Og Natten gik. Denne Nat, der var som et Dyb af Elendighed, gennem hvis blodtætte Mørke Haab og Tro kun svagt glimtede, som fjerne Stjerner; som disse frosne og glødende Kloder, vore blinde Drømme og svagtseende øjne fortvivlet omfamler.
Fyrir nokkrum dögum kláraði ég Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. Ég var mjög hrifinn af bókinni en hana las ég á dönsku. Gunnar samdi verk sín á dönsku, enda náði hann til stærri hóps þannig og fannst mér viss áskorun að ætla mér að lesa hann á dönskunni. Nú bjó ég vel að hafa lesið Andrés Önd frá unga aldri á dönsku, sem og að vera einlægur aðdáandi Olsen-Banden myndanna, sem og að hafa lesið þunglyndislegar sögur um fólk í tilvistarkreppu í Kristianiu.
Sagan er byggð á þekktu morðmáli sem átti sér stað um 1800 á Rauðasandi á Vestfjörðum. Þá var Bjarna Bjarnasyni og Steinunni Sveinsdóttur stefnt fyrir dóm fyrir að hafa myrt maka sína, Guðrúnu Egilsdóttur og Jón Þorgrímsson.
Í upphafi sögunnar rifjar séra Eyjólfur Kolbeinsson, eftir missi sonar síns, upp þá ógnarlegu atburði sem áttu sér stað 17 árum áður, þegar hann var ungur. Hann rifjar upp þátt sinn í dómsmálinu og ásakar sjálfan sig vegna þeirra áhrifa sem orð hans og gjörðir hafi haft á málið.
Sagan er, líkt og Fjallkirkjan skrifuð af dýpt og mannþekkingu. Andrúmsloftið sem mér fannst ég skynja í bókinni mætti lýsa sem ,,myrkri nótt sálarinnar”. Hér lýsir vofeiflegum glæp í afskekktri byggð og í bókinni kafar Gunnar í djúp mannsálarinnar. Hann kannar þann breyskleika, girnd, kvöl og syndir sem geta sprottið í fylgsnum hjartans og haldast í hendur. Hann fjallar um hvernig rógur getur myrkvað og eitrað hugi fólks og um það vald sem mennirinir taka sér yfir lífi og dauða náungans í nafni Réttvísi.
Varð mér við lesturinn sterklega hugsað til þessara orða sem stóðu í Fjallkirkjunni, þar sem fólk á bæ einum hafði stolið sauð og etið í neyð sinni. Það hafði verið gripið og var nú fordæmt og útskúfað:
Sú bróðernishugsjón sem menn játast svo óðfúsir stendur að jafnaði nokkuð grunnt. Að minnsta kosti vörumst við að láta hana taka til fallinna bræðra okkar og systra. Væri samt ekki nær að fara læknishöndum um meiðsl sálarinnar eins og gert er við líkamleg sár? Einn misstígur sig og fótbrotnar, annar fargar ,,í misgripum” kindum nágranna sinna. Vér sjáum þeim sem varð fyrir hinu minna tjóni fyrir sjúkrahússvist og aðhjúkrun, hinum köstum vér í fangelsi og brennimerkjum hann. Það er grunnt á tárunum hjá mannfólkinu, lengra til vorkunnarinnar. Verulegri náð mæta hinir bágstöddu ekki nema í moldinni þar sem Guð mun geyma okkar allra að síðustu uns hann vekur okkur frá dauðum skírri en fyrr.
Því teflir höfundur móti bölinu samúðinni, og samkenndinni. Örlög allra manna eru samofin. Þeir verða að taka ábyrgð á sjálfum sér og hver á öðrum, gæta bróður síns og koma honum til bjargar ef hann misstígur sig eða líf hans myrkvast.
Og þrátt fyrir sorgir og dimm örlög má skynja trú á lífið og sigur þess. Því vil ég ljúka þessari umfjöllun á eftirfarandi tilvitnun í Svartfugl:
Meget tydeligt huskede jeg den Dag, Bjarni talte om . . . En svimlende, havpisket Bjergvæg, der set nedefra, fra en gyngende Baad ligesom groede ind i Himlen. Et Uvejr af larmende Fugle - et hvidglimtende og sortgnistrende Skum af Svartfugl, der som en Fortsættelse af Brændingen, hvirvlede op ad den sorte Klippe og blev borte i Bjergets Taager. Da jeg som Barn første Gang saa dette Syn, havde jeg ikke et Øjeblik tvivlet om, at det var selve det troldske Hav, som i vild Leg sprængte vingede Fisk af sin Bug. Endnu i Fjor var det kriblet koldt igennem mig, ved Mødet med Fuglebjergets fantastiske, naadeløse, uudryddelige Liv; denne Storm af Liv, hvor i Larm og Stank og Snavs Tilværelsen triumferer, Livet fornyr sig - springer ungt og friskt og blodvarmt af den golde Klippe. Hver Sommer!
þriðjudagur, október 26, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli