fimmtudagur, desember 30, 2010

Heiðarleiki og skilvirkni í fyrirrúmi

Þann 10. desember var seinasti vinnudagurinn minn sem stuðningsfulltrúi á Kleppi, en ég missti vinnuna sökum sparnaðar hjá Landspítala.
Vinnumálastofnun sendi mér póst í dag, viku frá því að ég sendi inn atvinnu- og atvinnuleysisbótaumsókn um að ég þurfi að mæta í seinasta lagi á morgun á skrifstofu þeirra til að staðfesta umsóknina skriflega og afhenda "viðeigandi gögn", annars verður hún tekin niður. Andskotinn hafi það, þetta er það fyrsta sem ég heyri frá þeim um þetta, auk þess sem ekki er tiltekið hvaða "viðeigandi gögn" þeir þurfa, síðast þegar ég talaði við þjónustufulltrúa sagði hann að stofnunina vantaði aðeins staðfestingu frá vinnuveitanda um síðustu þrjá starfsmánuði og það er ég búinn að senda þeim.

laugardagur, nóvember 27, 2010

Tvær leiðréttingar v. Frjálsa Palestínu

Fyrir slysni birtist föðurnafn Vésteins Valgarðssonar rangt við greinina "Tilvistarréttur og vopnuð barátta" í nýjasta tölublaði Frjálsrar Palestínu. Þá er það rétt að Moshe Dayan gegndi stöðu varnarmálaráðherra og á stríðstímum, t.a.m. í Sex daga stríðinu (hér er vísað til greinarinnar "Maður er nefndur Joe Sacco"), en þegar fjöldamorðin áttu sér stað í Rafah og Khan Younis var hann yfirmaður herráðsins (Chief of Staff). Varnarmálaráðherra var Menachem Begin.
Ekki auðnaðist að leiðrétta þetta áður en blaðið fór í prentun en það er gert hér og beðist velvirðingar.
Einar Steinn Valgarðsson, ritstjóri.

miðvikudagur, nóvember 24, 2010

Samstöðufundur með Palestínu í Norræna húsinu mánudaginn 29. nóvember kl. 17



Alþjóðlegur samstöðudagur til stuðnings palestínsku þjóðinni er haldinn 29. nóvember ár hvert að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og Félagið Ísland-Palestína var stofnað á þessum degi árið 1987. Félagið hefur alla tíð gert þennan dag að baráttudegi fyrir grundvallarréttindum palestínsku þjóðarinnar.

Dagskrá:
Árni Þór Sigurðsson alþingismaður, formaður utanríkismálanefndar Alþingis flytur ræðu.

Sveinn Rúnar Hauksson læknir, formaður félagsins segir frá nýlegri ferð til Gaza í máli og myndum.

Kristín Sveinsdóttir syngur nokkur íslensk lög við undirleik Jóns Stefánssonar.

Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndargerðarmaður og stjórnarmaður FÍP sýnir tvær stuttmyndir frá Gaza.

Fundurinn er öllum opinn - ókeypis aðgangur.

Frjáls Palestína



Út er komið tímaritið Frjáls Palestína, málgagn félagsins Ísland-Palestína, í ritstjórn minni og Hjálmtýs Heiðdal. Félagsmenn fá það sent heim til sín en aðrir geta keypt blaðið á 500 krónur.
Blaðið verður einnig haft til sölu á viðburðum félagsins. Þá eru enn til eintök af Frálsri Palestínu frá því í fyrra (sem ég ritstýrði einnig, en í ritstjórn sátu auk mín Hjálmtýr Heiðdal og Katrín Mixa) og er það einnig til sölu, á 250 krónur.

Ágóði blaðins rennur allur óskiptur í neyðarsöfnun fyrir Palestínu. Fókus okkar hefur verið á að safna til að koma gervifótum til fólksins á Gaza. Einnig er hægt að leggja inn á reikning söfnunarinnar.
Reikningur: 0542-26-6990
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu: Neyðaraðstoð við Palestínu

Þá vill félagið leggja áherslu á starfsemi Maríusjóðs Aisha á Gaza, sem er til stuðnings konum og börnum á Gaza sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Stefnt er að því að safna áskrifendum sem myndu vilja styrkja verkefnið með föstu mánaðarlegu framlagi. Lagt er til að það verði á bilinu 2400 til 12 þúsund krónur mánaðarlega (20-100 USD), en er að sjálfsögðu frjálst. Stefnt er að því að leggja inn í sjóðinn 5000 bandaríkjadali mánaðarlega í þrjú ár til að byrja með, frá 1. janúar 2011 og verður safnað áskrifendum að samstöðu með konum og börnum á Gaza.
Reikingsnúmer er það sama og að ofan. Skýring greiðslu: Framlag til Maríusjóðs.

Maríusjóðurinn er kenndur við Maríu M. Magnúsdóttur hjúkrunarfræðing en hún starfaði í Lundúnum á stríðsárunum og alls í hálfa öld. María, sem varð 94 ára á Alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn 10. október, býr á Blönduósi. Hún er eldhress og hefur um árabil verið helsti stuðningsaðili Neyðarsöfnunar FÍP.

Sjálfur vil ég vil nota tækifærið til að þakka öllum sem áttu aðkomu að blaðinu, öllum þeim sem hafa unnið göfugt starf í þágu félagsins eða stutt hjálparstarf fyrir Palestínu á annan hátt. Þið vitið hver þið eruð og framlag ykkar er dýrmætt.
Niður með hernámið. Niður með herkvína. Niður með andlega og veraldlega múra. Megi friður og réttlæti ná að ríkja. Shalom salaam.*

*Kveðjan shalom/salaam er sameiginleg gyðingum og aröbum, og heilsast þeir og kveðja svona. Orðið merkir í senn friður, heilsa og velfarnaður. Þannig gæti arabi sagt "Salaam aleikum og gyðingur "shalom alekheim", sem mætti útleggjast sem "megi friður og velfarnaður fylgja þér".

þriðjudagur, nóvember 16, 2010

Skaktu þig, Skurbeinn!

Það rann upp fyrir mér á kóræfingu í kvöld að frasinn hér að ofan, úr Æfintýravísum Jóns Leifs sem við erum að æfa fyrir tónleika 23. nóv. nk., er ágætis útlegging á "Shake it baby". Gunnsteinn, kórstjórinn okkar, lagði til að fyrri frasinn yrði nafnið á disk Háskólakórsins næsta vor og að sá enski yrði undirtitill í sviga. Tillagan hlaut góðar undirtektir.

mánudagur, nóvember 01, 2010

"Stríðið við Ísraelsmenn"

Það er hætt við að það gefi falska mynd af ástandinu þegar talað er um "stríðið við Ísraelsmenn" þannig að mynd fáist af sem tveimur tiltölulega jafnvígum herjum sem berjast sín á milli.
Herkvíin sem Gaza er í er stríðsaðgerð í sjálfu sér og hernámið sjálft ólöglegt, ef út í það er farið, en það vill oft hverfa í bakgrunn fjölmiðlaumræðu, eins og þetta tvennt, sem og landtökur á Vesturbakkanum eða í Austur-Jerúsalem séu status quo sem ekkert sé athugavert við.
Er hægt að kalla það stríð, af hálfu Palestínumanna, heimagerðar eldflaugar, sem verða þegar mest lætur 1-3 til bana á ári, auk þess að valda eyðileggingu, í samanburði við einn öflugasta her heims? Palestínumenn eiga í andspyrnu við hernámslið sem hefur alla tilveru þeirra í hendi sér og vopnin sem þeir sjálfir hafa eru á borð við áðurnefndar eldflaugar, riffla og sprengjubelti. Þeir eiga engar herflugvélar, skriðdreka eða herskip.
Taka skal fram að árásir sem bitna á óbreyttum borgurum eru stríðsglæpur, og á þetta jafnt við eldflaugaárásir og land- og loftárásir, sem og sjálfsmorðsárásir. 1400 manns sem féllu í árásarhrinu Ísraela á Gaza versus 13 Ísraelar segir þó sína sögu. Einnig má geta þess að "Hamas-liði" er vítt hugtak, þar sem Hamas heldur ekki bara úti vopnuðum armi heldur hefur einnig úti víðu félagslegu neti, skólum, spítulum o.fl. þannig að sjúkraflutningamaður eða leikskólakennari sem drepinn er af Ísraelsher gæti allt eins flokkast sem "Hamas-liði" án þess að það þurfi að þýða að viðkomandi sé vígamaður.

"sem titlaður er innaríkisráðherra Hamas" (leturbreytingar mínar)?
Hver er tilgangurinn með þessu tvíræða orðalagi? Er hann þá ekki jafnframt innaníkisráðherra PALESTÍNUMANNA?! Það er sem ég sjái RÚV tala um "Mahmoud Abbas, sem titlaður er forseti Fatah".

fimmtudagur, október 28, 2010

Nosferatu í Bíó Paradís

Ég vil hvetja fólk til að nýta tækifærið og sjá Nosferatu - Eine Symphonie des Grauens á stóru tjaldi. Hvað sjálfan mig varðar er þetta ein eftirlætis myndin mín. Sérstaklega er vert að benda Twilight-kynslóðinni á hvernig alvöru vampýrur eiga að vera.



Vs þessi? Hver ætli hafi nú vinninginn?


Hávaxin hrollvekjandi, skorpin og nagdýrsleg óvættur með djúpa bauga, sköllótt, með oddmjó eyru, vígframtennur oglangar oddmjóar klær eða ímó-vælukjói sem skreytist glimmeri í sólarljósi? Erfitt er valið.

Þegar þið hafið séð Nosferatu megið þið líka til með að tékka á tilbrigði Werners Herzog við hana, frá 1979. Stórfín mynd, reyndar ein af bestu myndum Herzogs, og góður virðingarvottur. Klaus Kinski og Isabelle Adjani eru sérlega góð í hlutverkum sínum.

miðvikudagur, október 06, 2010

Ólafur Þ. Stephensen fer á kostum & 2 greinar

"Óhætt virðist að kippa út úr dæminu nýnazistunum, þjóðernissinnunum, anarkistunum, kommúnistunum og öllum hinum sértrúarsöfnuðunum sem eru alltaf óánægðir hvort sem er, burtséð frá því hvort kreppa er í þjóðfélaginu eða ekki. Þeir sáu vafalaust bara góðan mótmælafund og vildu vera með." (úr leiðara Fréttablaðsins miðvikudaginn 6. nóvember 2010, leturbreytingar mínar).

Óhætt virðist að ætla að Ólafur ætli sér með þessum ummælum að afhjúpa sig sem smáborgaralegan plebba, og hafi hann þá þökk fyrir hreinskilnina.

Eiríkur Örn Norðdahl skrifar: Fjölskyldufólk og nasistar.

Haukur Már Helgason skrifar: Það er heilagt-punktur.

fimmtudagur, ágúst 26, 2010

Ég er kominn aftur á facebook og með virkan síma

Gaman að því.
Minn eiginlegi sími er í viðgerð í Hátækni og ég er með lánssíma frá þeim á meðan. Sama símanúmer, keypti nýtt símakort. Hvort símanum mínum og/eða einhverju af því dóti sem er vistað á honum (símanúmerum, sms-um, ljósmyndum o.þ.h.) sé viðbjargandi á enn eftir að ráðast.

þriðjudagur, ágúst 24, 2010

Wikileaks og Þjóðkirkjan

John Pilger skrifar: Why Wikileaks Must Be Protected

Það er meiri viðbjóðurinn sem Ólafmálið er. Vantrú fjallar um það hér og víðar.

Lesið einnig Prestar telja sig hafna yfir lög.
Réttara væri þó að kalla greinina "Sumir prestar telja sig hafna yfir lög" því glöggt má sjá við lestur greinarinnar að það er það sem við er átt. Einum presti sem telur sig hafinn yfir lög er hins vegar einum ofaukið. Þessum sömu prestum þykir sjálfsagt að vera á spena ríkisins og hafa afskipti af stjórnsýslu en sleppa því að hlýða landslögum þegar það hentar ekki kreddufestu þeirra.
Því fyrr sem ríki og kirkja verða aðskilin, því betra.
Ég hvet fólk til að nota tækifærið og skrá sig úr Þjóðkirkjunni, hafi það ekki þegar gert það.

Jóhanna Sigurðardóttir telur kirkjuna í kreppu, segir það sorglegt að horfa upp á vandræðagang kirkjunnar í þessu máli og að það hafi stundum hvarflað að sér að segja sig úr Þjóðkirkjunni.

Ég tek undir henni með þetta og sé ekki hvað stöðvar hana í því. Ekki get ég sagt að traust mitt á Þjóðkirkjunni sé mikið, enda sagði ég mig úr henni fyrir nokkrum árum og sé ekki eftir því.
Svona, ef út í það er farið gæti Jóhanna í leiðinni beitt sér fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Alltént sé ég ekki hvers vegna Jóhanna ætti að vilja vera skráð í söfnuð sem mismunar henni og öðrum samkynhneigðum á grundvelli kynhneigðar þeirra og hvers stofnun hylmir yfir níðinga, hvað þá að greiða fé til þeirrar stofnunar, fremur en aðrir sem láta sig mannréttindi einhverju varða.

mánudagur, ágúst 23, 2010

Fésbókarvesen

Ég segi mínar farir ekki sléttar af facebook. Eftir að síðunni minni var lokað (sjá færsluna "Fjarskiptavesen", sem ég ritaði hér þann 18. þessa mánuðar) hef ég frá 15. ágúst nú alls sent facebook 9 tölvupósta. Þar skýri atburðarásina eins og hún horfir við mér, svo hljóðandi:

Recently someone broke into my facebook account. I reported it to facebook and the account was temporarily suspended. I was then able to change my password and access my account again. Then everything was fine and whoever broke into my account couldn't access it again, as far as I've been able to tell.
However some days later the account got suspended again, after the security issue had in fact been resolved. I therefore kindly request that facebook reinstate my facebook account.


Ég hef ég beðið teimið að svara mér, gefa skýringu á lokuninni og síðast en ekki síst að opna síðuna mína aftur. Enn sem komið er hefur mér ekki borist neitt svar, og hef ég því ekki séð annað í stöðunni en að halda áfram að senda pósta og þrýsta á um svar.
Ég sendi beiðnirnar á netfangið info+y275lu5@support.facebook.com
Geti einhver bent mér á annað netfang sem bæri vænlegra til svars, eða langi einhverja aðra að leggja mér lið við að þrýsta á facebook að opna síðuna mína aftur, væri það vel þegið.

Sky is Mine með Amorphis, af meistaraverkinu Skyforger

sunnudagur, ágúst 22, 2010

Afmæli

Í dag er ég 26 ára og býsna sáttur við það. Svaf dágóðan hluta dagsins eftir skemmtilegt djamm með Wacken-förum.
Langi einhvern að fagna aldri mínum og ágæti með afmælisgjöf, þá eru hér hugmyndir á uppfærðum óskalista: http://einarsteinn.blogspot.com/2007/12/skalisti.html

Besta gjöfin sem ég gæti fengið frá fésbók er að teimið svari póstunum mínum og opni fésbókarsíðuna mína aftur. Í millitíðinni er vinum og kunningjum mínum velkomið að gera grúppu/likesíðu og þrýsta fremur á þetta.

laugardagur, ágúst 21, 2010



You heard the man.

miðvikudagur, ágúst 18, 2010

WACKEEEEEEEEEEN 2010...



...var æðisleg hátíð. Mikið andskoti djöfulli var þetta nú gaman. Ég fór til þessarar Mekku metalsins, á stærstu þungarokkshátíð í heimi á miðvikudegi með fríðu föruneyti í 70 manna rútu sem í voru Íslendingar, Danir og Færeyingar, og héldum við heim á sunnudeginum. Þegar á Wacken var komið slógum við upp partýtjaldi sem við hengum gjarnan í á milli þess sem við flökkuðum um svæðið, og buðum við gestum og gangandi gjarnan þangað. Ég hitti fullt af frábæru fólki, íslendinga og útlendinga, jafnt því að hitta gamla kunningja, enda er eitt af því fallega við Wacken að þangað koma metalhausar hvarvetna að úr heiminum, 85.000 manns í ár. Mikill "siblings of metal"-fílingur.
Wacken er svona 75% stemningin og andrúmsloftið og böndin eru auka bónus. :)

Það er satt að segja erfitt að lýsa í fáum orðum dásemdum Wacken fyrir þá sem ekki hafa þangað farið, en ég er þó ekki frá því að myndbandið hér að ofan sé ágætis óður. Að því sögðu verður maður auðvitað að fara til Wacken til að upplifa hátíðina fyrir alvöru.

Ekki það, böndin sem ég sá á Wacken í ár voru sérlega góð. Mér reiknast að ég hafi séð 17 sveitir, þó ég hafi ekki alltaf náð að sjá allt settið, maður þurfti stundum að flakka dálítið á milli, ef maður vildi sjá þær sveitir sem manni virtist bragð að. Ég "crowdsurf-aði" iðulega á tónleikum, í bland við hopp, hornaveif, slamm og skekjur; crowdsurfaði a.m.k. 3svar á Orphaned Land, fór í lengsta crowdsurf ævi minnar á Alice Cooper og var borin frá jaðri þvögunnar 3/4 af þvögunni allri í átt að sviðinu. Í crowdsurfinu á Iron Maiden endaði ég hins vegar með að detta á rassinn. Kenndi Dönum að stíga vikivaka á tónleikunum með Tý os.frv.
Mataræðið mitt hefði þó mátt vera betra þarna, maður reyndi að skella í sig nógu vatni til að forðast vökvatap en ég drakk dágóðan slatta af bjór á hátíðinni og gaf mér sjaldnast meiri tíma í mat en sveittan skyndibita, aðeins endrum og eins sem ég keypti appelsínu, melónu eða safa. Melting var því ekki alltaf upp á marga fiska, hvað þá grænmeti og ávexti.

Ég orti líka vísu um Wacken um daginn:

Gaman er að hrista haus
hárinu að slamma
Veifa "hornum" hömlulaus
og hérna' a Wacken djamma.

Þess má svo til gamans geta að ég reyndist síðasti maðurinn á fótum að morgni sunnudags, en við vorum nokkrir sem nenntum ekki að sofa. Skildist eftir á að Viktor og Dýri hefðu verið að keppa, en þeir sofnuðu s.s. í rútunni á undan mér og urðu ergo í öðru og þriðja sæti.

Hér eru hljómsveitirnar/tónlistarmennirnir sem ég sá, og eru þetta upptökur frá Wacken 2010. Þið afsakið ef hljóðgæðin eru ekki alltaf góð, en ég vona að þetta gefi einhvern smá nasaþef af stemningunni:

Orphaned Land: Ocean Land


Amorphis: Black Winter Day


Iron Maiden: Blood Brothers. Þetta kvöld tileinkuðu þeir lagið minningu Ronnie James Dio. Vöknaði satt að segja um augu þegar þeir tóku þetta. Lofuð sé minning Dio.


Kampfar: Inferno


Týr: By The Sword in My Hand


Tarja Turunen: Sleeping Sun


Candlemass: Ashes to Ashes


Anvil: Metal on Metal


Wistaria: Lost Cause (fulltrúar Íslands í Metal Battle í ár):


Alice Cooper: Eighteen


Arch Enemy: We Will Rise


Apocalyptica: Master of Puppets


Slayer: Raining Blood


Corvus Corax (svaka óperusýning, ekkert smá flott, eða eins og gaurinn sem setti myndbandið á youtube sagði: "Because no matter how epic something is, you can aways add flamethrowers"):


Caliban: I will Never Let You Down


Immortal - Beyond the North Waves


Missing in Action - The Cost of Sacrifice (fulltrúar Ísraels í Metal Battle. Þeir voru góðir á hátíðinni, en ég fann ekkert myndband með þeim þaðan, svo hér er lag af fyrstu plötunni þeirra):


Soulfly: Roots Bloody Roots


Sá reyndar líka Hells Belles en pósta engu með þeim því þær voru eina bandið sem ég sá sem mér fannst sökka. Og það feitt. Að öðru leiti var þetta saugeil.
Ég þakka öllum Wacken-förum fyrir frábæra hátíð. Blind Guardian, Apocalyptica, Avantasia og Suicidal Tendencies hafa staðfest sig á Wacken 2011 og ég ætla pottþétt á hátíðina þá. Ég tel niður dagana í næstu hátíð og þegar þetta er skrifað eru aðeins 350 dagar eftir.

...

Að hátíðinni lokinni sá ég Serj Tankian á tónleikum á Vega í Kaupmannahaöfn. Ég þekkti hann af góðu með System of a Down en hafði ekkert hlustað á sólóefnið hans. Ákvað að láta á tónleikana reyna og þeir reyndust stórfínir. Hér tekur Serj lagið Armenian (It's a Genocide) á tónleikunum:

Og hvað með það?

Tveir ísraelskir hermenn særðust

Ekki það að ég ætli að vera kaldrifjaður, mér þykir ekkert gaman að vita af því að hermaður, sem ekki er ólíklegt að sé heilaþveginn af áróðri og vafalítið gegnandi herskyldu á unglingsaldri, særist og eða drepist, fremur en fólk yfirleitt. Aftur á móti eru hermenn lögmæt skotmörk í stríði og undir hernámi, og Palestínumenn hafa samkvæmt alþjóðalögum rétt til andspyrnu gegn hernámsliðinu.
Árásir á borgara eru ólögmætar, en ef Palestínumenn mega ekki veita grimmúðlegu hernámi andspyrnu með árás á hermenn án þess að það þyki efni í sérstaka frétt, á sama tíma og Palestínumenn eru kúgaðir, særðir og drepnir á degi hverjum af hernámsliðinu án þess að það þyki fréttnæmt, nú, hvern fjandann mega þeir þá?

Fjarskiptavesen

Síminn minn varð fyrir hnjaski og óvíst hvort honum sé viðbjargandi, þó maður láti auðvitað á það reyna. Fer með símann í viðgerð á morgun og takist ekki að laga símann þá neyðist ég víst til að kaupa mér nýjan.

Einhver gárungurinn komst í fésbókarsíðuna mína og lék þar lausum hala. Ég tilkynnti fésbók um það og var síðunni þá lokað. Ég breyti lykilorðinu og eftir það gekk allt eins og í sögu. Núna um daginn var síðunni hins vegar lokað aftur (account suspended), þrátt fyrir að það væri í raun búið að leysa vandamálið. Ég sendi fésbók tilkynningu þess efnis og bað umsjónarfólkið að opna síðuna mína aftur en hef ekkert svar fengið ennþá.


Bögg.

Langi einhvern að stofna grúppu/likesíðu til að hvetja fésbókarteimið fremur til að opna fésbókarsíðuna mína þætti mér vænt um það.

Í millitíðinni er hægt að ná í mig í gegn um netfangið mitt; einarsteinn@hotmail.com
Auk þess er ég mikil miðbæjarrotta og er búsettur í Þingholtunum, svo það ættu að vera hæg heimatökin að rekast á mig á förnum vegi í miðbænum. :)

mánudagur, júní 28, 2010

Morgnar í Jenín -bókmenntaumfjöllun

Nú nýverið kom skáldsagan Morgnar í Jenín, eftir palestínsk-bandaríska rithöfundinn Susan Abulhawa, út hjá forlaginu í þýðingu Ásdísar Guðnadóttur. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera viðstaddur bókakynninguna í Þjóðemnningarhúsinu, og hlýða á fyrirlestur Susan og upplestur úr bókinni og keypti hana í kjölfarið.
Í bókinni rekur höfundur sögu palestínskrar fjölskyldu, fjögurra kynslóða og örlög fjölskyldunnar eru samfléttuð sögu palestínsku þjóðarinnar. Abulheja-fjölskyldan verður flóttamenn við stofnun Ísraelsríkis 1948 og aftur í kjölfar Sex daga stríðsins 1967. Fjölskyldan upplifir hernám Palestínu og landtökur, innrásina í Líbanon og hörmungarnar við fjöldamorðin í Sabra og Shatila flóttamannabúðunum 1982 og í Jenín 2001. Við stríðið 1967 glatar móðirin Dalia svo barni sínu, Ismael, sem ísraelskur hermaður rænir. Hann og kona hans, sem sjálf er ófær um barneignir, ganga drengnum í foreldrastað, hann elst upp sem gyðingur og kemst ekki að uppruna sínum fyrr en löngu síðar.
Sagan er að sumu leiti sjálfsævisöguleg, en höfundur er sjálf barn flóttamanna Sex daga stríðsins 1967 og ævisögulegastur er kaflinn þar sem hún lýsir munaðarleysingjahælinu, en hún bjó sjálf á slíku áður en hún fluttist til Bandaríkjanna eins og söguhetjan Amal. Höfundur lagðist einnig í ítarlega rannsóknarvinnu við samningu bókarinnar, og tiltekur heimildaskrá að sögunni lokinni.
Susan lýsir fólkinu og samfélaginu af mikilli alúð, svo persónurnar verða lifandi fyrir manni og vekja með manni samkennd. Maður skynjar ættarsvip en jafnframt hvernig persónurnar mótast af atburðunum og þær hafa sín eigin persónueinkenni. Tilfinningin fyrir rótunum, bæði sögu og landi er sterk í bókinni. Sagan er ýmist sögð í fyrstu persónu eða þriðju, og skiptir á milli sjónarhorns fjölskyldumeðlimanna og sögumanns. Sú aðferð virkar vel til að veita manni víðari sýn.
Þá er sagan af vináttu arabans Hasans Abulheja og gyðingsins Ari Perlstein, falleg, mitt í eymd og stríði og í raun ofar þeim. Fjölskylda Ari lifði af helförina en er mótuð af atburðunum, ekki síður en Abulheja fjölskyldan mótast af þeim atburðum sem yfir hana dynja.
Ari segir Hasan um árásirnar gegn aröbum 1948: “Ég meina, mér finnst þetta rangt . En þú veist ekki hvernig þetta var áður. Ari var skjálfraddaður. Það drap okkur, það sem gerðist, jafnvel þótt við flýðum. Hefurðu tekið eftir hve tóm augu móður minnar eru? Hún er dáin að innan. Faðir minn líka....”
“...þú ert mér eins og bróðir. Ég myndi gera hvað sem væri fyrir þig og fjölskyldu þína. En það sem gerðist í Evrópu...”
Arabar voru þannig látnir gjalda fyrir glæpi Evrópu gegn gyðingum.
Bókin er þrungin miklum tilfinningum og lýsir hörmungum og þjáningu. Lestur hennar getur því á stundum verið yfirþyrmandi. Hún er jafnframt mikill áfellisdómur gagnvart umheiminum og skeytingarleysi hans gagnvart palestínsku þjóðinni, sem virðist ætlað þau hlutskipti að vera að eilífu utangarðsfólk, gleymd öllum. Hún deilir einnig á hræsni fjölmiðla og stjórnmálamanna sem brengla sannleikann og svipta fólk mannlegum eiginleikum.
Þar sem Amal stendur frammi fyrir ungum ísraelskum hermanni sem miðar riffli af höfði hennar hugsar hún: “Ég finn til með honum. Ég finn til með dreng sem ber skylda til að verða morðingi. Ég er döpur vegna æskunnar sem leiðtogarnir svíkja fyrir tákn og fána og stríð og vald.”
Bókin leitast við að ljá fólki andlit og mannúð sem því hefur verið neitað um of lengi í vestrænum fjölmiðlum. Þrátt fyrir allt er sterkustu tilfinningarnar í bókinni ást, vinátta og baráttan fyrir mannúð við erfiðustu aðstæður. Fólkið á blaðsíðunum bregst við harmi á ólíkan hátt, svo sem með trú, biturð, einangrun, heift og hefndarþorsta og veruleikaflótta en einnig ást og gæsku. Það getur verið skammt öfganna á milli, tilfinningar eru náskyldar og vegurinn til reisnar og mannúðar vandrataður. Bókin spyr áleitinna spurninga eins og hvað gerir okkur í raun að því sem við erum?
“...Hvernig get ég fyrirgefið, mamma? Hvernig getur Jenín gleymt? Hvernig ber maður svona byrði? Hvernig lifir maður í heimi sem snýr bakinu svona lengi við óréttlæti? Er það þetta sem felst í því að vera Palestínumaður, mamma?”
Arabadrengurinn Ismael sem varð að gyðingnum Davíð segir við systur sína: “Ég verð aldrei sannur gyðingur eða múslími. Aldrei sannur Palestínumaður eða Ísraelsmaður. Viðurkenning þín á mér gerði mig sáttan við að vera einfadlega mannlegur. Þú skildir að þótt ég væri fær um mikla grimmd er ég líka fær um mikla ást.”
Þetta á einnig við um bróður hans, Yousef, ástríkan son, bróður, eiginmann og föður, en hans stærsti harmur er þegar hann missir fjölskyldu sína á hrottalegasta hátt í fjöldamorðunum 1982. Hann brennur af heift og harmi og þráir að taka örlögin í sínar hendur fremur en að vera, eins og þjóð hans, leiksoppur þeirra. Innri barátta hans milli heiftar og mannúðar og ákvörðunin sem hann tekur er mikil þungamiðja bókarinnar.
Vonin kristallast einnig í viðleitni eftirlifandi ættingja í að sameinast í fjölskyldu, þar má skynja ósk höfundar um að ólíkt fólk með mismunandi reynslu, þó allt mótað af atburðum svæðisins, geti lifað saman í friði og samlyndi, með réttlæti að leiðarljósi.
Susan Abulhawa á lof skilið fyrir þessa vönduðu og fallega skrifuðu fyrstu skáldsögu hennar, sem á brýnt erindi, og hygg ég að megi áfram vænta góðs af henni. En fyrst og fremst á hún skilið að bókin verði mikið lesin og erindi hennar berist sem víðast.

mánudagur, apríl 05, 2010

Ari Eldjárn sem Bubbi

þriðjudagur, mars 16, 2010

Lesið ræðu Vésteins bróður á Austurvelli 13. mars síðastliðinn.

Uri Avnery skrifar greinina A Matter of Timing um byggingarframkvæmdir í Austur-Jerúsalem og tálmann sem þær eru í vegu friðar. Lesið hana líka.

mánudagur, mars 08, 2010

Mér er í mun

Mér er í mun að vita
hvort einnig þið
hafið komizt að raun um það
þrátt fyrir allt

hversu jörðin er fögur
hljómur tungunnar nýr
haustið jafnfagurt vori
líf og dauði í sátt

þegar maður elskar



-- Elías Mar, 1954.

föstudagur, mars 05, 2010

Alþingi

Vond er þeirra stjórn, verri þeirra stjórnarandstaða.

föstudagur, febrúar 26, 2010

Mannúðarsjónarmið?

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins 26. febrúar er rætt við Pál Matthíasson, formann geðsviðs Landsspítalans vegna lokunar deildar 14 á Kleppsspítala, vinnustað mínum til þriggja ára og lítillega við Svein Magnússon, framkvæmdastjóra Geðhjálpar. Í fyrirsögn fréttarinnar er því haldið fram að mannúðarsjónarmið séu helsta ástæða lokunarinnar, en sparnaður hafi flýtt fyrir.
Hvernig er hægt að halda því fram að mannúð hafi verið til grundvallar ákvörðuninni, fremur en sparnaður, þegar fæstir sjúklingar hafa fengið neina staðfestingu á því hvaða búsetuúrræði bjóðast þeim. Ég varpaði sjálfur fram þeirri spurningu í grein minni Mælikvarði menningar (Fréttablaðið 20. febrúar, bls. 22) hvort ekki hefði verið eðlilegra að að tryggja þeim úrræði áður en ákvörðun var tekin, og þætti vænt um að fá svar við henni.

Páll fullyrðir í fréttinni að búið sé að finna meirihluta sjúklinga búsetuúrræði. Vel væri þá að Páll fræddi okkur starfsfólkið og skjólstæðinga um það, þegar þetta er skrifað hefur okkur aðeins verið tilkynnt um tryggð úrræði fyrir 2 skjólstæðinga af 12. Myndi það jafnframt verða til þess að forða starfsfólki og skjólstæðingum frá kvíða og óöryggi, sem Páll nefnir sjálfur að fylgi yfirvofandi breytingum. Hvað starfsólkið varðar, höfum við enga tryggingu á að fá starf innan Landspítalans, hvað sem góðum vonum Páls líður. Sama má segja um búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga okkar.
Ég hef ekki séð neinn halda því fram að Kleppur eigi að vera búseta sjúklinga. Gagnrýnin sem kom fram í grein minni var einmitt þetta: að þeim hafi ekki verið tryggð búseta fyrir lokun, og ég benti á að þeir geta ekki verið í eigin búsetu, heldur þyrftu pláss á sambýlum eða hjúkrunarheimilum. Að leggjast í lokun og uppsagnir áður en búsetuúrræði hafa verið tryggð hlýtur að teljast rúlleta með afkomu skjólstæðinga okkar.
Ég vísa á fyrrnefnda grein mína í Fréttablaðinu fyrir þá sem vilja kynna sér nánar þá gagnrýni sem ég hef gagnvart lokuninni, enda fæ ég ekki séð að Páll hafi hrakið nokkuð sem þar er haldið fram eða svarað gagnrýninni með fullnægjandi hætti. Ég vísa einnig á grein Gígju Thoroddsen, "Lokun deild 14 á Kleppsspítala", sem birtist á bls. 18 í Morgunblaðinu 24. febrúar, en eins og hún nefnir í greininni er hún skjólstæðingur á 14 og lýsir þar upplifun sinni gagnvart lokuninni.



Ritað í Reykjavík, þann 16. febrúar 2010
Höfundur er stuðningsfulltrúi á deild 14, hjúkrunar- og endurhæfingardeild á Kleppsspítala.

miðvikudagur, febrúar 24, 2010

Lokun deildar 14 á Kleppsspítala

Ég hvet alla til að lesa grein Gígju Guðfinnu Thoroddsen, "Lokun deildar 14 á Kleppsspítala" sem birtist á bls. 18 í Morgunblaðinu í dag.

laugardagur, febrúar 20, 2010

Mælikvarði menningar

Það er grein eftir mig um geðheilbrigðismál á bls. 22 í Fréttablaðinu í dag og nefnist "Mælikvarði menningar". Lesið hana.

Uppfært 16:11

Það er líka hægt að lesa hana á Vísi.

Uppfært fimmtudaginn 35. febrúar kl. 14:02

Nú er hún komin á Eggina líka.

föstudagur, febrúar 19, 2010

Er lokun deilda/sjúkrahúsa eina leiðin?

Þuríður Rúrí Valgeirsdóttir skrifar áhugaverða grein um heilbrigðismál, sem er á bls. 11 í Morgunblaðinu í gær: "Er lokun deilda/sjúkrahúsa eina leiðin?" Lesið hana.

laugardagur, febrúar 06, 2010

Skríddu ofaní öskutunnuna

Heiðraði forstjóri í höllinni þinni
himinháu úr gleri og stáli og steypu
ég kem ekki á fund þinn til að fá hjá þér neina
fyrirgreiðslu enda yrði víst sneypu-
för heldur gefa þér gott ráð forstjóri
við geðfargi geðfári geðfargi
þínu þungu:
skríddu ofaní ösktunnuna
afturábak með lafandi tungu

Heiðraði tollstjóri í hreiðrinu þínu
höggnu í gler og stál og steypu
ég kem ekki á fund þinn til að fá hjá þér neina
fyrirgreiðslu enda yrði víst sneypu-
för heldur gefa þér gott ráð tollstjóri
við geðfargi geðfári geðfargi geðfári
þínu þungu:
skríddu ofaní ösktunnuna
afturábak með lafandi tungu

Og sólin hún skein á skrúðið blómanna
og skinnið svo mjúkt á stúlkunum ungu
og fuglarnir á trjátoppana
tylltu sér þöndu brjóst
og sperrtu stél
og sungu
skríddu ofaní ösktunnuna
afturábak með lafandi tungu


-- Megas (Magnús Þór Jónsson), af plötunni Drög að sjálfsmorði

föstudagur, febrúar 05, 2010

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins & niðurníðslustefna skipulagsauðvaldsins

Ingvar Árni Ingvarsson ritar á Eggina: Einkavætt heilbrigðiskerfi er ómannúðlegt

Vésteinn bróðir ritar á Smuguna: Stöðvum niðurníðslustefnu skipulagsauðvaldsins

Vésteinn sækist eftir 2-3. sæti í forvali Vinstri-grænna í Reykjavík. Forvalið er á morgun og hvet ég fólk til að styðja hann.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.