laugardagur, desember 31, 2005
föstudagur, desember 30, 2005
Íslenzk(t) vögguljóð á Hörpu
Ég skal vaka og vera góð
vininum mínum smáa
á meðan óttan rennur rjóð,
roðar kambinn bláa
og Harpa sýngur hörpuljóð
á Hörpulaufið gráa.
Stundum var í vetur leið
veðrasamt á glugga; -
var ekki eins og væri um skeið
vofa í hverjum skugga?
Fáir vissu, að vorið beið
og vorið kemur að hugga.
Sumir fóru fyrir jól,
- fluttu burt úr landi;
heilum snauðir heims um ból
hús þeir byggja á sandi.
í útlöndum er ekkert skjól
- eilífur stormbeljandi.
Þar er auðsýnt þurradramb
þeim, sem út er borinn
engin sól rís yfir kamb,
- yfir döggvuð sporin.
þar sést hvorki lítið lamb
né lambagras á vorin.
Þá er börnum betra hér
við bæjarlækinn smáa
í túninu, þar sem tryppið er.
Tvævetluna gráa
skal ég, góði, gefa þér
og gimbilinn hennar fráa.
Og ef þig dreymir, ástin mín,
Oslóborg og Róma,
vængjaðan hest, sem hleypur og skín,
hleypur og skín með sóma,
eg skal gefa þér upp á grín
allt í sykri og rjóma.
Eins og hún gaf þér íslenzkt blóð,
úngi draumsnillingur,
- megi loks hin litla þjóð
leggja á hvarm þinn fingur
- á meðan Harpa hörpuljóð
á Hörpuljóðið sýngur.
Halldór Kiljan Laxness
San Fransisco 21. Mars 1928.
fimmtudagur, desember 29, 2005
miðvikudagur, desember 28, 2005
Jólahreingerning og aðrar jólastiklur
Gamla góða jólahreingerningin er kominn á fullt skrið hjá undirrituðum. Það leiðinlegasta við hreingerningu finnst mér alltaf að flokka pappíra, blöð greinar etc. Maður tímir ekki að henda því, ýmislegt sem maður vill halda til haga, en hvar í andskotanum á maður að geyma það, svo það flækist ekki fyrir, en sé samt aðgengilegt? Ólíkt bróður mínum hef ég aðeins eitt herbergi fyrir hafurtaskið, fyrir utan háloftið, sem er einnig þekkt sem Ginnungagapið eða Glatkistan, því það sem lendir í þeim haug af drasli mun fyrst finnast á efsta degi.
Á Þorláksmessu fór ég í friðagöngu og söng svo með kórnum. Ég hef alltaf minnst jafn gaman af að vera á Laugarveginum á Þorláksmessu og á aðfangadeginum sjálfum. Elska stemmninguna. Við kíktum svo nokkur á Hverfisbarinn og hlýddum á tvo ágæta trúbadúra. Sungum með “So this Is Christmas” í röddum.
Ég átti afar góð jól í Lækjartúni með familíunni. :)
Jórunn og Arnar eru kominn með 6 mánaða kettling sem heitir Símon. Hann er mjög sætur og vinalegur bengal-kettlingur, ekki ósvipaður smávöxnu tígrisdýri.
Þessar jólagjafir fékk ég og kann öllum bestu þakkir fyrir:
- Argóarflísina eftir Sjón frá ömmu
- The Beatles. The Biography eftir Bob Spitz frá Jórunni og Arnari.
- Svarta loðhúfu frá mömmu og pabba, sem ég fékk að velja sjálfur. Vantar helst að ég setji e-ð merki í hana, eins og rauða stjörnu. ;)
- The Fantastic Four-Volume II frá Dodda. Dr. Doom er og verður flottasti ofur-skúrkur allra tíma.
- Lítinn tuskubangsa frá Mossa og Írisi. Mússímúss.
- Og síðast en ekki síst: Elvis Presley, The King of Rock ‘N’ Roll. Complete fifties recordings frá Vésteini bróður. Hef verið að hlusta á kónginn nánast linnulaust síðustu daga. Ég held að sé óhætt að fullyrða að Elvis Presley hafi verið einhver mesta rokkstjarna nokkurn tíma. Þessi rödd, lögin, sem hentuðu honum fullkomnlega, sviðsframkoman, sjarminn, auk þess sem hann var fjallmyndarlegur maður. Iðinn var hann einnig, tilbúinn að taka hundrað tökur ef þess þurfti, til að fá lagið eins og það ætti að hljóma.
