Alþjóðleg kvikmyndahátíð
Ég mæli með því að fólk reyni að ná í skottið á alþjóðlegri kvikmyndahátíð. Sýningar eru til og með morgundeginum og eru haldnar í Háskólabíói og Regnboganum. Hef ég séð fjórar afbragðsmyndir og hef hugsað mér að skella mér aftur í kvöld.
Fyrst sá ég Jargo. Segir þar frá tveimur vinum, unglingspiltum í Berlín. Jargo er þýskur alinn upp í Sádi-Arabíu en Kamil Tyrki, alinn upp í Þýskalandi. Segir svo myndin frá vináttu þeirra, ástinni, ólíkum menningarheimum og hefðum sem þeir reyna að fóta sig í og uppgjöri.
Næst sá ég heimildamyndina Control Room. Þar er fjallað um mismunandi fréttaflutning bandarískra fjölmiðla og arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera um stríðið í Írak.
Al Jazeera er umdeildasta sjónvarpsstöð Arabalandanna en um leið sú vinsælasta. Hefur hún sætt mikilli gagnrýni fyrir opinskáar myndir og fréttaflutning, og gagnrýni á arabísk stjórnvöld enda hefur stöðin einsett sér að draga ekkert undan og hefur að einkunnarorðum að sýna báðar hliðar og flytja sannleikann. Hún lýsir skýrt andstöðu við stríðið og stefnu Bandaríkjastjórnar en stjórnendur hafa þó aldrei haft neitt á móti bandarísku þjóðinni. Yfirmaðurinn lýsti t.d. trausti sínu á bandarísku stjórnarskránni og þjóðinni, að hún myndi fyrr eða síðar rísa upp á móti gerræðisstjórninni og annar sagðist myndu vilja að börnin sín fengu menntun í Bandaríkjunum. Stöðin sýnir t.d. hvað Bandarískir ráðamenn hafa að segja um stefnuna og ráðagerðir og ræðir við bandaríska hermenn. Eitt eftirminnilegra aðriða í myndinni er bandarískur liðþjálfi (að mig minnir) sem í upphafi myndar trúir að hann og félagar hans séu að breyta rétt með innrásinni (myndin spannar dágóðan tíma). Seinna í myndinni lýsir hann viðbrögðum sínum við að sjá annars vegar fallna íraska hermenn en síðar bandaríska í sjónvarpi. Og hann lýsir því hve hann hryllti, þegar hann fann að honum hafði orðið mun meira um að sjá fallna vopnabræður en er hann sá írösku hermennina, og hafði ekki orðið sérlega brugðið við fyrri sýnina. Og þá sá hann margt í nýju ljósi, hvernig það er fyrir íraka að sjá fallna landa sína í sjónvarpi. Myndin fær mann til að tortryggja enn fremur áróður herliðsins og Bandaríkjastjórnar. Einnig vissi Al-Jazeera að þeir tækju áhættu með því að hafa fréttamann uppi á þaki að skýra frá atburðum þegar árásin var gerð á Bagdad. Skyndilega lækkar bandarísk herflugvél sig og stefnir í átt að byggingunni, höfuðstöðvum Al-Jazeera. Fréttamaðurinn fórst í árásinni. Varpað var sprengjum á 3 eða 4 aðrar fréttastofur, ef ég man rétt. Ekki kom bein afsökunarbeiðni en opinber yfirlýsing barst frá herliðinu, þar sem haldið var fram að vopnaðir hermenn hefðu verið á þakinu eða við næstu byggingu. Þetta náðist á filmu og ekki varð ég alltént var við þá vopnuðu hermenn sem sagt var frá. Átakanlegast var þó að sjá konu fréttamannsins, þegar hún sagði að maðurinnn sinn hefði dáið við að flytja heiminum sannleikann. Og hún bað þess að hann hefði ekki dáið til einskis, heldur bað hún að sannleikurinn yrði sagður umheiminum. Það vona ég að reynist rétt.
Næst sá ég heimildamyndina Alive in Limbo. Fjallar hún um líf paletínsks flóttafólks í flóttamannabúðum í Líbanon. Er þar aðallega talað við 3 ungmenni. 2 þeirra eru palestínkt flóttafólk en einn Líbani sem hefur liðið fyrir stríðsátök í heimalandinu. Í myndinni lýsa þau hvernig þau upplifa ástandið og segja frá vonum sínum og draumum. Myndin spannar tíu ár, frá 1993 til 2003. Við upphaf hennar stendur innrás Ísraelshers undir forustu Ariel Sharon, sem þá var hermálaráherra, yfir og lýsir myndin um leið stríðsglæpum hans og hersins og viðbrögðunum þegar herinn dró sig til baka. Kvikmyndafólkið heimsótti svo ungmennin aftur og sér afdrif framtíðardraumanna.
Þriðja myndin sem ég sá var hreint afbragð og e.t.v. besta myndin sem ég hef séð hingað til á hátíðinni. Það varFerðin langa eftir Vestur-Íslendinginn Sturlu Gunnarsson. Myndin gerist í Indlandi 1971 þegar Indira Ghandi er við völd. Allt landið logar í ófriði og stjórnvöld eru gjörspillt. Aðalpersónan er bankastarfsmaður sem má muna meiri allsnægtir frá því þegar Bretar voru við völd. Hann glímir við breytta heimsmynd og átök í heimalandi sínu en einnig á eigin heimili. Myndin er tekin upp ,,on location” í Indlandi, Bombay að mig minnir.
Loks sá ég myndina The World´s Saddest Music eftir Vestur-Íslendinginn Guy Maddin. Hún er byggð á skáldsögu eftir Kazuo Ishiguro, sem einnig reit Remains of the day. Hún gerist á kreppuárunum í Winnipeg. Bjórverksmiðjueigandinn Lady Port-Huntley (Isabella Rosselini) heldur alþjóðlega keppni um hvaða þjóð eigi terafyllstu tónlist í heimi. Þetta er mjög sérstök mynd. Myndin er í senn afar fyndin og gáskafull en hins vegar dramatísk og tregafull og skartar mjög sérstökum og furðulegum persónum. Mér þótti myndin flétta þessum hughrifum vel saman. Það sem mér fannst sérlega skemmtilegt við myndatökuna er að hún er gerð eins og myndin væri ca. áttræð, svarthvít á gamaldags filmu. Þá minnti óvenjuleg myndatkan mig oft á þýskan expresjónisma, ekki síst þá ágætu mynd Das Cabinett Des Dr. Caligari.
Dagskrána má svo nálgast á www.filmfest.is, í Háskólabíói og Regnboganum, aftan á sætum í strætó og eflaust á ýmsum kaffihúsum. Það vona ég að fólk skelli sér og að myndirnar megi veita þeim sama fróðleik og sömu ánægju og þær hafa veitt mér.
miðvikudagur, nóvember 24, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli