föstudagur, febrúar 22, 2008

Eilítið um Fidel Castro

Nú er ekki annað að sjá en að Fidel Castro sé farin frá völdum og ekki útlit fyrir að hann muni gefa kost á sér í kosningunum. Það sem mér leiðist er hin svarthvíta umræða sem einkennir alla umfjöllun um hann núna. Þið vitið, engillinn/djöfullinn (en þetta er annars líka einkennandi í umræðum um Che Guevara). Ég spurði mig t.d. hvað ég þyrfti að bíða lengi áður en postuli frjálshyggju og frelsis, Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði umfjöllun um manninn og viti menn, hana má finna í Fréttablaðinu í dag.
Sjálfur virði ég Castro fyrir ýmislegt og er andvígur honum fyrir ýmislegt. Mér finnst vanta að horft sé meira á hlutina í samhengi. Þeir sem lofa Castro í hástert horfa gjarnan fram hjá mannréttindabrotum og einræði, þeir sem bölva honum kjósa gjarnan að gleyma hvering ástandið var á Kúbu fyrir Castro, undir Batista og því sem Castro tókst vel (ber þar hæst umbætur í heilbrigðis- og menntamálum) eða áhrif viðskiptabannsins. Eins skiptast menn nokkuð í tvo flokka þegar kemur að deilunni um kjarnavopnin. Ef ég á að mynda mér e-a endanlega skoðun finnst mér að ég þurfi að kynna mér feril hans og sögu Kúbu betur og hef enda áhuga á því.
Heima á ég bók George Galloway um Castro, Fidel Castro Handbook, sem Vésteinn gaf mér. Hún reynir ekki að vera “hlutlaus” eða í “jafnvægi” (balanced) og er í sjálfu sér heiðarleg hvað það varðar. Galloway segir sjálfur í formála: “...And that is what I am: a partisan, for Cuba for its revolution, for its leadership for its role in the world. The reader should know that this is no dispassionate “in the one hand but then again on the other hand” account”
Mér sýnist bókin alveg forvitnileg og ég mun eflaust lesa hana við tækifæri en með þessum fyrirvara verður maður náttúrulega að lesa hana með gagnrýnu hugarfari, óvíst hversu vel maður getur treyst bók um e-n, skrifuð af einlægum aðdáanda. Ég á svo svipaða bók um Che Guevara, Che Handbook eftir Hildu Barrio og Gareth Jenkins.
Jabbi lánaði mér hins vegar massíva bók um Che eftir Jon Lee Anderson “Che Guevara – A Revolutionary life”. Að mér vitandi er þetta e-r ítarlegasta rannsókn á ævi Che sem komið hefur út í ævisöguformi og dregur fram bjartari og dekkri hliðar mannsins og setur í samhengi við samtímann. Eftir því sem ég hef gluggað í hana sýnist mér hún skrambi vel skrifuð og hyggst lesa hana við tækifæri. Mig langar að sjá svipaða bók um Castro.

PS Mér sýnist orð leiðara Moggans um að "óhætt sé að segja að Castro hafi verið kominn með valdaþreytu" (tilvitnun eftir minni) vera eins og hver önnur þvæla, allav. varð ég ekki var við það. Hefði heilsa hans leyft, hefði hann örugglega haldið áfram. Áhrifum hans er auk þess hvergi nærri lokið, hann mun halda áfram pólítískum skrifum og Raúl bróðir hans mun taka við, og hyggst ekki breyta mikið um stefnu. Ef kosið verður, veit maður hins vegar ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Hvað sem segja má annars um Castro verður ekki af honum skafið að hann er symból og hefur charisma (í raun kannski ekki ósvipað Arafat, hvað þetta varðar) og spurning hvernig það skarð verður fyllt.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.