Í dag er grein eftir mig á blaðsíðu 3 í Lesbók Morgunblaðsins um átökin í Palestínu. "Að deila eða drottna" nefnist hún. Lesið hana.
Tékkið svo líka á grein Ármanns Jakobssonar, "Lýðræðið í Palestínu" á bls. 12 í Fréttablaðinu í dag. Fín grein, það.
laugardagur, júlí 28, 2007
föstudagur, júlí 27, 2007
Lag dagsins: Living on a Prayer með Bon Jovi.
Pabbi fann fyrir mig Zadig eða örlögin eftir Voltaire. Hæstánægður með það.
Brá mér á Taxi 4 í gær (þ.e. fimmtudag). Hún var góð skemmtun. Svo er stefnan tekin á Simpsons The Movie á morgun. Þar er mynd sem þarf að standa undir miklum væntingum. Trailerarnir hafa mér þótt lofa góðu og margir af fremstu handritshöfundum þáttanna voru fengnir til að vinna handritið.
Farinn að sofa. Bis später.
miðvikudagur, júlí 25, 2007
Ég minni lesendur á heimildamyndina Alive in Limbo sem RÚV sýnir kl. 22:25 í kvöld. Sjá færslu mína laugardaginn 21. júlí.
Í Lesbók Morgunblaðsins á laugardag, þann 28. júlí verður grein eftir mig um átökin í Palestínu; Að deila og drottna.
Lag dagsins: Child in Time með Deep Purple af plötunni In Rock. Hér má líka sjá þá flytja lagið í sjónvarpi 1970:
Frændi minn, Skírnir Jónsson, fyrum bóndi á Skarði í Dalsminni lést í fyrradag. Hann hafði verið heilsulítill lengi en lést úr heilablóðfalli. Þegar kær ættingi eða vinur deyr hugsar maður maður oft hvað maður hefði viljað hitta hann aftur og tala við hann og maður finnur til saknaðar. Ef ég gæti kallað einhvern dreng góðan, þá væri það Skírnir frændi. Ég mun alltaf eiga hlýjar minningar um hann, en við reyndum alltaf að heimsækja Skarð þegar við áttum leið um Eyjafjörðinn og var ævinlega vel tekið. Jórunn systir mín var í sveit á Skarði og var eins og enn eitt barnið í hópnum. Mér fannst mér alltaf eins tekið þegar ég var á Skarði, enda kynnist maður vart betra fólki en Skírni og Dísu. Skírnir verður jarðsettur næstkomandi fimmtudag.
Ég fagna endurútgáfu tveggja meistaraverka Gunnars Gunnarssonar, Svartfugls og Aðventu, ég tel þær meðal bestu verka sem ég hef lesið eftir hann. Sjá eldri umfjöllun á þessu bloggi um upplifun mína af Svartfugli og Aðventu. Það eina sem ég get amast yfir er kápan, ef marka má ljósmynd sem ég sá í Mogganum í dag. Hún þykir mér afar púkaleg og mér finnst svona góðar bækur eiga skilið fallegri kápu. Ég vildi óska þess að lesendur dæmi ekki bókina eftir kápunni, en ljóst er að við gerum það mörg, allav. upp að vissu marki, og það er svo sem ekkert skrýtið. Eins hefði mátt koma fram í fréttinni sem ég las hvort um er að ræða þýðingar Gunnars sjálfs, sem hann gerði á efri árum eða þýðingar Magnúsar Ásgeirssonar. Aðventu las ég í afbragðs þýðingu þess síðarnefnda, en Svartfugl á dönsku.
Ég er kominn með nýjustu Harry Potter-bókina og kann kærar þakkir til Kristjáns. Nú skal lesið. Ég hef hingað til ekki kært mig vitund um að hlýða á getgátur eða vísbendingar um söguþráð eða málalok, ég vil einfaldega fá að lesa sjálfur bókina í friði. verður mér þá hugsað til einnar útgáfu Planet of the Apes þar sem endirinn er framan á hulstrinu. Þier hefðu allt eins getað gert kvikmynd sem héti "The Butler Did It", nú, eða "Colonel Mustard With a Spanner in the Library".
Lag dagsins: The Flame Still Burns úr kvikmyndinni Still Crazy. Sú mynd er í miklu uppáhaldi hjá andaktunginum og tónlistin úr henni sömuleiðis. Skítt með myndbandið sem einhver dúður gerði á youtube, það er aðeins lagið sem ég vildi deila með ykkur.
þriðjudagur, júlí 24, 2007
Ég finn ég verð
Hér sit ég enn í sömu vanans skorðum
hve sárt og djúpt sem tímans þyrnar stinga
og leita skjóls í löngu dauðum orðum
- ó lífsins kjarni: nær á ég að springa?
Ó nær á ég að sundrast þrjóskur þungur
í þjóðar minnar brjósti fullur kvíða
og stökkva síðan endurfæddur ungur
úr eldinum og láta höggið ríða?
Ég þoli ei lengur heljarmannsins hola
og heimska vald sem aðeins kann að deyða
ég verð að brjóta það í þúsund mola
- ó það er höggið sem ég verð að greiða.
Ef vítislogar hinna gullnu hringa
sem heiminn spenna skulu eitt sinn dvína
ég finn ég verð - ég finn ég verð að springa
og fæða að nýju alla veröld mína.
-- Jóhannes úr Kötlum, Tregaslagur, 1964.
mánudagur, júlí 23, 2007
Það er grein eftir bróður minn á bls. 22 í Morgunblaðinu í dag. Trúarbragðafræðsla eða kristniboð nefnist hún. Prýðis grein sem ég mæli með því að fólk lesi.
Á sömu opnu gagnrýnir Ögmundur Jónasson Ingibjörgu Sólrúnu í greininni Óraunsæi utanríkissráðherra . Fæ ég ekki annað séð en að þetta sé makleg gagnrýni og að ég geti tekið undir flest sem hann þar segir. Mæli einnig með að fólk lesi hana.
Ögmundur Jónasson og andaktungurinn eru ekki þeir einu sem hefur þótt ýmislegt athugavert við heimsókn utanríkisráðherra og ummæli hennar. Mengella skrifar fína færslu um þetta undir fyrirsögninni „Aulahrollur“. Tjékk it át.
Lag dagsins: God's Gonna Cut You Down í flutningi Johnny Cash.
laugardagur, júlí 21, 2007
Alive in Limbo
Gott hjá RÚV að sýna Alive in Limbo í næstu viku. Þetta er afbragðs heimildamynd um stöðu palestínsks flóttafólks í Líbanon, aðallega er fylgst með fjórum börnum um tíu ára skeið auk eins líbansks drengs. Mæli eindregið með henni. Það er líka skrifað um hana í sunnudagsmogganum. Þetta myndi ég vilja sjá meira af hjá RÚV, góðar heimildamyndir sem beina sjónum að mikilvægum samtímamálum. Eða bara fleiri góðar kvikmyndir yfirleitt, ef út í það er farið, t.d. að RÚV sýndi meira af klassískum myndum og lykilmyndum í kvikmyndasögunni.
Ég sá Alive in Limbo fyrst á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík árið 2004 og reit þá færslu um hana og fleiri góðar myndir sem ég sá á hátíðinni.
Annars lýst mér helvíti vel á komandi kvikmyndahátíð, þar verða m.a. fjórar myndir um stríðið í Írak, sem hver nálgast málið frá ólíkri hlið.
fimmtudagur, júlí 19, 2007
Smástiklur
Ég hata að týna dóti. Nú finn ég ekki bókina sem ég var nýbyrjaður á, Zadig og örlögin eftir Voltaire. Skyldi ég hafa gleymt henni hjá e-um kunningjanum eða skyldi sá hinn sami rekast á hana er viðkomandi beðinn að láta mig vita. Ég fann hins vegar Mannabörn eftir Lu Xun (ritaður Hsun í bókinni) og Sirens of Titan eftir Kurt Vonnegut á bókasafninu og uni því bærilega við mitt.
Nú styttist í síðustu Harry Potter-bókina og ég er spenntur fyrir henni. Ég stefni á að fara með Arnhildi systur og Ágústu dóttur hennar á Harry Potter and The Order of Phoenix við tækifæri. Maður er bara svo önnum kafinn við vinnu þessa dagana. Brá mér þó á söngæfingu með henni og frænkum fyrir ættarmótið í næsta mánuði. Það voru fagnaðarfundir, við höfðum ekki heist í nokkurn tíma þó gagnkvæmur vilji þess hafi verið fyrir hendi. Æfingin gekki vel og var bráðskemmtileg, voanst til að eiga þriðjudagskvöldin laus á næstunni til að æfa.
Ég hef verið að vinna í Palestínugreininni minni í dag og vonast til að ég geti fengið hana birta í Lesbókinni Laugardaginn 28. júlí. Vandamálið við greinaskrif um líðandi stund felst í orðana hljóðan; margt og mikið gerist og það hratt, ekki síst þarna. Við bætist að ég vinn mikið.
Morgunvakt á morgun. Þarf að ganga til náða. Bis später.
laugardagur, júlí 07, 2007
Icky Thump
Andaktungurinn keypti sér um daginn nýju plötuna með The White Stripes, Icky Thump. Eins og margir lesendur kynnu að vita hefur andaktungurinn verið einlægur aðdáandi sveitarinnar frá því að Bastarðurinn vinur hans skrifaði fyrir hann Get Behind Me Satan og þeir félagar fóru á magnaða tónleika sveitarinnar í Laugardalshöll. Þessi nýja plata er góð. Mjög góð. Fjölbreytt, þétt sem klettur og rokkar feitt. Hún hefur enda verið i mikilli spilun hjá andaktungnum síðan. Eitt af fjölmörgum góðum lögum á plötunni, sem eru í raun hvert öðru betri, er titillagið, sem fær að fljóta hér með þartilgerðu myndbandi. Andaktungurinn væri til i að fá þau hingað aftur. Eins væri andaktungurinn til í að fá The Racountres til landsins. Svo væri nottlega ekkert leiðinlegt að fá hingað Electric Six (a.k.a. Dick Valentine og hverja þá sem hann kýs að spila með hverju sinni).
The White Stripes - Icky Thump
fimmtudagur, júlí 05, 2007
Transformers-forsýning í kvöld
Í kvöld rifja ég upp gömul kynni af góðvini mínum og hetju, Huga, eða Optimus Prime eins og hann heitir á frummálinu, og kyn(eða vél-?)bræðrum hans. Nexus-forsýning á Transformers. Miðaverð 1500 kr. Selt í Nexus og myndin er sýnd kl. 20:00 í Kringlubíó. Ég hvet lesendur til að skella sér. Gefðu nördasjálfinu útrás. Vermdu þig við nostalgíuylinn. Skemmtu þér einfaldlega vel. Það ætla ég allav. að gera. :)
Ég bendi áhugasömum á heimasíðu myndarinnar og dóma á Rotten Tomatoes og Independent Movie Database