Einar fór í bíó, pars quintus:
Der Untergang
Ég fór á Der Untergang í gær og hún skilaði aldeilis sínu. Mögnuð mynd sem skilur mann eftir sleginn. Ég held að fáar myndir komist jafn nálægt því að lýsa raunveruleika og firringu stríðsins. Eins og flestir vita lýsir þessi mynd síðustu dögunum í ævi Hitlers í neðanjarðarbyrginu á meðan barist er um Berlín. Firringin er algjör. Myndin er einstaklega vel gerð en eflaust stendur túlkun Bruno Ganz upp úr. Það er ekki auðvelt verk að túlka Adolf Hitler. Annað hvort gerir maður það listilega eða hræðilega. Mér fannst Ganz takast listilega. Hann sýnir okkur aldraðann Hitler sem er bugaður og beygður, firrtur og ofsóknaróður. Ýmist er hann niðurdreginn og vonlaus eða kennir mönnum sínum og þjóðinni um að hafa svikið sig, ellegar hann fyrirskipar árásir með ímynduðum herstyrk og heldur því fram til streitu að hann hafi gert rétt.
Maður sér brostnar hugsjónir hrynja; nasismann, foringann og þriðja ríkið sem virtist ósigrandi, blinda húsbóndahollustuna og óttann sem glíma við skynsemi, menn smjaðra fyrir Hitler eða ljúga að honum og mátt sjálfsblekkingarinnar. Það var e.t.v. skelfilegast að sjá frú Göbbels þegar hún sagði að hún vildi fremur að börnin sín dæju heldur en að alast upp í þjóðfélagi án nasismans.
Eins og e-r gagnrýnandi benti réttilega á þá fær maður tilfinningu fyrir Nýju fötum keisarans, keisarinn er nakinn, og reyndar allt Þriðja ríkið en enginn þorir að benda á það. Enda ekki svo auðvelt að rísa gegn Foringjanum, sem allt hafði oltið á, jafnvel þegar allt er tapað og foringinn búinn að missa veruleikaskyn. Hitler er orðið sama um allt, einnig sína eigin þjóð sem hann telur hafa svikið sig (líkt og flesta aðra) og að hún hafi sjálf kallað ófarirnar yfir sig. Að ýmsu leiti er sumt af þessu óhugnarlega satt, en menn geta endalaust deilt um hversu mikinn þátt þýska þjóðin átti í að koma Nasistum til valda. Engu að síður er átakanlegt að horfa upp á fall Berlínar, dauða manna kvenna og barna auk þess að sjá fámennt lið hermanna, illa vopnum búnir í sjálfsmorðsstríði við algert ofurefli.
Í allir firringunni skynjar maður þó einnig að þetta voru allt saman manneskjur, með allla sína galla. Þ.e.a.s. ef maður ákveður að e-r sé skrímsli og lætur þar við sitja þá einfaldar maður hlutina of mikið og sjáum ekki hve illskan er bindandi fyrir menn, að hvatirnar og getan til að gera illt sem dvelur einhvers staðar í öllum mönnum og forðumst að líta í eigin barm.
og sér ekki illskuna sem blundar í manninum og getu hans til að gera illt, og forðumst að líta í eigin barm.
Bróðir minn benti mér á, eitt sinn er við röbbuðum, að eins mikið og maður les og sér um Heimstyrjöldina, helförina og nasismann, þá er þetta manni alltaf fjarlægt. Þessir atburðir hafa einhvern veginn tekið á sig goðsagnakenndan blæ. Því finnst mér alltaf jafn ótrúlegt að amma mín var í Berlín áður en henni var rústað og hún sá Hitler og Mussolini með eigin augum þar sem þeir óku framhjá í bíl. Amma mín verður áttatíu og sjö ára í ár og er afar ern. Við bræður vorum staddir í Berlín fyrir nokkrum árum, ásamt mömmu. Þar er e-ð 80-90% nýjar byggingar, byggðar eftir stríð. Þar var meðal annars rústir af Kaiser Wilhelms Gedächtnichskirche, og stúð bara framhliðin; anddyrið eftir. Inni gat maður svo séð á ljósmynd að þetta hafði verið glæsileg gotnesk kirkja. Einnig sáum við rústir aðaljárnbrautarstöðvarinnar, þar var einnig bara smá af framhliðinni sem enn stóð, en maður sá að þetta hafði verið tilkomumikil bygging.
Amma mín gekk framhjá kirkjunni heilli á hverjum degi þegar hún var úti og hefur áreiðanlega einnig komið að járnbrautarstöðinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli