráttunni og stærstu hindrununum sem standa í vegi fyrir langvarandi friði. Rætur átakana eru útskýrðar út frá sjónarmiði friðarsinna, fréttamanna, trúarleiðtoga og fræðimanna í málefnum miðausturlanda og mannúðarmála.

...




Það fór ekki betur en svo með Nosferatu að ég bæði ruglaðist á tímanum fyrir málþingið og hafði nokkurn veginn sofið rétta tímann yfir mig. Hafði enda fengið mér aðeins í stóru tána kvöldið áður á vídeókvöldi og skálaglammi hjá Gísla. Það var fámennt en góðmennt. Myndin var líka bráðskemmtileg, Le Magnifique. Fór hins vegar á sýningu Sigrirdar Valtingojer og þótti hún áhrifamikil. Mæli með að fólk bregði sér í Start Art á Laugarvegi 12. Sýningin er ókeypis og stendur til og með miðvikudegi. Opið til 6. Myndin hér að ofan er úr sýningunni.

...

Lag dagsins er Æri-Tobbi með Þursaflokknum af plötunni Þursabit. Á þá snilldarplötu á vínyl en það er ekki jafn einfalt að hlusta á hana þegar mér hentar og áður eftir að Vésteinn flutti að heiman með plötuspilarann. Keypti mér því diskinn í gær og búinn að hafa hann mikið í spilun.

Ég væri alveg til í að fara á tónleikana með Þursaflokknum og kammersveit, finnst samt fáránlega dýrt á þá, og virðist vera orðið lenzka, get ekki sagt að ég sé hrifinn af því. Helvítis bölvað okur alltaf hreint.

laugardagur, febrúar 02, 2008

Fékk eftirfarandi í pósti og líst vel á:

Deus Ex Cinema og Myrkir músíkdagar kynna:

KVIKMYNDATÓNLEIKAR:NOSFERATU - eine Symphonie des Grauens (1922) eftir F. W. Murnau í Salnum, Kópavogi sunnudaginn 3. febrúar klukkan 17.00. Frægasta vampírumynd allra tíma og meistaraverk þögla tímabilsins verður sýnd við lifandi undirleik Geirs Draugsvoll og Mattias Rodrick. Tónlistin við myndina er eftir danska tónskáldið Helle Solberg sem verður viðstödd á kvikmyndatónleikunum og talar um tónsmíðar sínar á pallborðinu á undan.

PALLBORÐ:

HROLLVEKJUSINFÓNÍA - tónlist og kvikmyndir helguð ódauðum í Salnum, Kópavogi klukkan 14.00. Á undan kvikmyndatónleikunum verður haldið pallborð helgað þýska expressjónismanum og vampírugoðsögninni allt frá Max Schrek til Gary Oldman, Angel og Buffy með þáttöku tónskáldsins, Helle Solberg, og meðlimum í rannsóknarhópnum Deus Ex Cinema. Pallborðstjórn: Oddný Sen, kvikmyndafræðingur

HULIÐSHEIMAR: NOSFERATU OG VAMPÍRUGOÐSÖGNIN - Oddný Sen.Inngangur um þýska expressjónismann og þátt F. W. Murnaus í mótun stefnunnar með Nosferatu.

SCORING FOR THE UNDEADTónlistin við Nosferatu - Helle Solberg tónskáld segir frá því hvernig tónlistin við Nosferatu varð til.

ENGILL OG ENDURLAUSN - Árni Svanur Daníelsson, guðfræðingur.Árni fjallar um vampíruna Angel úr samnefndum sjónvarpsþáttum út frá spurningunni um sið og siðleysi en Angel er vampíra á iðrunargöngu.

GOÐSÖGNIN UM KVENVAMPÍRUNA - Elína Hrund Kristjánsdóttir, guðfræðingur. Umfjöllun um birtingarmyndir kvenblóðsuga út frá tímabilum: Nosferatu til Anne Rice.

SAKLAUST ER KONUNNAR BLÓÐ - Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur.Konan og vampíran í femínískri orðræðu og kvikmyndunum Innocent Blood (1992), Drakúla eftir Bram Stokers (1992) og Underworld (2003 og 2006).

NAGLINN, ENGILLINN OG AÐRIR DEMÓNAR VIÐ MYNNI HELJAR - umfjöllun um vampírurnar í sjónvarpsþáttunum “Buffy the Vampire Slayer”. Karítas Kristjánsdóttir, guðfræðingur.

Í SKUGGA NOSFERATUS - nokkrar blóðsuguhrollvekjur í anda F. W. Murnaus - Bjarni Randver Sigurvinsson, guðfræðingur.


...

Ég þangað. Mig langar líka á sýningu Sigridar Valtingojer Ferð án endurkomu, en þar sýnir hún myndaröð sem hún tileinkaðar Palestínu og myndirnar sýna listræna túlkun Sigridar á reynslu sinni þar, en þangað fór hún sem sjálfboðaliði.Myndunum fylgja textar úr dagbók meðan á dvöl hennar stóð. Sýningin er í start Art á Laugarvegi 12

Rowan Atkinson - Amazing Jesus


Rowan Atkinson sem djöfullinn

föstudagur, febrúar 01, 2008

Lög dagsins:

Denim & Leather með Saxon



Ég sá Saxon á Wacken 2001. Þeir voru æði. Örninn, maar! Það er gaman að sletta úr klaufunum með þýskum þungarokkurum, og þungarokkurum annara þjóða ef út í það er farið, seiseijá.
Átta ár síðan í ár. Aldeilis að tíminn líður.


Wicked Game með Chris Isaak:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.