Þursaflokkurinn og andaktuga kjánaprikið
Eins og margir lesendur bloggsins míns munu kannast við, þá hef ég lengi verið einlægur aðdáandi Hins íslenska þursaflokks. Bræddi ég lengi með mér að fara á tónleikana með þeim og Caput en var á báðum áttum sökum óhóflegs verðs. Tíminn leið og loks var ég búinn að gleyma þessu. Les svo dóm þess efnis að tónleikarnir hafi verið æðislegir. Andskotinn. Týpískt. Sömu sögu er t.d. að segja um tónleika Roger Waters.
Þegar ég sé þetta myndband úr Kastljósinu bölva ég því enn meira að hafa ekki farið. Hér flytja Þursar og Caput "Hér undir jarðar hvílir moldu" en Háskólakórinn er einmitt að syngja sama lag núna. Útsetningin er nokkuð frábrugðin þeirri sem við syngjum en mjög flott.
Ach, ja. Það þýðir víst jafn lítið að gráta Björn bónda og Sæmund Klemensson.
2 ummæli:
Þú gast nú búist við því að tónleikarnir yrðu æðislegir. Það varst þú sem tímdir ekki. Ég veit reyndar ekki hvort ég hefði tímt, en ég var líka erlendis hvort sem er.
Rétt er það að ég bjóst við því að þeir yrðu æðislegir. ég var einfaldlega of lengi á báum áttum og gleymdi þessu síðan.
hitt er svo annað mál að tónleikaverð á Íslandi er alveg fáránlegt. 7-8000 kr. fyrir Bítla-tribute tónleika? Ég segi nú bara eins og bifvélavirkinn í Spaugstofunnii: "Ereggílagi???"
Skrifa ummæli