miðvikudagur, nóvember 24, 2010

Frjáls Palestína



Út er komið tímaritið Frjáls Palestína, málgagn félagsins Ísland-Palestína, í ritstjórn minni og Hjálmtýs Heiðdal. Félagsmenn fá það sent heim til sín en aðrir geta keypt blaðið á 500 krónur.
Blaðið verður einnig haft til sölu á viðburðum félagsins. Þá eru enn til eintök af Frálsri Palestínu frá því í fyrra (sem ég ritstýrði einnig, en í ritstjórn sátu auk mín Hjálmtýr Heiðdal og Katrín Mixa) og er það einnig til sölu, á 250 krónur.

Ágóði blaðins rennur allur óskiptur í neyðarsöfnun fyrir Palestínu. Fókus okkar hefur verið á að safna til að koma gervifótum til fólksins á Gaza. Einnig er hægt að leggja inn á reikning söfnunarinnar.
Reikningur: 0542-26-6990
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu: Neyðaraðstoð við Palestínu

Þá vill félagið leggja áherslu á starfsemi Maríusjóðs Aisha á Gaza, sem er til stuðnings konum og börnum á Gaza sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Stefnt er að því að safna áskrifendum sem myndu vilja styrkja verkefnið með föstu mánaðarlegu framlagi. Lagt er til að það verði á bilinu 2400 til 12 þúsund krónur mánaðarlega (20-100 USD), en er að sjálfsögðu frjálst. Stefnt er að því að leggja inn í sjóðinn 5000 bandaríkjadali mánaðarlega í þrjú ár til að byrja með, frá 1. janúar 2011 og verður safnað áskrifendum að samstöðu með konum og börnum á Gaza.
Reikingsnúmer er það sama og að ofan. Skýring greiðslu: Framlag til Maríusjóðs.

Maríusjóðurinn er kenndur við Maríu M. Magnúsdóttur hjúkrunarfræðing en hún starfaði í Lundúnum á stríðsárunum og alls í hálfa öld. María, sem varð 94 ára á Alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn 10. október, býr á Blönduósi. Hún er eldhress og hefur um árabil verið helsti stuðningsaðili Neyðarsöfnunar FÍP.

Sjálfur vil ég vil nota tækifærið til að þakka öllum sem áttu aðkomu að blaðinu, öllum þeim sem hafa unnið göfugt starf í þágu félagsins eða stutt hjálparstarf fyrir Palestínu á annan hátt. Þið vitið hver þið eruð og framlag ykkar er dýrmætt.
Niður með hernámið. Niður með herkvína. Niður með andlega og veraldlega múra. Megi friður og réttlæti ná að ríkja. Shalom salaam.*

*Kveðjan shalom/salaam er sameiginleg gyðingum og aröbum, og heilsast þeir og kveðja svona. Orðið merkir í senn friður, heilsa og velfarnaður. Þannig gæti arabi sagt "Salaam aleikum og gyðingur "shalom alekheim", sem mætti útleggjast sem "megi friður og velfarnaður fylgja þér".

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.