- Loks keypti ég geisladiskinn Geislavirkir með með Untagarðsmönnum í jólagjöf handa sjálfum mér.
Þegar kemur að því að kaupa jólagjafir, er gott að kíkja í fornbókabúðir. Í fornbókabúðinni hjá honum Braga má margt skemmtilegt finna á góðu verði. Bragi er líka sjálfur mesti heiðursmaður. Gerði ég þar kjarakaup, þar sem ég fann fjórar bækur sem ég greiddi alls um 3000 krónur fyrir. Voru það Frelsið eða dauðinn eftir Nikos Kasantzakis, sem ég gaf mömmu, Dodda gaf ég Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson, ömmu gaf ég Platero og ég eftir Juan Ramón Jiménez og pabba gaf ég Á sjó og landi. Æfisögu Reinalds Kristjánssonar pósts milli Ísafjarðar og Bíldudals. Í búðinni heyrði ég einhvern Bandaríkjamann vera að úthúða gyðingum og spurði sjálfan mig hvort enn væri svo sterkt gyðingahatur þar vestra. Svo sé ég að Bobby Fischer er í búðinni og var þá ekki erfitt að leggja saman tvo og tvo...
Auk þess gaf ég Dodda Sin City (kvikmyndina) í jóla/afmælisgjöf.
Mossa gaf ég Bjargið okkur eftir Hugleik Dagsson.
Vésteini gaf ég Clerks.
Ég gaf Valla stóran Bionicle-kall sem var ansi flókið að setja saman.
Við Vésteinn gáfum Katrínu bílastæði fyrir matchbox-bíla. Það er annars naumast hvað leikföng eru orðin dýr í dag. Bækur reyndar líka, þ.e. í almennum bókabúðum. En börnin voru alsæl, og er það vel.
þriðjudagur, desember 27, 2005
föstudagur, desember 23, 2005
Afmæli, partý og jólajólajóla...
Þetta er helst að frétta:
Besti vinur minn varð tvítugur í fyrradag. Til hamingju, Doddi minn!!! :)
Þórunn hélt afbragðs kórpartý í fyrradag. Gaman að því. Þakkir þeim sem þakkir ber. :)
Kórinn hittist í gær niðri í bæ og söng með nokkrum öðrum, áður kórarnir skiptu liði. Við sungum fyrir utan Eymundsson, héldum upp Laugarveginn, sungum hjá Kebabhúsinu, 66°N, Á horninu á Skólavörðustíg, og rétt hjá Te og Kaffi. Þegar tók að kólna leituðum við skjóls í Dressman. Við sungum “Skreytum hús”, „Kom þú, kom, vor Immanúel“, „Hátíð fer að höndum ein“, „Englakór frá himnahöll“, og „Bjart er yfir Betlehem“. Það var gaman, og við fengum góðar móttökur. Að söngnum loknum tylltum við okkur á Te og Kaffi.
Nú á ég aðeins eftir að finna eina jólagjöf, en ég ætla líka að senda jólakort. Svo er að pakka inn, og blablabla.
Mér þykir leiðinlegt af því að vita, ef fólk er að stressa sig fyrir jólin. Theoretískt á þetta að heita tíminn sem maður ætti minnst að vera að stressa sig. Ganga í það sem maður þarf og vill gera, ef maður getur, annars sleppa því. Taka lífinu með stóískri ró, en krydda það vel með epíkúrisma. Jólin eru það sem maður vill að þau séu. Hér eru nokkrir hlutir sem ég mæli með og koma mér í jólaskap:
Fyrst og fremst er það auðvitað samveran með fjölskyldunni og með vinum. Kaffihúsaferðir verða þá tíðar. :)
Margir tónleikar í boði núna. Góður kórsöngur hrífur mig alltaf. Háskólakórinn hittist kl. 20:00 í kvöld á horni Lækjargötu og Austurstrætis og mun svo líklegast halda upp Laugarveginn.
Matur: Hangiket, mandarínur, rjúpur (ef þær fást), kalkúnn, svartfugl, hamborgarhryggur, ís à la mamma, ris à la mande (e-r besti eftirréttur sem um getur), smákökur (ekki síst piparkökur) og laufabrauð.(Ég fæ vatn í munninn bara af því að skrifa þetta)
Tónlist: „Jól“ eftir Jórunni Viðar. „Hærra, minn guð, til þín“. Það aldin út er sprungið“. „Abendglocken“. Platan Frank’s Wild Years með Tom Waits. Í fyrra hlustaði ég líka heilmikið á The Cure og Edith Piaf á þessu tímabili, og er það vel.
Kvikmyndir: The Nightmare Before Christmas, It’s A Wonderful Life, Ben-Hur, Life Of Brian, Edward Scissorhands.
Lesefni:
A Christmas Carol eftir Charles Dickens.
Tvær klassíksar Andrésar Andar-sögur eftir Carl Barks: Christmas On Bear Mountain (fyrsta sagan með Jóakim) og Jul in Pengeløse.
Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson. Ég lauk við hana í gær og var afar hrifinn af henni. Einstaklega vel skrifuð bók, eins og við var að búast af Gunnari. Þessi saga var og er söluhæsta bók hans. Sagan byggir á frásögn Fjalla-Bensa af ferðum hans á Mýrdalsöræfum. Þegar hátíð fer í hönd heldur Bendikt í sína árlegu göngu upp á öræfin, ásamst sauði sínum, Eitli og hundinum Leó, til að leita eftirlegukinda, sem mönnum hafði sést yfir í öllum þremur göngum, finna þær og koma þeim heilum og höldnum til byggða. Hann tekur þessa þjónustu á hendur óumbeðinn, hann vill ekki að kindurnar verði úti, þær eru verur með lífi, blóði og sál og honum fannst eins og hann bæri einhvers konar ábyrgð á þeim. En allar líkur eru á að óveður sé í aðsigi.
Ég segi ekki meira að sinni. Vill ekki spilla fyrir ánægjunni af lestrinum. Ég læt að lokum fylgja tilvitnun úr henni:
„Hérna var han nú á gangi í snjó; hvítt í allar áttir, svo langt sem augað eygði, gráhvítur vetrarhimininn, jafnvel ísinn á vatninu í miðri sveitinni var hélaður eða þakinn þunnu snjólagi, það voru aðeins lágu eldgígarnir sem hér og þar gægðust upp ú því, sem ristu með börmunum svarta hringi, stóra og smáa eins og táknmyndir í snjóauðnina. En tákn um hvað? Var hægt að koast til botns í því? Ef til vill sögðu þessir gígmunnar: látum allt frjósa, grjót og vatn storkna, látum loftið frjósa og sáldrast niður í hvítum hnoðrum og breiðast eins og brúðarlín, eins og náblæju yfir jörðina, látum andardráttinn frjósa í munni þínum og vonina í hjarta þínu og blóðið í dauðanum í aæðum þín – undir niðri lifir eldurinn. Ef til vill sögðu þeir eitthvað því líkt. Og hver var svo ráðningin á því? Ef til vill sögðu þeir líka eitthvað annað. En að þessum svörtu hringum undanteknum, var allt hvítt, sérstaklega byggðavatnið, - glithvítur flötur og slétt, eins og stofugólf. Hver var þar fyrir og bauð í dans?
Og eins og hún væri fædd af allri þessari hvítu reginauðn með hinum svörtu hringum gíganna og einstöku hraundröngum, sem gnæfðu eins og tröllkarlar upp úr hér og þar, var hátíð þennan sunnudag yfir fjallasveitinni, ómælanleg, óflekkuð hvít helgi umhverfis hvíldardagsreykina upp af hinum dreifðu, lágreistu bæjum, sem varla náðu upp úr snjónum, óskiljanleg og óskiljanlega fyrirheitafull kyrrð – aðventa. Aðventa, já. Benedikt tók orðið sér í munn með varfærni, þetta stóra, hljóðláta orð, svo furðulega annarlegt og inngróið í senn, ef til vill inngrónast Benedikt allra orða. Að vísu var honum ekki fyllilega ljóst, hvað það þýddi, en þó var fólgið í því að vænta einhvers, eftirvænting, undirbúningur – svo langt náði skilningur hans. Með árunum var svo komið, að þetta eina orð fól í sér næstum allt hans líf. Því hvað var líf hans, hvað var líf mannsins á jörðinni annað en ófullnægjandi þjónusta, sem þó varð manni kær með því að vænta einhvers, með eftirvæntingu, undirbúningi?“
miðvikudagur, desember 21, 2005
þriðjudagur, desember 20, 2005
Af Gunnari Gunnarssyni og Nóbelsverðlaununum, viðtali við Gunnar yngri og yfirlýsingu fjölskyldu Gunnars
Mikið hefur verið rætt um gögn sem fram hafa komið um tildrög Nóbelsverðlaunanna 1955. Skeytið sem Ragnar í Smára, Peter Hallberg, Sigurður Nordal og Jón Helgason sendu sænsku akademíunni, þess efnis að það væri íslendingum “til vansa” að Gunnar Gunnarsson fengi Nóbelsverðlaunin. Nefndu þeir tengsl hans við Þýskaland og að hann skrifaði á dönsku.
Sænska akademían hafði verið var búin var að tilkynna Gunnari að hann fengi Nóbelsverðlaunin og hafði hann að vonum glaðst ákaft. Hann hafði tvisvar áður verið tilnefndur. Því má rétt ímynda sér það reiðarslag sem það var fyrir hann er honum var sagt frá skeytinu. Ekki einungis það að hann fengi ekki Nóbelinn, æðstu viðurkenningu sem rithöfundi getur hlotnast, á sjötugsaldri, ekki einu sinni skeytið sjálft, heldur að sendendurnir áttu að heita vinir hans, auk þess sem Ragnar í Smára var útgefandi hans. Gunnar náði sé aldrei fyllilega af þessu áfalli.
Þetta og fleira kemur fram í viðtali við Gunnar Björn Gunnarsson, barnabarnabarn skáldsins í Morgunblaðinu, síðastliðinn laugardag, þann sautjánda. Ég mæli með því að fólk lesi hana. Fjölskylda Gunnars tók skýrt fram að hún teldi Laxness stórskáld og að hann hefði átt verðlaunin skilið, en fyrst umræðan var komin í gang, yrði hún að skýra frá sinni hlið málsins. Ég tek undir þetta, og ég fagna þessari góðu grein sem varpar bæði ljósi á þetta mál og einnig á það hvernig maður Gunnar Gunnarsson var. Spurður út í meintan nasisma langafa síns þverneitaði að Gunnar hafi verið nasisti, hann hafi þvert á móti verið húmanisti. Hann var hins vegar Þýskalandsvinur. Þar átti hann mestum vinsældum að fagna og þar seldust bækur hans líka mest.
Áður en þetta fékkst staðfest hafði ég aldrei getað ímyndað mér að neitt hæft gæti verið í sögum um nasisma Gunnars. Til þess var húmanisminn í bókum hans of sterkur. Sá djúpi mannkærleikur sem skín í gegn í verkum Gunnars, er meðal þess sem hefur heillað mig mest við þær.
Þegar blaðamaður staðhæfir að Gunnar Gunnarsson hafi skrifað á dönsku, svarar Gunnar yngri: „Ég veit engan mann meiri Íslending en langafa minn. Hann elskaði Ísland og barðist fyrir málstað þess hvar og hvenær sem var.“
Þetta má sjá af hinum fallegu, mikilfenglegu og heillandi lýsingum af Íslandi, náttúrunni og íslenskri alþýðu í bókum Gunnars, einkum þó Fjallkirkjunni. Ég efast líka um að nokkur íslenskur höfundur hafi lýst jafn vel lífi íslenskrar alþýðu við lok 19. aldar en Gunnar Gunnarsson í þeirri bók, sem lætur þó ekki staðar numið þar.
“Langafi var húmanisti fyrst og fremst” segir Gunnar. „Hann stóð einn úti á sínum berangri og bar sig vel, þótt hann gæti ekki unnið úr sínu reiðarslagi. Hann var stórmenni, ekki vegna ríkidæmis og frægðar, heldur fyrir það með hvaða hætti hann brauzt áfram frá fátækt, hversu gott hjártalag hans var og hvernig hann beitti sjálfan sig ótrúlegum aga. Langafi var maður gjafmildur. Í áratugi hélt hann uppi heilu fjölskyldunum í Danmörku og hérna heima. Hann styrkti listamenn og borgaði meðal annars Jóhannesi Kjarval föst mánaðarlaun. Hann og langamma gáfu íslenszu þjóðinni Skriðuklaustur í Fljótsdal, sem er stærsta gjöf sem nokkur Íslendingur hefur í lifanda lífi gefið íslenzka ríkinu.“
Þetta kemur enn fremur fram í orðum hans annars staðar í viðtalinu:
„Langafi var af gamla skólanum. Ég held að hann hafi trúað því, að þeir sem eru hugdjarfir og góðir menn og bera sannleikann fyrir brjósti, að þeir myndu uppskera.“
Þessi hugsjón er eins falleg og göfug og hugsast getur. Sum fyrri verka Gunnars gátu verið bölsýn, en jafnvel í þeim lýsti þessi von í gegn. Þetta er viðhorf sem ég hef sjálfur reynt að temja mér, alltént að halda í vonina.
Það er ánægjulegt að vita að Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson, þessir tveir af mestu höfundum Íslands, voru ávallt góðir vinir og báru djúpa virðingu hvor fyrir öðrum. Báðir töldu hinn vera besta (eða þá allav. næst-besta) höfund Íslands. Þeir þýddu einnig hvor annan. Gunnari fannst alltaf að Halldór hefði átt Nóbelsverðlaunin skilið.
Ég tek einnig undir með orðum fjölskyldu Gunnars sem koma fram í yfirlýsingu þeiira á Skriðuklaustursvefnum. Við Íslendingar megum gleðjast yfir því að við áttum tvo framúrskarandi höfunda sem báðir þóttu verðugir kandídatar til Nóbelsverðlauna. Ekki amalegt á eyju þar sem búa innan við 300.000 manns, og færri þá en nú. Þeir eiga skilið málefnalega umföllun og að verk þeirra fái að lifa.
mánudagur, desember 19, 2005
fimmtudagur, desember 15, 2005
Í gær héldum við fjölskyldan upp á afmæli ömmu minnar á veitingahúsinu Rauða húsinu (sem af einhverjum ástæðum var þó hvítt) á Eyrarbakka. Maturinn þar var hreinasta hnossgæti. Ef þið eigið einhvern tíma leið þar um og viljið fá ykkur góða máltíð þá fær staðurinn topp einkunn hjá mér. Þarna snæddi ég sjávarréttasalat með rækjum og meðlæti og humar og skáluðum við fyrir afmælisbarninu í rauðvíni. Ég rak einnig nefið í ljósmyndabók með gömlum ljósmyndum af svæðinu, einhvers staðar frá bilinu 1914 til tuttugu og eitthvað. Afar gaman að skoða þessar gömlu þjóðlífsmyndir.
Fór með Dodda á King Kong í gær. Hún er tvímælalaust ein af bestu myndum sem ég hef séð á árinu.
Áðan skrapp ég á bókasafnið að ná í safndisk með The Cure sem ég hafði pantað nokkrum dögum áður. Ég hlustaði einnig mikið á þennan disk um jólaleitið í fyrra. Háftíma áður var ég í Skífunni og ætlaði þaðan á bókasafnið í áðurnefndum erindagjörðum og þá heyri ég einmitt spilað "Boys Don't Cry" með The Cure. Heimurinn er lítill.
Ég hef alltaf haft gaman að uplestri góðra bóka og fann á bókasafninu Aðventu Gunnars Gunnarssonar á hljóðsnældu, lesna af Róberti Arnfinnssyni leikara. Ég er að lesa hana núna. Síðast en ekki síst fékk lítinn dýrgrip, kassettu þar sem átta þjóðskáld lesa úr verkum sínum; Tómas Guðmundsson, Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson, Jón Helgason, Sigurður Nordal, Steinn Steinar, Þórbergur Þórðarson og Davíð Stefánsson. Ekki amalegt það. :)
Búinn í tveimur prófum og á tvö eftir. Bókmenntirnar gengu nokkuð vel og menningarsagan alltént þokkalega. Að prófum loknum get ég endanlega skriðið úr grábjarnarhamnum og orðið jólabarn.
Á morgun fer ég í próf í almennum málvísindum. Það fag hef ég vanrækt í vetur .þannig að jacta est alea. Ég verð bara að læra vel núna og gera mitt besta. Kann eitthvað hrafl í hljóðfræðinni, það próf verður á mánudag. Alors, qui sera sera.
Mig langar í jólaglögg. Ég smakkaði jólaglögg í fyrsta sinn í kórpartýi hjá Gísla um daginn. Hef einsett mér að kenna sjálfum mér að malla hana núna um jólatímann.
þriðjudagur, desember 13, 2005
Jólasveinar
Barnagælur og-fælur
Nú fer að líða að jólum og kólasveinarnir fara að halda til byggða. Ýmist 9 eða 13, samkvæmt opinberum tölum. Rauð- og hvítklæddir og sérvitrir (ok, MJÖG sérvitrir) barnavinir. 9 eða 13 klónasveinar, óskilgetin afkvæmi Nikurlásar og Coca Cola, með dreitil af af tröllablóði í æðum. Svo sem gott og blessað, að hafa góðar vættir sem gleðja börnin, en fyndið að hugsa til þess að ekki er of langt síðan að jólasveinarnir voru hafðir sem barnafælur. Ég held að það myndi hljóma nokkuð undarlega í dag að segja við barn: „Ef þú verður ekki þæg/ur, þá fær jólasveinninn þig!“. „Jibbí !“ hrópar þá barnið, skiljanlega, og hyggur sér gott til glóðarinnar.
Það er áhugavert og skemmtilegt að skoða hvernig jólasveinarnir voru í þjóðtrúnni. Ein ágætis heimild um það er bókin Íslenskir þjóðhættir, rituð af séra Jónasi Jóssyni á Hrafnagili. Afar fróðleg bók í alla staði. Mismunandi hugmyndir gátu verið uppi um jólasveinana, eftir því hvar maður grípur miður á landinu. Almennt sagt að þeir séu 9 eða 13 og synir Grýlu og Leppalúða, en sumir segja þá syni hennar og annars eiginmanns hennar, Bola. Þó hefur fundist gífurlegur fjöldi annara jólasveinanafna, sumir jólasveinar báru líka mörg nöfn. Úr Mývatnssveit eru Moðbingur, Móamangi og Hlöðustrangi, Þvengjaleysir og síðast en ekki síst Flórsleikir. Einnig er Faldafeykir nefndur meðal hinna níu. Einnig hef ég heyrt talað um Bandaleysi, en hann og Þvengjaleysir eru líklegast sá sami. Sagt að þeir komi af fjöllum til þess að stela „“keipóttum börnum eða skælóttum“ og til þess að ná sér í eitthvað af jólagæðunum. Eru það ýmist þeir eða Grýla sem ræna börnunum og eru þau höfð til átu þar á bæ. Af nöfnum þeirra má sjá að þeir gerðu fólkinu ýmsa grikki og skráveifur að auki.
Ég tek hér beina tilvitnun úr Íslenskum þjóðháttum:
„Á Austurlandi var önnur sögn um jólasveinana; er þeim var svo lýst að þeir séu að vísu í mannsmynd, nema að þeir séu klofnir upp í háls, en því miður man ég ekki uppruna þeirra og ekki heldur hvað þeir eiga að gera. En allar líkur eru til, að það séu eldri sagnir en hinar.“
Einhverjar sagnir eru um það að klofnu jólasveinarnir komi af sjó.
Í bókinni er líka skemmtilegur fróðleikur um Grýlu. Börn voru hrædd með henni ef þau þóttu óþæg eða þóttu ekki vinna verk sín nógu vel. Þá áttu ýmist Grýla eða jólasveinarnir að hirða þau í pokana sína. Hún tekur þau börn sem
„æpa og hrína; hirðir hún þau og hefir til bíslags á jólunum handa sér og karli sínum. Henni kippti þar í kynið við önnur tröll að þykja mikið til koma að hafa nýtt mannaket á jólunum. Eru margar sagnir um það og sumar framan úr forneskju.“
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er áfram fjallað um Grýlu, maka hennar og börn. Sagt að Grýla sé meira að segja nefnd með öðrum tröllum í Snorra-Eddu. Hún og Leppalúði voru bæði mannætur. Var hún all ófrýnileg úlits þó mismunandi lýsingar séu til, hún er þá sögð hafa „hala fimmtán en á hverjum hala hundrað belgi en í hverjum belgi börn tuttugu“, sumsé e-ð um 30.000 börn í eftirdragi. Einnig sagt að hún sé með hófa og horn. Svo er annars staðar getið þess að hún sé sögð hafa „ótal hausa og þrenn augu í hverju höfði“ og enn segir að hún hafi
„kartnögl á hverjum fingri, helblá augu í hnakkanum og horn sem geit, eyrun lafi ofan á axlir og áföst við nefið framan. Hún var og skeggjuð um hökuna og fór bskeggið ekki betur en hnýtt garn á vef og hékk þar við bót eða flóki, en tennurnar voru sem grjót ofnbrunnið.“
Grýlu er eignaður sægur af börnum sem ekki tjóir að telja upp öll hér, vegna fjölda, auk jólasveinanna. Alla vega 31. „Ef þið þekkið vísuna Grýla kallar á börnin sín“ eru þar nokkur nefnd. Minna segir af Leppalúða, hann hafi verið „að öllu samboðinn henni í háttum sínum en ekki fullt eins skrímslislegur ef til vill“. Sjálfur hef ég einnig heyrt talð um alla vega einn mann Grýlu í viðbót, Bola, en veit ekkert meira um hann. Leppalúði átti líka „holukrakka einn; það var Skröggur karl sem í fáu var föðurbetrungur“ með stúlkunni Lúpu og er saga hans og frekari upplýsingar í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, en verður ekki endursögð hér.
laugardagur, desember 10, 2005
Í dag eru 50 ár frá því að Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaun. Það var leiðinlegt að komast ekki á hátíðardagskrá í Þjóðmenningarhúsinu. Á löngum lista mínum yfir hluti að gera, ætla ég meðal annars að lesa meira eftir Laxness. Hef sem stendur lesið Íslandsklukkuna, Silfurtúnglið, Napóleon Bónaparti og byrjað á Sjálfstæðu fólki. Hrifnastur var ég af Íslandsklukkunni. Kynni næst að velja Heimsljós.
Líkt og þrír menn á undan mér, mæli ég eindregið með Nóbelsræðu Harold Pinter; Art, Truth And Politics. Hún er eilítið löng en svo sannarlega þess virði að lesa.
föstudagur, desember 09, 2005
Grábjörninn rumskar í bæli sínu við skarkala og urrar önuglega. Hann skreiðist loks úr híðinu, það hryglir í honum og hann klórar sér luralega í úfnum herðakambinum. Atferli grábjarnarins gæti fengið mann til að ætla að kominn væri marsmánuður. Grábjörninn vill leggja áherslu á að honum finnst KissFM einhver sú allra ömurlegasta útvarpsstöð sem eyru hans hafa þurft að þola og að hann ber ástríðufullt hatur til lagsins „Hung Up“ með Madonnu sem glymur þar á ekki meira en tíu mínútna fresti.
Grábjörninn sárvantar kaffi.
fimmtudagur, desember 08, 2005
Próflesturinn er skollinn á hjá yðar einlægum. Eftir að hafa truntað mér í gegn um menntunarkaflann í menningarsögunni, leið mér eilítið eins og heilinn minn hefði sagt "Far vel, Frón" og haldið í jólafrí til Tipperary.
Ástkær amma mín á afmæli í dag og átti ég indæla kvöldstund í kaffi með henni, Vésteini, Lossí og Jónínu.
Amma deilir svo afmælisdegi með öðru mikilsmetnu tónskáldi, því Tom Waits á einnig afmæli í dag.
Lengra verður þetta blogg ekki, því nú ætla ég mér að skríða í fletið.
Lag dagsins: "You Can't Always Get What You Want" með The Rolling Stones.
mánudagur, desember 05, 2005
Brá mér á skemmtilega tónleika með Dodda í gær. Þar voru Rass og Bob Log III að spila. Rass finnst mér virkilega skemmtileg hljómsveit, hún er einhvern vegin svo hallærisleg að hún verður kúl. Hrátt og grípandi pönkrokk, eins mínímalískt og það gerist, sama má segja um textana, yndislegar línur eins og “óréttlæti er óréttlátt/aldrei það verður tekið í sátt. Uppáhalds lagið mitt með þeim er “Burt með kvótann”.
Það má einnig segja um Bob, að hann var svo hallærislegur að hann var kúl. Hann steig á svið í samfestingi og með stærðar hjálm á höfðinu. Gegn um hann rétt glitti í andlitið og maður sá allav. að hann var með hormottu. Bob Log III er bráðskemmtilegur furðufugl, húmoristi og hafði mikinn hillbillí-redneck-sjarma. Hann spilaði einhvers konar hrátt og suddalegt redneck-hillbillí hráttblús-pönk-fönk-rokk. Hann er líka klikkaður gítarleikari. Hann kneifaði stíft ölið og spjallaði við áhorfendur á milli laga.
Bob átti mörg skemmtileg ummæli þetta kvöld. Dæmi: “Skál is ‘bowl’ in English. It’’s like: ‘I’ve got a beer... - and I want a bigger one!”. Eða kynningar hans á lögum: “This is a song about boobs”.
Þá kynnti okkur fyrir “Boob scotch”, og sýndi það á eigin brjósti. Vantaði hann svo sjálfboðaliða til að halda áfram. Tveir karlar koma upp á svið.
Bob: “Common, Iceland! I came all the way from Arizona and is this all you have to offer? I mean, guys... I appreciate the thought...”
Hugrökk stúlka gaf sig loks fram og uppskar mikinn fögnuð. Sagði Bob “boob-scotchið” fyrirtaks leið til að eignast vini. Ég tel að þetta sé hefð sem verði að breiða út á Íslandi. Annað lag var um að klappa brjóstum, og hvatti Bob alla til að taka þátt, karla sem konur. Í seinasta laginu fékk hann tvær stúlkur til að tylla sér á sitt hvort kné honum á meðan hann spilaði lag sem hann sagði vera “The fastest goddamn song in the world!” Svo var eitt um gítarinn hans o.s.frv. Þetta voru þrælskemmtilegir tónleikar.
Lauk kvöldinu á að við Doddi fórum til mín hvar við sötruðum rauðvín, gæddum okkur á ostum og horfðum á 24 Hour Party People.
föstudagur, desember 02, 2005
fimmtudagur, desember 01, 2005
Gleðilegan fullveldisdag!
Í dag hefur ANSWER boðað til alsherjarverkfalls í Bandaríkjunum til að mótmæla stríðinu í Írak. Er tilefnið einnig að 50 ár eru liðin frá því að Roasa Parks neitaði að gefa eftir sæti sitt í strætisvagni og láta hvítann mann fá það í staðinn. ANSWER hefur byggt upp mikið fylgi og unnið stóra sigra undanfarið og nú tefla þeir djarft, annað hvort munu þeir græða mikið eða tapa mikið, eftir því hvernig fer. Ég þori því miður ekki að búast við of miklu, en óska þeim alls hins besta. Nú er einungis að bíða og sjá.
Einnig vil ég benda áhugasömum á að Háskólakórinn syngur tvö lög í hátíðarsal í aðalbyggingu Háskólans á morgun á hátíðardagskrá rektors.
Í gær var alþjóðlegur samstöðudagur með Palestínu. Um kvöldið voru styrktartónleikar, til styrktat Öryrkjabandalagi Palestínu. Á tónleikunum spiluðu Jakobínarína, Þórir AKA My Summer As A Salvation Army Soldier, Siggi úr Hjálmum, Reykjavik! og Mr. Silla. Allir tónlistarmennirnir gáfu tónlist sína til stuðnings framtakinu.
Þessir tónleikar voru einstaklega vel heppnaðir. Efri hæðin, þar sem tónleikarnir fóru fram, var troðfull, að giska 250-300 manns voru þar saman komin. Og það á þriðjudegi! Rétt í þessu var ég að lesa á heimasíðu félagsins að alls hefðum við safnað 197.400 krónum. Var það einnig gegn um sölu á sérhönnuðum bolum og peysum, sem Sara og Tolli hjá Nakta apanum og Jón Sæmundur hjá Dead hönnuðu, merkjum og kafíum. Ég tók þátt í Ég vil vekja athygli á að enn er eitthvað af bolum eftir til sölu Sveinn Rúnar er nýkominn frá Palestínu og hélt öflugt erindi um ástandið þar. Það var frábær stemmning og manni þótti vænt um þá gífurlegu samstöðu sem maður skynjaði á þessum tónleikum. Við vorum að vonum alsæl með hvernig til tókst. Söfnunin til styrktar öryrkjum í Palestínu heldur áfram, og ef þið viljið leggja henni lið getið þið lagt fé inn á bankareikning 542-26-6990 (kt 520188-1349) - merkt "Öryrkjar í Palestínu".