þriðjudagur, júlí 24, 2007

Ég finn ég verð

Hér sit ég enn í sömu vanans skorðum
hve sárt og djúpt sem tímans þyrnar stinga
og leita skjóls í löngu dauðum orðum
- ó lífsins kjarni: nær á ég að springa?

Ó nær á ég að sundrast þrjóskur þungur
í þjóðar minnar brjósti fullur kvíða
og stökkva síðan endurfæddur ungur
úr eldinum og láta höggið ríða?

Ég þoli ei lengur heljarmannsins hola
og heimska vald sem aðeins kann að deyða
ég verð að brjóta það í þúsund mola
- ó það er höggið sem ég verð að greiða.

Ef vítislogar hinna gullnu hringa
sem heiminn spenna skulu eitt sinn dvína
ég finn ég verð - ég finn ég verð að springa
og fæða að nýju alla veröld mína.


-- Jóhannes úr Kötlum, Tregaslagur, 1964.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.