Fjandi leiðinlegt að missa af þessu: Uri Avnery og Ilan Pappe munu mætast og rökræða um tveggja- eða eins ríkis lausnina á deilu Ísraela og Palestínumanna á opnum fundi. Raunar fer þetta fram í Ísrael og ekki ólíklegt að það verði á hebresku. Pappe mælir með einu ríki en Avnery tveimur, miðuðum við landamærin fyrir 1967. Þeir hafa einnig átt í ritdeilu um sama efni: Avnery gagnrýnir Pappe og félaga og rökstyður tveggja ríkja lausnina í greininni The Bed Of Sodom og Pappe svarar honum í greininni Looking for alternatives to failure: An answer to Uri Avnery. Dæmi svo hver fyrir sig.
Klukkan er tvær mínútur í eitt og ég var að ljúka við tæplega 1800 orða ritgerðina mína um Edwin Morgan sem þjóðfélags- og ástarskáld. Góður er ég. Á morgun er það Seamus Heaney en núna svefn.
Annað kvöld verður síðasti séns að ylja sér við glæður gamla góða opnunartímans á Mokka. Það er sárara en tárum taki að þurfa að kyngja því að Mokka, mín Mekka, minn íverustaður, annað heimili og félagsvettvangur muni ekki framar vera vettvangur kvöldspjalls, hangs, kaffidrykkju og/eða lesturs og/eða náms. Ég hef átt margar mínar ánægjulegustu stundir á kvöldin á Mokka. The sights, the sounds, the smells! Þetta hefur verið staðurinn minn frá því að ég fór að sækja hann með Dodda í Menntó og hann stendur hjarta mínu nær en flestir aðrir staðir. Hér hefur allt verið eins og ég vil hafa það.
Ég hvet alla vildarvini Mokka til að nýta þetta síðasta tækifæri og tek undir með Dodda að eina rétta leiðin til að upplifa Mokka er á kvöldin.
Lag dagsins: Suspicious Minds með Elvis Presley.
Sveittur situr naggur á Bókhlöðunni, klórar sér luralega í herðakambinum og mænir á föngulegar háskólastúlkur. Naggur hefur lokið við lestur The White Hotel og skrif fjórtánhundruðogeitthvað orða enskuritgerðar um endi bókarinnar í Enskum bókmenntum 1945-2000. Hana reit naggur á einum degi. Wer is dein Vater? Bawana-fana-fo! Naggur lauk rétt í þessu við að hnoða saman 800 orða ritgerð í ritþjálfun tvö, samburði á aðalpersónunum í smásögunum Paul’s Case og I’m A Fool. Hún er einhversstaðar miðvegis milli þess að vera linsoðin og harðsoðin. Hún er soðin, segjum það bara. Naggur reit hana á ca. klukkutíma. Þá bíður naggs lestur fyrir prófið á miðvikudaginn. Geti naggur rubbað af annari ca. 1500 orða ritgerð i E. Bókm. fyrir Jay bíða naggs einungis tvær ritgerðarspurningar á prófinu, annars þrjár. Nagg hálf langar í sund, ekki veitir honum af hreyfingunni. Í öðru eins veðri ætti enginn naggur að þurfa að húka inni við ritgerðarskrif. Naggur rúði kjammana í gær. Þessi rytjulegi hýungur hans var farinn að vera honum til ama og fannst naggi hann mun frískari og endurnærðari í kjölfarið.
