þriðjudagur, júní 28, 2005

Honey Hor-Nay (It’s french): Don’t you just loove music?
Garth: Got any Megadeth?

--Wayne´s World

Megadeth


Nú er ég glaður á góðri stund. Fór á Megadeth á Nasa í gær. Hingað til hef ég ekki haft djúpa þekkingu á plötum þeirra (þó ég þekki nöfn) en þekkt dálítinn slatta af lögum og fílað þau mjög vel. Svo það var dálítið leiðinlegt að geta ekki sungið með í fleiri lögum. Fyrst í stað þótti mér miður að þeir fengu ekki stærri stað að spila á en í staðinn skapaðist þeim mun nánara samband milli hljómsveitar og áhorfenda. Fólk var þar á öllum aldri, yngstu sem ég sá voru ca. 9 ára en þau elstu komin yfir miðjan aldur. Fyrst hitaði Drýsill upp og voru mjög góðir, látúnsbarkinn Eiríkur Hauksson er líka þungarokkari Íslands nr.1 að mínu mati. Hljóðkerfið var þó dálítið böggandi þegar Drýsill léku en virtist það vera komið í nokkuð gott lag þegar aðalmennirnir stigu á svið. Eftir hálftíma bið var stemmningin orðin rífandi, allur skarinn hrópaði ýmist „Megadeth“ eða „Dave Mustaine“ uns goðin birtust loks á sviðinu. Megadeth spiluðu í rúmlega tvo tíma og léku öll sín bestu lög, eins og Symphony for Destruction, Holy Wars, Piece Sells, Hangar 18 og In My Darkest Hour. Mikið djöfulli rokkuðu þeir feitt. Harður hraður og þungur melódískur og grípandi og umfram allt skemmtilegur og góður thrashmetal. Mikið skemmti ég mér vel, ójá! Dave Mustaine er líka þungarokkið holdi klætt, með loðinn makkann lafandi niður í augun, eitursvalurgaur, gítargoð af guðs náð og virkaði afar viðkunnanlegur að auki. Riffin hjá manninum eru sjúkleg. Bandið var allt þrusugott og þétt. Það lá vel á okkar mönnum og voru ánægðir með dvöl sína hér og viðtökurnar. Húsið var troðið fram að dyrum og ég hef sjaldan séð aðra eins stemmningu á tónleikum. ALLIR voru í stuði, skælbrosandi, hoppandi, slammandi og með hendur upp í loft, hrópandi með, air-surfandi. Jörðin skalf. Gleraugun mín flugu af mér en fólk vék og hjálpaði mér að leita og mér voru rétt þau aftur í heilu lagi. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að halda því fram að þetta hafi verið meðal allrabestu þungarokkstónleika sem ég hef farið. Það er líka bersýnilegt að ég mun kafa dýpra í katalóg þessarar mögnuðu sveitar. Vel sé þeim sem veitti mér.

Í kvöld ætla ég að kíkja í Stúdentakjallarann að sjá Malneiophreniu spila. Ég hef ekki séð þá spila síðan að þeir hétu Medectophobia. Þá léku þeir góða tónlist og býst ég ekki við öðru af þeim núna. þeir sömdu m.a. tónlist við leikritið Miljónamærin snýr aftur öhh... held að það hafi verið 2003. Þeir voru allir í MR. Miðaverð er 500 km, en þeir eru að safna í ferð til Ítalíu og munu þeir leika þar. Fyrir þá sem vilja hlýða á góða tónlist og styðja gott málefni held ég því að væri þjóðráð að bregða sér í Stúdentakjallarann kl. 9 í kvöld.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.