"...Cos we dig Cos we dig We dig We dig repetition We dig repetition..." -- Repetition með The Fall
Ég ákvað að hafa smá yfirlit með Burkina Faso-ruslpóstinum. Nú eru komin eitthvað 21 bréf síðan ég fór að telja. Annars vegar frá Bank of Africa (BOA) og hins vegar frá African Development Bank (ADB):
Meðal þeirra frá BOA eru bréf frá Hassan Ahmed, "Auditing/Accounting Director BOA" og Mr. Rasheed Suleiman, "Director in charge of auditing and accounting section BOA" (gegna nákvæmlega sama forstjórastarfinu í sömu deild, sama banka, sama útibúi virðist vera) tvíeyinu Moubarik Lompo og Sula Gawa, sem deila stöðunni Manager Audit Accounting Manager og bréf frá fjórmenningunum Yusuf Musa, Abu Joseph, Usuman Gue og Dr. Ame Benjamin sem allir deila líka sama starfinu: “Bills and Exchange manager”. Að sama skapi hef ég líka fengið bréf frá African Development Bank sem eins og Bank Of Africa er staðsettur í Ouagadougo í Burkina Faso. Þar eru bæði Hasan Kude og Davis Wachi “The Director of the Accunts & Auditing Department. Að auki var bréf frá Milik Solman, BILL & EXCHANGE MANAGER/ AUDITING. Nú leikur mér forvitni á að vita hvort þessir bankar, þar sem hver deild þarf bæði deildarstjóra og forstjóra og minnst 2-5 menn til að gegna hvoru starfi, þurfi ekki neina starfsmenn til að vinna önnur störf, t.d. gjaldkera?
Múr? MÚR?? FOKKING #&%&?*** MÚR???!!!!
Guð minn almáttugur...
Paul Wolfowitz, yfirmaður Alþjóðabankans, hugmyndasmiður Íraksstríðsins og yfirlýstur baráttumaður gegn spillingu er nú sjálfur flæktur í spillingamál og vill ekki víkja úr embætti. Nú er verið að setja þrýsting á hann og safna undirskriftum á netinu gegn honum, þar sem skorað er á Alþjóðabankann að reka hann. Ég skráði mig á þann lista fyrir nokkrum dögum og hvet ég lesnedur til að gera slíkt hið sama hér.
Umræðan um kosingabaráttu demókrata í Bandaríkjunum hefur lengi snúist um þetta: “Hvort vinnur blökkumaður eða kona?”. Hvort sem Barak Obama eða Hillary Clinton yrði forseti myndi þetta vissulega marka tímamót hvað þá þætti varðar. Því skil ég ekki hvers vegna repúblíkanar hafa ekki fært sér þetta í nyt. Ef þeir vildu gætu þeir slegið tvær flugur í einu höggi og skotið demókrötum ref fyrir rass. Þeir gætu m.ö.o. sent Condoleezu Rice í forsetaframboð. Það er kannski fyrir bestu að þeim virðist ekki hafa flogið þessi hugmynd í hug ennþá...
Helvítis rusl getur þetta blogger-dæmi verið. Ég tapaði áðan öllum greinamerkjum í tilvitnununum og var ða ðskrifa það aftur upp á word, þ.e.a.s. orðabil, gæsulappir og úrfellingarmerki. Það var gott að ég vistaði skjalið, því mér virðist ómögulegt að paste-a eins og er. “This program is not responding”. Ekki bætir úr skák að ég er að nota internet explorer á tölvunni á Bókasafninu en Mozilla er ekki installað
...
And now for something completely different:
Ég: “Kristján, þegar þú fellur frá, hvort myndir þú heldur vilja vera heygður eða brenndur á skipi?” Kristján: “Brenndur á skipi.” Ég: “Sama hér. Myndirðu ekki vilja að ástkær eiginkona þín færi lifandi með þér á bálið?” Kristján: “Over my dead body!” Ég: “Hmm... já,... það nú svona eiginlega hugmyndin...”
Um daginn vorum við Kristján líka að rabba um heimanám og ég heyri hann segja við mig upp úr þurru: "Jæja, ertu búinn að ríða Önnu Heiðu?"*
Þögn. Ég glápi á hann eins og naut á nývirki, með svip sem lýsti í senn megnustu vantrú og viðbjóði. Er hann eitthvað verri? Jafnvel á hans mælikvarða er þetta ógeðslegt! Stama svo upp úr mér: Bíddu.. HA??? Hvað sagðirðu? Kristján: "Ertu búinn að hlýða Önnu Heiðu?"
Þegar misskilningurinn kom í ljós sprungum við báðir úr hlátri.
*Anna Heiða kennir mér ritlist. Kona á besta aldri.
Það er blessuð blíðan í dag. Dásamlegt veður. Ég vona að veðrið haldist svona næstu daga. Ég vildi að ég hefði haft rænu á því að fara í sund í tæka tíð. Þegar ég loks ræksnaðist þangað eftir kóræfingu var búið að loka. Me miserum. Í morgun naut ég þess að hlýða á upplestur Halldórs Laxness úr Heimsljósi, frá 1955. Halldór var einstaklega góður og skemmtilegur upplesari. Ég hef gluggað í bókina og líkað vel, en ég á eftir að lesa hana spjaldanna á milli. Hef hins vegar alltaf ætlað mér það. Beint á eftir hljómaði Hjá lygnri móðu á píanó, eilítið djasskotið , hljómaði allt í lagi í þessum búning en ekkert sspes. Ekki get ég hins vegar sagt að ég hafi verið jafn hrifinn af sönglögunum sem fylgdu á eftir, samin við ljóð eftir hann. Fyrsta var týpískt létt dægurlag en óttalega leiðinleg raddbeiting hjá söngkonunni. Næstu tvö lög söng Ragga Gísla og Flís lék undir. Fyrra ljóðið býr vissulega yfir nokkrum húmor en ljóðið hentaði að mínu mati engan vegin þessu sjúbbidúa-djassveiflu sem var samin við það og söngur Röggu eftir því. Eins hélt ég ekki að væri hægt að skemma jafn fallegt lag og Maríukvæði Atla Heimis er, en svei mér þá, þeim tókst það. Grútleiðinleg nútímadjass-útsetning. Síðasta lagið, sem ég man ekki hver söng eða samdi var hefðbundanra og lét best í eyrum mínum. Eftir að hafa setið undir þessu með sár eyrun furðaði ég mig þeim mun meira á að þetta hefði verið valið til að fylga eftir lestri Halldórs, miðað við hversu mikið stóð þeim til boða. Tónlist Jóns Ásgeirssonar og Atla Heimis (án froðukenndar útsetningar, takk fyrir) og tónlist Jórunnar Viðar ömmu minnar komu til dæmis í hugann. Kórar eins og Háskólakórinn og Hamrahlíðarkórinn hefðu líka hljóað minnst tíu sinnum betur en þessi hörmung. Hver veit, kannski er ég bara gömul sál...
Hef auk þess verið að hlusta á tónlist ömmu minnar, bolero eftir Ravel gamla góða Ludwig Van og geisladiskinn Good Morning Vietnam - a soundtrack To The 60's.
Í augnablikinu er ég hins vegar að hlusta á hið frábæra lag Suite Judy Blue Eyes með Crosby Stills Nash & Young (CSNY) hvárt þeir flytja hér á Woodstock.
... og hann er einkar hégómlegur. Ég hélt upp á páskana með fjölskyldunni í Lækjartúni og átti afar notalega stund í alla staði. Eftir matinn varð mér litið niður í kjallara og virti þar fyrir mér leikföng systurbarna minna. Þar rak ég augun í gúmmíhauskúpu sem var nokkuð sannfærandi útlits og fór að fíflast með hana. Kjálkinn var laus, og mátti hreyfa hann. Ég setti mig í Hamletíkskar stellingar með miklum tilþrifum og tjáði Hórasi og hverjum sem hlýða vildi að ég hefði nú þekkt hann vesalings Jórík vel. Þá rann upp fyrir mér hvað mig langar í: Mig langar að vera með mannshauskúpu á skrifborðinu mínu. Þar myndi ég feta í fótspor margra mætra manna, m.a. rithöfundarins Ambrose Bierce. Þetta þótti víst nokkuð töff meðal vísindamanna, hugsuða og rithöfunda á sínum tíma, alla vega költ, ef ekki annað. Þessi hauskúpa myndi í senn svala vera mér áminning um fallvaltleika mannlífsins og svala listasnobbi mínu og hégómleika. Það er vel þekkt að menn hafi ánafnað höfuð sitt eða líkama vísindunum en því miður þekki ég ekki mörg dæmi þess að slíkt hafi verið gert til að svala hégómleik og listasnobbi. Ég auglýsi hér með eftir áhugasömum sem vilja arfleiða mig af líkamsleifum sínum. Ef það bregst tékka ég bara á E-bay. Að sama skapi gæti verið flott að vera með uppstoppaðan hrafn í herberginu. “Quoth the raven, ‘Nevermore’”. Fá smá Edgar Allan Poe-fíling. Auðvitað er ekkert skáldlegt við að skrifa á tölvu. Nei, fjaðurpenni skal það vera, og helst skal ritað á kálfskinn. Hyggst ég einnig letra með merarblóði. Ég hef svo aldei sagt skilið við drauminn minn um fljúgandi apaherinn, en mig hefur dreymt um hann síðan að ég las Galdrakarlinní Oz. Ég hef sagt það áður en ég segi það aftur: "Hversu kúl væri það?" “Fly, my pretties! Fly”. Erfðavísindin hafa því miður ekki gert mér þetta kleyft ennþá. Kári Stefánsson má alveg fara að taka sér tak.
Mikil tíðindi í dag: Pravda brennur, Kebab-húsið, Fröken Reykjavík, Kaffi Ópera... (eða hvað það heitir). Allt skíðlogar, reykurinn liggur yfir bænum berst alla leið til Skerjafjarðar. Ég syrgi ekki Pravda sem slíkan, það var megnasti skítastaður, en mér tekur sárt með húsið, sökum sögulegs og menningarlegs gildis þess. Auk þess var húsið sjálft mjög fallegt eins og hin gömlu húsin við hlið þess og settu mikinn svip á bæinn. Hann er fátækari fyrir vikið. Þessi hús voru jafnframt með elstu húsum bæjarins, reist um miðbik nítjándu aldar. Húsið sem nú síðast hýsti Pravda hýsti á sínum tíma Jörund hundadagakonung, og var nokkurs konar höll hans þegar hann ríkti “eitt sumar á landinu bláa”. Það var svakalegt að fylgjast með þessu í fréttunum. Þegar ég fór úr húsi hafði eldurinn blossað í þrjá klukkutíma, allav. frá því að tilkynnt var um hann. Slökkviðið og lögregla eiga hrós skilið fyrir hetjulegt starf. Mannmergðin að fylgjast með, reykkafarar leggja sig í mikla hættu við að reyna að slökkva eldinn, eldtungurnar blossa upp hvarvetna og allt á kafi í kolsvörtum reyk. Ekki síður þegar klóin á krananum tók til við að rífa þakið og losa glóandi bárujárnið. Sérstaklega skíðlogaði á efri hæðinni. Vatnsbunur úr öllum áttum. Það var þungt að kyngja þeirri frétt, þó ekki kæmi á óvart, að húsinu virtist ekki við bjargandi. Það er líka mesta mildi að enginn mannskaði hafi orðið. Eftir því sem ég best veit kom eldurinn upp í Fröken Reykjavík, og talað var um að skilin hafi ekki verið nógu góð milli húsanna, svo eldurinn átti auðvelt með að dreifast til nærliggjandi húsa. Hafandi komið inn á Pravda og séð aðstöðuna þar, t.d. á salernunum, þá kemur mér í raun ekki á óvart ef aðstandendur hafa líka hunsað brunavarnir. Því miður er slíkt ekkert einsdæmi, auk þess hvað þessi gömlu timburhús eru yfirleitt illa varin fyrir eldi. Það þyrfti til dæmis ekki mikið til þess að minni ástkæri lærði skóli, Menttaskólinn í Reykjavík fuðraði upp. Ég bind núna helst vonir við að húsin verði endurreist í fyrri mynd. Hins vegar eru þau í einkaeigu. Það síðasta sem ég vil sjá þarna er einhver helvítis blokk eða verslunarmiðstöð. Þegar ég keyrði með Kristjáni um Sæbrautina og varð litið á háhýsin, sem mér fannst stiga ansi mikið í stúf við annað umhverfi varð mér einnig hugsað til þess að það virðist fara minna fyrir fagurfræðinni en hugmyndum um rými og stærð.
...
Löngu stríði mínu við tölvuruslsins er lokið. Tölvan valt og úr henni allt, ofan í djúpa keldu. Hún batt sumsé sjálf enda á þetta en tilynnti í leiðinni; “If I’m going down, I’m taking you with me”. Ekki nóg með að tölvan sé í rúst, heldur varð engu bjargað. Missir minnir er talsverður, en ég hef þó prentað margt út, þorrann, held ég, af því sem skiptir mig máli, eða skellt á netið og skóladót er flest til í fórum kennara og skóla. Verstur er missirinn fyrir mömmu. Margt sem hún hafði ekki átt varaeintak af. Vest af öllu er kannski að geta ekki tékkað hversu mikill missirinn er, geta ekki séð hvað það nákvæmlega var sem maður missti. Þegar við mæðgin tilkynntum Vésteini bróður mínum um þetta vildi hann meina að bölbænir mínar hefðu orðið að áhrínsorðum. Ég svarðai honum með orðum völvunnar “Viðuð þér enn eða hvat?” og bætti við “Heyr Hólatorg. Vei vei hinni föllnu tölvu”. Nú erum við komin hvort með sína ferðatölvu, og ég held að mamma ætli að láta þau kaup duga, en hún er með stóra tölvu í vinnunni. Það er bjarta hliðin á þessu. Okkur hefur lengi vantað nýja tölvu og sérstaklega hefur undirritaðan vantað fartölvu.
...
Þvílíkur hryllingur í Virginíu. Mann setur hljóðan. Viðbrögð skólayfirvalda hljóta að vekja furðu. Eins þótti mér í sjálfu sér gott að Bandaríkjaforseti lýsi yfir samúð gagnvart fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra (þó hann geti verið býsna selektífur í samúð sinni, oft er það svokölluð “shoot and weep”-samúð), flestir með vott af samkennd hljóta að finna til þess sama, en mér blöskrar þrjóskan að ætla ekki að gera neinar málamiðlanir gagnvart skotvopnaeign í Bandríkjunum. Mér þæti áhugavert að sjá hann halda þessu fram upp í opið geðið á fjölskyldum fórnarlambanna. Ég hef áhyggjur af því að auðveldur aðgangur að skotvopnum bjóði hættunni heim eins og sést í tilfellum sem þessum. Sérstaklega í þjóðfélagi þar sem er jafn mikið alið á paranoju og í Bandaríkjunum. Vera má að þeir sem ætla á annað borð að fremja slíkan glæp reddi sér vopnum en það er þá alla vega ekki jafn gengið að því fyrir næsta Jón Jónsson. Eins er hættan á því að fólk eða börn komist í vopnin sem ekki kann með þau að fara. Það þarf of lítið til. Þetta er áhætta sem ég er ekki tilbúinn að samþykkja.
Þarf að trunta mér áfram í The White Hotel. Auf widersehen.
Lög dagsins: Your Time Is Gonna Come með Led Zeppelin af samnefndri fyrstu plötunni þeirra og AQuick One While He' Away með The Who, hvort heldur það er tónleikaflutningurinn á Live At Leeds eða þessi flutningur í Rock 'N' Roll Circus.
Sit með sveittan brúskinn á bókhlöðunni að læra, líkt og aðrir samnemendur mínir. Það er nóg vinna framundan. Ég er að klára Wide Sargasso Sea eftir Jean Rhys, sem mér þykir mjög góð og hef verið að punkta endalausar tíberingar, og strikanir í hana. Ég les heldur ekki sérlega hratt, hvað þá þegar ég er að rýna í bók og asanst auk þess til að vafra um netið. Þarf svo mögulega að púkka upp á eldri skrif mín í Ritlist í samræmi við gagnrýni hópsins, skila því, portfólíóinu og dagbókinni á mánudaginn, að ég held. Skilaði af mér lítilli ritgerð fyrir nokkrum dögum í ritþjálfun en tókst samt að stressa mig yfir henni, aðallega vegna þess hvað ég átti erfitt með að finna heimildir og vegna þess að ég þurfti að borga fyrir nánast allar greinarnar á netinu um efnið, og var þó aðeins úr örfáum að moða. Ég á ekki kreditkort og Hótel Mamma treystir slíkum síðum varlega. Blessunarlega birtist Lisa mér allt í einu eins og góða dísin og lánaði mér aðgangsorðið svo ég gæti leitað á enotes. Fyrir annan maí þarf ég að skila af mér 1-2 heimildaritgerðum fyrir Enskar bókmenntir II, 15.000 orð hver. Svo þarf ég að lesa mér upp The Lord Of Flies, The Bad Sister, White Hotel og The French Lieutenant’s Woman. Ljóð Ted Hughes og Sylviu Plath, Liverpool-skáldin, Edwin Morgan, og Seamus Heaney. Bý þó vel að því að hafa lesið mörg ljóða Heaney áður í Ensk-írskum bókmenntum. Þar að auki held ég að mér væri hollt að lesa upp ýmsa kafla í ritlist. Sem ég skrifa þetta er búið að loka bókhlöðunni. Af hverju geta þeir ekki verið opnir lengur um helgar, sérstaklega þegar próf og ritgerðir eru framundan, segjum til átta eða tíu?
Um daginn las ég frétt um grein prófessor Uwe E. Reinhardt, Bomb Iceland instead of Iran þar sem hann lagði til við Bandaríkjastjórn að þeir réðust fremur á Ísland en Íran og færði svo ítarleg rök fyrir því, sem mörg minntu allnokkuð á röksemdafærslunar fyrir innrásum í “stríðinu gegn hryðjuverkum”. “Haha, fokkíng snilld”, hugsaði ég með sjálfum mér þegar ég las um þetta. “Frábært að fá nú eitt stykki hárbeitta og brillíant satíru”. Ég las greinina og sannfærðist enn fremur. Ég ímyndaði mér nú einhvern veginn að flestir sem á annað borð væru ekki með hafragraut á milli eyranna myndu fatta að hér var um kaldhæðni að ræða, háðsádeilu á Bush-stjórnina og ekkert væri fjarri höfundi en að vilja árás á Ísland. “Well, duh!” myndu sumir segja. Mér varð einnig hugsað til annarar brillíant satíru, A Modest Proposal eftir Jonathan Swift, sem vissulega vakti hörð viðbrögð í denn enda ekki allir sem föttuðu hana. Ég vil ekki spilla fyrir væntanlegum lesendum með því að útlista innihald hennar hér. Það er hins vegar greinilegt að til er fólk sem þarfnast þess að maður skeri hlutina út í pappa fyrir þá, eins og sannaðist á baksíðu Morgunblaðsins á þriðjudaginn var. Það voru sumsé nokkrir Skarpgeirar sem tóku þetta alvarlega, og sendu professor Reinhardt bréf til að mótmæla, sum mjög dónaleg og fékk hann jafnvel hótanir. Þegar ég las þetta fann ég aulahrollinn hríslast niður bakið á mér, réttara sagt nötraði ég allur af aulahrolli og man ég ekki eftir að hafa fengið viðlíka aulahroll í dágóðan tíma. Það að prófessor Reihardt hafi virkilega fundið sig knúinn til að biðja þjóðina afsökunar í kjölfar þessa varð svo ekki til að minnka áðurgreindan aulahroll. Djísus kræst! Með viðlíka fulltrúa á erlendri grund og fyrrnefnda Skarpgeira, er víst engin ástæða til að hafa áhyggjur af landkynningu Íslands, við erum komin með erindreka sem bragð er að! Björk hvað? Mogginn virðist annars nokkuð annan skilning en Andaktungurinn á hvað "fjölmargir Íslendingar" merkir. Reinhardt segist hafa fengið 50-80 svarbréf, og í mörgum er farið fögrum orðum um greinina en í öðrum munu áðurnefndir Skarpgeirar hafa bölsótast yfir henni. Jafnvel ef öll þessi bréf eru frá Íslendingum (sem mér fannst ekki alveg ljóst) og jafnvel ef öll hefðu verið neikvæð get ég ekki alveg kallað 80 manns "fjölmarga Íslendinga", hvað þá færri.
Í kjölfarið sendi ég prófessor Reinhardt þakkar-og hrósbréf, hvatti hann áfram til dáða og baðst afsökunar á þessum nokkru fattlausu löndum mínum. Ég hvet lesendur eindregið til að lesa bæði “Bomb Iceland Instead of Iran" og “A Modest Proposal”. Báðar eru brillíant og þær eiga báðar mikið erindi í dag.
Enn sem áður á Jóhannes skáld úr Kötlum hug minn og hann á jafnframt ljóð dagsins að þessu sinni:
Ljóð um hamingjuna
Hamingjan er ekki til sölu: fljúgið of heim allan gangið búð úr búð – engin hamingja
Hamingjan er það ódýrasta sem til er: kostar ekkert – það dýrasta: kostar allt.
Bíðið ekki hamingjunnar: hún kemur ekki af sjálfu sér – eltið hana ekki: hún flýr.
Hamingjan er alstaðar og hvergi: í ofurlítilli tó undir norðurásnum á hafi úti við þitt brjóst.
Þetta er hamingjan: að yrkja jörðina að yrkja ljóðið og elska jörðina og ljóðið.
-- Jóhannes úr Kötlum, Sjödægra, 1955.
ps Hefur aldrei komið út æfisaga Jóhannesar? Mér þætti þörf á því.
Ég fór, eins og áður hefur komið fram, á afbragðs fyrirlestur á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þar sem Karen Koning Abuzayd, forstöðukona Flóttamannaraðstoðar Sameinuðu þjóðananna fyrir Palestínu (UNRWA) fjallaði um ástandið á Gaza og Vesturbakkanum og starf UNRWA þar. Fyrirlesturinn er nú kominn á netið, hann má nálgast hér . Lesið hann endilega. Umræðurnar á eftir voru að sama skapi frjóar og áhugaverðar.
Daginn eftir fór ég á fyrirlestur sem Dr. Mark A Heller hélt á vegum ísraelska sendiráðsins um varnarmál Ísraels. Ekki get ég sagt að ég hafi verið hrifinn. Ég bjóst auðvitað ekki við öðru en að fá ísraelskt sjónarhorn á hlutina, en bar þá veiku von í brjósti að þetta yrði málefnalegt og ígrundað, fyrirlesarinn er jú, fræðimaður með doktorsgráðu. Mér til vonbrigða, þó það kæmi mér ekki sérlega á óvart var þetta hins vegar klassískt PR, við og við var e-ð til í því sem hann var að segja, en svo oft voru hlutirnir slitnir úr samhengi, farið með hálfsannleik („hálfsannleikur er ofast óyggjandi lygi“ sagði Mark Twain eitt sinn) eða hreinlega sagt ósatt að mér blöskraði. Flest var þetta líka tuggur sem ég hafði heyrt margoft áður. Mæltist sá fyrirlestur enda ekki sérlega vel fyrir og urðu margir til að spyrja hann og gagnrýna þegar opnað var fyrir umræður að fyrirlestrinum loknum, þar á meðal undirritaður. Á fundinum kannaðist ég við ýmsa, m.a. var þarna Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ílsand-Palestína og Myriam Shomrat, sendiherra Ísraels. Þegar Shomrat reyndi í fyrra að verja fjöldamorðin í Beith Hanoun fyrir utanríkisráðherra sannfærðist ég um að bak við hennar hrjúfu ásjónu slægi hjarta úr steini. Heller má annars eiga það að hann er sjóaður í spuna, hliðraði sér frá spurningum, fór í kring um þær og beitti margvíslegum útúrsnúningum. Hann virðist líka vel gefinn og fróður. Hann er hins vegar óheiðarlegur, og mér leiðist einfaldlega óheiðarleiki, sama hver á í hlut. Lái mér hver sem vill. Hefði hann lesið af blaði hefði ég eflaust beðið um eintak af fyrirlestrinum, en hann mælti af munni fram, blaðlaust. Þetta kennir mér enn og aftur að vera með diktófón. Í raun var þessi reginmunur á gæðum þessara tveggja fyrirlestra, sem fjölluðu um sama málið með svona ólíkum hætti, mjög svipaðs eðlis og munurinn á fyrirlestri Magnúsar Þorkels Bernharðssonar um ástandið í Írak í fyrra annars vegar og PR-ið hans Michael Rubin hins vegar. Michael Rubin kom, btw, líka á vegum Bandaríska sendiráðsins. Ætli sé einhver tenging? Það þarf víst annars ekki að taka fram hvorn þeirra ég kunni betur að meta. Þessi fyrirlestur Hellers var vissulega fróðlegur, en það var ekki í því skyni sem honum var ætlað að vera.
|
|